Borgarráð 5. september 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Strætó – Aukið rekstrarframlag vegna hækkunar kostnaðar við aðkeyptan akstur – umsögn FAS – vísað til borgarstjórnar:

Það er auðvitað ömurlegt að Strætó þurfi sífellt að koma aftur og aftur til eigenda sinna og biðja um aukið fjármagn út af allskonar atriðum, í þetta sinn vegna útboðs aðkeypts aksturs. Gera þarf viðauka því útboðsverð er hærra en fjárhagsáætlun ársins 2024 gerði ráð fyrir. Í hlut Reykjavíkur koma 25.789.255 kr. á mánuði. Á þetta að vera svona næsta ár og næstu árin? Ekki hefur komið fram í samgöngusáttmálanum hvenær ríkið skuldbindur sig til þess að fjármagna þriðjung kostnaðar vegna reksturs almenningssamgangna á móti sveitarfélögunum og hvenær ávinningur af því fer að sýna sig.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki að stofna fimm manna stýrihóp sem fullkanni raunhæfni hugmynda um nýja Samgöngumiðstöð Reykjavíkur í og við vesturenda Miklubrautarganga og geri tillögu að næstu skrefum.

Gott og vel að stofna fimm manna stýrihóp, en velja þarf vel í þann hóp. Hjá Vegagerðinni er þekking á því hvernig á að flytja fólk hratt á milli staða en hún er sennilega ekki mikil þegar kemur að hegðun fólks í borgarumhverfi. Vægi Vegagerðarinnar ætti ekki að vera mikið í stýrihópnum. Samgöngumiðstöð er meira en biðskýli. Staðurinn þarf að vera þannig að þangað sé gott að koma. Vinna þarf með fegurðarsjónarmið og umhverfissjónarmið samhliða því tæknilega. Þar ætti sviðakjammi að vera á boðstólum eins og var í umferðarmiðstöðinni gömlu. Með þessu er verið að segja að samgöngumiðstöð er ekki bara tæknilegt viðfangsefni heldur einnig félagslegt og í stýrihópinn þarf að velja fulltrúa sem stendur fyrir slík sjónarmið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Athafnasvæðið á Hólmsheiði – lóðarvilyrði fyrir atvinnuhúsnæði – Ölgerðin Egill Skallagrímsson HF. – til afgreiðslu:

Ölgerðin er líklega góður kostur fyrir þetta svæði, Hólmsheiði. Hafa mætti þetta svæði í huga þegar fjallað er um atvinnustarfsemi í Keldnalandi. Íbúar þar gætu auðveldlega sótt vinnu á Hólmsheiði og þá væri minni þörf á að vera með atvinnutækifæri á sjálfu Keldnalandinu umfram það sem nú er, sem gæfi aftur færi á að fjölga íbúðum þar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur tjáð sig um þetta atriði bæði við vinningshafa tillögunnar og á fundi umhverfis- og skipulagsráðs.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: ÞON – Heimild til að hefja annan fasa innleiðingar á nýju starfsumsóknakerfi fyrir Reykjavíkurborg – til afgreiðslu:

Fulltrúi Flokks fólksins vill nota tækifærið og benda á að í þessari fjárheimildarbeiðni þjónustu- og nýsköpunarsviðs um að hefja annan fasa innleiðingar á nýju starfsumsóknakerfi er sviðið enn eina ferðina að eignfæra áætlaðan kostnað vegna innleiðingar nýs hugbúnaðar. Fulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir því að eignfærslur sem þessar eru algengar en telur að þarna sé á ferðinni dæmi um kostnað sem hlýtur að teljast hluti af stafrænni umbreytingu og ætti kannski að vera merktur þannig. Í svörum við fyrirspurnum um heildarkostnað þjónustu- og nýsköpunarsviðs vegna stafrænnar umbreytingar er haldið fram tölum sem engan vegin standast. Hinn gríðarlegi kostnaður vegna innleiðinga og uppfærslna hefur einmitt verið merktur með þessum hætti að hluta til og því ekki talinn með í heildarupphæðum vegna stafrænnar umbreytingar. Þetta hefur þær afleiðingar í för með sér að erfitt er fyrir bæði borgarbúa og kjörna fulltrúa að geta gert sér einhverja grein fyrir heildarkostnaði stafrænnar umbreytingar Reykjavíkurborgar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: ÞON – Heimild til að framkvæma verkefni um rafvæðingu mannauðsferla – til afgreiðslu:

Fulltrúi Flokks fólksins vill taka fram að rafvæðing mannauðsferla hlýtur einnig að tilheyra stafrænni umbreytingu á vegum þjónustu- og nýsköpunarsviðs og fjárheimildarbeiðni sem þessi ætti því að vera skilgreind og merkt sem slík. Það er mikilvægt svo að hægt sé að hafa nákvæmt yfirlit yfir þann mikla kostnað sem borgarbúar hafa verið að greiða fyrir vegna þeirrar stafrænu umbreytingar sem sviðið hefur borið ábyrgð á frá árinu 2019.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Svar við fyrirspurn um ferðakostnað á þjónustu- og nýsköpunarsviði – framlagning. 

Fulltrúi Flokks fólksins vill koma því á framfæri við þetta svar að þær tölur sem uppgefnar eru frá fjármála- og áhættustýringarsviði, eru í raun stórfurðulegar. Heildarupphæðir flestra ára sem beðið var um eru óvenju lágar og þær upphæðir sem skrifaðar eru á stéttarfélög óvenju háar. Sérstaklega fyrir árið 2024 þar sem því er haldið fram að stéttarfélög séu að greiða rúmar 17 milljónir í ferðastyrk starfsmanna á einu ári. Án þess að ætla sér að rengja uppgefnar fjárhæðir að óathuguðu máli, verður ekki hjá því komist að benda á að hugsanlega hafi eitthvað gleymst í þessari samantekt. Flokkur fólksins telur að þetta þurfi að skoða betur, athuga þarf hvort þarna sé á ferðinni heildartölur allra mögulegra kostnaðarliða sem í boði eru varðandi það sem spurt var um.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. september 2024 – til afgreiðslu að hluta. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 16. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvers vegna Reykjavíkurborg vill ekki þrýsta á Vegagerðina með að fá viðræður um breikkun Breiðholtsbrautar frá Jafnaseli að Rauðavatni, eins og Flokkur fólksins lagði til 2021, en tillagan var felld af meirihlutanum. Borgin má alveg gæta hagsmuna borgarbúa. Ef marka má svör er ekki mikils að vænta. Fulltrúi Flokks fólksins veit að tvöföldun Breiðholtsbrautar er framkvæmd á vegum Vegagerðarinnar. Fulltrúinn veit einnig að forgangsröðun þessara verkefna er ákvörðuð í gegnum samgönguáætlun og í gegnum samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert af þessu hindrar borgina í að þrýsta á Vegagerðina með að fá viðræður um breikkun Breiðholtsbrautar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerð íbúaráðs Háaleitis og Bústaða frá 27. ágúst 2024 – framlagning. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun, undir 7. lið fundargerðarinnar:

Kynnt eru drög að forvarna- og aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar 2024-27. Eftir þann hörmulega atburð sem átti sér stað á Menningarnótt er ljóst að leggja þarf sérstaka áherslu á forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir til að sporna við auknum hnífaburði og ofbeldistilvikum barna. Teikn voru á lofti strax árið 2022. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað viðrað sínar áhyggjur og mikilvægi þess að koma með fyrirbyggjandi aðgerðir. Flokkur fólksins lagði fram tillögu 2022 um að þau þrjú svið sem snúa hvað helst að börnum í borginni taki sig saman og leggi fram áætlun um fyrirbyggjandi aðgerðir. Setja þarf aukinn kraft í þessa vinnu. Fram til þessa hefur vantað skilvirkni og snerpu í vinnu við fyrirbyggjandi aðgerðir. Lítill en kjarnyrtur hópur þarf að fá umboð til að setja saman fyrirbyggjandi aðgerðaáætlun og koma henni í gang. Stór áskorun er aukin vanlíðan barna. Finna þarf meinið og þar með orsakir þess að börn og ungmenni velja að ganga með hnífa á sér í svo miklum mæli sem raun ber vitni. Andlegri líðan barna hefur hrakað og svefntími þeirra minnkað, m.a. vegna vegna mikillar skjánotkunar. Námsstaða margra barna er slök og dæmi eru um að börn kunni ekki alla bókstafina eftir nokkurra ára grunnskólagöngu.

 

Ný mál

Óskað er upplýsinga um stöðu „sviðsmyndamálsins“ vegna Framtíðaruppbyggingu skóla í Laugardal.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um stöðu mála vegna framtíðaruppbyggingu skóla í Laugardal og þeirra sviðsmynda sem voru til skoðunar. Síðast þegar fréttist af málinu þá höfðu þær sviptingar orðið að sviðsmynd 1 átti að varpa fyrir róða fyrir sviðsmynd 4 (afbrigði af sviðsmynd 3) sem mikill meirihluti íbúa og skóla í Laugardal hafði hafnað. Þessar sviptingar komu eins og blaut tuska í andlit íbúa í Laugardal. Viðbrögð létu ekki á sér standa og kallað var aftur eftir umsögnum. Síðan ekki söguna meir.

Greinargerð

Foreldrafélög skólanna í Laugardal hafa sent frá sér umsagnir og bókanir þar sem m.a. stjórnsýsla borgarinnar er átalin og virðingarleysi borgaryfirvalda gagnvart íbúalýðræði.
Flokkur fólksins kallar eftir fréttum af málinu, hvar er það statt og hvað er að gerast? Auðvitað er gerð sú krafa að tillaga um sviðsmynd 1 sem valin var af íbúum Laugardals og samþykkt var í borgarráði 2022 verði fylgt.  Þess er vænst að horft verði til vilja íbúanna og að ekki verði farið gegn umsögnum sem liggja fyrir frá foreldrum, íbúðaráðum, skólastjórnendum, starfsmönnum og börnum í Laugardal. Þess utan hefur  borgaryfirvöldum ekki tekist að sýna fram á breyttar forsendur fyrir þessum umsviptingum.

 

 

 

Fyrirspurn frá Flokki fólksins um Loftkastalamálið

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig standi á því að búið er að samþykkja uppbyggingu á Jöfursbás 1 án þess að búið sé  að leiðrétta gatnagerð þar sem landslagsbreytingar sem gerðar voru uppfylla ekki skilyrði samkvæmt skipulagslögum og reglugerðum. Þess utan passar gatnagerð ekki við lóð Loftkastalans sem  er 60 cm. of há. (sjá fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa dags. 27. ágúst liður Liður 35. Jöfursbás 1 – USK24040310)

Greinargerð

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs var samþykkt leyfi til að byggja fjögur 4-6 hæða fjölbýlishús, með 83 íbúðum, atvinnurýmum á tveimur hæðum í vesturenda, á bílakjallara með 35 stæðum sem tengist aðliggjandi bílakjallara (Jöfursbás 3) og verða innkeyrsla og flóttaleiðir samnýttar á lóð nr. 1 við Jöfursbás. Þetta er samþykkt þó enn hafi ekki fengist lausn á máli Loftkastalans. Það er ekki búið  að leiðrétta gatnagerð því  landslagsbreytingar sem gerðar voru uppfylla ekki skilyrði samkvæmt skipulagslögum og reglugerðum. Það hlýtur jú að vera þannig að eignarréttur sé friðhelgur og að Reykjavíkurborg hafi ekki heimild til að breyta hæð á lóðarmörkum nema með samþykki lóðarhafa

 

Fyrirspurn vegna svars stafræns ráðs við lið 10. Í fundargerð stafræns ráðs þann 28.08.2024 um heildarkostnað vegna stafrænnar umbreytingar Reykjavíkurborgar.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig merkingum fjárheimildarbeiðna er háttað hjá þjónustu og nýsköpunarsviði? Óskað er upplýsinga um allar merkingar fjárheimildarbeiðna.

Óskað er upplýsinga um hversu margar tegundir merkinga fjárheimilda eru til staðar  hjá þjónustu og nýsköpunarsviði?

Hvað heita þær  merkingar og hvaða bókhaldslyklar tilheyra hverri merkingu fyrir sig? Einnig er óskað upplýsinga um  hvaða merkingar eða bókhaldslyklar eru það sem reiknaðir voru saman til þess að fá heildarupphæðir þær sem gefnar voru upp í upphaflegu svari við lið 10 í fundargerð stafræns ráðs 28.08. 2024.

Greinargerð

Fulltrúi Flokks fólksins grunar að þær heildartölur sem komu fram í svari stafræns ráðs sýni ekki nema hluta raunverulegs kostnaðar sviðsins vegna stafrænnar umbreytingar. Eins og Flokkur fólksins hefur hefur verið að benda á síðustu misseri hefur sviðið fengið miklar upphæðir úthlutað í ýmsar hugbúnaðaruppfærslur og innleiðingar sem ekki hafa verið merktar undir kostnaðarliðum stafrænnar umbreytingar heldur eignfærðar með eignasjóðsmerkingum eða öðru. Telur fulltrúi Flokks fólksins því að miklu máli skipti að gerð verði fullnægjandi grein fyrir öllum þeim   fjárheimildum sem sviðið hefur fengið úthlutað til þess að hægt sé að hafa raunverulegt gegnsæi á það fjármagn sem til sviðsins hefur streymt í nafni stafrænnar umbreytingar og annarra skyldra verkefna.

 

Fyrirspurn um viðbrögð skóla- og frístundasvið á meðan beðið er viðbragða ráðherra

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort  skóla- og frístundasvið sé einungis að bíða eftir hvaða skref ráðherra barnamála ætlar að taka í lestrarkennslumálum eða ætlar sviðið að leggja fram sínar eigin hugmyndir um t.d. hvernig hægt er að styðja börn enn frekar í lestrarnámi með það að markmiði að auka lesskilning? Niðurstöður um slakan árangur liggja fyrir og hafa gert það lengi. Óttast er að næsta mæling sýni enn slakari niðurstöðu. Það versta sem getur gerst að mati Flokks fólksins  er að bíða og gera ekkert.

Greinargerð

Það liggur fyrir að miklar tafir eru hjá Mennta- og barnamálaráðherra sem hefur ekki enn kynnt aðgerðaáætlun til að bregðast við niðurstöðum PISA-könnunarinnar, níu mánuðum eftir að þær voru birtar. Niðurstöður voru sláandi en 40% fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi. Í samanburði við aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við  kemur Ísland illa út. Óttast má að næsta útkoma verði enn. verri.  Eini samræmdi mælikvarðinn sem er í notkun núna er lesfimipróf sem sýnir  fram á sífellt   verri  lestrarfærni barna. Samræmdi mælikvarðinn, samræmd próf,  var lagður af 2019 og hefur ekkert annað komið í staðinn. Skýrsla um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum árin 2017 hefur heldur ekki litið dagsins ljós.  Lögum samkvæmt hefði ráðherra átt að leggja skýrsluna fram í byrjun þess sama árs. Er skóla- frístundasvið að bíða eftir þessu til að geta tekið næstu skref til að taka næstu skref í þessum málum í grunnskólum borgarinnar? Hér má engan tíma missa.  Börn þurfa að búa yfir vissri lesfimi til að geta lesið texta og skilið hann, haft lesskilning. Lesfimi byggist upp fyrstu 2 árin í skóla. Hafi börn ekki náð nægjanlegri færni til að skilja texta og muna það sem þau lesa í 3ja bekk næst hún sjaldnast. Fyrsta lesfimiprófið er lagt fyrir í janúar í 1 bekk. Þá strax eru komnar vísbendingar og spurning hvernig brugðist er þá við með þau börn sem hafa kannski ekki náð grunninum. Dæmi eru um börn sem lesa aðeins 6 orð á mínútu í fyrsta lesfimiprófinu. Það voru mikil mistök að hætta með samræmdu prófin án þess að nokkuð annað kæmi í staðinn. Afleiðingar eru alvarlegar. Með þessu er Flokkur fólksins ekki að segja að samræmdu prófin væru  gallalaus en þau voru eina samræmda mælitækið. Framhaldsskólar einblíndu nánast eingöngu á ,,einkunnir” sem er vissulega ekki nógu breiður mælikvarði á getu barns hvað þá sanngjarn. Samræmt mat er nauðsynleg forsenda þess að við getum tekið ábyrgð á útkomu kennslunnar. Við ættum að horfa meira til Svíþjóðar í þessum efnum en þar er samræmt skyldumat í 1. bekk og í Danmörk er samræmt námsmat gert nærri árlega. Umfram allt eigum við að taka upp Kveikjum neistann í Reykjavík. Það verkefni hefur allt að bera til að koma okkur aftur á rétta braut í þessum málum.

 

Fyrirspurn um aukna matarsóun þegar skólamáltíðir eru orðnar fríar

Nú þegar skólamáltíðir verða fríar má gera ráð fyrir aukinni matarsóun í grunnskólum Reykjavíkur. Hvernig ætlar skóla- og frístundasvið að bregðast við ef það verður raunin?

Greinargerð

Nú þegar er mis miklum mat  hent í skólum borgarinnar.  Það skiptir miklu máli þegar horft er til matarsóunar að krakkar fái að skammta sér sjálf og einnig hefur það vakið þau til meðvitundar ef þau fá tækifæri til að vigta og skrá þann mat sem þau leifa. Þetta er lykilatriði til að börn upplifi á eigin skinni hvað felst í sóun matar. Ekki allir skólar bjóða börnum upp á að skammta sér sjálf eða að vigta leifarnar.

 

Borgarráð 5. september: Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um myglu í
Laugarnesskóla

Flokkur fólksins spyr hvernig á að bregðast við ástandinu í Laugarnesskóla þar sem fjöldi
starfsmanna hefur farið í veikindaleyfi eða látið af störfum vegna veikinda sem tengja má við
mygluvandamál í skólanum.

Greinargerð:

Flokkur fólksins gerir sér grein fyrir að málið er stórt og flókið en Reykjavíkurborg ber skylda til
að ráðast að vandanum engu að síður. Miklar áhyggjur eru einnig af heilsufari barnanna.
Skemmst er að minnast fyrrverandi skólastjóra sem sá sig knúna til að hætta vegna veikinda
sem rekja má til myglu. Margir tala um að borgaryfirvöld hafi brugðist og er ekki hægt að líta
framhjá því. Reykjavíkurborg er ábyrgðaraðili. Reynt hefur verið að plástra í vandann en það
hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Flokkur fólksins hefur margsinnis tekið upp mál
Laugarnesskóla í borgarstjóra allt frá 2019. Nú er komið að endanlegum þolmörkum og segir
starfsfólk og foreldrar hingað og ekki lengra. Stór hópur hefur stigið fram og kallar eftir
viðbrögðum. Laugarnesskóli er farsæl stofnun til tugi ára. Laugarnesskóli er farsæll
vinnustaður og er starfsmannavelta afar lítil. Vegna myglu hefur starfsfólk orðið að hætta sem
vill alls ekki hætta í vinnunni sinni. Veikindi barna sem rekja má til myglu er grafalvarlegt mál.
Skaðinn er mikill og í sumum tilfellum langvarandi. Flokkur fólksins kallar hér eftir svörum og
óskar eftir að heyra nánar um til hvaða aðgerða borgin ætlar að grípa í þessu erfiða máli.