Umhverfis- og skipulagsráð 21. september 2022

Bókun Flokks fólksins við liðnum SORPA bs., fundargerð, lið 7:

Flokkur fólksins hefur margrætt um fundargerðir SORPU og bent á hvað þær séu rýrar. Það mætti halda að kjörnum fulltrúum í minnihluta komi ekki við hvað fram fer á fundum . Í SORPU hefur mikið gengið á síðustu misseri eins og flestir þeir sem fylgst hafa með vita. Í gögnum má sjá að fleiri eru á sömu skoðun og fulltrúi Flokks fólksins. Sjá má í bókun Guðfinns Guðjóns Sigurvinssonar en þar gagnrýnir hann rýrar fundargerðir og vill að þær verði ítarlegri til þess að stjórnarmenn og sveitarstjórnarmenn geti glöggvað sig vel á þeim ákvörðunum sem verið er að taka hverju sinni” Heyr heyr.

 

Bókun Flokks fólksins við greiningu Sorpu á samsetningu heimilissorps, kynning:

Rannsókn á sorpi, greining eftir efnistegundum er áhugavert og mikilvægt verkefni. Mest er hent af lífrænu sorpi og næst mest af plasti. Eldhússorpi er oftast hent í plastpoka en einnig er miklu hent af plastumbúðum. Pappír er síðan næstur, síða gler, textíl og málmur. Bleyjur er 4. stærsti flokkurinn. Um næstu áramót verður skylda að flokka Flokkur fólksins fagnar því að í niðurstöðum segir að sorpmagn hefur dregist saman, plastflokkun hefur aukist og engin mjög hættuleg spilliefni er að finna í sorpi frá almenningi samkvæmt því sem segir í niðurstöðum. Þetta er því á réttri leið. Fulltrúi Flokks fólksins vill að um áramótin þegar allir verða skyldugir að taka lífræna tunnu, gefa þeim sem það vilja og geta tækifæri til að hafa moltu í heimagarði sínum.

 

Bókun Flokks fólksins liðnum Græn skref Græn skref Reykjavíkurborgar, kynning:

Kynning er á Grænum skrefum Reykjavíkurborgar. Um er að ræða 4 skref. Verkefni fyrir starfseiningar til að hvetja þær til að taka græn skref. Markmiðin með þátttöku eru allir draga úr kolefnisspori sínu með kerfisbundnum hætti, 45 starfseiningar hafa lokið fyrsta skrefi, 31 hafa lokið öðru skrefi, 4 hafa lokið þriðja skrefi og 16 hafa lokið fjórða skrefi. Þetta er gott en gera má betur. Fulltrúi Flokks fólksins sér fyrir sér að auka má hvatningu, umræðu og sýnileika á verkefninu til að fleiri starfseiningar ljúki 4. skrefinu.

 

Bókun Flokks fólksins liðnum Rekstur Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2022, kynning:

Erfitt hefur reynst að ráða leiðbeinendur í Vinnuskólann. Þetta er afar sérstakt og í fyrsta sinn sem þessi staða er uppi. Fulltrúi Flokks fólksins saknar þess að sjá verkefni eins og garðaþjónustu fyrir eldra fólk. Það verkefni var fjarlægt af verkefnalistanum fyrir nokkru. Ástæðan er sögð vera vegna samkeppnissjónarmiða og einnig að draga þurfti saman seglin. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með tillögu um að draga úr slætti á mönum og umferðareyjum. Sú tillaga hefur ekki fallið í kramið hjá skipulagsyfirvöldum. Staðfest hefur verið að næg verkefni eru í borginni og myndi minni sláttur ekki valda verkefnaþurrð. Þetta finnst fulltrúa Flokks fólksins mikilvægt að vita. Kynnt er könnun á viðhorfi foreldra. Fram kemur að kvartað er yfir aðstæðum sem krakkarnir vinna við og að bæta þurfi samskipti leiðbeinenda og krakkanna. Erfitt hefur verið að ráða leiðbeinendur vegna manneklu.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Því skal haldið til haga að garðaþjónustu eldri borgara var hætt sumarið 2008.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans  um fyrirkomulag sorphirðu við sérbýli:

Flokkur fólksins vill nefna í sambandi við þessa tillögu er að þegar sérbýli voru og eru byggð er í mörgum tilfellum gert ráð fyrir 2 sorptunnum á hvert sérbýli. Jafnvel var steypt utan um tunnur og þá gert ráð fyrir 2 tunnum. Í sorpgeymslum er gert ráð fyrir 2 tunnum, nánast aldrei 3. Þess vegna þarf að reyna af fremsta megni að nota aðeins tvær tunnur. Svo má benda á að einmitt í sérbýlum er oft hægt að vera með heima moltugerð þangað sem allur lífrænn úrgangur getur farið í. Það sparar sorphirðu. Flokki fólksins finnst ekki fallegt að sjá lausar tunnur fyrir utan hús. Ef þurfa að vera þrjár tunnur er líklegt að ein tunna standi utan geymslu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðinum Erindi íbúaráðs Miðborgar og Hlíða um umferðaröryggi í miðborginni:

lokkur fólksins tekur undir erindi íbúaráðs Miðborgar og Hlíða dags. 15. febrúar 2022 til skipulags- og samgönguráðs um umferðaröryggi í miðborginni. Í miðborginni er 30 km. hámarkshraði. Hópur ökumanna virðir ekki þennan hraða og skapar hættu. Grípa þarf til markvissra aðgerða til að sporna við hraðakstri á þessum götum sem nefndar eru í erindinu. Í þessu sambandi langar fulltrúa Flokks fólksins að nefna götu sem áður hefur komið til tals þegar talað er um umferðaröryggis aðgerðir og er það Laugarásvegurinn sem er sérstök gata fyrir þær sakir að hún er löng, breið og tengir saman hverfi. Nauðsynlegt er að skoða aðrar leiðir sem virka til að minnka hraðakstur á þessu götum. Íbúar einir vita hvað þarf að gera enda búa þeir við þessar götur. Setja má sem dæmi upp fleiri hraðahindranir og laga þær sem fyrir eru og einnig að bæta við hraðamyndavélum. Í umsögn kemur hins vegar fram að ekki sé talið tilefni til þess að forgangsraða aðgerðum á þeim stöðum sem nefndir eru í erindi íbúaráðsins. Ef þetta er niðurstaða skipulagsyfirvalda er ekki verið að hlusta á íbúa að mati Flokks fólksins. Hvað varð um samráðið?

 

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um minni grasslátt á umferðareyjum.

Lagt er til að Reykjavíkurborg hætti að slá gras á mönum og umferðareyjum. Að slá þessi svæði er óþarfi eins og margir hafa bent á. Þarna er færi á að spara án þess að spilla umhverfinu að nokkru ráði. Villigarðar eða órækt er nú viðurkennd sem hluti af sjálfbærni. Þessi svæði eiga að fá frið til að þróast samkvæmt náttúrulegum ferlum.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða og skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands.

 

Bókun Flokks fólksins við frávísun fyrirspurnar áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um stæði fyrir hjól- og fellihýsi:

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stæði fyrir hjól- og fellihýsi sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 17. ágúst 2022.

Fyrirspurninni er vísað frá.

Fulltrúi Flokks fólksins var með fyrirspurn um stæði fyrir hjól- og fellihýsi en nágrannasveitarfélög hafa komið á móts við eigendur hjól- og fellihýsa með því að bjóða þeim að geyma þau yfir sumarið á svæðum sem eru illa nýtt. Það dregur úr líkum þess að hjól- og fellihýsi séu þá geymd á götum eða í bílastæðum fyrir utan íbúahús. Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa ekki áhuga á að þjónusta þennan hóp og svarar því til að það sé ekki hlutverk borgarinnar að sjá íbúum fyrir bílastæðum í borgarlandi undir farartæki sem fyrst og fremst eru ætluð til tómstundaiðkunar og standa gjarnan óhreyfð löngum stundum. Svo mörg voru þau orð.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er ekki stefna borgarinnar að sjá íbúum fyrir bílastæðum í borgarlandi undir farartæki sem fyrst og fremst eru ætluð til tómstundaiðkunar og standa gjarnan óhreyfð löngum stundum. Það getur ekki talist óeðlilegt að þau sem vilja eiga hjól- og fellihýsi geri ráð fyrir geymsluplássi fyrir þau á sínum lóðum eða leigi slíkt pláss af öðrum.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um aðgengi að Hlemmi sbr. 61. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. ágúst 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir eftirfarandi upplýsingum vegna breytinga á Rauðarárstíg norðan Hlemmtorgs. Var haft samráð við íbúa vegna breytinga á Rauðarárstíg norðan Hlemmtorgs? Hefur verið tekið tillit til aðgengis íbúa og þeirra áhrifa sem þessi breyting gæti haft á möguleika þeirra til að athafna sig, t.d. ef þau eru að koma heim með stóra hluti eða mikil innkaup?“

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu skipulagsfulltrúa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum endurskoðun vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar. Lagt fram erindisbréf, dags. 13. september 2022 þar sem lagt er til að skipaður verði stýrihópur um endurskoðun vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar:

Hlutverk hópsins er mjög almennt. Talað er um að greina hvar þörf er á breytingum. Hópurinn á að skila af sér 2. nóv. Það er ekki langur tími ef skoða þarf að afla tilboða. Þess utan ætti að skoða og ræða breytingar á verklagsreglum að vori þegar enn er í fersku minni hvað hefur farið úrskeiðis í vetrarþjónustunni. Það er seint í rassinn gripið að eiga að skila inn tillögum þegar vetur er genginn í garð! Að hefja slíka vinnu um haust er ekki góður tími. Þá er í tillögunum einnig opinn peningakrani þar sem Starfshópurinn fær heimild til að leita ráðgjafar innan og utan borgarkerfis hjá aðilum með sérþekkingu á viðfangsefninu. Það virðist alltaf sjálfsagt að kaupa utanaðkomandi rándýra verktaka. Svona almenn heimild hefur ekkert þak. Upplifun fulltrúa Flokks fólksins er að stjórnun vetrarstarfs sé í lausu lofti. Nú eru í gangi miklar skipulagsbreytingar framundan sem dæmi á að leggja niður hverfastöðina í Breiðholti til þess að bæta þjónustuna! Ekki er alveg séð hvernig þetta er að hjálpa.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um aðgerðaráætlun með aðgengisstefnu:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig eftirfarandi aðgerðum miðar: Aðgerð 3.4. Við gerð stafrænna lausna á þjónustu Reykjavíkurborgar sé haft samráð við notendur þjónustunnar og aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks. Hvernig miðar þessu og hvernig miða að finna lausnir fyrir þá sem ekki geta nota staf- og rafrænar lausnir? Aðgerð 1.8. Setja á upp hljóðrænt og sjónræn tilkynningarkerfi í þjónustuverum borgarinnar og annars staðar þar sem fólk þarf að sækja þjónustu og notast er við númerakerfi. Hvernig miðar þessu en verklok eiga að vera í árslok 2024. Aðgerð 1.9. Vinna á að uppsetningu sjónrænna brunakerfa í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar. Blikkljós fari þannig í gang á lykilstaðsetningu svo að fólk með heyrnarskerðingu verði vart við bruna viðvaranir. Hvernig gengur þetta verkefni? Hver er staðan á því? Aðgerð 1.10 Vinna að uppsetningu sjónrænna merkinga á tröppuleiðum innanhúss í húsnæði borgarinnar með það að markmiði að uppsetning sé á gönguleiðum í um 10-15 byggingum árlega. Hefur þetta farið í gang og hver er staðan?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um aðgengi á viðburðum:

Fyrirspurn um aðgengi á viðburðum. Flokkur fólksins óskar að spyrja um aðgengi að viðburðum m.t.t. aðgerðar 3.2: „Gefnir séu út gátlistar um aðgengismál á viðburðum sem berist sviðum og starfsstöðum borgarinnar. Markmið 3.2: 10-15 viðburðum verði fylgt eftir með könnunum á framkvæmd og að 75-90% viðburða hafi nýtt gátlista. Ábyrgð: Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa í samstarfi við velferðarsvið, umhverfis- og skipulagssvið og þjónustu- og nýsköpunarsvið.“ Spurt er af Flokki fólksins: Viðburðir hafa verið haldnir frá því að aðgengisstefnan var samþykkt s.s. 17. júní og Menningarnótt. Voru gátlistar tilbúnir og nýttir, var framkvæmd könnuð?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um strætóstoppistöðina fyrir strætó númer 57 við Esjurætur í Kollafirði:

Fyrirspurnir varðandi strætóstoppistöðina fyrir strætó númer 57 við Esjurætur í Kollafirði. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvenær stoppistöðin verði opnuð aftur.Stoppustöðinni var lokað í vor því bílstjórunum þótti svo erfitt að komast aftur inn á Vesturlandsveginn. Næsta stöð er uppi á Esjumelum í 700-1000 metra fjarlægð. Íbúum Kjalarness finnst þetta afleitt- stórhættulegt fyrir unglingana sína. Íbúarnir horfa daglega upp á ferðamenn komast í bráða lífshættu við að ganga á Esjuna og eru því uggandi. Það er óásættanlegt að ætla fólki að ganga í hvernig veðri sem er í 20-30 mínútur meðfram mjög þröngum vegkanti Vesturlands vegarins í myrkri með þungri og hraðri umferð flutningabíla. Hér er um að ræða eitt vinsælasta göngusvæði höfuðborgarsvæðisins. Þangað fer enginn strætó og hvorki göngu- né hjólastígar eru á þessari leið. Leið 57 hefur gegnum tíðina verið óáreiðanlegur samgöngumáti því ef Holtavörðuheiðin er slæm, rok við Hafnarfjall eða á Kjalarnesi kemur enginn vagn. Óskað er svara hið bráðasta.