Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. september 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 29. september 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi austurhluta Laugardals vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi,
Fulltrúi Flokks fólksins hefur ávallt stutt þetta úrræði enda þurfa allir að eiga þak yfir höfuð. Það er þó afar mikilvægt að vandað sé til þessa úrræðis með þeim hætti að eitt af húsunum á hverjum stað verði frátekið fyrir starfsmann sem verði alltaf á staðnum til að styðja við einstaklingana og vera til taks eftir þörfum. Því miður hefur gengið á ýmsu hjá meirihlutanum með þessari framkvæmd sem rýrt hefur traust á þetta úrræði og sem þarf ekki að lýsa frekar hér. Það er miður því um er að ræða einstaklinga með fjölþættan vanda, sumir að eignast heimili eftir að hafa verið heimilislausir árum saman og þurfa bæði mikla þjónustu og stuðning. Þessum viðkvæma hópi er ekki bara hægt að fleygja út í borgina og þeim sagt að bjarga sér að mestu sjálfir. Á staðnum verður að vera umsjón og eftirlit 24 tíma á sólarhring, einstaklingur og fagteymi sem er tilbúið að stíga inn og aðstoða eftir þörfum og án biðar. Hér er mikilvægt að velferðarsvið bregðist ekki skyldum sínum, ella er hætta á að þetta úrræði sem búið er að leggja mikið í mistakist.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. september 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 29. september 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.152.5 vegna lóðanna nr. 42, 44 og 46 við Lindargötu og lóðir nr. 10 og 12 við Vatnsstíg, ásamt fylgiskjölum.
Hér er verið að tala um nýjar stúdentaíbúðir, án bílastæða. Fækka á bílastæðum úr 37 í 23 eða um 14 stæði. Bílum fer fjölgandi í borginni þrátt fyrir öfluga viðspyrnu og nánast „þvingunaraðgerðir“ meirihlutans að koma fólki á hjólin hvort sem þeir vilja eða geta. Eða þannig lítur þetta út í augum margra. Með skipulaginu á að byggja íbúðir fyrir 122 námsmenn sem ekki geta búið þarna nema þeir gangist undir ferðamáta með hjóli eða strætó. Nemendur hafa orðið lítið val um hvernig þeir vilja haga sínum ferðalífsmáta ætli þeir að búa miðsvæðis eða á þéttingarreitum.
Bókun Flokks fólksins við vegna tillögu um breytingar á reglum um leikskólaþjónustu:
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins mótmælir fyrirhugaðri styttingu á opnunartíma leikskóla Reykjavíkurborgar og tekur þar með undir með foreldrum og foreldrafélaginu. Einnig er mótmælt takmörkun á leyfilegum heildarvistunartíma í 42,5 klst. Sumar fjölskyldur þurfa meiri vistunartíma en þetta. Breytingarnar munu auka álag á fjölskyldur í borginni. Stytting opnunartíma leikskóla og skerðing á þjónustu sem lögð er til mun hafa neikvæð áhrif á fjölmargar fjölskyldur sem hafa minnst bakland og þurfa mest á leikskólavist að halda. Skert þjónusta leikskóla eykur ekki endilega gæðasamverustundir foreldra og barna heldur getur aukið álag á fjölskyldur sem getur allt eins leitt til neikvæðra áhrifa á einmitt gæðastundirnar í fjölskyldunni. Þessi breyting mun minnka þjónustu í nærumhverfi íbúa og leiða til meiri aksturs í andstöðu við markmið borgarinnar í umhverfismálum. Niðurstöður jafnréttismatsins sýna líka ótvírætt að stytting opnunartíma hefur meiri áhrif á mæður en feður.
Bókun Flokks fólksins við lið 2 í fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 28. september 2021:
Kynning á aðgengismálum á opnum leiksvæðum í borgarlandi í miðborg og Hlíðum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessar hugmyndir sem þarna eru birtar afar góðar og vill nefna nokkur dæmi úr kynningunni í þessari bókun, s.s. að hafa leiktæki fyrir smærri börn; að aðgengi sé gott og skýrt merkt, að foreldrar bundnir í hjólastól geti fylgst með börnunum sínum á leikvellinum, að niðurtektir, breidd stétta og halli uppfylli lágmarkskröfur, að það sé pláss fyrir hjólastóla og göngugrind eða barnavagna við hlið bekkja. Fleiri ámóta góðar hugmyndir eru nefndar í kynningunni.
Bókun Flokks fólksins við lið 2 í fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 6. október 2021.
Lagt er fram aðalskipulag Reykjavíkur. Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir vanda því ekki er nóg byggt. Vandinn er að lóðir vantar. Ekki hafa verið færri íbúðir á markaði í Reykjavík frá 2017. Brjóta þyrfti land í Reykjavík undir byggð segir Seðlabankastjóri. Áform um að koma húsaskjóli yfir alla þá sem vilja búa í Reykjavík hafa mistekist. Vandamálið er það vantar ábyrgð og yfirsýn meirihlutans og embættismanna og er skipulagsmálum borgarinnar undir verkstjórn borgarstjóra kennt um. Borgarkerfið, umsóknarferlið er þess utan langt og óskilvirkt. Árið 2019 voru um 5000 íbúðir í byggingu en nú eru aðeins 3400 íbúðir í byggingu. Ekki dugar bara að þétta á einum bletti. Byggja þarf víðar, sjálfbær hverfi þar sem fólk vill byggja og búa. Það er miður að sjá að byggingar við strandlengju skyggja á heilu hverfin. Áhyggjur eru af þéttingu byggðar í Vesturbæ og að borgarlína muni ekki þjóna hverfinu vel. Fyllt verður í flestar fjörur. Gleymt er að gera ráð fyrir innviðum, lóðum fyrir skóla. í Laugarnesi liggur ekki fyrir þarfagreining um skólamál sem skoða átti í sumar. Framtíðarskólaúrræði þar eru í óvissu. Ekki er heldur hægt að sjá eins og lofað var að atvinnutækifæri væru í hverfum. Mikið skortir á sjálfbærni í hverfum sbr. í Úlfarsárdal.
Bókun Flokks fólksins við lið 1 í fundargerð Sorpu frá 6. september:
Í fundargerð þann 6. september, 1. lið, er lítillega fjallað um mygluna í GAJU. Ekki er að sjá að málið sé talið alvarlegt en sagt er: ,,Helstu áhrif þessa eru að fullvinnsla moltu verður tímabundið stöðvuð í þroskunarkróm GAJU til að draga úr rakamyndun og tryggja vinnuumhverfi starfsfólks. Myndun myglugróa er hluti af moltugerðarferli þar sem lífrænn úrgangur brotnar niður og eðlilegt að mygla finnist við vinnslu. Stöðvunin hefur ekki áhrif á getu GAJU til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá lífrænum úrgangi með söfnun metangass.“ Er nokkuð að marka þessa fundargerð? Auðvitað hefur það áhrif á metansöfnun þegar moltugerðin stöðvast. En svo fer burðaviðurinn að mygla sem virtist koma á óvart. Veit enginn innan byggðasamlagsins að viður fer að fúna ef raki í honum fer yfir 20%? Hver er faglega þekkingin hjá stjórnarmönnum?
Bókun Flokks fólksins við fundargerð Strætó bs. við lið 8 Í lið 6, fundargerð Strætó er rætt um útistandandi starfsmál í tengslum við starfslok starfsmanns.
Hér er væntanlega verið að vísa í það sem rætt var í fréttum að kærunefnd jafnréttismála telji að Strætó hafi brotið jafnréttislög þegar fyrirtækið gerði starfslokasamning við konu vegna skilaboða sem hún sendi á Teams til samstarfsmanns síns. Vegna þessa og einnig vegna meints eineltismála sem hafa ratað í fréttir hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt fram eftirfarandi fyrirspurnir:
Hver er fjöldi eineltistilkynninga hjá Strætó bs. sl. 4 ár. Hvernig hefur tekist að vinna úr tilkynningum. Nóg er að upplýsa fulltrúa Flokks fólksins hvort þolandi telji að málið hafi fullunnist.
Hversu margir hafa verið látnir fara með starfslokasamningi seinustu 4 ár?
Ef einhverjir, hverjar eru helstu ástæður?
Fylgir Strætó bs. reglugerðum velferðarráðuneytis 1009/2015 um einelti og áreitni á vinnustöðum?
Einnig í ljósi fréttar um meint einelti hjá Strætó bs leggur fulltrúi Flokks fólksins til að gerð verði starfsánægjukönnun hjá Strætó bs. af utanaðkomandi aðilum.
Taka þarf púlsinn á starfsandanum og hvernig samskipti ganga við yfirmenn. Mannlíf birti í vikunni frétt um vinnustaðagreiningu sem gerð var innan Strætó og í ljós kom mikil óánægja starfsmanna og sögðust 22 af 162 hafa orðið fyrir einelti innan vinnustaðar síðustu 12 mánuði.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð öldungaráðs frá 28. september 2021:
Á opnum fundi borgarstjórnar og öldungaráðs var rauði þráðurinn í umræðunni hversu gott er að halda gæludýr. Margar rannsóknir hafa bent á að gæludýr auka lífsgæði fólks og hafa jákvæð áhrif á andlega, líkamlega og félagslega líðan eigenda sinna. Gæludýr draga úr einangrun. Að minnsta kosti tvær rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi á áhrifum gæludýra á líðan fólks. Ein rannsókn kannaði áhrif heimsóknarhunda og eigenda þeirra á líðan heilabilaðra sjúklinga á öldrunarsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss. Í rannsókninni kom fram að samskipti sjúklinga við hundana létti á einangrun þeirra og þeir tjáðu sig við hundana og aðra sem í kringum þá voru og í flestum tilfellum náðist gott samband á milli fólks og hunds. Félagsskapurinn er ávinningur sem dýrin gefa eigendum sínum og í fjölmörgum tilfellum er hundurinn eini vinurinn. Tengsl manneskju og hunds geta verið mjög sterk, jafnvel jafnsterk og þau ættu við annað fólk. Hundar gefa eigendum sínum oft hlutverk sem er að hreyfa þá, fara út að ganga með þá. Dýr uppfylla þörf fólks til að annast annan aðila. Dýrin sýna eigendum sínum hlýju, traust án skilyrða. Hlýja, traust og umhyggja fullnægir iðulega þörfum eigenda þeirra fyrir nálægð við aðra.
Bókun Flokks við lið 1. lið í fundargerð Faxaflóahafna um sveigjanleg starfslok:
Rætt var um sveigjanleg starfslok. Þetta þykir fulltrúa Flokks fólksins tíðindi að höfð sé umræða í bs-fyrirtæki um sveigjanleg starfslok. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margrætt þessi mál í ráðum sem hann á sæti í og lagt fram tillögu um að borgin taki skrefið í átt að sveigjanlegum starfslokum. Ekkert er að vanbúnaði, heimild er til í kjarasamningi og borgin er ekki bundin af sköttum og skerðingum almannatrygginga. Á fundi 11. apríl 2019 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að Reykjavíkurborg leiti leiða til að bjóða upp á að vinnulok verði með sveigjanlegum hætti en takmarkist ekki við sjötugsaldur. Tillögunni var vísað frá. Eitt aðalmál Flokks fólksins í borg og á þingi er að eldri borgarar og öryrkjar sem treysta sér til að vera á vinnumarkaði geti það án skerðinga. Sveigjanleikinn er allra hagur og fjárhagslegur ávinningur skilar sér til allra og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Árið 2016 kom út skýrsla í tengslum við aldursvænar borgir og þá voru lagðar til ýmsar birtingarmyndir um sveigjanleg starfslok. Vegferðin hófst fyrir meira en 6 árum en er enn á byrjunarreit hjá þessum meirihluta.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að gerð verði starfsánægjukönnun hjá Strætó:
Tillögunni er vísað frá.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerð verði starfsánægjukönnun hjá Strætó bs. af utanaðkomandi aðilum í ljósi upplýsinga um meint einelti.
Í ljósi fréttar um meint einelti hjá Strætó bs leggur fulltrúi Flokks fólksins til að gerð verði starfsánægjukönnun hjá Strætó bs. af utanaðkomandi aðilum.
Taka þarf púlsinn á starfsandanum og hvernig samskipti ganga við yfirmenn. Mannlíf birti í vikunni frétt um vinnustaðagreiningu sem gerð var innan Strætó. Þar kom í ljós mikil óánægja meðal starfsmanna en sögðust 22 af 162 hafa orðið fyrir einelti innan vinnustaðar síðustu 12 mánuði.
Önnur frétt sem birtist nýlega í fjölmiðlum var: Kærunefnd jafnréttismála telur að Strætó hafi brotið jafnréttislög þegar fyrirtækið gerði starfslokasamning við konu vegna skilaboða sem hún sendi á Teams til samstarfsmanns síns.
Hér eru allsterkar vísbendingar um að ekki sé allt með felldu hjá Strætó bs. í samskiptamálum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um fjölda ofbeldis- og eineltistilvika innan fyrirtækisins og hvernig hafa verið tekið á þeim. Einnig hvort þolandi/tilkynnandi máls telur að mál hans hafi verið fullunnið. Skoða þarf þessi mál af fagmennsku af utanaðkomandi rannsakendum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir um meint einelti og jafnréttislögbrot hjá Strætó.bs;
Mannlíf birti í vikunni frétt um vinnustaðagreiningu sem gerð var innan Strætó bs. Þar kom í ljós mikil óánægja meðal starfsmanna en sögðust 22 af 162 hafa orðið fyrir einelti innan vinnustaðar síðustu 12 mánuði. Svona hefst síðan önnur frétt sem birtist nýlega í fjölmiðlum: Kærunefnd jafnréttismála telur að Strætó hafi brotið jafnréttislög þegar fyrirtækið gerði starfslokasamning við konu vegna skilaboða sem hún sendi á Teams til samstarfsmanns síns. Fulltrúa Flokks fólksins finnst stefna og verklagsreglur um ofbeldis- og eineltismál á vef Strætó bs. ekki nógu áberandi og virðist sem fólk eigi erfitt með að finna þau gögn.
Óskað er svara við eftirfarandi spurningum:
Hver er fjöldi eineltistilkynninga hjá Strætó bs sl. 4 ár?
Hvernig hefur tekist að vinna úr tilkynningum?
Nóg er að upplýsa hvort þolandi telur að málið hafi fullunnist.
Hvað margir hafa verið látnir fara með starfslokasamningi seinustu 4 ár?
Ef einhverjir hafa verið látnir fara, hverjar eru helstu ástæður?
Fylgir Strætó bs. reglugerð velferðarráðuneytis nr. 1009/2015 um einelti og áreitni á vinnustöðum í hvívetna?
Fjöldi starfsmanna hjá Strætó bs. sem er af erlendum uppruna eru 150 manns. Hversu margir af þeim eru í einhvers konar í stjórnunarstöðum og þá hverjum?
Hefur í einhverjum tilfellum verið ráðið í störf án auglýsingar sl. 4 ár?
Ef fólk hefur verið ráðið án auglýsingar hvernig hafa verðleikar þeirra og hæfni til starfsins verið mældir?
Óskað er eftir að fá upplýsingar um hvort ekki hafi verið gerðar starfsánægjukannanir hjá Strætó bs. í ljósi meints eineltis sem fréttir hafa borist um.
Vísað til umsagnar Strætó bs.