Borgarstjórn 17. janúar 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um málefni Ljósleiðarans ehf.:

Slæm staða Ljósleiðarans hefur verið Orkuveitu Reykjavíkur ljós frá 2019 og jafnvel fyrr en ekki fyrir eigendum sem er Reykjavíkurborg. Stjórn Ljósleiðarans samþykkir að taka lán í flýti áður en að rýnihópur borgarráðs hefur lokið störfum. Í rýnihópnum sitja fulltrúar allra flokka. Fyrir rýnihópnum liggur að taka ákvörðun um aukna skuldsetningu Ljósleiðarans annars vegar eða að selja hlut í Ljósleiðaranum til að bæta eiginfjárstöðu hans í stað skuldsetningar hins vegar. Innihaldi þjónustusamnings Ljósleiðarans við Sýn er haldið leyndu fyrir Borgarstjórn Reykjavíkur og rýnihópi borgarráðs. Leynd og flýtir benda yfirleitt til mikilla persónulegra hagsmuna einhverra. Nú þegar ljóst er að málið er grafalvarlegt og það hulið leyndarhyggju veltir Flokkur fólksins fyrir sér hvort hann vilji setja mark sitt á málið eða eigi erindi í þessum hópi? Flokkur fólksins telur að það verði að leggja málið fyrir borgarráð. Það segir í almennri eigendastefnu Reykjavíkurborgar gagnvart B-hluta félögum að borgarstjóri skuli leggja mál sem eru óvenjuleg eða mikils háttar fyrir borgarráð til samþykktar. Til að stýrihópurinn geti sinnt skyldu sinni þarf hann að fá aðgang að öllum gögnum í máli Ljósleiðarans þar á meðal samningnum við Sýn. Að öðrum kosti getur rýnihópurinn ekki unnið í málinu með ábyrgðarfullum hætti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um samkomulag um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í Reykjavík 2023-2032 og fjármögnun uppbyggingar hagkvæmra íbúða og félagslegs húsnæðis, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. janúar:

Fram kemur að 5% íbúðanna verði félagslegar íbúðir. Mikil vöntun er á félagslegu húsnæði. Á biðlista eru mörg hundruð manns. Skoða mætti fleiri leiðir en að Félagsbústaðir bæti sífellt við sig. Vissulega geta íbúðir verið beint í eigu sveitarfélaga. Útrýma þarf að fullu herbergjasambýlum og biðlistum um sértæk húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk. Samkomulagið leggur litlar skyldur á ríkið fyrr en ákveðin verður kostnaðarskiptingin milli ríkis og Reykjavíkur vegna sértæks húsnæðis fyrir fatlað fólk. Samkomulagið gerir þó ráð fyrir þátttöku ríkisins í auknum mæli og að fara eigi í úttekt til að ákveða rétta skiptingu kostnaðar milli ríkis og borgar. Í 4. grein kemur fram að leitast á við að tryggja nægilegt framboð byggingarsvæða þannig að byggingarhæf svæði og lóðir ár hvert rúmi 1.500-3.000 íbúðir. Nú er búið að meta að 70 lóðir eru byggingarhæfar í Reykjavík. Þarf ekki að fara að skoða hvort brjóta eigi nýtt land undir byggð? Setja þarf einnig kvaðir á lóðakaupendur um að byggja á lóðinni innan ákveðins tímaramma. Áformin um byggingu 16.000 íbúða á næstu 10 árum þarf að endurskoða reglulega. Vel má vera að þörfin sé meiri og því þurfi að byggja mun fleiri íbúðir en samkomulagið kveður á um.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Lagt er til að innleiðingu um hámarks dvalartíma barna á leikskólum verði frestað þangað til að búið er að kanna stöðu þeirra barnafjölskyldna sem eiga í erfiðleikum með að bregðast við breytingum á hámarks dvalartíma. Við í Flokki fólksins styðjum þessa tillögu því þessi breyting gæti bitnað sérstaklega illa á efnaminni fjölskyldum og einstæðum foreldrum. Vissulega tökum við undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að stytta dvöl barna í leikskólum. Margir eru í þeirri erfiðu stöðu að þurfa að fara með börn sín í önnur hverfi vegna ýmissa ástæðna m.a myglu í hverfis leikskólanum. Eins og við vitum þá er umferðin hvað þyngst á þeim tíma sem er verið að koma með börn og sækja þau í leikskólann. Þessi tímapressa gæti skapað enn meiri streitu hjá fjölskyldum með ung börn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um manneklu í leikskólum borgarinnar.

Mannekla í leikskólum er langvarandi vandamál í Reykjavík sem meirihlutinn hefur ekki getað leyst. Eins og vandinn blasir nú við er vissulega engin ein töfralausn til. Mörg hundruð börn bíða eftir leikskólaplássi Ekki kann góðri lukku að stýra að lofa upp í ermina á sér og þurfa síðan svíkja loforðin. Það er ekki aðeins vandamál að það vanti pláss heldur berast títt fréttir af því að leikskólar sendi börn heim vikulega eða jafnvel oft í viku vegna manneklu. Hvenær sem er geta foreldrar átt vona á því að stuttu eftir þeir hafa farið með barn sitt í leikskólann og þeir sjálfir komnir til vinnu eða náms þá er hringt og þeir beðnir að sækja börn sín því það vantar fólk. Ekki gengur til lengdar að foreldrar ungra barna hafi áhyggjur og að starfsfólk leikskólanna sé að bugast vegna mikils álags í starfi. Hættan er að það skapist svipað ástand og er á bráðamóttöku Landspítalans en þar hefur margt starfsfólk sagt upp vegna mikils álags og slæmrar vinnuaðstöðu. Reykjavík þarf að laða fólk til starfa í leikskólum m.a. með bættum kjörum og starfsaðstæðum. Það kann að vera erfitt þar sem fjárhagur borgarinnar er á heljarþröm.

Greinargerð með umræðu

Mannekla er helsta áskorunin þegar kemur að uppbyggingu leikskólakerfisins í Reykjavík. Foreldrar, starfsfólk leikskóla og leikskólastjórar senda ítrekuð áköll til borgarfulltrúa vegna ástandsins í leikskólum borgarinnar. Heyrst hefur að leikskólar sendi börn heim vikulega eða jafnvel oft í viku vegna manneklu og samkvæmt bréfi frá móður þá er leikskóli dóttur hennar lokaður á hádegi einn dag í viku vegna manneklu. Í bréfi sem leikskólastjórar í Reykjavík sendu borgarfulltrúum 10. nóvember síðastliðinn segir „samfélagið, stjórnmálafólk verður núna, árið 2022, að skilja mikilvægi þess að hlúa að yngsta fólkinu sem byrjar rúmlega eins árs í leikskóla og dvelur þar að jafnaði 8,5 klukkustundir fimm daga vikunnar.“  Þá segir einnig í bréfinu að 400 milljónir vanti inn í rekstur leikskólanna. Flokkur fólksins telur mikilvægt í ljósi þessa að fá góða umræðu í borgarstjórn um stöðuna í leikskólum borgarinnar og hvað sé til ráða. Það gengur ekki til lengdar að foreldrar ungra barna gangi stöðugt um með kvíðahnút í maganum og að starfsfólk leikskólanna sé að bugast vegna mikils álags í starfi. Hættan er að það skapist svipað ástand og er á bráðamóttöku Landspítalans en þar hefur starfsfólk sagt upp í hrönnum vegna mikils álags og slæmrar vinnuaðstöðu. Við megum ekki láta slíkt gerast í leikskólum borgarinnar en ef ekkert er gert er það raunveruleg hætta.

Borgarfulltrúar meirihlutans hafa lýst því yfir í fjölmiðlum undanfarið að manneklan sé helsta áskorunin þegar kemur að uppbyggingu leikskólakerfisins. Ástæðuna telja þeir m.a. vera að fjölmargir leikskólakennarar hafi flutt sig yfir í grunnskólana með tilkomu eins leyfisbréfs sem heimilar leikskólakennurum að kenna í grunnskólum. Við þessar aðstæður stefnir borgin á að fjölga leikskólaplássum um allt að 500 á næsta ári.

Flokkur fólksins gerir sér grein fyrir að við þessum vanda finnst engin ein töfralausn heldur þarf margt að koma til. Við þurfum að laða fólk að í þessi störf með bættum kjörum og starfsaðstæðum.  Það er ljóst að staðan er þröng hjá Reykjavíkurborg vegna slæms fjárhags. Flokkur fólksins hefur lagt til heimagreiðslur til foreldra meðan þeir bíða eftir leikskólaplássi fyrir börn sín. Sú lausn er ódýrari fyrir sveitarfélagið en dýrt leikskólapláss ef miðað er við yngstu börnin.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Ýmsar ytri aðstæður hafa reynst leikskólastarfinu þungar í skauti síðustu árin, til viðbótar við húsnæðismálin sem og mikla fjölgun umsókna. Mannekla er með stærstu áskorunum sem steðja að leikskólastarfi í landinu og því brýnt að standa vörð um starfsánægju starfsfólks leikskólanna og var um 4 milljörðum varið í aðgerðir til þess að styrkja starfsumhverfi leikskólanna á síðasta kjörtímabili. Meirihlutinn í borginni mun áfram leggja ríka áherslu á að styrkja starfsumhverfið rétt eins og gert hefur verið undanfarin ár, einkum frá árinu 2018.

 

Tillaga Flokks fólksins um heimgreiðslur er frestað

Lagt er til að á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur) sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðsluúrræðið mun sennilega létta á biðlistum.

Greinargerð fylgir tillögunni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum : Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 5. og 12. janúar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar frá 5. janúar:

Samþykkt var á fundi borgarráðs 5. janúar sl. að fela umhverfis- og skipulagssviði að fylgja eftir hönnun og framkvæmd vegna endurhönnunar og stækkunar á Grófarhúsi. Flokks fólksins telur að bíða eigi með Grófarhús á meðan svo illa árar í fjármálum borgarinnar. Huga þarf að forgangsröðun í þágu fólksins. Það vantar fjármagn til að sinna lögbundinni þjónustu. Borgin stendur á heljarþröm og er það ekki ofsögum sagt. Fresta ætti því áformaðri 3.050 milljóna króna fjárfestingu í Grófarhúsi til næstu fimm ára og að handbært fé verði hækkað sem því nemur næstu árin. Á sama tíma og samþykkt er að hefja kostnaðarsama framkvæmd á Grófarhúsi þá bíða um 2050 börn eftir faglegri þjónustu og mörg hundruð bíða eftir leikskólaplássi. Flokkur fólksins hefur margsinnis tjáð sig um að forgangsröðun meirihlutans sé hvorki rétt né raunsæ. Of mikil áhersla er lögð á flottar ytri ásýnd, glæstar byggingar og torg á meðan þjónusta er víða í lamasessi. Flokkur fólksins vill setja fólk og þarfir þess í fyrsta sæti. Annað verður að bíða þar til betur árar. Því miður hefur milljörðum verið eytt í hreina og klára vitleysu síðustu ár t.a.m. Í óskilgreind stafræn þróunar- og tilraunaverkefni. Skilvirkni í rekstri borgarinnar hefur fyrir löngu fengið falleinkunn.


Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 30. desember, skóla- og frístundaráðs frá 19. desember, stafræns ráðs frá 14. desember og 11. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. janúar og velferðarráðs frá 15. og 21. desember. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið í fundargerð stafræns ráðs frá 11. janúar:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsingar um samstarf eða öllu heldur samstarfsleysi þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) við önnur sveitarfélög (SSH) og ríki. Í svari er aðdraganda að stofnun á rafrænni þjónustumiðstöð rakið. Flokkur fólksins er ekki að gagnrýna þá miðstöð. Rakin eru samskipti ÞON og SSH sem eru nokkur enda væri annað skrýtið. Flokkur fólksins hefur áður bókað um að ÞON hafnaði a.m.k. í tvígang að ganga inn í samninga ríkiskaupa og ákvað að vera ein á ferð. Það er mat Flokks fólksins að umrætt samstarf byggi ekki á raunverulegu samstarfi. Hafi verið um alvöru samstarf væri það búið að skila af sér sameiginlegum lausnum eða öðrum afurðum. Í svari sviðsins er oft talað um skilvirkni í stafrænni nálgun. Gagnrýni hefur einmitt beinst að skorti á skilvirkni og að verkefni séu illa skilgreind og tímagreind. Til sviðsins fóru 13 milljarðar á þremur árum og haldið var áfram að gefa í. Sum sveitarfélög eru komin lengra en Reykjavik og rafrænar lausnir umhverfis- og skipulagssviðs eru á byrjunarreit. Skortur er á samstarfi á rannsóknum sviðsins varðandi væntanlegan ábendingavef. Mögulega er slíkur ábendingavefur nú þegar til hjá ríki eða sveitarfélögum. Þarna er borgin ein á ferð þvert gegn meintum áhuga til hins gagnstæða.