Borgarstjórn 18. desember 2018

Bókun Flokks fólksins við tillögu Miðflokksins um að laun og aðrar greiðslur borgarfulltrúa verði aðgengilegar á vef borgarinnar

Flokkur fólksins styður heilshugar tillögu Miðflokksins um að upplýsingar um öll laun að kostnaðargreiðslur borgarfulltrúa verði gerðar aðgengilegar almenningi á vef Reykjavíkurborgar. Mikilvægt er að hægt sé að sjá heildarlaun (grunnlaun, álag, greiðslur fyrir nefndir og setu í stjórnum ef eru og annað sem tengist greiðslum til borgarfulltrúa) sem og ferðir og dagpeningar séu slíkar greiðslur fyrir hendi. Allt sem eykur gegnsæi og auðveldar aðgengi borgarbúa að upplýsingum um borgarfulltrúa, störf þeirra og kjör skiptir öllu máli. Nákvæmlega svona tillaga hefur ekki verið lögð fram áður. Alþingisvefurinn er góð fyrirmynd hvað varðar upplýsingar og allt utanumhald mála kjörinna fulltrúa. Borgin ætti að líta þangað.

Tillaga Flokks fólksins um sérstaka fræðslu fyrir innflytjendur

Að borgarstjórn samþykki að  Reykjavíkurborg stuðli að því að kalla til funda/örnámskeiðs,  alla þá sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi og sem eru með atvinnuréttindi en eru ekki komnir í vinnu. Á þessum fundi yrði farið með þeim yfir lög um atvinnuleit, atvinnuréttindi, framfærslumál, skattkerfi, samgöngukerfi, skólakerfi og félagslega aðlögun. Hugmyndin er að umgjörð þessara funda verði afslöppuð, skemmtileg þar sem boðið verði upp á kaffi og spjall samhliða fræðslunni

Markmiðið að hvetja þennan hóp sem á þess kost heilsufarslega til að fara sem fyrst út á vinnumarkaðinn og að þeir komist sem fyrst inn í íslenskt samfélag og geti farið að njóta góðs af öllu því sem það hefur upp á að bjóða. Lagt er til að það verði sérfundir fyrir Kúrda og sérfundir fyrir Araba og einnig aðra hópa eftir atvikum. Hér í borg eru að minnsta kosti  tveir túlkar sem tala bæði málin, kúrdísku og arabísku og mætti nýta þá til hvorutveggja. Þessi tillaga nái hún fram að ganga myndi létta á Vinnumálastofnun og á starfsmönnum þjónustumiðstöðvar svo ekki sé minnst á hvað þau myndu gera mikið fyrir það fólk sem hér um ræðir.

Tillaga um íslenskunámskeið

Lagt er til að íslenskunámskeið fyrir Kúrda og Araba verði sett á laggirnar.

Sem stendur eru íslenskunámskeið hjá Mími, hjá kirkjunni  og hjá Rauða krossinum. Þetta er ekki nóg.  Hér er verið er að tala um námskeið þar sem Kúrdar fá meiri útskýringar á kúrdísku  við málanámið. Sem stendur eru um það bil 100 Kúrdar á Íslandi.

Lagt er til að samskonar íslenskunámskeið yrði fyrir Araba. Arabar eru fjölmargir hér á Íslandi og myndu njóta góðs af því komast á íslenskunámskeið af þessu tagi. Aðrir hópar sem þyrfti að huga að eru  Persar og Afganar. Oft eru þessi námskeið þannig að margar þjóðir eru saman. Kennarar hafa ekki alltaf verið íslenskumælanda kúrdar sem dæmi. Gera má því ráð fyrir að þessi námskeið sem hafi verið í boði séu  ekki nægjanlega markviss og skilvirk. Vinnumálastofnun er að sinna mörgu en getur ekki sinnt öllu. Þessi tillaga nái hún fram að ganga myndi létta á Vinnumálastofnun og á starfsmönnum þjónustumiðstöðva og gera mikið fyrir það fólk sem hér um ræðir

Tillögurnar felldar

Bókun Flokks fólksins:

Viðbrögð meirihlutans við þessum tveimur tillögum, annars vegar er varða sérstaka fræðslu fyrir innflytjendur og hins vegar íslenskunámskeið fyrir Kúrda og Araba og fleiri hópa eru mikil vonbrigði. Hér er verið að koma til skila ákalli fólks um nánari fræðslu, sértækari fræðslu og að komast sem fyrst á íslenskunámskeið þar sem það getur fengið útskýringar á sínu eigin tungumáli. Íslenskunámskeið eru haldin m.a. hjá Mími og Rauða krossinum en þar hefur stundum myndast bið. Aðilar og stofnanir þar með taldir félagsráðgjafar á þjónustumiðstöðvum sem vinna með innflytjendur eru flestir undir miklu álagi og myndu báðar þessar tillögur létta á þeim.  Í andsvari meirihlutans má heyra bæði fáfræði og óvenjumikla neikvæðni gagnvart þessum málum. Það mætti jafnvel álykta að lítil tenging sé við líf og líðan t.d. þessara hópa sem nú eru orðnir nýjir íslendingar, fólk sem flúið hefur óbærilegar aðstæður í leit að öryggi. Fyrir það skiptir félagsleg aðlögun, atvinna og tungumálið mestu máli. Borgarfulltrúi Flokks fólksins veit það af reynslu vegna vinnu með hælisleitendum, sumir sem nú hafa fengið stöðu á Íslandi að bæta má upplýsingagjöfina til muna m.a. um vinnumál, skattamál, framfærslumál, samgöngukerfi og fleira. Upplýsingar þurfa að vera veittar á forsendum hvers og eins ef eiga að nýtast viðkomandi.

Bókun Flokks fólksins við umræða um loftlagsmál

Flokkur fólksins styður allar aðgerðir sem eru til þess fallnar að berjast gegn loftlagsbreytingum. Það eru ótal aðgerðir sem tengjast samgöngum sem koma til greina bæði er varða samgöngur á jörðu og í lofti. Áherslan í þessari umræðu eins og meirihlutinn leggur hana upp einskorðast við aðeins fá atriði og þá langoftast við notkun einkabílsins í borginni. Flokkur fólksins vill líka benda á samgöngur í lofti.  Ef horft er til þess mættu allir sem einn draga úr ferðum sínum til útlanda til að leggja sitt að mörkum í þessari baráttu. Flugvélar nota mikið eldsneyti og er útblástur þeirra gríðamikill.  En aftur að bílasamgöngum í borginni, þá má hnykkja á þeirri alkunnu staðreynd að aðgerðir sem miðast að því að leysa umferðarteppur og auka flæði umferðar í borginni eru vísar til að bæta loftgæði.

Bókun Flokks fólksins um tillögu um samkeppni um samgöngumiðstöð

Erfitt er að taka afstöðu til fjölmargra hluta tengt þessu máli, samkeppni um deiliskipulag og þróun samgöngumiðstöðvar á U-reit enda liggur engin útfærsla fyrir á þessu stigi mál. Flokkur fólksins sér engu að síður varla fyrir sér hvernig hægt er að streyma enn fleirum á þetta svæði í ljósi þeirra alvarlegu umferðarteppu sem myndast m.a. á Miklubraut og Kringlumýrarbraut í báðar áttir. Umferðaröngþveyti er djúpstæður vandi í Reykjavík og enda þótt hann sé  mestur og verstur á háannatíma þá má segja að umferðin sé mikil allan daginn. Rísi samgöngumiðstöð við miðbæinn þarf að taka á umferðarvandanum og mætti sem dæmi létta á umferðinni með því að bæta ljósastýringar, stuðla að færslu einhverra fyrirtækja í úthverfin og gera vinnutíma þeirra sem starfa í miðbænum  sveigjanlegri en nú er.

Bókun Flokks fólksins vegna gjalda grunnskóla sem viðbrögð við tillögu Sósíallista um könnun á gjöldum vegna viðburða í grunnskóla

Það er mikilvægt að félagslegir viðburðir á vegum grunnskólanna verði gjaldfrjálsir sérstaklega fyrir þau börn foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins. Í Reykjavík eru um 800 börn sem eiga foreldra sem eru í fjárhagserfiðleikum af ýmsum ástæðum. Sama ætti að gilda um gjöld vegna alls kyns annarra viðburða í skólatengdum þáttum eins og félagsmiðstöðvum borgarinnar.  Það má aldrei verða svo að barn geti ekki tekið þátt í skólatengdum viðburðum vegna þess að foreldri getur ekki greitt uppsett gjald. Öll mismunun fer illa með börn. Flokkur fólksins styður því þessa tillögu að kannað verði hve mikill kostnaður er innnheimtur af foreldrum vegna skemmtana, viðburða og ferða á vegum grunnskóla borgarinnar