Borgarstjórn 16. október 2018

Borgarfulltrúi Flokks fólksins sendi borgarstjóra batakveðjur í sinni fyrstu ræðu á fundinum í gær og nefndi að þrátt fyrir átakaumræðu að þá vitum við öll að heilsan skiptir mestu máli. Ég sagði frá því að sjálf hafi ég reynslu af alvarlegum veikindum og man hversu vænt mér þótti þá um góðar kveðjur. Í kjölfarið komu aðrir og tóku undir batakveðjur til borgarstjóra. En áfram hélt svo fundurinn og hér er bókun Flokks fólksins í braggamálinu sem var hitamál eins og búast mátti við:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Á meðan sagt er að þetta sé litið grafalvarlegum augum þá eru allt of margar réttlætingar í gangi í þessu braggamáli. Framúrkeyrsla annarra verkefna réttlætir ekki braggann og það að enginn kjörinn fulltrúi hafi tekið pokann sinn vegna framúrkeyrslu eru heldur engin rök fyrir því að borgarstjóri ætti ekki að segja af sér. Stærð verkefnis eða upphæð framúrkeyrslunnar er ekki siðferðileg mælistika í þessu sambandi. Þótt upphæðin sé ekki af sömu stærðargráðu og Ráðhúsið eða Orkuhúsið er það ekki minna alvarlegt. Siðferðiskennd borgarbúa er misboðið og hún er hin siðferðislega mælistika. Hver svo sem gerir úttektina þá er ekki séð að niðurstaða hennar fríi æðsta valdhafa borgarinnar ábyrgðinni. Málið er alltaf að taka á sig á alvarlegri myndir. Borgarfulltrúa Flokks fólksins er annt um að saklaust fólk verði ekki ásakað en nú hafa litið dagsins ljós upplýsingar um alvarlega misnotkun á skattfé borgarbúa. Hér er verið að vísa í nautasnitsel að andvirði 35 þúsund króna. 1300 klukkustundir í hönnun, 114 vettvangsferðir og fundir vegna hönnunar, 33 milljónir til verkfræðistofu. Þessum upplýsingum og fleirum er sagt frá í einum af fjölmiðlum landsins sem segist hafa þetta staðfest. Að baki þessu eins og öðru liggur einhver sálfræði sem ekki síður þarf að skoða.

Við tillögu Miðflokksins um að óháður aðili rannsaki hvers vegna framkvæmdir við endurbætur á Hlemmi Mathöll, Laugavegi 107, fóru langt fram úr kostnaðaráætlunum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins bóka svo svohljóðandi:

Framkvæmdir við húsnæði Mathallarinnar á Hlemmi eru enn annar stórskandall af þessum toga hjá borginni. Margt kom á óvart í verkinu sem olli því að kostnaður varð þrefalt meiri en áætlað var. Þetta mál verður að skoða ofan í kjölinn. Öldur mun ekki lægja fyrr en öll kurl eru komin til grafar. Svona getur þetta ekki haldið áfram í borginni. Finna þarf leiðir til að tryggja að áætlanir haldi í verkefnum sem þessum. Það er ekki hægt að bjóða borgarbúum upp á svona vinnubrögð þar sem farið er með fé þeirra eins og verið væri að spila fjárhættuspil. Þegar vísbendingar eru um að verk sé að fara fram úr áætlun þarf nauðsynlega að liggja fyrir einhver viðbragðsáætlun. Hversu skemmtilegur staður Mathöllin er skiptir bara ekki máli í þessu sambandi. Lífsgleði og lífshamingja sem Mathöllin er sögð veita mörgum eru ekki neinar sárabætur, alla vega ekki fyrir alla borgarbúa.

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að heimila handhöfum stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða að keyra á göngugötum.

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að heimila akstur bifreiða með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða (P-kort) um göngugötur í miðborg Reykjavíkur og að bifreiðum með slíkt stæðiskort verði heimilt að leggja á bílastæðum í öllum göngugötum borgarinnar.
Jafnframt er lagt til að borgarstjórn samþykki að leggja það til við Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins að hann ákveði hraðamörk á göngugötum borgarinnar við 10 km/klst. og á það bæði við um bifreiðar fatlaðra sem og bifreiðar sem keyra um göngugötur með aðföng.

Greinargerð:
Allir eiga rétt á að komast ferða sinna og það gildir jafnt um miðbæ Reykjavíkur eins og aðra staði borgarinnar. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur samþykkt að fjölga göngugötum og að allur Laugavegurinn verði gerður að göngugötu.

Eins skemmtilegar og göngugötur eru þá eiga margir sem eru hreyfihamlaðir ekki auðvelt aðgengi að þeim. Það er ekki nema lítill hluti hreyfihamlaðs fólks sem notast við hjólastól eða göngugrind og getur því nýtt sér göngugötur (svo framarlega sem bílastæði eru nálægt). Fyrir stóran hluta hreyfihamlaðs fólks (sem nota hvorki hjólastól né göngugrind) mun lokuð göngugata verða veruleg hindrun á aðgengi og þýða að þessir einstaklingar sem eiga erfitt með gang (hreyfihamlaðir) munu alfarið forðast fyrirtæki eða stofnanir sem eru við slíkar götur. Á sama tíma þarf að skerpa vel á fyrirkomulagi útgáfu og utanum haldi P-merkinga bifreiða til að þetta fyrirkomulag virki sem best.

Ekki liggur fyrir hversu mikið borgarmeirihlutinn hefur haft samráð við hagsmunasamtök hreyfihamlaðra og fatlaðra um fyrirhugaðar framkvæmdir.

Í Reykjavík hefur verð þrengt verulega að ferðafrelsi hreyfihamlaðra síðustu ár og þá sérstaklega í miðbænum, með sumarlokun gatna sem og vegna framkvæmda. Þannig var t.d. Laugaveginum lokað með þverslá (með reiðhjólum á) á gatnamótum Laugavegar og Vatnsstígs, annað á mótum Laugavegar og Klapparstígs, þriðja á mótum Laugavegar og Smiðjustígs og fjórða þversláin lokar fyrir bílaumferð er á mótum Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis og að lokum er enn ein þversláin á mótum Ingólfsstrætis og Bankastrætis.
Þessar lokanir voru fyrst hugsaðar einungis yfir sumartímann, þegar flestir geta verið á ferli, hreyfihamlaðir jafnt sem ófatlaðir. Nú stendur til að lengja lokunartíma fyrrnefndra gatna og jafnvel fleiri. Þó hugmyndin þurfi ekki að vera slæm sem slík, er svona algjörar lokanir að brjóta á réttindum fatlaðra.

Á það skal minnt að á vefsíðu Reykjavíkurborgar stendur skýrt og skorinort:
“ÓHEIMILT ER AÐ MISMUNA FÓLKI VEGNA FÖTLUNAR”. Enn fremur: “ALLIR EIGA RÉTT Á VIRKRI ÞÁTTTÖKU Í REYKVÍSKU BORGARSAMFÉLAGI”. Og enn: “FATLAÐIR EIGI JAFNAN AÐGANG AÐ ÞJÓNUSTU OG ÓFATLAÐIR”.

Eins og þróunin hefur orðið má segja að Reykjavíkurborg virðir ekki eigin reglur (lög) hvað þetta varðar í það minnsta.

Það hefur verið ríkjandi hugsunarháttur að huga bara að aðgengi fyrir fólk í hjólastólum og fólki sem notast við göngugrindur og það má vissulega bæta aðgengi þeirra víða í borginni. En þessi hópur er aðeins lítið brot af hreyfihömluðum einstaklingum, einstaklingum ungum sem öldnum sem eiga erfitt með gang af ýmsum ástæðum og ganga aðeins stuttar vegalengdir ekki síst í íslenskri veðráttu. Þannig munu þessir einstaklingar alls ekki sækja neina þjónustu sem veitt er í þessum lokuðu götum.
Margir hreyfihamlaðir spyrja:
Hvað er til ráða ? Eiga hreyfihamlaðir að stofna þrýstihóp ?
Eiga hreyfihamlaðir að fara í kröfugöngu ? Skrifa bréf til umboðsmanns Alþingis ?

Hreyfihamlaðir upplifa gjarnan að ekki er hlustað á þá og vita ekki til hvaða ráða hægt er að grípa til að fá hlustun borgaryfirvalda. Fyrir marga hreyfihamlaða er einfaldlega verið að loka borginni fyrir þeim. Í þessu sem öðru þarf að vera eitthvað eðlilegt jafnvægi. Huga þarf að margbreytileikanum og mannréttindum í þessum sem öðru.

Flokkur fólksins setur sig ekki upp á móti hraðatakmörkun. Það er hið besta mál og mætti draga úr hraða víðar í borginni. En að meina hreyfihömluðu fólki að komast sinna ferða (aka) um miðborgina er mannréttindabrot.

Nú er það svo, að þegar ekið er niður Laugaveg frá “Hlemmi” að Lækjargötu, þá eru einungis örfá bílastæði sem merkt eru fötluðum, þar af eru tvö fyrir viðskiptavini Tryggingarstofnunar Ríkisins (sem reyndar er að flytja en vonandi standa stæði fyrir fatlaða þar áfram). Þegar loka þarf götum fyrir bílaumferð í nágrannalöndum okkar vegna verkefna, þá er fötluðum yfirleitt tryggður aðgangur í umferðinni eins og hægt er. Á Akureyri er farin sú leið að leyfa mjög hæga bílaumferð um göngugötu bæjarins.

Góð er sú hugmynd að taka niður þverslárnar (reiðhjólin) sem loka Laugaveginum, Pósthússtræti og Skólavörðustígnum og setja í staðinn umferðarmerki sem bannar alla umferð ökutækja um þessar götur, nema þeirra sem eru með merki “fatlaðra” í framrúðunni. Þessi lausn á “vandamálinu” ætti að vera öllum þóknanleg og ekki valda neinum vandræðum.
Leyfum hreyfihömluðu fólki að njóta þess sama og hinna sem eru með fulla hreyfigetu. Það eru fjölmargir hreyfihamlaðir sem vilja fara um Laugaveginn, Pósthússtrætið og Skólavörðustíginn, en geta það ekki vegna þess að göturnar eru lokaðar og ekki aðgengilegar fyrir hreyfihamlaða, nema hugsanlega þeirra sem eru í hjólastól eða notast við göngugrind, en þá þurfa að vera sérmerkt bílastæði nálægt sem er lítið af í dag. Göngugötur eru vissulega skemmtilegar og lífga upp á mannlífið, en þá má alls ekki verða á kostnað hreyfihamlaðs fólks.

Hér er afgreiðsla tillögunnar í borgarstjórn í gær um að heimila akstur bifreiða með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða um göngugötur miðborgar.

Umræðan hefði mátt vera sanngjarnari og heiðarlegri af hálfu borgarfulltrúa Samfylkingar sem fékk það verkefni að tala gegn tillögunni. Of mikið um útúrsnúninga, rangfærslu og jafnvel gengið svo langt að reyna að afvegaleiða umræðuna.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Undanfarin ár hefur nokkrum götum í miðborginni verið breytt tímabundið í göngugötur til að auðga mannlíf miðborgarinnar. Samkvæmt viðhorfskönnun sem Maskína ehf. vann fyrir umhverfis- og skipulagssvið fyrr á þessu ári, er mikill meirihluti borgarbúa jákvæður gagnvart göngugötum í miðborginni. Tæplega 80% þeirra telja að göngugöturnar hafi jákvæð áhrif á mannlífið. Ferlinefnd fatlaðs fólks hefur fjallað um göngugötur og ekki lagst gegn þeim. Samráð við alla notendur sem og ferlinefnd fatlaðs fólks er mikilvægt og brýnt að því verði haldið áfram. Akstur um göngugötur myndi rýra verulega þau miklu umhverfisgæði sem göngugötur búa yfir. Í dag mynda göngugötur í Reykjavík ekki stórt samfellt svæði enda er akstur leyfður um þvergötur. Af því leiðir að lengsta vegalengd milli bílastæðis og verslunar er innan við 100 metrar. Mikilvægt er að kynna hin fjölmörgu P-merktu bílastæði í miðborginni, þar á meðal í bílastæðahúsum. Þegar göngugötur verða festar í sessi allt árið um kring skapast tækifæri til að auka aðgengi að miðbænum og að fjölga P-merktum bílastæðum.