Borgarstjórn 19. maí 2020

Bókun Flokks fólksins við síðari umræðu samantekinn ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 (A- og B-hluti):

Borgarfulltrúi Flokks fólksins staðfestir ársreikning 2019 með fyrirvara um að reikningsskilaaðferðir séu viðeigandi og að engar skekkjur séu vegna mistaka eða sviksemi sem endurskoðun hafði ekki upplýsingar um. Með þessu er fylgt fordæmi endurskoðenda sem hafa sjálfir varið sig með fyrirvara um skekkjur vegna mögulegra mistaka eða sviksemi. Þeirra markmið er að afla nægjanlegrar vissu um að ársreikningurinn sé án verulegra annmarka. Nægjanleg vissa er engu að síður sögð ágæt vissa þótt það tryggi ekki að vitað sé um allar skekkjur vegna mistaka eða sviksemi sem kunni að vera til staðar. Fulltrúi Flokks fólksins gerir einnig sérstakan fyrirvara við að reikningsskilaaðferðir Félagsbústaða standist skoðun og lög. Tíðindum sætti þegar Einar S. Hálfdánarson sagði sig úr endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar vegna þeirrar reikningsskilaaðferðar sem brúkuð er hjá Félagsbústöðum, hin svo kallaða gangvirðisaðferð. Þar sem Félagsbústaðir eru félagslegt úrræði en ekki fjárfestingarfélag taldi hann að gera ætti fjárfestingar félagsins upp á kostnaðarvirði. Benti hann á að með því að kjörnir fulltrúar áriti ársreikning kynnu þeir að vera persónulega ábyrgir ef kröfuhafar Félagsbústaða létu á það reyna hvort ársreikningar Félagsbústaða hf. hefðu gefið glögga mynd af rekstri og efnahag félagsins. Þá kynni sú persónulega ábyrgð einnig að ná til endurskoðunarnefndar Félagsbústaða og borgarinnar.

 Fyrirvari Flokks fólksins við undirritun Ársreiknings 2019:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins staðfestir ársreikning 2019 með fyrirvara um að reikningsskilaaðferðir séu viðeigandi og að engar skekkjur séu vegna mistaka eða sviksemi sem endurskoðun hafði ekki upplýsingar um. Með þessu er fylgt fordæmi endurskoðenda sem hafa sjálfir varið sig með fyrirvara um skekkjur vegna mögulegra mistaka eða sviksemi. Þeirra markmið er að afla nægjanlegrar vissu um að ársreikningurinn sé án verulegra annmarka. Nægjanleg vissa er engu að síður sögð ágæt vissa þótt það tryggi ekki að vitað sé um allar skekkjur vegna mistaka eða sviksemi sem kunni að vera til staðar. Fulltrúi Flokks fólksins gerir einnig sérstakan fyrirvara við að reikningsskilaaðferðir Félagsbústaða standist skoðun og lög. Tíðindum sætti þegar Einar S. Hálfdánarson sagði sig úr endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar vegna þeirrar reikningsskilaaðferðar sem brúkuð er hjá Félagsbústöðum, hin svo kallaða gangvirðisaðferð. Þar sem Félagsbústaðir eru félagslegt úrræði en ekki fjárfestingarfélag taldi hann að gera ætti fjárfestingar félagsins upp á kostnaðarvirði. Benti hann á að með því að kjörnir fulltrúar áriti ársreikning kynnu þeir að vera persónulega ábyrgir ef kröfuhafar Félagsbústaða létu á það reyna hvort ársreikningar Félagsbústaða hf. hefðu gefið glögga mynd af rekstri og efnahag félagsins. Þá kynni sú persónulega ábyrgð einnig að ná til endurskoðunarnefndar Félagsbústaða og borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir borgarráðs frá 7. og 14. maí undir 8. og 11. lið:

Hér er borin upp tillaga að varanlegum göngugötum og einnig er í bígerð að gera viðbót, sumargötur, og þar með stækka göngugötusvæðið. Þetta er gegn vilja og samráðs hagsmunaaðila og borgarbúa. Verslun virðist ekki þrífast eins eftir að lokað var fyrir alla umferð. Fólk vill koma í verslanir, það hafa kannanir sýnt. Nú eftir að létt hefur á samkomubanni kom í ljós að netverslun heldur ekki því flugi sem hún náði í aðstæðum Covid. En það er ekki sama hvar verslanir eru staðsettar. Ef aðgengi er erfitt og fólki finnst langt að ganga í þær koma færri. Ekki hefur verið rætt við Miðbæjarfélagið í Reykjavík sem telur tugi hagsmunaaðila. Ekkert heyrist heldur frá borgarmeirihlutanum um heimild í umferðarlögum sem snýr að akstri fatlaðra á göngugötum. Orlofsdagar: Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að koma eigi á móts við foreldra/forsjáraðila sem hafa þurft að ganga á orlofsdaga vegna skerðingar á leikskólaþjónustu í samkomubanni vegna COVID-19. Á sama tíma vill fulltrúi Flokks fólksins nefna að gengið var á orlofsdaga foreldra þegar verkfallið var. Verkfallið dróst á langinn vegna þvermóðsku borgaryfirvalda að semja sem leiddi til ómældra erfiðleika hjá mörgum fjölskyldum. Ætlar skóla- og frístundaráð ekki að bæta þeim foreldrum og börnum skerðingar sem hlutust af verkfallinu?

 

Bókun við 8. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 12. maí:

Meirihlutinn lagði fram breytingatillögu við tillögu Flokks fólksins um að „Að kerfisbundið verði farið yfir viðbrögð grunnskóla gagnvart einelti“ sem er orðrétt eins nema örlítið stytt og gerði þar með tillöguna að sinni. Hér hefði verið lag til einingar og samvinnu og einfaldast að samþykkja tillögu Flokks fólksins. Vel hefði mátt skerpa á henni í framhaldinu. Í það minnsta hefði mátt bjóða Flokki fólksins að vera með í breytingartillögunni sem væri þá lögð fram í nafni allra. Í borgarráði lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að breyta verklagi á meðferð og afgreiðslu tillagna frá minnihluta til að koma í veg fyrir höfnun tillagna minnihlutans sem síðan eru lagðar fram í nafni meirihlutans eingöngu. Sú tillaga var felld. Vilji til að breyta þessu úrelta verklagi er því lítill hjá meirihlutanum

Bókun við 9. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 14. maí:

Það eru sterkar líkur á að brotið hafi verið gegn jafnrétti- og aðgengismálum þegar konum/stúlkum var úthýst úr kvennaklefa Sundhallarinnar og settar í klefa nýbyggingar þar sem þær þurfa að ganga í blautum sundfötum langa leið utandyra frá klefa í laug. Karlar héldu sínum. Hér er auk þess um lýðheilsumál að ræða. Tugir kvartana um þetta eru í Maskínu. Konur eiga að að sjálfsögðu að fá aftur fullan aðgang að endurgerðum kvennaklefa.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Niðurstaða skoðunar á því hvort endurgerð á Sundhöll Reykjavíkur sé í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum er sú að breytingarnar uppfylli stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum. Nú hafa fatlaðar konur meðal annars mun betra aðgengi að kvennaklefanum en áður.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Í fundargerð mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráðs frá 11. maí kemur skýrt fram að gera á skoðun á því hvort endurgerð á Sundhöll Reykjavíkur sé í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum og fagnar Flokkur fólksins því. Viðurkennist þó að umsögn mannréttindastjóra er mjög neikvæð og ekki í samræmi við þá breytingatillögu sem hér er lögð fram af meirihlutanum við tillögu Flokks fólksins, þ.e. að gera eigi skoðun á því hvort endurgerð á Sundhöll Reykjavíkur sé í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum. Flokkur fólksins og fjöldi kvenna og foreldra stúlkna bíða nú spenntar eftir niðurstöðu skoðunar enda margir afar ósáttir við með hvaða hætti kvenfólk hefur verið úthýst úr búningsklefum Sundhallarinnar og þurfa nú að ganga langa leið í blautum sundfötum frá klefa í laug Sundhallar auk þess sem mikil þrengsl eru á sturtusvæði kvenna.

Vísað er í fundargerð frá 11. maí þar sem breytingartillagan er birt með skýrum hætti. „Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs:
Lagt er til að mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð samþykki að láta fara fram skoðun á því hvort endurgerð á Sundhöll Reykjavíkur sé í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum.
Breytingartillagan er samþykkt samhljóða.
Tillagan samþykkt svo breytt.“
Það sem vekur undrun er að samhliða breytingatillögunni um að láta fara fram umrædda skoðun er lögð fram niðurstaða skoðunar mannréttindastjóra. Hvernig á að skilja þetta? Hér hefur átt sér stað eitthvað klúður þar sem á sama fundi og meirihlutinn í ráðinu leggur til að gerð verði athugun á hvort endurgerð á Sundhöll Reykjavíkur sé í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum er lögð fram niðurstaða athugunarinnar. Er hér þá verið að leggja til að gerð verði frekari athugun á hvort endurgerð á Sundhöll Reykjavíkur sé í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum?