Borgarstjórn 4. desember 2018

Síðari umræða um fjárhagsáætlun

Hér er ræða mín frá borgarstjórnafundi í gær sem sjá má á vefnum borgarstjórn í beinni. Hún hefst kl. 3.55 og varir til 4.40. Önnur andsvör eru kl. 7.23 við ræðu Hjálmars Sveinssonar og kl. 11.21 þegar borgarstjóri hafði slátrað tillögunni okkar Flokkur Fólksins. Ég var ekki sátt. Þrjár bókanir voru gerðar á fundinum, sú fyrsta við tillögu D flokks sem ég greiddi atkvæði með, önnur við fjárhagsáætlun meirihlutans og sú þriðja þar sem ég harma að tillaga okkar um að lækka gjald skólamáltíða er felld en hana má sjá hér neðar.
 
Bókun við tillögu Sjálfstæðisflokksins
Flokkur fólksins vill gera allt til að finna leiðir til að gera eldri borgurum og öryrkjum sem búa við knappan fjárhag léttara að lifa. Tillaga um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds eldri borgara og öryrkja er því sjálfsagt að styðja. En það er annað sem Flokkur fólksins vill benda á í þessu sambandi sem mikilvægt er að laga og það er að taka úr Reglum um afslátt af fasteingagjöldum ákvæðið að viðkomandi þurfi að eiga rétt á vaxtabótum samkvæmt B.lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekju – og eignaskatt til að eiga rétt á afslátt á fasteignagjöldum. Á það skal bent að enda þótt eldri borgarar séu e.t.v. sá hópur sem skuldar minnst þá þýðir það ekki að þeir hafi nægt fé milli handanna. Þvert á móti hafa fjölmargir eldri borgarar og öryrkjar lítið milli handanna og geta þar að leiðandi ekki leyft sér mikið. Að öðru leyti styður Flokkur fólksins almennt séð ekki tillögur er lúta að minnkun borgarsjóðs enda margar tillögur Flokks fólksins kostnaðarsamar. Borgarfulltrúi leggur áherslu á að farið verði í kröftugan sparnað á hagræðingu á öllum þeim sviðum sem mun ekki leiða til beinna skerðingar á þjónustu við fólk.
 

Bókun Flokks fólksins við fjárlagaáætlun meirihlutans:

Í þessari fjárhagsáætlun er ekki tekið nægjanlega tillit til barna, eldri borgara og öryrkja. Það tekur á að svo margir, sem raun ber vitni, eiga um sárt að binda í svo ríkri borg sem Reykjavík er. Fólkið er almennt séð ekki sett nægjanleg í forgang í þessari fjárhagsáætlun. Flokkur fólksins vill að útdeiling fjármagns verði sanngjarnari og að fólkið sjálft verði sett efst á blað. Ýmislegt hefur verið reynt til að vekja athygli meirihlutans á stöðu þeirra verst settu. Hér má nefna tillögur um að lækka gjöld skólamáltíða, gjaldfrjáls frístund fyrir börn fátækra foreldra og að þau börn verði heldur ekki krafin um aukagjöld í félagsmiðstöðvum. Finna þarf fé í þessi verkefni. Flokkur fólksins gerir sér grein fyrir að innstreymi í borgarsjóð má ekki minnka en margt er hægt að gera til að auka sparnað og hagræðingu. Sem dæmi má sameina þjónustumiðstöðvar og fleiri verkefni/deildir sem létta myndi á yfirbyggingu. Stjórnsýslan er bákn sem vel mætti byrja að draga saman sér í lagi þann hluta sem ekki snýr beint að þjónustu við fólkið.

Hvað börn varðar þá þrá þau öll það eitt að eiga öruggt húsaskjól og fá tækifæri til að vera í sama grunnskólanum alla grunnskólagöngu sína þar sem þau fá námsefni sem uppfyllir persónulegan metnað þeirra og þar sem þau eru meðal vina og jafningja.

Flokkur fólksins leggur til lækkun gjaldskrár skólamáltíða um þriðjung (33%) og að tekjulækkun sviðsins, sem talin er nema 361 mkr árið 2019, verði mætt með auknum fjárheimildum sem komi af kostnaðarliðnum ófyrirséð 09205.

Verði þessi tillaga samþykkt felur það í sér að gjaldskrá máltíða í grunnskólum verður 6.563 á mánuði í stað  9.796 kr eins og nú er.

Greinargerð:

Mikilvægt er að börn sitji við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og að fá að borða. Efnahagsstaða foreldra er misjöfn. Sumir foreldrar hafa ekki efni á að kaupa skólamáltíðir fyrir börn sín. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að stuðla að því með öllum ráðum að foreldrar þeirra hafi ráð á að kaupa handa þeim skólamáltíðir. Börnum á ekki að vera mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Fordæmi er nú þegar fyrir lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja. Áður hefur Flokkur fólksins lagt fram tillögu um fríar skólamáltíðir en sú tillaga var felld á fundi Skóla- og frístundarráðs í ágúst. Fram hefur komið í svari sviðsstjóra Skóla- og frístundarráðs að þessi aðgerð muni lækka tekjur sviðsins um 361 mkr. Borgarfulltrúi Flokks fólksins kallar hér til ábyrgðar borgarstjórnar og gerir því þá tillögu að þessi upphæð verði tekin af liðnum ófyrirséðu.

Tillagan var felld

Bókun Flokks fólksins:

Borgarmeirihlutinn hefur hraðslátrað tillögum minnihlutans í borgarstjórn á fundi sem nú er að ljúka. Áður en til atkvæðagreiðslu kom stóð borgarstjóri upp og tilkynnti ákvörðun meirihlutans um að fella allar þessar tillögur. Atkvæðagreiðsla má segja að var því bara til málamynda. Vitað er að það eru fjölskyldur sem þurfa að neita börnum sínum um skólamáltíðir. Ef þetta hefði varið samþykkt hefðu margar fjölskyldur getað andað rólega og það hefðum við í Flokki fólksins sannarlega getað. Ég verð að segja að ég ól smá von í brjósti að NÚ væri komið að því að fá eina tillögu í þágu barna og fátækra foreldra samþykkta en það var bara draumsýn. Ég furða mig á ábyrgðarleysi VG sem fór um allt í kosningabaráttunni eftir því sem ég man rétt og tilkynntu að gjaldfrjálsar máltíðir væri eitt af þeirra kosningaloforðum. En þessu loforði var fórnað fyrir samstarfið. Þetta eru mikil vonbrigði.

Bókun Flokks fólksins:

Flokkur fólksins þykir leitt að tillagan um að lækka gjald skólamáltíða um þriðjung hafi verið felld. Lagt var til að tekjulækkun sviðsins kr. 361 mkr á ári sem þessi þriðjungs lækkun myndi framkalla yrði mætt með auknum fjárheimildum sem komi af kostnaðarliðnum ófyrirséð 09205. Ef fjárhagsáætlun meirihlutans er skoðuð má sjá að þar er eitt og annað lagt til sem taka á af þessum lið en að lækka gjald skólamáltíða var ekki talið nægjanlega mikilvægt. Hefði þessi tillaga náð fram að ganga hefði það komið sér afskaplega vel fyrir fjölskyldur sem hafa lítið milli handanna. Foreldrar og við öll hefðu getað, ef tillagan hefði náð fram að ganga, andað rólega, fullviss um það að ekkert barn væri svangt í skólanum. Hér hefði getað verið um fyrsta áfangann að ræða í átt að fríum skólamat. Við vitum öll að efnalitlar fjölskyldur og fátækar fjölskyldur hafa þurft að neita sér um þessa þjónustu. Það hlýtur að svíða  að þurfa að horfa upp á það. Hér er um að ræða mikið jafnréttismál og í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að öll börn sitji við sama borð og hafi í þessu tilfelli tök á því fá heita og næringarríka máltíð