Skóla- og frístundarráð 27. júní 2018

Tillaga um skólasálfræðing í hvern skóla

Tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins um skólasálfræðing í hvern skóla í Reykjavík

Lagt er til að skólar verði valdefldir með þeim hætti að þeir ráði sjálfir til sín skólasálfræðinga sem hafa skulu aðsetur í skólum og taka við verkbeiðnum frá nemendaverndarráðum. Í lögum segir að hver skólasálfræðingur skuli vera í hverjum grunnskóla og að börn skuli hafa aðgang að sérfræðiþjónustu þar á meðal sálfræðiþjónustu. Gert skal ráð fyrir því að hver skóli fái nægjanlegt fjármagn til að hafa í það minnsta sálfræðing í 40% starfshlutfalli.

Greinargerð

Með þessum hætti geta skólasálfræðingar verið meira aðgengilegir börnum, foreldrum og kennurum, sinnt handleiðslu og fræðslu eftir þörfum. Eins og vitað er eru biðlistar eftir þjónustu sálfræðinga langir í Reykjavík. Í fjölmörgum tilfellum hafa börn sem nauðsynlega hafa þurft sálfræðiþjónustu eða greiningu sem aðeins sálfræðingar mega framkvæma ekki fengið slíka þjónustu á grunnskólaárum sínum. Foreldrar sem gefist hafa upp á að fá aðstoð fyrir barn sitt hjá skólasálfræðingi hafa stundum þurft að kaupa sálfræðiþjónustu þar með talda greiningu frá sálfræðingi úti í bæ. Eins og skilja má eiga ekki allir foreldrar þess kost að fjármagna slíkt og því sitja börnin ekki við sama borð hvað kemur að tækifærum til að fá þá þjónustu sem þau þarfnast frá skólasálfræðingi. Sálfræðiþjónusta þar með taldar greiningar barna á aldrei að vera háð efnahagi foreldra. Eins og einnig er vitað hefur kvíði barna farið vaxandi, sjálfsskaði og þunglyndi. Orsakir fyrir þessu eru margar og flóknar en segir enn frekar til um hversu mikilvægt það er að börn og foreldrar hafi greiðan aðgang að skólasálfræðingi sínum.

Tillaga um fríar skólamáltíðir

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 27. júní 2018

Lagt er til að öll börn fái fríar skólamáltíðir. Eins og vitað er búa mörg börn við mismunandi aðstæður hvað varðar efnahag foreldra. Sum búa við sára fátækt og eru því svöng í skólanum. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að þau fái fríar skólamáltíðir.

Tillagan er felld 21. ágúst 2018