Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Borgarstjórn samþykkir að stofna spretthóp þriggja borgarfulltrúa undir forystu formanns borgarráðs sem gegni því hlutverki að veita pólitíska forystu um einföldun á regluverki og ferlum skipulags- og byggingarmála í Reykjavík.
Þetta er þörf tillaga að mati Flokks fólksins. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt fram tillögur af þessu tagi en þeim verið hafnað. Til dæmis lagði Flokkur fólksins til að umsækjandi um flókið byggingarleyfi fengi tengilið innan borgarinnar sem héldi utan um málið og öll gögn þess. Umsækjendur hafa þurft að ganga á milli Pontíusar og Heródesar með sín mál og jafnvel eru dæmi um að gögn hafi týnst. Stafrænar lausnir til að létta umsækjendum ferlið og starfsfólki vinnuna eru ekki komnar í loftið og einhver bið verður enn á því eftir því sem næst verður komist. Miklar tafir hafa orðið á stafrænum lausnum á umhverfis- og skipulagssviði. Ekki dugar að státa sig af lista af einhverjum stafrænum lausnum sem ekki eru komnar í virkni. Flækjustigið í umsóknakerfi borgarinnar hefur mikinn fælingarmátt. Verktakar fara annað. Fram kemur á vefnum að umsagnarferlið geti tekið allt að 45 daga. Á þessu er allur gangur eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt og er heildarumsóknarferlið iðulega mikið lengra. Með því að hafa samband við tengilið væri hægt að fá uppgefið strax hvar hvert og eitt gagn er statt í kerfinu og hvenær vænta má afgreiðslu.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um nýja byggð í Keldnalandi:
Byggð í Keldnalandi er spennandi enda er þetta eðalsvæði. Þarna mætti byggja húsnæði fyrir stóran hóp. Það er afar brýnt að þetta hverfi verði ekki aðeins eyrnamerkt efnameira fólki heldur gert ráð fyrir hagkvæmu húsnæði til kaups og leigu. Uppbygging Keldnalands hangir saman við hina margumræddu borgarlínu. Nú er ekki annað að heyra en borgarlínuverkefnið sé í uppnámi ef marka má orð fjármálaráðherra sem segir að ekki sé til peningur fyrir svo fjárfrekt verkefni og ekki hefur verið gengið frá því hver eigi að reka borgarlínu. Þetta er bakslag en mörgum þótti reyndar borgarlínuverkefnið ansi bratt og jafnvel óraunhæft fyrir okkar litla samfélag. Flokkur fólksins telur að vert sé að draga upp þá sviðsmynd að ef borgarlína bregst þá þjónusti Strætó þetta hverfi eins og önnur í borginni. Það er óþarfi að fórna uppbyggingu heils hverfis þegar íbúðaskortur er eins mikill og raun ber vitni þótt engin verði borgarlínan næstu áratugi. Flokki fólksins finnst síðan sjálfsagt að endurskoða vinningstillöguna með tilliti til þess að lóðarhöfum verði heimilt að reisa bílakjallara undir fjölbýlishúsum þar sem því verði við komið. Það verði gert án þess að það komi niður á heildarfjölda bílastæða fyrir hverfið.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um lífsgæðakjarna.
Undir þessari umræðu er sjálfsagt að minnast á það að árið 2021 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu í borgarstjórn um skipulagða byggð fyrir eldra fólk víðs vegar í Reykjavík. Segja má að sjaldan hafi meirihlutinn gert eins mikið grín að tillögu frá minnihlutanum. Tillagan var felld af meirihlutanum með þeim rökum að þetta væri hvorki það sem þessi hópur vill né þarf. En það er ekki rétt. Samráð og samtal við fjölmarga eldri borgara og hagsmunasamtök hefur leitt í ljós að fjölmargir vilja einmitt að íbúðasvæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þjónustu við eldra fólk og þeirra þarfir. Töluverður hluti húsnæðis í Reykjavíkurborg hentar ekki eldra fólki. Stoð- og stuðningsþjónusta sem og afþreying er einfaldlega ekki til staðar í mörgum hverfum. Horfa þarf til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu og fleira. Á svæði sem þessu er í raun ekki þörf fyrir uppbyggingu leik- og grunnskóla. Einblína ætti frekar á fjölbreytt úti- og innisvæði til afþreyingar og skemmtunar. Aðkoma Félags eldri borgara yrði hér afar mikilvæg. Hugsa mætti sér ólík íbúðaform, t.d. minni sérbýli sérhönnuð fyrir þarfir eldri borgara með miðlægum þjónustukjarna. Gönguleiðir og strætisvagnaleiðir yrðu vel hugsaðar með upphituðum skýlum. Gæta yrði að öryggismálum í hvívetna.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að Félagsbústöðum verði falið að hefja vinnu að nýju leiguverðslíkani sem geri ekki ráð fyrir leiguhækkunum líkt og þeim sem samþykktar voru á borgarstjórnarfundi 19. september. Flokki fólksins líst vel á að það verði þak á fasteignamati í einstökum hverfum til þess að grípa tilvik þar sem fasteignamat hækkar umfram meðaltal eins og stefnt er að í nýju verðlíkani. Það er jafnframt jákvætt að leiguverð sé sem jafnast óháð staðsetningu og að breytingar á leiguverði verði ekki í stökkum. Samkvæmt nýju leiguverðslíkani mun leiga hjá 1.538 leigjendum hækka um fjárhæð allt að 36.000 kr. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þeim 5,5% leigjenda þar sem leigan mun hækka meira en 12.000 kr. á mánuði. Fjöldi leigjenda hefur kvartað undan stöðugum hækkunum á leiguverði undanfarið. Flokki fólksins líst vel á að unnið verði að nýjum viðmiðum þegar kemur að leiguverði og að þar verði unnið út frá þeim áherslum að leiguverð fari aldrei yfir 25% af ráðstöfunartekjum leigjenda. Í nýju verðlíkani Félagsbústaða er verið að hækka leigu hjá leigjendum í erfiðri fjárhagslegri og félagslegri stöðu. Félagsbústaðir og Reykjavíkurborg verða að finna aðra leið til að styrkja tekjugrunn félagsins.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um efndir meirihlutasáttmálans.
Fjórðungur er liðinn af kjörtímabilinu. Meirihlutinn er að mestu sá sami og sá síðasti utan Framsóknar. Engar stórvægilegar breytingar eru í sáttmálanum. Strax var borgarbúum gefin dúsa, frítt fyrir börn í strætó undir 11 ára, hækkun frístundastyrks og næturstrætó. Vissulega eru þrjú ár eftir af kjörtímabilinu. Sáttmálinn er fullur af yfirborðstali, meirihlutinn vill og ætlar . Dregnar eru upp ægifagrar lýsingar á því hvað meirihlutinn vill gera. Staðan eftir árið er að mestu eins í erfiðustu málunum. Lítið framboð af lóðum sem aðeins fást í gegnum útboð og verktakar halda að sér höndum. Skortur er á hagkvæmu húsnæði og sérbýlum. Fátækt er vaxandi, hjálparsamtök sprungin, biðlistar hafa fjórfaldast frá 2018. Lágtekjufólk, öryrkjar og einstæðir foreldrar eru að kikna undan hárri leigu. Umferðaröngþveitið eykst, ljósastýringar í ólestri og allt þetta sett á ís því borgarlína er að koma. Það er hins vegar ekki að gerast. Fjármálaráðherra hefur sett hana á ís. Staðfest er áralöng seinkun, verkið mögulega tekið í litlum áföngum næstu áratugi. Fleira nefnt sem ekkert bólar á. Þegar sáttmálinn er lesinn má sjá að stór hluti af honum er í raun tómt blaður um langanir meirihlutans um eitt og annað sem margt hvert verður aldrei að veruleika.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarstjórn samþykkir að beina því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að skoða fýsileika þess að styðja við uppsetningu sólarsella á heimilum í Reykjavík.
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að ráðast í eftirfarandi aðgerðir í því skyni að bæta almenningssamgöngur í borginni. Forgangsakgreina, umferðarljósaforgangur og almennilega, mannsæmandi biðskýli og skiptistöðvar. Einfalt og hraðvirkt greiðslukerfi er mjög mikilvægt. Það sem nú er hefur ekki lánast nógu vel. Mest um vert er að ferðir verði tíðari og farið verði út í hverfi þannig að Strætó verði alvöru almenningssamgöngur. Hafa þarf einnig í huga að íbúafjöldi höfuðborgasvæðisins tvöfaldast á um 40 ára fresti og reikna má með að ferðum muni fjölga eftir sama mynstri. Þess vegna þarf að hugsa til framtíðar og vinna að bættum umferðarmannvirkjum og tæknilausnum við umferðarstýringar. Og í skipulagningu borgarinnar þarf að komast jafnvægi milli staða sem atvinna er og staða sem fólk býr. það dregur úr akstri milli svæða.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að beina því til nefndar um endurskoðun samgöngusáttmálans að snjallljósastýring umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu verði sett í algeran forgang við endurskoðun sáttmálans.
Ein sú lausn sem á eftir að breyta miklu til að leysa umferðartafir í borginni er snjallvæðing umferðaljósa. Þetta hefur verið margrætt í borgarstjórn og tillögur komið frá minnihlutafulltrúum. Fleira má skoða auk snjallljós og stillingar og það eru breytilegur vinnutími t.d. í stofnunum borgarinnar og ólíkur skólabyrjunartími hefur einnig komið til tals. Lengja mætti og laga aðreinar á stórum umferðargötum, eins og Miklubraut, Sæbraut og nokkrum fleiri stöðum. Skoða mætti að setja göngubrýr í stað gönguljósa á stórar umferðaræðar eins og Miklubraut við Hlíðarnar, Klambratún, Háskólann og Hljómskálagarðinn, ásamt sama á Kringlumýrarbraut við Suðurver og Sæbraut. Merkja, lýsa og mála zebrabrautir á helstu gönguleiðum og setja upp
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 21. og 28. september.Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 28. september:
Af þessum viðauka má sjá hvað mörg verkefni hafa verið vanáætluð. Í fjölmörgum verkefnum og það stórum og fjárfrekum þarf að hækka fjárheimild vegna þess eins og segir að „umfang verkefna á árinu er meira en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir“. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það vera gegnumgangandi vandamál að áætlanir eru óraunhæfar. Svo virðist ekki vera neitt mál að fá hækkun (færa til fjármagn), bara búa til viðauka. Sum atriða í þessum viðauka eru víðtæk og opin og erfitt að ná utan um eins og t.d. að fjárheimild vegna þéttingar byggðar verði hækkuð um 50 m.kr. og verði 100 m.kr. í stað 50 m.kr. Samantekið nemur hækkun á heimildum til fjárfestinga 2.204 m.kr. Á móti nemi samanteknar lækkanir fjárfestinga 2.204 m.kr.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 29. september, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 22. september, skóla- og frístundaráðs frá 25. september, stafræns ráðs frá 27. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. september og velferðarráðs frá 20. september.
Flokkur fólksins lagði til að sálfræðingar og annað fagfólk skólakerfisins komi meira inn í skólana eins og óskað hefur verið eftir ítrekað. Tillögunni var vísað frá með þeim rökum að lausnateymi vinni náið með sérfræðingum að snemmtækum stuðningi við nemendur. En hvað með börnin sjálf? Eiga þau ekki að fá að hitta fagaðilana? Minnt er á tillögur tveggja ungmennaráða, ungmennaráðs Árbæjar og Holta og ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða en báðar tillögur eru um bætt aðgengi að sálfræðiþjónustu í öllum grunnskólum Reykjavíkur. Það er ekki nóg að styðja við starfsfólkið þótt það sé vissulega brýnt. 8. liður fundargerðar stafræns ráðs frá 27. september: Stafrænt ráð hlýtur að verða að forgangsraða nú þegar budda borgarinnar er tóm. Spurningarmerki er sett við tilgang þessa ráðs en það kostar að halda úti ráði. Hvernig er ráðsvinnan að nýtast borgarbúum? Of mikið er búið að eyða og „vesenast“ í þessum málum eins og til sé nægt fé. Stafræn þjónusta við foreldra vegna barna sinna ætti fyrir löngu að vera komnar í loftið. Eftir því er tekið hvað borgin var sein að hoppa á vagn Stafræns Íslands. Borgin er aðeins í samstarfi með þrjár kjarnavörur hjá Stafrænu Íslandi en gæti verið með fleiri.