Borgarstjórn fyrri umræða ársreiknings, bókanir 2. maí 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagður fram að nýju ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2022, ódags., sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. apríl 2023, ásamt fylgigögnum:

Ársreikningar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 hafa verið lagðir fram til fyrri umræðu. Í ljós kemur að fjárhagsstaða A-hluta borgarsjóðs hefur versnað frá fyrra ári. Hallarekstur hefur vaxið og taka verður lán í vaxandi mæli til að fjármagna afborganir lána og fjárfestingar. Minna má á að fyrir ári síðan, í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, var því þráfaldlega haldið fram af hálfu þáverandi meirihluta að rekstur borgarsjóðs stæði styrkum fótum. Nú liggja staðreyndir málsins fyrir svo ekki verður um deilt. Veltufé frá rekstri A-hluta á árinu 2022 er rétt um 400 milljónir en þyrfti að vera nær 14 milljarðar. Lausaskuldir nálgast það að verða hærri en lausafé. Afborganir langtímalána hækka um 44% milli ára. Langtímaskuldir A-hluta borgarsjóðs hafa hækkað um 22% frá síðasta ári. Sérstakt er að málefni fatlaðs fólks séu tekin sérstaklega fyrir og þeim kennt um hallarekstur Reykjavíkurborgar. Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar tóku fullan þátt í samningum um yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks til sveitarfélaganna og bera því ábyrgð á stöðunni. Það verður ekki lengur deilt um að fjárhagur A-hluta borgarsjóðs, kjölfestan í rekstri borgarinnar, nálgast hættustig. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur vakið athygli á stöðunni. Viðbrögð borgarstjóra voru að gera lítið úr störfum eftirlitsnefndarinnar. Það lýsir betur en flest annað skilningsleysi borgarstjórnarmeirihlutans á fjárhagsstöðunni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga borgarstjóra um hækkun hlutafjár Ljósleiðarans ehf., sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum:

Slæm staða Ljósleiðarans hefur legið fyrir hjá Orkuveitu Reykjavíkur frá 2019 og jafnvel fyrr. Félagið er skuldsett og er eiginfjárhlutfall hættulega lágt. Eigendur, að stærstum hluta Reykjavíkurborg, voru ekki upplýstir um slæma stöðu fyrirtækisins þegar hún lá fyrir. Í rýnihópi borgarráðs hafa ýmsar sviðsmyndir verið skoðaðar svo sem hlutafjáraukningu, en engin sviðsmynd er án óvissu og þær krefjast allar frekari skuldsetningar félagsins. Ýmsar aðrar hugmyndir hafa heyrst sem hægt er að vera sammála að hluta. Það er gilt sjónarmið og eitthvað sem fulltrúi Flokks fólksins tekur undir að Reykjavíkurborg á ekki að vera í samkeppnisrekstri. Til eru fyrirtæki sem borgin á og rekur sem vel mætti rökstyðja að ættu að vera í einkarekstri en varla Ljósleiðarinn sem heild. Flokkur fólksins er á þeirri línu að sveitarfélag reki innviði sem snúa að grunnþjónustu við fólk. Flokkur fólksins hefur óttast útboðsgleði borgarinnar í ýmsum málum eins og að bjóða út akstur Strætó. En að vera alfarið á móti útboðum og einkavæðingu er jafn öfgafullt og að vilja einkavæða nánast allt. Vega og meta þarf hvert mál fyrir sig. Mikil leynd hefur ríkt yfir gögnum. Samningar við Sýn verða alltaf leynigagn. Ámælisvert er að slæmri stöðu Ljósleiðarans var haldið frá eigendum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að selja allt hlutafé í Ljósleiðaranum ehf. Andvirði sölunnar verði notað til að að lækka skuldir Orkuveitunnar:

Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að borgarstjórn samþykki að beina því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að selja allt hlutafé í Ljósleiðaranum ehf. Fulltrúi Flokks fólksins telur það varla til hagsbóta fyrir þann sem íhugar að selja að láta vita strax að það eigi að selja hlutinn, hvað sem á gengur. Það veikir samningsstöðuna. Selja á ef það reynist hagstæður kostur, líka fyrir kaupandann, en annars ekki. Hver vill kaupa slæma vöru? Þess vegna er þessi tillaga ekki til framdráttar við að leysa úr slæmri stöðu Ljósleiðaramálsins alls. Væri hér um að ræða fyrirtæki í góðri stöðu myndi öðru máli gegna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19. og 27. apríl, 9. liður fundargerðarinnar frá 27. apríl; nýi Skerjafjörður – 1. áfangi – deiliskipulag. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar frá 27. apríl:

Það er mat hóps sem fenginn var til að meta áhrif byggðar á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar að byggðin muni að óbreyttu þrengja að og skerða nothæfi Reykjavíkurflugvallar vegna breytinga á vindafari. Starfshópurinn telur þó ekki þörf á að hætta við byggingarhugmyndir í nýja Skerjafirði en að fara þurfi í mótvægisaðgerðir. Umhverfis- og skipulagssvið hefur þess utan lagt fram 17 mótvægisaðgerðir vegna vindafars. Það á eftir að koma í ljós hvað mikið fjármagn hefur tapast í alls konar teikniverkefni/verkfræðilega og tæknilega vinnu sem unnin hefur verið og er byggð á eldri uppbyggingaráformum sem ekki er hægt að notast við vegna breytinga sem gera þarf í ljósi mótvægisaðgerðanna. Nú liggur fyrir að hin nýja byggð mun hafa áhrif á flug, byggðin dregur úr nothæfi vallarins því byggðin þrengir að. Ekki verður hægt að nota flugvöllinn eins mikið. Byggðin mun skerða rekstrarskilyrði flugvallarins eitthvað. Öryggishlutfallið er því ekki það sama fyrir vikið. Fulltrúi Flokks fólksins hefur alltaf sagt að bíða ætti með uppbygginguna í ljósi óöryggis við flugvöllinn og óvissu um framtíðarstaðsetningu hans. Samkvæmt samkomulagi milli ríkis og borgar frá 2019 er stefnt að því að ákveða fyrir lok næsta árs hvort flugvöllur verði byggður í Hvassahrauni. Eftir því átti að bíða.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 28. apríl, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 13. apríl, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 21. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 24. apríl, stafræns ráðs frá 12. apríl, umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. og 26. apríl og velferðarráðs frá 26. apríl.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar stafræns ráðs:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis tjáð sig um að nýsköpun á ekki að vera á vegum sveitarfélags. Sveitarfélag á að leggja alla áherslu á að þjóna þegnum sínum. Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur fengið ómælt fjármagn til að leika sér í uppgötvunar-, tilrauna- og þróunarleikjum sem eru hlutverk einkageirans en ekki sveitarfélags. Þjónusta við fólkið hefur liðið fyrir slíkan leikaraskap á vakt þessa og síðasta meirihluta. Hvar eru afurðirnar sem lofað var, hver er afraksturinn? Hvar er t.d. gagnsjáin? Hvern hefði órað fyrir að eftir að hafa horft á eftir á annan tug milljarða renna til málaflokksins að enn þurfi foreldrar að handskrifa 6-7 blaðsíður ef þeir ætla að innrita barn sitt í leikskóla? Áfram heldur þenslan. Nú er þjónustu- og nýsköpunarsvið að auglýsa eftir enn fleira starfsfólki, þróunarstjóra og tæknistjóra stafrænna lausna, í miðjum sparnaðarleiðangri borgarinnar sem þarf að taka lán til að greiða af lánum. Það er skoðun borgarfulltrúa Flokks fólksins að opinn tékki frá meirihlutanum til þjónustu- og nýsköpunarsviðs til að leika sér í tilraunasmiðjum undanfarin ár eigi stóran þátt í þeim fjárhagserfiðleikum sem Reykjavík glímir við núna. Á meðan lengjast biðlistar og líðan barna versnar ef marka má rannsóknir og kannanir.