Borgarstjórn 6. september 2022

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að stimpilklukkan í vinnustund verði lögð niður í grunnskólum Reykjavíkur

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að stimpilklukkan í  vinnustund verði lögð niður í grunnskólum Reykjavíkur í samráði við  Kennarafélag Reykjavíkur. Þannig væri kennurum sýnt traust og komið til móts við sjálfstæð vinnubrögð og sveigjanlegan vinnutíma kennara.

Stimplun í vinnustund  er hvorki  bundið í lög né er í kjarasamningi  kennara. Reykjavíkurborg kom þessu kerfi á í andrúmslofti tortryggni. Tíðarandinn  þá var að allir ættu að vera á vinnustaðnum því annars væri fólk að svíkjast um. Í dag er þessi hugsun gamaldags og alls ekki í anda nútíma starfshátta samanber átak ýmissa stofnana um störf án staðsetningar.

Grunnskólakennarar taka að sér ákveðið verkefni í upphafi hvers skólaárs þ.e. að kenna ákveðnum hópi nemenda. Hlutverk kennarans er að handleiða þennan hóp þannig að árangur nemenda verði sem mestur. Það má líta á verklagið eins og verktöku sérfræðings. Háskóla- framhaldsskólakennarar og aðrir sérfræðingar  þurfa ekki að nota stimpilklukku og því mætti spyrja hvort grunnskólakennurum  sé ekki jafn vel treystandi og öðrum sérfræðistéttum?

Kennarar eyða löngum stundum í að færa inn stimplun í vinnustund.  Fjöldi manns jafnvel kennarar eru í vinnu í skólum borgarinnar  í  einhvers konar bókunar eftirliti með kerfinu. Væri ekki tíma kennara og þessara eftirlitsaðila betur varið í annað  þarfara innan skólakerfisins.

Greinargerð:

Flokkur fólksins vill með þessu að grunnskólakennarar Reykjavíkur fái til baka það traust og  þá virðingu sem þeir nutu um áraraðir.

Líkt og okkur borgarfulltrúum er falið ákveðið verkefni þ.e. að þjóna Reykvíkingum þá er kennurum falið að kenna ákveðnum fjölda barna í ákveðinn fjölda kennslustunda á viku og jafnframt mæta fundi sem eru fjölmargir . Við borgarfulltrúar stimplum okkur ekki inn og út úr vinnunni heldur erum  vakandi og sofandi yfir þessu verkefni sem við tókum að okkur. Kennarar eru stöðugt að hugsa um ábyrgð sína og þurfa enga stimpilklukku til að sinna starfi sínu af alúð.

Mælikvarðinn á árangur kennarans er árangur og hamingja nemendanna en ekki stimpilklukkan. Hún segir ekkert til um árangur og farsæld nemendanna. Kennarar eru ósáttir og auk þess er þetta alls ekki í anda þess að hafa sveigjanlegan vinnutíma. Þetta fyrirkomulag á vinnu grunnskólakennara er hrein vantraustsyfirlýsing á hollustu þeirra við nemendur sína. Grunnskólakennarar sjá ekki tilganginn með þessari stimplun og þetta veldur pirringi og streitu og minnkar starfsánægju.

Það  ætti að treysta grunnskólakennurum til að sinna undirbúningi fyrir kennslu þegar það hentar hverjum og einum kennara. Grunnskólakennarar er stór hópur og það hentar mörgum að klára alla vinnu í skólanum en mjög margir eru þreyttir eftir erilsama kennslu með stóran hóp nemenda og finnst betra að fara heim og undirbúa kennsluna heima. Það er auk þess ekki góð vinnuaðstaða í öllum skólum. Þetta stimpilklukku eftirlit er líka úr takti við nútímann og það sáum við svo glöggt á covid tímum. Kennarar sýndu það svo sannarlega hvað þeir eru  sveigjanlegir og tóku að sér margs konar verkefni við tölvuskjáinn. Það er mikilvægt og krefjandi starf að vera kennari og að binda vinnu á undirbúningi kennslu við  ákveðna staðsetningu og tímaramma  er ekki í takt við nútíma vinnuhætti. Það gagnast alls ekki nemendum né kennurum og er því tímabært að leiðrétta þessa hringavitleysu.

Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Starf kennara er mikilvægt og það að binda vinnu við undirbúning kennslu við ákveðna staðsetningu og tímaramma er úr takti við nútíma vinnuhætti. Undanfarið hafa grunnskólakennarar borgarinnar þurft að stimpla sig inn og út úr vinnu. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu í borgarstjórn um að stimpilklukkan verði lögð niður í grunnskólum Reykjavíkur í samráði við Kennarafélag Reykjavíkur. Þannig væri kennurum sýnt traust og komið til móts við sjálfstæð vinnubrögð og sveigjanlegan vinnutíma kennara. Stimplun í vinnustund er hvorki bundin í lög né er í kjarasamningi kennara. Grunnskólakennarar taka að sér ákveðið verkefni í upphafi hvers skólaárs þ.e. að kenna ákveðnum hópi nemenda. Kennarar eru stór hópur og það hentar sumum að ljúka allri vinnu í skólanum en margir vilja sinna undirbúningi kennslu heima í ró og næði. Þetta stimpilklukkueftirlit með grunnskólakennurum er í andstöðu við nýja tíma og sveigjanlegan vinnutíma. Grunnskólakennarar eyða óþarfa tíma í það að færa inn stimplun í vinnustund. Kennarar sjá ekki tilganginn með þessu eftirliti og veldur það pirringi og minnkar starfsánægju. Mælikvarðinn á árangur kennarans er árangur og hamingja nemendanna en ekki stimpilklukkan. Við viljum að grunnskólakennarar fái til baka það traust og þá virðingu sem þeir nutu um áraraðir.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um samstarfssáttmála Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

Það er margt jákvætt í samstarfssáttmála meirihlutans. Auka á þjónustu við börn með því að innleiða betri borg fyrir börn og farsældarlög með sérstakri áherslu á börn í viðkvæmri stöðu. Það á líka að auka og bæta þjónustu við eldri borgara og aðra viðkvæma hópa sem er vel. Ánægjulegt var að í sáttmálanum segir „við ætlum að vinna gegn fátækt og afleiðingum hennar“. Sporin hræða eftir að hafa fylgst með forgangsröðun fyrri meirihluta. Á síðasta kjörtímabili var háum fjármunum eytt í ónauðsynlega hluti eins og sést í ársskýrslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs fyrir árið 2021, en á árinu komu nokkrir tugir nýrra sérfræðinga til starfa á sviðinu sem náð var í frá einkageiranum með því að yfirbjóða laun. Þeim sem starfa við umönnun og menntun barna svíður þessi forgangsröðun. Leik- og grunnskóli er lögbundin grunnþjónusta sem sveitarfélögum ber að veita. Við í Flokki fólksins munum halda áfram og veita núverandi meirihluta aðhald þar sem við munum alltaf setja þarfir borgarbúa í fyrsta sæti.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um stöðu leikskólamála í Reykjavík:

Ástandið í leikskólamálum borgarinnar er óásættanlegt. Enginn mótmælir því, ekki einu sinni meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Mikil fjölgun hefur verið á umsóknum og má rekja vandann helst til húsnæðisleysis og manneklu. Vandinn hefur aldrei verið eins átakanlegur og nú. Störf í leikskóla eru ekki eftirsótt. Launin eru léleg og álag mikið. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur sem ekki hafa fengið skoðun en ein af þeim er að veita þeim foreldrum sem eru í mestri neyð aðstoð í formi sérstaks styrks á meðan verið er að ljúka framkvæmdum við leikskóla. Hin útfærsla Flokks fólksins er að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur) sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðsluúrræðið mun létta á biðlistum. Það þarf að forgangsraða betur. Á meðan leikskólakennurum er ætlað að vinna í myglu og raka og foreldrum lofað pláss fyrir börn sín í leikskólum sem ekki eru til þá er verið að dekra við önnur svið og málaflokka sem ekki eru eins brýn.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um framtíð Reykjavíkurflugvallar:

Líkur hafa aukist á að flugvöllur í Hvassahrauni verði fyrir tjóni eða truflunum vegna eldsumbrota í nánustu framtíð. Samkvæmt þessu lítur út fyrir að flugvöllur í Hvassahrauni sé úr myndinni sem framtíðar innanlandsflugvöllur. Meðan nýr flugvöllur í stað núverandi flugvallar í Reykjavík hefur ekki verið tekinn í notkun eru allir aðilar sammála um að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni sé miðstöð innanlandsflugs, varaflugvöllur fyrir millilandaflug og kjarninn í sjúkraflugi frá landsbyggðinni. Innviðaráðuneytið telur að ný byggð í Skerjafirði ógni rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar og krefst þess að framkvæmdum verði frestað. Ráðuneytið geti ekki fallist á að framkvæmdir hefjist, nema sýnt sé fram á að flug- og rekstraröryggi sé ekki stefnt í hættu. Mikil vinna og fjármagn hefur verið veitt í skipulagningu á uppbyggingu í Skerjafirði sl. ár. Flokkur fólksins hefur ítrekað bókað um að þetta sé ótímabær vinna vegna óvissu um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Flokkur fólksins var með tillögur um að fresta öllu skipulagi/deiliskipulagi í Skerjafirði en því miður var ekki hlustað á viðvaranir okkar. Það er von okkar og trú að nýr meirihluti hlusti á allar þessar viðvaranir.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Hugsunin að baki þessari tillögu er góð og sannarlega í anda stefnu Flokks fólksins þ.e. að tryggja öllum þak yfir höfuðið og hlúa sérstaklega að þeim sem minna mega sín. En við höfum Félagsbústaði og þá er spurning hvernig þetta spilar saman með sérstöku byggingarfélagi sem rekið er af borginni. Það er vissulega óþolandi biðlisti eftir félagslegu húsnæði. Listinn telur nokkur hundruð manns. Þessum biðlista þarf að eyða. Vandi húsnæðismarkaðarins er slíkur nú að hann teygir sig í alla þjóðfélagshópa nema þá efnamestu. Ástandið kemur verst niður á fátækum sem jafnvel leita skjóls í ósamþykktu og hættulegu húsnæði. Við í Flokki fólksins viljum að tillaga Sósíalista fái góða skoðun hjá sem flestum ráðum. Það þarf vissulega fleiri lausnir í húsnæðismálum og við ættum að vera opin fyrir því sem nágrannar okkar gera í húsnæðismálum.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla:

Flokkur fólksins harmar niðurstöðu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla. Þetta er skelfileg niðurstaða og við henni þarf að bregðast strax. Flokkur fólksins getur ekki stutt arðgreiðslur án eftirlits og skilyrða. Það er algjörlega ólíðandi. Vissulega er það gott að til staðar sé fjölbreytt rekstrarform leikskóla en upplýsingar úr skýrslu innri endurskoðunar skapa tortryggni og vekja upp margar spurningar. Er verið að reka leikskóla til að græða? Við verðum að spyrja okkur að því hvort skattfé Reykvíkinga sé best varið í arðgreiðslur til einkaaðila. Eins og fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar eru gerðar alvarlegar athugasemdir í tengslum við rýni ársreikninga hjá sjálfstætt starfandi leikskólum. Það er hætta á að starfsemin líði fyrir þetta. Tilhneiging gæti verið að spara of mikið til að borga sér arð. Afleiðing er að það hlýtur að bitna á skólastarfinu og þjónustu við börnin. Í skýrslunni kemur fram að engar kvaðir af hálfu Reykjavíkurborgar séu  um arðgreiðslur eða hvernig rekstarafgangur sem rekja má til opinberra framlaga skuli nýttur. Þetta þarf að laga og borgarstjórn verður strax að bregðast við. Setja þarf skýran ramma um rekstur þessara leikskóla með tilheyrandi eftirliti. Setja þarf jafnvel sektarákvæði ef skilyrðum er ekki fylgt.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. september:

Flokkur fólksins kallar eftir betri forgangsröðun með skattfé borgarbúa. Á meðan mörg hundruð leikskólapláss vantar og kennurum er gert að vinna við óboðlegar aðstæður er tugum milljóna eytt í endurbætur á þjónustu- og nýsköpunarsviði í Borgartúni. Þetta má lesa í nýútkominni ársskýrslu sviðsins. Ráðnir hafa verið lögfræðingar úr einkageiranum og starfsfólki sviðsins boðið hlunnindi umfram það sem starfsmönnum borgarinnar er boðið. Allt of mörg stafræn verkefni hafa verið illa skilgreind og mörg eru enn ýmist í þróunar, uppgötvunar- eða tilraunafasa. Byrja hefði átt á lausnum til að einfalda umsóknarferli hjá umhverfis- og skipulagssviði, skóla- og frístundasviði og velferðarsviði í stað lausna eins og mælaborð sundlaugagesta, viðburðar- og sorphirðudagatal, lausnir sem ekki eru brýn. Ákveðinn hluti sem þarna á sér stað er komið úr böndum að mati Flokks fólksins t.d. sú gríðarlega áhersla sviðsins að ætla að „sigra hinn stafræna heim“ á erlendri grund. Áherslan þarf að vera á stafrænar lausnir sem gagnast borgarbúum beint og að velja ávallt hagkvæmustu leiðir í öllum tilvikum. Málaflokkurinn hefur verið fluttur í sérstakt ráð og óttast Flokkur fólksins áframhaldandi aðhaldsleysi og skort á gagnrýnni hugsun meirihlutans.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs 24. ágúst:

Flokkur fólksins hefur lagt til að skóla- og frístundasvið fari í kraftmeiri aðgerðir í leikskólamálum. Þær 6 tillögur sem meirihlutinn lagði fram duga ekki til. Hluti þeirra lýtur að framtíðarlausnum sem hjálpa ekki þeim foreldrum sem núna eru í vandræðum og komast ekki til vinnu af því að það eru ekki til leikskólapláss. Það eru ekki aðeins foreldrar sem ekki komast til vinnu, börnin fá heldur ekki tækifæri til að hitta önnur börn. Horfa þarf út fyrir boxið. Foreldrar geta þegið margs konar aðstoð ýmist í formi styrkja eða sem dæmi að skipta leikskólaplássi milli tveggja barna, allt eftir því sem foreldrar sjá sér hag í. Aðstæður fólks eru mismunandi. Allt er betra en ekki neitt. Finna þarf leiðir til að nýta innviðina og mannauðinn en ekki bara bíða eftir að nýir skólar verði byggðir og að nýtt starfsfólk verði ráðið. Það þarf að vinna hratt og gera betur. Laga þarf innritunarferli leikskóla borgarinnar strax og gera það gagnsærra fyrir foreldra Leikskólinn þarf stöðugleika, hann þarf leikskólakennara, fjölga þarf þeim með öllum ráðum. Óvissan er að sliga foreldra. Upplýsingamiðlun til þeirra þarf að vera betri. Sá vandi sem nú ríkir var fyrirsjáanlegur en samt var ekkert gert í sumar.