Borgarstjórn 7. janúar 2025

Mál Flokks fólksins:

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um stjórnsýsluúttekt á skipulagsferli Álfabakka 2a. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar eða öðrum óháðum aðila að gera stjórnsýsluúttekt á skipulagsferli er varðar Álfabakka 2a, Suður-Mjódd, eða vöruskemmunni.

Greinargerð
Flokkur fólksins telur afar brýnt að samhliða framlagningu tillögunnar að fram fari almenn umræða um þetta mál í borgarstjórn. Málið er grafalvarlegt enda um að ræða eitt mesta skipulagsslys meirihlutans og skipulagsyfirvalda sem munað er eftir.
Kjarni málsins er sá að vöruhús við Álfabakka hefur verið reist fáeinum metrum frá íbúðablokk. Við íbúum blokkarinnar blasir 13 metra hár grænn gluggalaus veggur. Fólk er eðlilega miður sín og spyr sig hvernig svona gat gerst. Engan renndi í grun um að þarna væri verið að byggja svo stórt vöruhús (skemmu) sem lokar fyrir allt útsýni frá þeim íbúðum sem vöruhúsið snýr að. Ræða þarf tildrög þessa máls, hvað fór úrskeiðis og hvernig þetta gat raunverulega gerst. Jafnframt er kallað eftir að ábyrgðaraðilar axli ábyrgð. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill að framkvæmdir séu stöðvaðar nú þegar hafi þær ekki þegar verið stöðvaðar. Hefja þarf vinnu við að finna ásættanlega lausn á þessu máli, lausn sem íbúar geta unað við. Ekki verður liðið að bjóða íbúum upp á að stara á grænan vegg vöruhússins þegar horft er út um stofugluggann. Þess má geta að þegar borgarráð veitti heimildir fyrir uppbyggingunni (heimild til að selja byggingarrétt og leggja á gatnagerðargjöld fyrir Álfabakka 2a) þann 15. júní 2023 lá skýrt fyrir í gögnum málsins að um þjónustu- og verslunarlóð væri að ræða. Reykjavíkurborg, umhverfis- og skipulagsráð og formaður ráðsins á þessum tíma bera fulla ábyrgð á að hafa veitt alltof rúmar byggingarheimildir og þegar sjá mátti hvert stefndi var ekki nóg gert til að sporna við þessu mikla skipulagsslysi. Beita hefði þurft öllum ráðum til að stöðva þessa óheillaframkvæmd.

Í tillögunni sem hér er lögð fram felst að gerð verði ítarleg stjórnsýsluúttekt hið snarasta á þessu máli öllu. Í úttektinni skal skoða:
1. Feril ákvarðana í málinu
2. Tímalínu málsins, frá upphafi
3. Regluverk og framkvæmd þess, með áherslu á hvort farið hafi verið eftir gildandi lögum og reglum
4. Eftirlitsferla, með sérstakri áherslu á hvernig staðið var að eftirliti við byggingu vöruhússins
5. Athugsemdir íbúa og hvernig unnið var úr þeim athugasemdum

Jafnframt er þess óskað að innri endurskoðun eða öðrum óháðum aðila sem fenginn er til verksins verði falið að leggja mat á með hvaða hætti er hægt að breyta vöruskemmunni þannig að íbúar þeirra íbúða sem snúa að henni fái útsýni sem vöruskemman byrgir nú alfarið. Í tillögunni felst auk þess að úttektinni skuli fylgt eftir með virku eftirliti, sem byggir á niðurstöðum hennar, til að stuðla að nauðsynlegum umbótum og auknu trausti á skipulagsferlum borgarinnar. Mikilvægt er að öllum steinum verði velt við til að greina veikleika í stjórnsýslunni og tryggja að slík mistök endurtaki sig ekki í framtíðinni.

Tillaga þessi var áður lögð fram af Flokki fólksins og Sjálfstæðisflokki á fundi borgarstjórnar 17. desember 2024 og var þá óskað eftir að hún yrði tekin á dagskrá með afbrigðum. Því hafnaði meirihlutinn. Tillaga um afbrigði var felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Vinstri grænna sat hjá við afgreiðslu málsins.

Bókun Flokks fólksins undir þessum lið:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar eða öðrum óháðum aðila að gera stjórnsýsluúttekt á skipulagsferli er varðar Álfabakka 2a, Suður-Mjódd, eða vöruskemmunni. Málið er grafalvarlegt enda um að ræða eitt mesta skipulagsslys meirihlutans og skipulagsyfirvalda sem munað er eftir. Það sem skiptir mestu máli nú er að framkvæmdir verði stöðvaðar til að lágmarka skaðann.  Hefja þarf vinnu við að finna ásættanlega lausn á þessu máli, lausn sem íbúar geta unað við. Ákall er um að skemman verði rifin. Því fyrr sem framkvæmdir eru stöðvaðar því minna þurfa skattgreiðendur að borga í skaðabætur og niðurrifsvinnu. Nóg er nú samt. Íbúar þeirra íbúða sem snúa að skemmunni verða að fá birtuna aftur inn um gluggana og fá útsýnið sitt aftur sem vöruskemman byrgir nú alfarið. Nágrennið allt er í hershöndum vegna þessarar framkvæmdar. Ábyrgðin er skipulagsyfirvalda og meirihlutans en samt virðast þau ekki vera að beita sér af krafti í  að stöðva þessa framkvæmd og einblína á lausn. Sú lausn getur varla verið önnur en að rífa skemmuna að hluta til eða alla. Eitthvað hálfkák s.s. að setja 1-2 glugga mun varla vera samþykkt sem alvöru lausn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum um tillögu um stjórnsýsluúttekt:

Vöruhúsið í Álfabakka hefur margar hliðar. Það er ekki aðeins hörmulegt fyrir þá sem búa í blokkinni sem snýr að vöruskemmunni heldur öll nærliggjandi hús. Öll húsin í Árskógum eru byggingar fyrir 60 ára og eldri og sækja margir íbúanna þjónustu og félagsstarf í þjónustumiðstöð í Árskógum 4 en til þess þurfa íbúar að fara yfir götu. Í Árskógum 2 er hjúkrunarheimilið Skógarbær, þar býr fólk með göngugrindur, stuðningsstafi eða í hjólastólum. Í Búsetablokkinni sem fer verst út úr þessu er íbúakjarni fyrir fatlað fólk. Bak við húsin og við skemmuferlíkið er íþróttavöllur fyrir börnin í hverfinu. Þau fara því oft yfir götuna til að komast þangað. Umferð stórra vöruflutningabíla er óæskileg og beinlínis hættuleg innan um fullorðið fólk með skerta hreyfigetu og þar sem börn eru á ferð. Áhyggjur eru vegna umferðar stórra vöruflutningabíla til og frá skemmunni. Gatan er lítil og slysahætta mikil. Hópurinn sem býr þarna er einstaklega viðkvæmur fyrir slíku ónæði. Þar sem vöruskemman stendur var aðalgönguleið íbúanna. Áður voru þarna bekkir þar sem fólk gat sest og hvílt sig. Þessi ráðstöfun felur því í sér stórlega skert lífsgæði fyrir íbúana í Árskógum. Aðrar leiðir eru ekki í boði vegna umferðar í Mjódd eða umferðar á götunum í kring.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga Sjálfstæðisflokksins um fjölbreyttara rekstrarform leikskóla og daggæslu í Reykjavík

Flokkur fólksins er mótfallinn því að fyrirtækjaleikskólar verði eingöngu í boði fyrir börn starfsmanna. Það getur aukið stéttaskiptingu og mismunun milli fólks sérstaklega í þeim fyrirtækjum sem eru með menntað mið- og hátekjufólk hjá sér sem geta boðið upp á þessa þjónustu og geta þá líka boðið leikskólakennurum hærri laun. Ef opnað verður fyrir þennan möguleika þá gæti það leitt til þess að það verði erfiðara fyrir „opinbera“ leikskóla að fá góða kennara eða starfsfólk yfirhöfuð. Það yrði snöggtum betra ef fyrirtækjaleikskóla ef kalla má svo sé gert að taka við börnum án tillits til þess hvort foreldrar þeirra starfi hjá fyrirtækinu, t.d. börnum í hverfinu eða nærliggjandi hverfi. Best væri auðvitað að borgarmeirihlutinn hysjaði upp um sig buxurnar og setti málefni barna í algeran forgang þ.m.t. að ljúka við að brúa bilið og gera það með reisn þannig að það sé til pláss fyrir öll börn á leikskóla. Allir eiga að sitja við sama borð varðandi leikskólapláss. Mannekluvandinn verður leystur með því að gera fleirum kleift að ljúka leikskólakennaranámi og setja í launakerfið ýmsa hvata sem laðar að starfsmenn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um skaðsemi þess að stórfyrirtæki reki leikskóla.

Það hefur verið talsvert rætt og skrifað um ólík rekstrarform leikskóla og daggæslu í Reykjavík þegar sú frétt barst að lyfjafyrirtækið Alvogen og Arion banki munu fá að opna leikskóla fyrir börn í borginni á næstunni. Fyrir þessum hugmyndum hefur Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, meðal annars talað sem ekki kemur á óvart þar sem leikskólaúrræði skortir í Reykjavík. Margar áleitnar spurningar vakna þegar svona umræða fer af stað. Flokki fólksins sem berst fyrir jöfnuði og að börn og fjölskyldur sitji við sama borð finnst skipta máli að ef slíkur leikskóli sé settur á laggirnar verði hann einnig fyrir önnur börn en börn starfsmanna, t.d. börn í hverfinu og nærliggjandi hverfi við fyrirtækið. Leikskólinn þarf að vera undir sömu skilyrðum, reglugerðum og eftirliti og aðrir leikskólar. Sé um að ræða leikskóla aðeins fyrir börn starfsmanna er hætta á ójöfnuði. Líklegt má telja að starfsfólk fyrirtækjaleikskóla fái hærri laun og því munu þessir leikskólar laða til sín menntaða kennara. Hingað til hefur verið sátt innan samfélagsins um að leikskólarnir séu byggðir á samfélagslegum grunni líkt og grunnskólarnir. Áherslu þarf að leggja á að gera leikskólakennaranám og starf í leikskólum eftirsóknarverðara til að fjölga menntuðum leikskólakennurum og leysa þannig mannekluvandann í borginni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 19. desember sl.

  1. liður fundargerðarinnar, Veðurstofureitur, deiliskipulag, er samþykktur með 16 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS24010001

Hér er mikið byggingarmagn, allt að 300 íbúðir. Fækka á bílastæðum. Fjöldi athugasemda hefur borist, þar með talið frá Heilbrigðiseftirliti. Áhyggjur eru af aðgengi og miklum þrengslum. Hvað með skuggavarp, liggur ljóst fyrir að þarna leynist ekki einhver myrkrakompa? Gleðjast má yfir því að þriðjungur byggingarmagns fari til Bjargs íbúðafélags. Fram kemur í kynningu skipulagsyfirvalda að búið sé að vinna málið vel og því megi treysta að ekkert eigi eftir að koma á óvart. Flokkur fólksins vonar að það sé rétt. Mikið virðist vanta upp á að bílastæðamál séu leyst með fullnægjandi hætti í fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu. Hætt er við að íbúar hverfisins leitist við að leggja bifreiðum sínum í Stigahlíð og öðrum nærliggjandi götum verði bílastæðamál ekki leyst með fullnægjandi hætti. Það gæti leitt til þess að umferðarþungi í næstu götum aukist til muna með óæskilegum afleiðingum. Tekið er undir áhyggjur Veðurstofunnar um að ekki sé nægilegt tillit tekið til starfsemi hennar í deiliskipulagstillögunni. Huga þarf að innviðum þegar um er að ræða svo mikla fjölgun íbúa á þéttingarreitum. Nú anna skólar hverfisins ekki eftirspurn og íþróttaaðstaða mætti vera betri. Fjölga þarf rýmum verulega í leikskólum og grunnskólum hverfisins vegna hinnar miklu uppbyggingar sem fyrirhuguð er á Veðurstofureit og Kringlureit.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 3. janúar 2025, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 13. desember 2024, stafræns ráðs frá 11. desember 2024 og umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. desember 2024. MSS25010033. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar stafræns ráðs:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst óþolandi hvað gengur hægt að koma í loftið lausnum sem lúta að þjónustu við börn. Enn þann dag í dag eru umsóknir, beiðnir og samningar sem tengjast dagforeldra starfsstéttinni á pappír. Þetta veldur óáreiðanleika gagna Reykjavíkurborgar og skilar sér í lengri boðleiðum. Það þarf að koma á koppinn lausnum sem bæta þjónustu við forsjáraðila barna, t.d. gera umsóknir aðgengilegar á stafrænu formi og að forsjáraðilar geti óskað eftir niðurgreiðslu rafrænt. Á meðan þetta gengur á hraða snigilsins og þ.m.t. skólalausnin Búi þá er eins og allt púður fari í óþarfa, allavega ekki knýjandi verkefni akkúrat núna. Hér má nefna Great Place to Work vottun til að sýna fram á að þjónustu- og nýsköpunarsvið sé góður vinnustaður. Þetta kallar á árlega úttekt sem kostar tíma og fé. Reykjavíkurborg gerir árlega ítarlegar starfsánægjukannanir sem sýna þróun á vinnustað sem ættu að duga þjónustu- og nýsköpunarsviði eins og öðrum sviðum meðan svo brýn stór og verkefni bíða á sviðinu. Leggja þarf áherslu á aðalatriðin og hætta að eyða fjármagni i óþarfa. Það er komið nóg af eyðslu á þessu sviði. Milljarðar hafi fokið út í vindinn sem ekki er hægt að sjá að skili árangri.