Borgarráð 15. júní 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, 8. júní 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. júní 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Grundarhverfis á Kjalarnesi:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur áherslu á fullnægjandi samráð við íbúa Kjalarness. Það er sérlega mikilvægt þegar umfangsmikil uppbygging er að fara að eiga sér stað.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. apríl 2023, sbr. afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. apríl 2023 á skýrslu um endurskoðun vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt áherslu á að snjóhreinsun í húsagötum verði stórbætt og að ekki sé rutt upp á gangstéttir, göngustíga eða fyrir innkeyrslur/innganga fólks í híbýli sín. Ljóst er að aukin og betri vetrarþjónusta hefur í för með sér aukinn kostnað. Fyrir borgarráði liggur umsögn skrifstofu fjármála- og áhættustýringar sem hefur kostnaðarmetið tillögur stýrihóps um vetrarþjónustu. Einn hæsti kostnaðarliðurinn, 50 milljónir er „eftirlit með vetrarþjónustu“ sem lagt er til að verði stóreflt. Ráða á starfsmenn í eftirlit með vetrarþjónustu til að tryggja framkvæmd hennar, fylgjast með verklagi og framgangi og tryggja að hún skili fullnægjandi þjónustu. Kostnaður við þennan þátt er vissulega hár en vera kann að svo mikið eftirlit sé ekki nauðsynlegt til frambúðar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júní 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðbótarfjárheimild vegna launakostnaðar nemenda Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að hlúa að vinnuskólanum að öllu leyti. Vinnuskólinn þjónar mikilvægu hlutverki. Meginhlutverk Vinnuskólans er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg sumarstörf, fræðslu og tækifæri til að starfa við fjölbreytt verkefni sem flest snúa að garðyrkju og umhirðu í borginni. Laun í Vinnuskólanum þurfa að vera vísitölutengd enda ekki annað sanngjarnt. Nú ríkir blússandi verðbólga. Skoða átti launamál nemenda skólans áður er skólinn hófst en þau hafa ekki hækkað í samræmi við aðrar launahækkanir. Laun þessa hóps eiga að lúta almennum verð- og kjarabótum eins og laun annarra í samfélaginu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. júní 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að framlengja tímabundið útrunna lóðarleigusamninga vegna Ártúnshöfða, ásamt fylgiskjölum:

Eins og skipulagið lítur út núna varðandi endurnýjun lóðaleigusamninga virkar þetta sem hálfgert bútasaumsteppi. Líklega liggja að baki þessum ákvörðunum djúpar „pælingar.“ Umfram allt skiptir máli að mati fulltrúa Flokks fólksins að lóðaleiguhafar hafi rými og tíma til að skipuleggja sig í samræmi við samninga og séu vel upplýstir. Á Ártúnshöfða er rekin mikilvæg þjónusta.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 9. júní 2023, varðandi stjórnsýsluúttekt á viðhaldsstjórnun fasteigna Reykjavíkurborgar:

Ljóst er við lestur skýrslunnar sem hér er lögð fram að viðhaldsstjórnun má bæta og eru gerðar tillögur um það. Umsýslu með fasteignum (eignastjórnun) A-hluta Reykjavíkurborgar er skipt upp milli fjármála- og áhættustýringarsviðs (eignaskrifstofa) og umhverfis- og skipulagssviðs. Það er óheppilegt og eru nefnd mörg dæmi um galla þess kerfis. Borgarráð/borgarstjórn, sem útdeilir fjármunum til viðhalds, hefur ekki haft fullnægjandi forsendur til að taka upplýstar ákvarðanir um fjármagn til viðhalds. Bent er á að bæta má skipulagið, endurskoða þarf stjórnskipulag sem styður við skilvirka eigna- og viðhaldsstjórnun hjá Reykjavíkurborg og draga úr hættu á að skipting ábyrgðar milli leigusala og leigutaka leiði til aukins viðhalds og meiri viðhaldskostnaðar. Þessi skýrsla sýnir að mikið verk er hér óunnið. Fram hefur komið áður að viðhaldi á mörgum byggingum borgarinnar var of lítið sinnt og það rökstutt með ýmsum atriðum, svo sem vegna áherslubreytingar í COVID-aðstæðum. Vanræksla viðhalds húsa nær aftur um fjöldamörg ár. En hér sést að viðhald húsa er viðvarandi vandamál sem hafa þarf góða stjórn á ef einhvern tíma á að ná meira utan um það.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki tillögur að úrræðum vegna dagforeldramála í hjálögðu minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. júní 2023.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst að hækkun niðurgreiðslu með hverju barni eigi að miðast við 12 mánaða þegar að fæðingarorlofi lýkur. Búið var að lofa börnum frá 12 mánaða aldri leikskólaplássi í Reykjavík. Að setja þak á niðurgreiðslu barna eldri en 18 mánaða þýðir að dagforeldrar þurfa að lækka gjaldið. Það gæti orðið til þess að börnum verði frekar sagt upp við 18 mánaða. Eins er sanngirnisatriði að stofnstyrkur greiðist til allra dagforeldra sem skrifa undir þjónustusamning við borgina burtséð frá starfsaldri. Að sniðganga starfandi dagforeldra veldur aðeins óánægju innan stéttarinnar og eykur brottfall þeirra. Margir dagforeldrar hafa lagt óheyrilegan kostnað til að halda starfinu gangandi eins og t.d. í COVID. Hlúa þarf að þeim sem starfað hafa sem dagforeldrar árum saman. Ef litið er til húsaleigu ætti hún að vera jöfn á alla dagforeldra, sama upphæð per fermetra. Sem dæmi, þá er gæsluvöllur í Breiðholti leigður út á um 60 þúsund krónur en minni gæsluvöllur í Vesturbæ á um 220 þúsund krónur. Skoða ætti í alvöru að húsaleiga greiddist aðeins 11 mánuði á ári vegna 4 vikna leyfis. Skynsamlegt væri að frysta húsaleigu um nokkurn tíma enda hækkar leiga hratt vegna skorts á framboði á húsnæði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki tillögur vegna ráðninga í leikskóla Reykjavíkurborgar í hjálögðu minnisblaði sviðstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs:

Löngu tímabært er að taka á alvöru á mönnunarvanda leikskólanna. Þetta vandamál hefur verið árum saman og lagt þungar byrðar á foreldra og starfsmenn. Segir í minnisblaðinu sem hér er lagt fram að margar leiðir hafi verið farnar til að laða að umsækjendur til starfa á leikskólum Reykjavíkur. En hvaða leiðir eru það og af hverju hafa þær ekki skilað árangri? Á það er ekkert minnst. Fulltrúi Flokks fólksins hefur sent inn tugi bókana um mannekluvandann sem og tillögur og fyrirspurnir hvort ekki eigi að fara að bretta upp ermar. Vandann má rekja að mestu til tveggja þátta, lágra launa og álags í starfi en aðstæður í sumum leikskólum eru bágbornar. Þrengsli eru víða og ekki bætti úr skák þegar hvert myglu- og rakamálið rak annað. Lítið er í rauninni komið inn á þessa þætti í tillögunum sem hér eru lagðar fram. Ein tillagan er að ráða mannauðsstjóra, nýtt stöðugildi. Þetta skýtur skökku við þegar ekki hefur verið til fjármagn til að bæta kjör leikskólastarfsfólks. Afleysingastofa hefur verið virk um nokkurt skeið og að sjálfsögðu hefði átt að nýta hana frá byrjun. Það hefði létt mikið á leikskólastjórum að þurfa ekki að sinna því hlutverki.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 12. júní 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 7. júní 2023 á tillögu um breytingu á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð:

Því er fagnað að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafi ákveðið að fjölga NPA samningum um 56 og framlengja innleiðingartímabilið út árið 2024. Það er leitt að enn skuli vera settar fjöldatakmarkanir af hálfu ríkisins á þjónustu sem skilgreind er í lögum sem réttindi. Fjölmörgum er haldið í óþolandi óvissu. Fái þessi þjónusta sveitarfélaganna ekki fulla fjármögnun er nokkuð ljóst að erfitt reynist að byggja hana frekar upp og fjölga samningum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 12. júní 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 7. júní 2023 á tillögu um nýjar reglur um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar.

Í umsögn aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks var tekið jákvætt í breytingarnar og þær taldar vera til góðs enda yrðu reglurnar skýrari og umsóknarferlið einfaldara. Flokkur fólksins tekur undir gagnrýni eða ábendingu sem fram kom á fundi öldungaráðs þann 12. apríl 2023 um að tvívegis þurfi að skila inn tilteknum gögnum, annars vegar þegar sótt er um P-kort hjá sýslumanni og svo aftur þegar sótt er um sérmerkt bílastæði fyrir fólk með hreyfihömlun. Vonandi verður ráðin bót á þessu hið fyrsta. Velferðarsvið getur haft frumkvæði að samtali við sýslumann um að einfalda gagnaöflun eins og gert hefur verið í öðrum málum. Flokkur fólksins fagnar því að gert sé ráð fyrir samráði við aðgengisfulltrúa Reykjavíkurborgar. Það vekur von um að ráðið verði í það embætti fljótlega.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 8. júní 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjölda þeirra sem eru í vanskilum við Reykjavíkurborg:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að hugsa til þess að smáar sem stórar skuldir fólks sem á ekki mikið milli handanna séu sendar í innheimtu hjá lögfræðifyrirtækjum. Á vanskilalista leikskólanna eru 63 mál í löginnheimtu og 428 gjalddaga í svokallaðri milliinnheimtu. Á vanskilalista frístundaheimilanna eru 16 mál í löginnheimtu og 736 gjalddaga í milliinnheimtu. Þetta þýðir að viðkomandi getur ekki fengið þjónustu sé hann ekki þá þegar með þjónustu. Sé hann í þjónustu er honum meinuð hún ef liðnir eru 110 dagar eða meira frá gjalddaga skuldar. Hér erum við að tala um börn sem eru þjónustuþegar. Börnum fátækra foreldra er þannig eins konar refsað fyrir fátækt foreldra sinna. Þetta er ólíðandi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að ekki eigi að meina börnum þjónustu þótt foreldrar geti ekki greitt fyrir hana. Það leikur sér engin að því að skulda og með því að setja skuldina í innheimtu lögfræðinga verður enn erfiðara að greiða hana.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um minnisblað borgarlögmanns varðandi gjaldtöku í bílastæðahúsum, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. júlí 2022. Einnig lögð fram umsögn borgarlögmanns:

Flokkur fólksins lagði til að minnisblað borgarlögmanns, þar sem fram kemur sú niðurstaða hans að Bílastæðasjóði hafi verið óheimilt að taka gjald af handhöfum P-korta, verði gert opinbert almenningi. Tillögunni er vísað frá af meirihlutanum. Það er aldrei góður bragur á því þegar gögnum er haldið leyndum hjá borginni og er þá ekki átt við gögn sem fela í sér trúnaðarupplýsingar um einstaklinga eða viðkvæma fjármálaupplýsingar. Síðasti og þessi meirihluti hefur í orði lagt áherslu á gegnsæi en þarf einnig að gera það á borði. Kannski var minnisblaðinu haldið leyndu vegna afgerandi afstöðu borgarlögmanns í málinu um að óheimilt sé að taka gjald af öryrkjum með stæðiskort þegar ekki á að gera það. Þannig var búið að takmarka þau réttindi sem handhafar stæðiskorta njóta. Málið hefur verið leiðrétt en þó ekki afturvirkt.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins. Umsögn borgarlögmanns. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðhorfskönnun í Laugardal um þjóðarhöll, sbr. 36. liður fundargerðar borgarráðs frá 11. maí 2023.

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg kanni viðhorf meðal íbúa og skólasamfélagsins í Laugardal til Þjóðarhallar. Tillögunni er vísað frá af meirihlutanum Áhyggjur eru af því íþróttafélögin og skólarnir verða áfram víkjandi notendur húsanna sem er óásættanlegt fyrir samfélagið í Laugardal þegar Þjóðarhöll er risin í Laugardal. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að foreldrar og börn fái rödd í þessu máli. Það mun verða þeim mikið áfall ef sérsambönd og útleiga verði í forgangi í aðstöðunni en börnin í Laugadal sett aftar í forgangsröðuninni. Búið er að lofa ítrekað að aðstaðan fyrir íþróttafélög og skólana í Laugardal verði færð í ásættanlegt horf til framtíðar. Íþróttafélögin hafa sama og ekkert fengið að koma að undirbúningsvinnunni, aðeins fengið stutt samtal við undirnefnd framkvæmdanefndarinnar (líklega kölluð ráðgjafanefnd í svarinu). Forsvarsfólk íþróttafélaganna virðist vera úti í kuldanum í þessari vinnu þótt öðru sé haldið fram. Kalla þarf fram viðhorf íbúa, foreldra og barnanna í Laugardal áður en lengra er haldið í skipulagningu á notkun.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 8. júní 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst það alltaf jafn hjákátlegt að lesa greinargerð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur við afgreiðslu umsóknar skóla um undanþágu fyrir heimsóknir hunda í skólann. Að þessu sinni kemur umsókn frá Brúarskóla. Skilyrðin fyrir stuttum heimsóknum hunda í skólann eru ævintýraleg. Meðal skilyrða er t.d. sérstök leið fyrir hundinn út og inn, stofan þrifin hátt og lágt eftir heimsóknina og sérstakar ráðstafanir vegna öryggismála. Heilbrigðiseftirlitið ætti að beita sér fyrir breyttri reglugerð og í það minnsta endurskoða orðalag sitt í greinargerð sem þessari. Öll vitum við hvað hundar gera mikið fyrir mannfólkið og ekki síst börnin.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 5. júní 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur heilshugar undir bókun íbúaráðs Grafarvogs vegna nýs flokkunarkerfis. Bókunin lítur m.a. að aðgengi að ólíkum sorptunnum sem auðveldar íbúum Grafarvogs að flokka heima hjá sér. Þannig þarf það að vera í öllum hverfum, gott aðgengi. Flokki fólksins er einnig umhugað að öllum sé gert kleift að flokka og koma sorpi í réttar tunnur án tillits til líkamlegs atgervis. Finna þarf leiðir og fjarlægja hindranir þar sem þær eru. Tekið er undir mikilvægi gagnkvæms trausts í þessu sambandi milli íbúa og borgaryfirvalda. Eins og segir í bókuninni: „Eftir að innleiðingarferli lýkur verða íbúar að geta treyst því að allt ferlið sé skipulagt og unnið samkvæmt gildandi lögum um meðhöndlun úrgangs sem tóku gildi 1. janúar 2023.“

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 5. og 19. maí 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 5. maí:

Miklar áhyggjur eru af þessum málum í ljósi vaxandi húsnæðisskorts í borginni. Fyrir liggja umsagnir SHS, ASÍ og Grímsnes- og Grafningshrepps um tillögur starfshóps um úrbætur á brunavörnum í atvinnuhúsnæði þar sem fólk hefur búsetu. Tekið er undir fjölmargt í athugasemdum s.s. að leita þurfi leiða til að takmarka óeðlilega fjöldaskráningu í húsnæði með eða án heimildar eigenda. Formfesta þarf mögulega búsetu í atvinnuhúsnæði eins og segir í umsögn SHS. Einnig að hægt sé að skrá tímabundið aðsetur í atvinnuhúsnæði en núverandi löggjöf býður aðeins upp á að skrá lögheimili í íbúðarhúsnæði eða vera ótilgreindur í hús í sveitarfélagi. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að þessar umsagnir og alvarleg staða þessara mála verði til þess að breytingar verði á reglum um skráningu lögheimilis. Fyrir ári bókaði fulltrúi Flokks fólksins í tengslum við skýrslu starfshóps á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, ASÍ og SHS sem vann að kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu undir formerkjum átaksins „Örugg búseta fyrir alla“. Í henni kom fram að 1.868 einstaklingar bjuggu þá í atvinnuhúsnæði og þar af voru nítján börn. Áhyggjur beinast að því að aðeins helmingur bjó í húsnæði með ásættanlegum brunavörnum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. júní 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 15. lið fundargerðarinnar:

Flokkur fólksins spurði um hvort fylgst sé með aksturslagi strætóbílstjóra. Spurt var vegna þess að „farþegar“ hafa haft samband og sagt frá tilfellum glæfraaksturs sem lán var að olli ekki meiðslum farþega. Fram kemur í svari að í grunn- og nýliðaþjálfun vagnstjóra sé aksturslag og mikilvægi þjónustulundar ítarlega rætt við vagnstjóra. Flestir vagnstjórar sýna farþegum án efa kurteisi og þjónustulund en komi hins vegar kvörtun þarf Strætó að bregðast strax við og setja sig í samband við hlutaðeiganda. Ef fólk er hunsað með kvörtun leita mál gjarnan á samfélagsmiðla og í fréttir sem verður til þess að öll stéttin verður kannski dæmd. Spurt var einnig um tölfræði kvartana. Leitt er að sjá að fjöldi kvartana vegna aksturslags hefur aukist frá því fyrir COVID. Árið 2018 voru þær 317 en árið 2022 voru þær komnar í 352. Kvörtunum vegna framkomu hefur fjölgað mikið en árið 2918 voru þær 321 en árið 2022 hafði þeim fjölgað í 560. Hér er sterk vísbending um að eitthvað sé ekki í lagi.