Borgarstjórn, fyrri umræða Fjárhagsáætlunar 2023 bókanir og breytingatillögur Flokks fólksins

Breytingatillögur Flokks fólksins og bókanir:

BORGARRÁÐ 28. október 2022: Breytingartillögur Flokks fólksins (F) við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 – FAS22010020

F-1 Breytingartillaga Flokks fólksins vegna viðmiðunartekna til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega.

Lagt er til að viðmiðunartekjur tillögunar verði eftirfarandi:

  1. Réttur til 100% lækkunar

Einstaklingur með tekjur allt að 5.040.000 kr.

Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 7.030.000 kr.

 

  1. Réttur til 80% lækkunar

Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.040.001 til 5.770.000 kr.

Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 7.030.001 til 7.780.000 kr.

 

III. Réttur til 50% lækkunar

Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.770.001 til 6.710.000 kr.

Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 7.780.001 til 9.310.000 kr.

Áætlað er að útgjaldaauki nemi 10.000 þ.kr. sem fjármagnað verði af liðnum ófyrirséð.

Greinargerð:

Tillaga borgarstjóra vísar til hækkana á bótum almannatrygginga. réttindum og borið saman við þróun réttinda almannatrygginga er ljóst að þessi hækkun samrýmist slíku verklagi. Hins vegar er spurning hvort ekki sé tilefni til frekari hækkunar vegna þess að verðbólga yfirstandandi árs verður meiri en samkvæmt þeim spám sem stjórnvöld studdust við þegar fjárhæðir almannatrygginga voru hækkaðar.

Bætur almannatrygginga hækkuðu síðustu áramót um 0,8% vegna vanmats á verðbólgu í fjárlögum ársins 2021, og 3,8% vegna áætlaðra meðaltaxtahækkana, en gert var ráð fyrir 4,4% verðbólgu. Þá ákvað ríkisstjórnin að hækka bætur almannatrygginga vegna örorku sérstaklega um 1%. Auk þess hækkuðu bæturnar heilt yfir um 3% um mitt árið. Sé ekki litið til 0,8% hækkunarinnar hefur lífeyrir almannatrygginga aðeins hækkað um 7% vegna áætlana um þróun verðlags á yfirstandandi ári. Vísitala neysluverðs hefur þegar hækkað um 8% það sem af er ári og ekkert lát er á þeirri þróun. Að öllum líkindum verður vísitala ársins nær 10%. Borgin getur stuðst við nýrri tölur en ríkið, þar sem hækkanir ríkisins fóru fram annars vegar á grundvelli hagspár sem gefin var út fyrir áramót og hins vegar á grundvelli hagspár sem kom út í vor.

Réttast væri að styðjast við nýjustu hagspár og hækka viðmiðin um sem því nemur, en fyrst er nauðsynlegt að hækka viðmiðin um vanreiknaða verðbólgu síðasta árs. Því ætti tekjuviðmiðið að hækka fyrst, um 0,8% vegna vanreiknaðrar verðbólgu árið 2021 og svo um 1% vegna hækkunar á örorkulífeyri almannatrygginga (sem tillaga borgarstjóra virðist einnig gera ráð fyrir) og 8,8% samkvæmt nýjustu þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands. Samanlagt er það hækkun um 10,7%.

 

F-2 Breytingartillaga Flokks fólksins um að frysta gjaldskrárhækkanir er varða vetrarstarf frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva um eitt ár

Í ljósi þess að nú er blússandi verðbólga leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins það til að fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir sem lúta að vetrarstarfi frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva verði frystar í að minnsta kosti eitt ár. Einnig er lagt til að frysta allar gjaldskrárhækkanir fyrir sumarstarf frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva í alla vega eitt ár. Áætlað er að tekjulækkun Skóla- og frístundasviðs nemi 26.400 þ.kr. sem fjármagnað verði af liðnum ófyrirséð.

Greinargerð:

Hækkanir þessar sem lagðar eru til af meirihlutanum eru aðeins til þess fallnar að viðhalda allt of hárri verðbólgu og hindra að efnaminna fólki geti leyft börnum sínum að taka þátt í starfi frístundaheimila. Verðbólga nú er um 8.8% og er spáð að hún verði þrálát fram til 2026. Hagvöxtur hefur minnkað. Ástandið kemur illa niður á fátæku fólki sem hefur fjölgað. Ójöfnuður hefur aukist í Reykjavík. Gjaldskrárhækkanir meirihlutans sem hér eru lagðar til mun gera fátt annað en að viðhalda sama ástandi lengur en ella þyrfti.

 

F-3 Breytingartillaga Flokks fólksins um að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjalds af hundaeigendum enda ósanngjarn skattur á eigendur hunda á meðan aðrir gæludýraeigendur greiða engan skatt/gjöld fyrir dýr sín.

Tillagan felur í sér að fjárheimildir umhverfis- og skipulagssviðs verði hækkaðar um 33.300 þ.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Greinargerð:

Flutningur þessa málaflokk hefur nú færst frá heilbrigðiseftirliti borgarinnar yfir til Íþrótta- og tómstundasviðs. Reykjavíkurborg hefur ákveðið að áfram skuli innheimt  skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum þrátt fyrir að verkefnum sem tengjast hundum sérstaklega hafi fækkað.

F-4 Breytingartillaga Flokks fólksins um að gjaldskrá Árbæjarsafns verði breytt

Lagt er til að unglingar milli 17 og 18 ára fái frían aðgang að Árbæjarsafni eins og börn frá 0 til 17 ára. Lagt er til að nemendur með gilt skólaskírteini fái ókeypis aðgang en nú greiða þeir 1.200 kr. Lagt er til að hjón/pör sem heimsækja safnið með barn/börn greiði aðeins gjald fyrir annað foreldrið. Menningar- og ferðamálasviði verði falið að kostnaðarmeta áhrif tillögunnar sem verði fjármagnað af liðnum ófyrirséð við síðari umræðu í borgarstjórn.

Greinargerð:

Ef foreldrar koma með barn/börn er kostnaður 3.900 krónur og sé með þeim barn sem orðið er 18 ára greiðir fjölskyldan kr. 5.850.

Þetta er umtalsverð upphæð sem allmargar fjölskyldur hafa ekki efni á að greiða og geta þar af leiðandi ekki heimsótt  safnið. Þess utan eru allar veitingar seldar á uppsprengdu verði. Í raun má segja að Árbæjarsafn sé aðeins fyrir efnameira fólk. Þessu þarf að breyta og leggur Flokkur fólksins því til að foreldrar sem koma með barn/börn sín greiði bara fyrir annað foreldrið og að frítt sé fyrir börn til 18 ára enda er einstaklingur skilgreindur sem barn til 18 ára. Það ætti að vera metnaður borgar meirihlutans og þeirra sem hafa umsjón með safninu að sem flestir komi þangað til að njóta húsakynna og umhverfis.

Fegurð, saga staðarins og veitingar á viðráðanlegu verði, stuttir  viðburðir og fleira í þeim dúr er eitthvað sem laðar að og gefur staðnum líf.

Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgaryfirvöld að endurskoða gjaldskrána og samþykkja þessa tillögu sem kveður á um hóflegar breytingar, lækkun á aðgangskostnaði fyrir fjölskyldur  sem heimsækja safnið.

Allar tillögur voru felldar.

Bókanir Flokks fólksins:

Liður 1 Fjárhagsáætlun:

Fyrir liggur að fjárhagsleg staða Reykjavíkurborgar er skelfileg.
Rekstrarútgjöld A-hluta vaxa á tveggja ára tímabili um 16% sem er sami vöxtur og í tekjum borgarinnar.
Rekstrarhalli á A-hluta er ætlaður um sex milljarðar á komandi ári. Rekstrarafkoma A-hluta er því neikvæð um -3.6% og er það 4. árið í röð sem rekstrarafkoman er neikvæð.
Ef horft er á handbært fé þá lækkar það um tæplega ⅓ frá árinu 2021 eða úr rúmum 15 millj. árið 2021 í 11 millj. 2021.
Veltufé frá rekstri er einungis um ¼ þess sem það þyrfti að vera til að reksturinn sé í þokkalegu jafnvægi. Enda þótt það sé framför frá síðustu tveimur árum þá er staða þess algerlega óásættanleg.
Skammtímaskuldir eru í fyrsta sinn um nokkurra ára skeið hærri en handbært lausafé, sem er ávísun á aukningu dráttarvaxta.
Á tímabilinu 2021 – 2023 virðist sem aukning langtímaskulda sé að jafnaði um einn milljarður á mánuði. Þungi afborgana af langtímaskuldum mun vaxa verulega á árunum 2021 – 2023.
Fjárhagur A hluta hefur veikst. Rýna þarf allan rekstur borgarinnar og forgangsraða sem aldrei fyrr í þágu lögbundinnar þjónustu og annarra þjónustu við fólkið. Það er ábyrgðarleysi að skella skuldinni alfarið á fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Liður 2 Fimm ára áætlun:

Í fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar kemur fram sýn meirihluta borgarstjórnar á hvernig fjármál Reykjavíkurborgar komi til með að þróast á næstu fimm árum. Slík sýn byggir aðallega á tvennum meginforsendum. Annars vegar eru það hvernig ytri aðstæður munu þróast og hins vegar hvernig meirihluti borgarstjórnar ætlar að spila úr þeim spilum sem hún hefur á hendi ár hvert. Áberandi er hvað fjármál borgarinnar eiga að færast hratt til betri vegar á næstu árum miðað við þá afar erfiðu fjárhagsstöðu A-hluta Reykjavíkurborgar sem borgarstjórn Reykjavíkur tekst á við þessa mánuðina. Á hvaða forsendum byggja t.d. áætlanir um fimmföldun veltufjár frá rekstri við lok tímabilsins hjá A-hluta? Athygli vekur að á sama tíma mun lausafjárstaða A-hluta versna. Afborganir langtímaskulda meira en tvöfaldast. Langtímaskuldir vaxa ár frá ári. Mikilvægt er að fyrir liggi hverjar eru forsendur fyrirhugaðrar endurreisnar á fjármálum A-hluta borgarsjóðs.
Raunsæi verður að ráða ferðinni við mótun stefnu til framtíðar. Vandann verður að viðurkenna til að geta brugðist við honum af fagmennsku. Grípa verður til skilvirkra aðgerða sem skila árangri en forðast innihaldslausar yfirlýsingar sem engu skila.
Flokkur fólksins leggur áherslu á að leiðarljós við endurreisn fjárhagsstöðu A-hluta borgarsjóðs verði raunsæi og fagmennska. Aðeins á þann hátt næst ásættanlegur árangur

Liður 3 Fjármálastefna 2023-2027

Fyrir liggur fjárfestingarstefna, ákveðnar upphæðir sem verja á í fjárfestingar. Þar er forgangurinn: húsnæðisuppbygging og viðhaldsmál og verkefni sem eiga að stuðla að vexti borgarinnar. Það segir sig sjálf að meðal slíkra verkefni er hvorki endurgerð Lækjartorgs eða Kirkjustrætis. Þessi torg þola alveg að vera eins í 2-3 ár í viðbót. Það fjármagn sem mögulega er hugsað í verkefni “sem mega bíða” á hiklaust að fara til annað hvort viðhalds á mygluhúsnæði eða til velferðar- og skólasviðs sem hafa fengið skyndilega risastór verkefni þegar stríðið í Úkraínu skall á. Velferðar- og skólamálin eru vissulega að taka til sín stóran bita af kökunni. Á það er einmitt alltaf bent þegar Flokkur fólksins talar um auka fjármagn til þessara sviða eins og meirihlutanum finnist þau vera að fá “nóg”.
Auðvitað eiga þessi svið eins og önnur að velta við hverri krónu. Margt smátt gerir eitt stórt. Leigubílakostnaður er t.d. allt of hár hjá velferðarsviði. Of mikil og ómarkviss þensla hefur verið á þjónustu- og nýsköpunarsviði og á skrifstofu borgarstjóra. Starfsfólki þar og skrifstofum hefur fjölgað. Innkaupamál eru of dreifstýrð sem þýðir að þau soga til sín óþarfa mikið fjármagn og starfskrafta. Sviðin annast útboðslýsingar með ráðgjöf frá innkaupaskrifstofu. Samt eru kærur vegna útboðsmála í sögulegu hámarki.

Liður 4 í dagskrá borgarstjórnar. 
Bókun Flokks fólksins við tillögur meirihlutans

Tillaga um lántöku vegna framkvæmda á árinu 2023
Samþykkja á lántökur á árinu 2023 að fjárhæð 21.000 milljarða til að fjármagna áformaðar fjárfestingar á árinu 2023. Gert er ráð fyrir að taka lán fyrir 1 og ½ milljarð á mánuði. Þungi fjárfestingahreyfinga hefur því nær þrefaldast milli áranna 2021 og 2023. Hér skiptir máli að forgangsraða rétt þar sem borgin er á heljarþröm. Fyrir liggur fjárfestingarstefna, ákveðnar upphæðir sem eyða má í fjárfestingar. Þar er forgangurinn án efa réttur, þ.e. húsnæðisuppbygging og viðhaldsmál og verkefni sem klárlega stuðla að vexti borgarinnar. Það segir sig sjálf að meðal slíkra verkefni er hvorki Lækjartorg né Kirkjustræti. Þessi torg hafa verið svona í mörg ár og þola alveg að vera eins 2-3 ár í viðbót. Ef horft er til viðhalds bygginga er líklegt að auka þurfi fjármagn til viðhalds húsnæðis.
Liður 9. lækkun fasteignaskatta. Flokkur fólksins leggur til að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts verði 5.040.000 kr. og samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 7.030.000 kr. í stað
4.950.000.kr og samskattað allt að 6.910.001.
Liður 10. Flokkur fólksins leggur fram breytingartillögu um að frysta í eitt ár allar gjaldskrárhækkanir sem varða vetrarstarf frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva.

Liður 5 í dagskrá borgarstjórnar
Bókun við liði framlagðra fundargerða

Liður 7 í fundargerð Stafræns ráðs frá 26.10. um hlunnindi starfsmanna og orðræðu í ársskýrslu ÞON
Tekið er undir þann hluta svars að lestur árskýrslunnar kann að hafa ruglað fulltrúa Flokks fólksins í rýminu enda engin venjuleg ársskýrsla. Sviðið væri kannski betur komið án skrifa af þessu tagi enda kostnaðarsamt plagg og gefur kannski þess utan óraunhæfa mynd, ofurfegraða mynd.
Liður 8, bókun við svari vegna vinnu og hlutverk lögfræðinga þjónustu- og nýsköpunarsviðs
Spurt var um laun lögfræðinga hjá Þon því þeir voru sóttir úr einkageiranum. Dýrt er fyrir sveitarfélag að keppa við einkamarkaðinn. Mikilvægt er að endurmeta allt sem leitt gæti til sparnaðar. Minnt er á að til stendur að fækka starfsfólki á leikskólum í hagræðingarskyni.

Fundargerð Skóla- og frístundaráðs
Liður 2 í  fundargerð Skóla- og frístundaráðs 17.10
Flokkur fólksins lagði til að hætt verði með Píp-próf í íþróttakennslu vegna neikvæðra áhrifa þeirra á mörg börn. Meirihlutinn vill frekar útfæra þessi próf öðruvísi fyrir börn sem eru kvíðin. Þetta er óljóst því ekki er skýrt hvort börnum sé áfram gert að þreyta Píp próf eða ekki.
Liður 10, bókun vegna lokunar Skólamunasafns Austurbæjarskóla í fundargerð skóla- og frístundaráðs
Spurt var um framtíð skólamuna Austurbæjarskóla. Í svari segir að Borgarsögusafn rýni og meti munina, en hvað svo? Fara þeir verðmætustu á Borgarsögusafnið til framtíðar og aðrir ofan í kassa? Eða fara þeir allir ofan í kassa?