Börn sem bíða, börn sem líða

Nú bíða 957 börn eftir fagþjónustu skóla í Reykjavík, 360 stúlkur og 597 drengir. Að baki hverju barni er tilvísun undirrituð af kennara/skóla og foreldrum. Flest bíða eftir að komast til skólasálfræðings. Ég hugsa daglega til þessara barna, hvernig þeim líður, og vona innilega að á meðan þau bíða eftir þjónustunni verði þeirra vandi ekki þeim ofviða. Vissulega er reynt að forgangsraða málum. Í svari frá Velferðarsviði kemur fram að reynt sé að taka bráðamál fram fyrir og mál sem þoli bið séu látin bíða. Flest mál hafna í hinum svokallaða  3. flokki en það er flokkur mála sem þolir „bið“ samkvæmt flokkunarmati skólaþjónustu.

Bráðamál og málin sem sögð eru „þola bið“
Enginn getur með fullu vitað hvað er að gerast hjá barninu á meðan það bíður eftir þjónustu. Vel kann að vera að á meðan á biðinni stendur vaxi vandinn og getur á einni svipstundu orðið bráður vandi sem ekki hefði orðið hefði barnið fengið fullnægjandi aðstoð á fyrri stigum. Dæmi um bráðamál eru börn sem viðhafa sjálfsskaða, eru jafnvel komin með  sjálfsvígshugsanir eða byrjuð í neyslu. Fullvíst er að þegar svo er komið hefur vandinn átt sér aðdraganda. Mál barns verður ekki bráðamál á einni nóttu heldur hefur líklega verið að krauma mánuðum saman.

Börn eiga ekki að þurfa bíða eftir þjónustu af þessu tagi nema í mesta lagi 3-4 vikur. Með margra mánaða bið er verið að taka áhættu. Þeir foreldrar sem hafa fjárráð sækja þjónustu fyrir barn sitt hjá sjálfstætt starfandi fagaðila. En það hafa ekki allir foreldrar efni á því. Barn sem fær ekki aðstoð við hæfi fyrr en eftir dúk og disk er í mun meiri áhættu á að grípa til örþrifaráða eins og sjálfsskaða og jafnvel sjálfsvígstilrauna. Slakt aðgengi að fagþjónustu getur kostað líf.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Birt í Fréttablaðinu 16.3. 2021