Enda þótt offituvandinn sé án efa erfiður einstaklingnum á öllum aldursskeiðum má álykta sem svo að neikvæð áhrif og afleiðingar hans séu alvarlegri hafi hann átt við offituvandamál að stríða strax á unga aldri.
Á aldursskeiðinu 5-18 ára er einstaklingurinn að móta sína eigin sjálfsmynd. Hann skoðar sjálfan sig, ber sig saman við jafnaldrana og speglar sig í umhverfi sínu. Hann lærir fljótt hvað það er sem þykir flott, er viðurkennt og eftirsóknarvert. Skilaboðin sem einstaklingurinn fær um sjálfan sig frá þeim aðilum sem hann umgengst er stór áhrifaþáttur á mótun sjálfsmyndar hans.
Sá sem strax á barnsaldri á við offituvanda að stríða er útsettari fyrir neikvæðum athugasemdum frá umhverfinu. Hann er auk þess í áhættuhópi þeirra sem lagðir eru í einelti; er strítt eða látinn afskiptur. Afleiðingarnar eru oftar en ekki brotin sjálfsmynd; óöryggi, tilfinningaleg vanlíðan og jafnvel þunglyndi. Í slíkri vanlíðan eru félagsleg vandamál oft ekki fjarri. Eitt leiðir af öðru og brátt, ef ekki er að gáð, getur líf þessa einstaklings verið undirlagt af erfiðleikum sem fylgt getur honum út ævina.
Sá sem strax á barnsaldri á við offituvanda að stríða er útsettari fyrir neikvæðum athugasemdum frá umhverfinu.
Sökum þess hversu offita er persónulegt mál hefur umræðan verið viðkvæm. Sumir þora ekki að nefna vandamálið því þeir óttast að vera særandi eða skapa óþægilega nærveru með slíku tali. Eðlilega hafa foreldrar sem hafa verið að horfa upp á börn sín þyngjast óhóflega, veigrað sér við að ræða vandamálið opinskátt af ótta við að auka enn frekar á vanlíðan þeirra. Einnig óttast þeir jafnvel að umræðan kunni að hvetja barnið til að grípa til öfgakenndra viðbragða eins og að byrja að borða óreglulega og jafnvel svelta sig. Það liggur hins vegar í augum uppi að offituvandinn verður ekki leystur án þess að horfst verði fyrst í augu við hann, vandinn skilgreindur og lausnir ræddar.
Um þessar mundir er heilmikil vakning í samfélaginu er varðar málefni barna sem eiga við offituvanda að stríða. Það er óskandi að sú vakning eigi eftir að viðhaldast og skila tilætluðum árangri fyrir fjölmörg börn sem glíma við þennan vanda. Foreldrar eru vissulega í lykilhlutverki í þessu sem öðru er varðar börn þeirra enda þeirra helstu fyrirmyndir. Barn sem horfir á foreldra sína lifa heilbrigðu lífi; huga að hollu mataræði og stunda reglulega hreyfingu er líklegt til að feta í sömu fótspor. Það kemur yfirleitt einnig í hlut þeirra að versla inn til heimilisins. Ef þeir vilja stuðla að hollu mataræði barna sinna þá geta þau einfaldlega sleppt því að kaupa aðrar vörur en þær sem teljast hollar og næringarríkar.
Heilbrigðisyfirvöld hafa hvatt til samhents átaks til að sporna við offituvandanum. Í ljósi þess væri kannski hægt að höfða til samvisku markaðsaðila og fara þess á leit við þá að þeir annars vegar dragi úr auglýsingum á óhollustu og hins vegar gæti þess að innihaldslýsingar varanna séu ávallt bæði uppfærðar reglulega og séu nákvæmar t.a.m. hvað varðar magn hvers innihalds fyrir sig. Þetta er ekki hvað síst mikilvægt í þeim tilvikum þegar vörur eru auglýstar með áherslu á hollustu- og næringargildi þeirra. Sem dæmi má nefna að í innihaldslýsingu sumra þessara vara má stundum sjá að varan inniheldur sykur en ekki er endilega getið um hversu mikinn sykur sem hlýtur vissulega að skipta öllu máli.