Burt með stimpilklukkuna

Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur um að stimpilklukkan í vinnustund verði lögð niður í grunnskólum Reykjavíkur í samráði við Kennarafélag Reykjavíkur. Með því væri kennurum sýnt traust og komið til móts við sjálfstæð vinnubrögð og sveigjanlegan vinnutíma kennara. Stimplun í vinnustund er hvorki  bundin í lög né er í kjarasamningi kennara. Reykjavíkurborg kom þessu kerfi á í andrúmslofti tortryggni. Tíðarandinn þá var að allir ættu að vera á vinnustaðnum því annars væri fólk að svíkjast um. Í dag er þessi hugsun gamaldags og alls ekki í anda nútíma starfshátta samanber átak ýmissa stofnana um störf án staðsetningar.

Grunnskólakennarar taka að sér ákveðið verkefni í upphafi hvers skólaárs þ.e. að kenna ákveðnum hópi nemenda. Hlutverk kennarans er að handleiða þennan hóp þannig að árangur nemenda verði sem mestur. Það má líta á verklagið eins og verktöku sérfræðings. Háskóla- framhaldsskólakennarar og aðrir sérfræðingar þurfa ekki að nota stimpilklukku og því mætti spyrja hvort grunnskólakennurum  sé ekki jafn vel treystandi og öðrum sérfræðistéttum?

Úr takt við nútímann

Það  ætti að treysta grunnskólakennurum til að sinna undirbúningi fyrir kennslu þegar það hentar hverjum og einum kennara. Grunnskólakennarar er stór hópur og það hentar mörgum að ljúka allri vinnu í skólanum. Kennarar eru oft þreyttir eftir erilsaman dag með stórum hópi nemenda og finnst betra að fara heim og undirbúa kennsluna þar. Það er auk þess ekki góð vinnuaðstaða í öllum skólum. Stimpilklukkueftirlitið er líka úr takti við nútímann og það sáum við svo glöggt á covid tímum. Kennarar sýndu það svo sannarlega hvað þeir eru sveigjanlegir og tóku að sér margs konar verkefni við tölvuskjáinn.

Það er nógu krefjandi að vera kennari þótt að undirbúningur kennslunnar sé ekki háður ákveðinni staðsetningu og tímaramma. Það er sannarlega ekki í takt við nútíma vinnuhætti. Grunnskólakennarar eyða óþarfa tíma í að færa inn stimplun í vinnustund.  Kennarar sjá ekki tilganginn með þessu eftirliti. Þetta veldur pirringi og minnkar starfsánægju. Fjöldi manns jafnvel kennarar eru í vinnu í skólum borgarinnar  í  einhvers konar bókunareftirliti með kerfinu. Væri ekki tíma kennara og þessara eftirlitsaðila betur varið í annað þarfara innan skólakerfisins. Mælikvarðinn á árangur kennarans er árangur og hamingja nemendanna en ekki stimpilklukkan. Hún segir ekkert til um árangur og farsæld nemendanna. Flokkur fólksins vill að grunnskólakennarar Reykjavíkur fái til baka það traust og þá virðingu sem þeir nutu um áraraðir.

Helga Þórðardóttir, varaborgarfulltrúi Flokks fólksins
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn

Birt í Morgunblaðinu 13. september 2022