Ekki sama í hvaða póstnúmeri þú býrð í

Á meðan sumir flytja oft um ævina búa aðrir á sama stað, jafnvel í sama húsi. Fólk sem hefur búið alla sína ævi í miðbænum og nágrenni hafa mátt aðlagast miklum og misjöfnum breytingum, mörgum góðum en öðrum misgóðum eða misvinsælum.

Víða er fólki mismunað eftir því hvar það býr í Reykjavík. Þeir sem búa í miðbæ og nágrenni greiða bílastæðagjald fyrir bíl sinn og fæstir eiga einhver einkastæði sem þeir geta gengið að sem vísum. Eldra fólk og fólk með hreyfihömlun hefur átt erfitt með þessar breytingar eðli málsins samkvæmt. Þessar breytingar koma niður á félagslega þættinum hjá sumum, tengslum og samskiptum við aðra eins og svo skýrlega kom fram í erindi Íbúasamtaka Miðborgar, dags. 11. júlí 2023, um breytingar á bílastæðagjöldum í miðbænum. Í bókun segir „hækkun á bílastæðagjöldum og lenging á gjaldskyldutíma er fjárhagslega íþyngjandi fyrir íbúa í hverfinu en ekki síður er það áhyggjuefni að þessi nýja gjaldtaka á kvöldin og á sunnudögum mun gera gestum íbúa erfitt fyrir varðandi heimsóknir”.

Fólki mismunað eftir búsetu

Hér er klárlega verið að mismuna fólki eftir búsetu. Borgin leggur aukaskatt á fólk fyrir það eitt að það býr við ákveðna götur í borginni. Íbúar miðbæjar og nágrennis eru látnir blæða mest.

Bílaeigendum sem þarna búa er hreinlega refsað með hærri bílastæðagjöldum og eru bílastæði í vaxandi mæli fjarri heimilum þeirra. Vandamál er fyrir íbúa þessa svæðis að fá til sín gesti.

Vegna þéttingar byggðar hefur byggingamagn í miðbænum aukist. Víða í þessum nýbyggingum er ekki gert ráð fyrir bílastæðum/bílageymslum við húsin. Dæmi um slíkt er nýbyggingin við Snorrabraut. Það er staðreynd að meirihluti Reykvíkinga notar bílinn sem samgöngumáta í dag enda ekki margir aðrir fýsilegir valkostir. Því má fastlega gera ráð fyrir að það verði mun meiri ásókn í þau fáu bílastæði sem fyrir eru í hverfinu.

Fólk á rétt á að hafa gott aðgengi að heimilum sínum hvar sem það býr og allar aðgerðir sem miðast að því að þvinga fólk inn í einhvern samgöngumáta sem ekki hentar þeim er rangt.

Birt í Morgunblaðinu 13.9. 2023