You are currently viewing Engin heildstæð stefna til í sérkennslumálum
Sign special education written in a notepad on a table.

Engin heildstæð stefna til í sérkennslumálum

Engin heildstæð stefna er til í sérkennslumálum í Reykjavík og ekki liggja fyrir markvissar rannsóknir á skólastarfi og sérkennslu. Því er ekki vitað hvort sérkennsla eða annars konar stuðningur sé að bera tilætlaðan árangur. Skortur er á heildarsýn. Byggt á þessu er ljóst að margt er í lausu lofti þegar kemur að sérkennslumálum í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Skortur er á heildrænni stefnu, yfirsýn og skýrum mælanlegum markmiðum. Ef sérkennsla á að vera markviss verður hún að byggja á mati og greiningum. Fjöldi tilvísana á bið til skólasálfræðinga eru nú um eitt þúsund.

Í svörum skólayfirvalda við fyrirspurnum borgarfulltrúa Flokks fólksins um þessi mál kemur fram:

Engin rannsókn eða heildarúttekt er til á sérkennslumálum í skólum borgarinnar og því er ekki vitað hvort sérkennsla skili tilætluðum árangri.

Um 30% nemenda grunnskólans eru að jafnaði í sérkennslu.

Sótt er um sérkennslu fyrir börn ef sterkar líkur eru á að þau þarfnist sértækrar aðstoðar, oftast að undangengnum skimunum og mati með viðeigandi matstækjum.

Kostnaður vegna sérkennslu beggja skólastiga er um 5 ma.kr. á ári.

Í þeim skólum sem hafa menntaða sérkennara eru námslegar greiningar á einstökum nemendum gerðar.

Ekki er vitað hvernig málum er háttað í skólum sem hafa ekki menntaða sérkennara.

Tillögur um stefnumótun og úttekt innri endurskoðunar á sérkennslu

Árið 2019 lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að skóla- og frístundasvið móti heildræna stefnu í málefnum sérkennslu. Tillagan var felld.

Á fundi borgarstjórnar 20. október sl. lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að borgarstjórn fari þess á leit við innri endurskoðun að hún geri úttekt á sérkennslu leik- og grunnskóla í Reykjavík. Tillögunni var breytt í málsmeðferðartillögu um að vísa henni í vinnuhóp sem skoðar þessi mál.

Fátt var annað að gera en að samþykkja það þótt það komi ekki í staðinn fyrir heildstæða úttekt gerða af óháðum aðila eins og innri endurskoðanda. Eitt útilokar ekki annað og myndi slík úttekt, væri hún gerð, geta verið grunnur að tillögum að heildstæðri stefnu.

Fjölmörg rök hníga að gerð heildstæðrar úttektar á sérkennslu í skólum Reykjavíkur. Fullnægjandi upplýsingar um sérkennslumál skortir. Íslensk börn standa verr að vígi í lestri og lesskilningi samanborið við nágrannalönd. Samkvæmt PISA 2018 lesa um 34% 14-15 ára drengja sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Samkvæmt Lesskimun 2019 lesa aðeins 61% barna í Reykjavík sér til gagns eftir 2. bekk.

Í úttekt innri endurskoðunar væri hægt að kanna m.a. hvort nemendur í sérkennslu séu að fá einstaklingsmiðaða sérkennslu byggða á faglegu mati sérfræðinga skólaþjónustu og í samræmi við skilgreindar þarfir þeirra.

Skoða þarf jafnframt hvort greiningarferlið sem liggur til grundvallar sérkennslu sé samrýmanlegt milli skóla og hvort og þá hvernig mælingum sé háttað á árangri og eftirfylgni.

Hvað felst í sérkennslu?

Sérkennsla hefur alla tíð verið tengd hugmyndum um mannréttindi og jafnrétti til náms.Frá haustinu 1968 útskrifuðust hópar sérkennara frá Kennaraháskólanum (Heimild: Sérkennsla í grunnskólum Reykjavíkur. Könnun á fjölda nemenda, ástæðum og framkvæmd. Ritstjóri Gerður G. Óskarsdóttir. Skýrsla útgefin af Fræðslumiðstöð árið 2000). Hér er um að ræða nemendur með mikla þörf fyrir kennslu sem er sérstaklega aðlöguð að sértækum námserfiðleikum, félags- og tilfinningalegum erfiðleikum og/eða fötlunum.

Grunnskólar fara í ytra mat á nokkurra ára fresti þar sem m.a. eru skoðaðir þættir á borð við sérkennslu. Hlutfall barna sem er í sérkennslu heldur áfram að hækka en það var 26% árið 2011 og er um 30% 2020.

Tölurnar segja ekkert um hvernig sérkennslu er um að ræða. Hópur nemenda er að fá viðvarandi sérkennslu utan bekkjar í ákveðnum námsgreinum, stundum alla skólagönguna, ýmist marga tíma á viku eða fáa. Sumum nemendum nægir að vinna í smærri hóp með stuðning þar sem þau fylgja engu að síður bekkjarnámsefninu.

Ekki er að sjá að gerður sé nægjanlegur greinarmunur á stuðningskennslu annars vegar og hins vegar sérkennslu sem kemur alfarið í staðinn fyrir bekkjarnámsefni jafningja. Sé ekki gerður greinarmunur á þessu má ætla að hlutfall grunnskólanema sem eru skráðir í “sérkennslu“ sé hærra en raun ber vitni.

Hver skóli er með sínar aðferðir hvað varðar sérkennslu. Vissulega eru gerðar einhverjar mælingar. Skólarnir sjálfir gera mælingar, sem og sérkennararnir, sem starfa oft undir miklu álagi. Hagstofa Íslands mælir að einhverju leyti árangur af sérkennslu og byggir á gögnum sem kallað er eftir frá skólum. Ekki er vitað hversu nákvæmlega upplýsingarnar eru greindar eða hversu nákvæmar þær eru.

Þegar á allt er litið má segja að á síðustu 20 árum hafi skóla- og frístundasvið misst yfirsýn og utanumhald sérkennslumála í Reykjavík. Innri endurskoðun hefur faglegt sjálfstæði í störfum sínum gagnvart allri stjórnsýslu borgarinnar og getur því ákveðið að gera þá úttekt sem borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til.

Birt í Morgunblaðinu 24. október 2020