Foreldrar barna sem eru þolendur eineltis

Það er sársaukafullt að vita til þess að barninu manns sé strítt eða það lagt í einelti. Foreldrar barna sem lögð eru í einelti finna til mikils vanmáttar, reiði og sorgar. Ef barn er á grunnskólaaldri á það í hvað mestri hættu með að verða lagt í einelti í skólanum, á skólalóðinni eða á leið í eða frá skólanum. Það kemur því í hlut skólans að vinna með foreldrunum að lausn málsins.

Margir foreldrar í þessari stöðu eru óvissir um hvernig bregðast skuli við en þeir vita þó all flestir að þeir verða að gera eitthvað. Einhverjir skólar hafa nú þegar aðgengilegar upplýsingar á heimasíðu sinni s.s. viðbragðsáætlun og til hvers(hverra) foreldrar eiga að snúa sér með eineltistilkynningu. Æ fleiri hafa nú einnig tilkynningareyðublað tiltækt á heimasíðu skólans. Foreldrar barna sem lögð eru í einelti finna til mikils vanmáttar, reiði og sorgar.

Hafi viðkomandi skóli hins vegar ekki upplýst um aðgerðaráætlun skólans óttast foreldrar oft að skólinn muni ekki taka á málinu með faglegum hætti og að staða barnsins þeirra, verði farið að hreyfa við málinu, kunni jafnvel að versna.

Til foreldra
Ef barnið ykkar hefur tjáð sig um að því sé kerfiðsbundið strítt í skólanum/lagt í einelti eða líði illa í skólanum af einhverjum orsökum, verðið þið að setja ykkur í samband við skólann og láta vita. Hafi skólinn ekki þar til gert form til að skrá og lýsa eineltinu, ráðlegg ég foreldrum að skrifa niður með barninu sínu eins nákvæma lýsingu á atburðarrás, atvikum, hvar eineltið á sér helst stað, hvernig það birtist og hver (hverjir) það eru sem barnið skilgreinir sem geranda/gerendur. Skriflegri lýsingu skal síðan koma til skólayfirvalda, námsráðgjafa eða umsjónarkennara.

Hér í vefnum kolbrunbaldurs.is geta starfsmenn skóla fundið allar upplýsingar til að hanna og útfæra sína eigin aðgerðaráætlun. Þar má einnig finna leiðbeiningar um hvernig grunnatriði viðbragðsáætlunar lítur út, hvar best sé að byrja og svo skref fyrir skref þar til fundin hefur verið viðunandi lausn. Afar mikilvægt er að foreldrar séu reiðubúnir að vinna með skólanum. Þetta á við án tillits til hvort um sé að ræða foreldra þolenda, gerenda eða aðra foreldra. Hafa skal í huga að öll börn geta einn daginn fundið sig í sporum þolanda. Það eru spor sem enginn vill vera í. Ein besta forvörn gegn einelti er samvinna skóla og foreldra, samstilling og samhugur um að gera skólann að stofnun sem hefur ekki bara jákvæðan starfsanda heldur einnig jákvæðan skólabrag.

Öll börn eiga rétt á að líða vel í skólanum sínum.