Flokkur fólksins verður með 2 mál á fundi borgarstjórnar 13 janúar 2023
Sjá má alla dagsrká borgarstjórnar á www. borgarstjornibeinni
- Tillaga Flokks fólksins um heimgreiðslur til foreldra
Lagt er til að á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur) sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðslu úrræðið mun sennilega létta á biðlistum.
Greinargerð
Mikil fjölgun hefur verið á umsóknum og má rekja vandann helst til húsnæðisleysis og manneklu. Mannekla er tilkomin einna helst vegna mikils álags, slæmrar starfsaðstöðu og lágra launa. Mörg hundruð börn bíða eftir leikskólaplássi. Framsóknarflokkurinn lofaði að borgin snerist um börnin og nú er að standa við það. Framsóknarflokkurinn hefur einnig sagst vilja skoða heimgreiðslur sem einn hluta af mótvægisaðgerðum á meðan ástandið er svo slæmt í leikskólamálum.
Margir foreldrar búa við mikla óvissu og mikilvægt er að sveitarfélög komi til móts við þá með öllum ráðum. Störf í leikskóla eru ekki eftirsótt og er ljóst að hugsa þarf út fyrir boxið til að finna leiðir til að laða fært fólk til starfa. Launin eru léleg og álag mikið.
Leikskólamál eru í lagi í mörgum sveitarfélögum sem eru komin fram úr Reykjavík bæði við að eyða biðlistum, þjónustu við börnin og foreldrana og eru dæmi að finna um leikskóla með gjaldfrjálsan mat og jafnvel einstök sveitarfélög hafa fellt niður leikskólagjöld.
Í byrjun hausts 2023 fengum við borgarfulltrúar bréf frá örvæntingarfullum foreldrum hafa hrannast upp í pósthólfum borgarfulltrúa undanfarnar vikur. Börn, jafnvel 20 mánaða gömul hafa fengið pláss á leikskóla sem er ekki til. Vegna manneklu eru leikskólabörnin ítrekað send heim eða foreldrar fá tilkynningu að kvöldi um að þau verði að halda barni sínu heima vegna manneklu. Þessi staða veldur streitu og kvíða hjá foreldrum. Staðan er óbærileg fyrir alla aðila líka starfsmenn leikskólanna. Við verðum að bregðast við þessari neyð strax og tína til öll úrræði sem finnast í verkfærakistunni. Þetta ástand kemur sérlega illa niður á foreldrum með lágar tekjur og sem eru ekki með stuðning fjölskyldu. Ungir foreldrar eru ekki allir með foreldra sína og stórfjölskyldu í Reykjavík til að hlaupa undir bagga. Fjölmargar fjölskyldur eru búnar að nýta öll úrræði sem þeim býðst og hafa engin frekari ráð til að fá pössun fyrir börn sín. Hvernig eiga foreldrar að geta stundað vinnu sína? Í ljósi þessara þátta m.a. er mikilvægt að skoða með opnum huga tillögu Flokks fólksins um heimgreiðslur. Það fjármagn sem úrræðið krefst er vel varið og hefur jákvæð áhrif á fjölmargt annað þessu tengt.
2. Umræða um manneklu í leikskólum borgarinnar að beiðni Flokks fólksins.
Greinargerð með umræðu
Mannekla er helsta áskorunin þegar kemur að uppbyggingu leikskólakerfisins í Reykjavík. Foreldrar, starfsfólk leikskóla og leikskólastjórar senda ítrekuð áköll til borgarfulltrúa vegna ástandsins í leikskólum borgarinnar. Heyrst hefur að leikskólar sendi börn heim vikulega eða jafnvel oft í viku vegna manneklu og samkvæmt bréfi frá móður þá er leikskóli dóttur hennar lokaður á hádegi einn dag í viku vegna manneklu. Í bréfi sem leikskólastjórar í Reykjavík sendu borgarfulltrúum 10. nóvember síðastliðinn segir „samfélagið, stjórnmálafólk verður núna, árið 2022, að skilja mikilvægi þess að hlúa að yngsta fólkinu sem byrjar rúmlega eins árs í leikskóla og dvelur þar að jafnaði 8,5 klukkustundir fimm daga vikunnar.“ Þá segir einnig í bréfinu að 400 milljónir vanti inn í rekstur leikskólanna. Flokkur fólksins telur mikilvægt í ljósi þessa að fá góða umræðu í borgarstjórn um stöðuna í leikskólum borgarinnar og hvað sé til ráða. Það gengur ekki til lengdar að foreldrar ungra barna gangi stöðugt um með kvíðahnút í maganum og að starfsfólk leikskólanna sé að bugast vegna mikils álags í starfi. Hættan er að það skapist svipað ástand og er á bráðamóttöku Landspítalans en þar hefur starfsfólk sagt upp í hrönnum vegna mikils álags og slæmrar vinnuaðstöðu. Við megum ekki láta slíkt gerast í leikskólum borgarinnar en ef ekkert er gert er það raunveruleg hætta.
Borgarfulltrúar meirihlutans hafa lýst því yfir í fjölmiðlum undanfarið að manneklan sé helsta áskorunin þegar kemur að uppbyggingu leikskólakerfisins. Ástæðuna telja þeir m.a. vera að fjölmargir leikskólakennarar hafi flutt sig yfir í grunnskólana með tilkomu eins leyfisbréfs sem heimilar leikskólakennurum að kenna í grunnskólum. Við þessar aðstæður stefnir borgin á að fjölga leikskólaplássum um allt að 500 á næsta ári.
Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara ,segir stöðuna erfiða og að kerfið hafi stækkað of hratt og sú stækkun sem Reykjavík stefnir á sé ekki möguleg við núverandi aðstæður. Félag leikskólakennara hefur undanfarið unnið með sveitarfélögum til að komast að rót vandans og jafna starfsaðstæður til dæmis með styttingu vinnuvikunnar. Mörg sveitarfélög eru komin langt í þessari vinnu, þar á meðal Hafnarfjörður sem Haraldur segir til fyrirmyndar.
Flokkur fólksins gerir sér grein fyrir að við þessum vanda finnst engin ein töfralausn heldur þarf margt að koma til. Við þurfum að laða fólk að í þessi störf með bættum kjörum og starfsaðstæðum. Það er ljóst að staðan er þröng hjá Reykjavíkurborg vegna slæms fjárhags. Flokkur fólksins hefur lagt til heimagreiðslur til foreldra meðan þeir bíða eftir leikskólaplássi fyrir börn sín. Sú lausn er ódýrari fyrir sveitarfélagið en dýrt leikskólapláss ef miðað er við yngstu börnin.