Borgarráð 25. maí 2023

 Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 23. maí 2023, þar sem yfirlit innleiðingar húsnæðisáætlunar Græna plansins á fjórða ársfjórðungi ársins 2022 og ársins í heild er lagt fram til kynningar:

Meirihlutinn leggur fram til kynningar yfirlit innleiðingar húsnæðisáætlunar á fjórða ársfjórðungi ársins 2022 og ársins í heild. Farið er yfir hvað margar íbúðir hafa verið byggðar. Ekkert er talað um hversu mikið þarf að byggja til að að hægt sé að bjóða upp á húsnæðisöryggi í Reykjavík. Sárlega vantar lóðir fyrir félög eins og Bjarg og Blæ sem eru tilbúin að byggja hagkvæmt leiguhúsnæði. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta hálfgerð montskýrsla því eins og allir vita sem vilja vita þá ríkir neyðarástand í Reykjavík. Þær tölur sem varpað er fram í þessari skýrslu hafa því frekar litla þýðingu eins og er. Það vantar húsnæði! Þétting byggðar í kringum borgarlínu er í forgangi hjá þessum meirihluta á meðan stór hópur fólks nýtur ekki húsnæðisöryggis og enginn sér sem stendur að borgarlína sé að hefja akstur í nánustu framtíð. Í raun er fulltrúi Flokks fólksins orðin þreyttur á svona skýrslum. Fólk hrópar á  hjálp eftir öruggu húsaskjóli og að komast ferðar sinnar án stórkostlegra tafa. Það er eins og meirihlutinn sé í afneitun fyrir ástandinu og notar fagurgala til að viðhalda afneituninni.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 22. maí 2023, þar sem áfangaskýrsla Græna plansins fyrir júlí – desember 2022 er lögð fram til kynningar:

Lögð er fram til kynningar áfangaskýrsla Græna plansins fyrir júlí-desember 2022. Ef horft er á skýrsluna sem slíka er  varla hægt að kalla þetta áfangaskýrslu. Þarna eru  framtíðaráætlanir tíundaðar sem allar hafa komið fram áður. Skýrslan er endurtekning fyrri áfangaskýrslna.  Það sem hefur verið gert að undanförnu og telst markvert er óljóst.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 22. maí 2023, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um hringrásarhagkerfið á höfuðborgarsvæðinu eru lögð fram til kynningar:

Lagt er fram erindisbréf  starfshóps um hringrásarkerfi á höfuðborgarsvæðinu og hvað sá hópur á að gera. Ýmsar tillögur eru á borðinu sem tengjast hringrásarkerfinu sem vænst er að fái afgreiðslu og meðferð. Sumar eru sjálfsagt mál og ættu að vera löngu komnar í virkni s.s. aðgerð um endurnýtingu  malbiks sem skafið hefur verið af götum sem og steypubrot sem fellur  til við niðurrif húsa svo eitthvað sé nefnt. Þetta hafa nágrannaþjóðir þegar gert, þekking er fyrir hendi sem ætti að vera sérfræðingum Reykjavíkurborgar vel kunn. Fulltrúi Flokks fólksins verður að nefna hér liðinn í erindisbréfinu sem hefur titilinn: “Til ráðgjafar og samstarfs” þar sem hópurinn er nánast hvattur til að leita sér ráðgjafar utan borgarkerfisins. Látið er eins og allir þeir sem skipa hópinn viti lítið og þurfi ráðgjöf. Ráðgjafakaup eru löngu ofnotuð hjá borginni og tugir milljóna streyma til slíkra fyrirtækja ár hvert. Ráðgjafarfyrirtæki eiga ekki að stjórna borginni.  Flokkur fólksins hvetur hópinn til að nýta eigin dómgreind og muna að verið er að sýsla með fjármuni borgarbúa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 22. maí 2023, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um hröð orkuskipti í Reykjavík eru lögð fram til kynningar:

Erindisbréf starfshóps um hröð orkuskipti í Reykjavík er hér lagt fram. Hér er um sjálfsagt mál að ræða, en aftur, sporin hræða. Hér þarf að gæta hófs og hleypa ekki ráðgjafarfyrirtækjum að taumlaust.  Borgarstarfsmenn eiga að ráða við svona verkefni óstuddir. Í hverju einasta erindisbréfi sem gefið er út af borgarstjóra er nánast eins og að leita ráðgjafar hjá rándýru ráðgjafarfyrirtæki sé skylda.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð staðfesti stafræna húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar til næstu 10 ára:

Meirihlutinn leggur til að borgarráð staðfesti stafræna húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar til næstu 10 ára en áætlunin er unnin að frumkvæði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Fulltrúi Flokks fólksins telur að HMS eigi að sjá um þessa áætlun ein og sér að mestu með Reykjavík á hliðarlínu að sjálfsögðu enda hefur HMS hefur sýnt að það sem kemur frá henni er nákvæmt og vel skilgreint. Óþarfi er að borgin sé að gera þetta líka enda um tvíverknað að ræða. HMS er með þetta vel í hendi sér. Markmiðið er að staðla og koma húsnæðisáætlunum allra sveitarfélaga á Íslandi á stafrænt form og auðvelda þannig samanburð og aðgengi allra aðila á húsnæðismarkaði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fram fer kynning á stöðunni á leigumarkaði og á skýrslu samtaka leigjenda á Íslandi um íslenskan leigumarkað dags. apríl 2023:

Ljóst er að leigumarkaðurinn á Íslandi er afleitur. Á leigumarkaði eru 45 þúsund heimili. Húsaleiga hækkaði meira en allt annað á síðasta ári. Leigjendur eru margir hverjir þeir sem hvað minnst hafa á milli handanna og hækkanir bitna því gjarnan á þeim sem verst standa. Æ fleiri sækja í að leigja hjá Félagsbústöðum þegar leiga á almennum markaði þyngist. Hlutverk og skyldur Félagsbústaða er því mikil á tímum sem þessum. Leiga hefur einnig hækkað hjá Félagsbústöðum og eru margir leigjendur að sligast enda eru leigjendur Félagsbústaða flestir efnalitlir. Kjarninn er sá að leiga hefur hækkað meira en góðu hófi gegnir fyrir þenna viðkvæma hóp. Flokkur fólksins hefur talað fyrir leigustýringu af erlendri fyrirmynd þ.e. leigubremsu eða leiguþaki. Leigubremsa er það kallað þegar gefið er út viðmið um hversu mikið húsaleiga má hækka yfir tiltekið tímabil. Leiguþak er það kallað þegar gefið er út hámarks leiguverð á leiguhúsnæði miðað við stærð, gæði og staðsetningu. Markmiðið með þessum aðgerðum er að tryggja að húsnæði sé á viðráðanlegu verði og að fólk búi við húsnæðisöryggi. Flokkur fólksins hvetur borgarstjórn  að ráðast í leigustýringar eins og gert er í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagt er til að starfshópur um innleiðingu húsnæðissáttmála fái það verkefni að greina upplýsingar um íbúðir þar sem engin er skráður með lögheimili en talið er að þetta séu um 8.000 íbúðir af alls 57 þúsund íbúðum í Reykjavík. Verkefnið verði unnið í samstarfi við innviðaráðuneytið og/eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Fara á í að greina upplýsingar um íbúðir þar sem engin er skráður með lögheimili en talið er að þetta séu um 8.000 íbúðir af 57 þúsund íbúðum í Reykjavík. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta með ólíkindum og útilokað er að einhver einhlít skýring sé á þessu. Er hér einnig átt við íbúðir Félagsbústaða. Hjá Félagsbústöðum standa einnig tómar íbúðir og er sagt að verið sé að standsetja þær. Það sem er sérstakt í svörum frá Félagsbústöðum er að  mun fleirum íbúðum var skilað 2020 en 2019. Ástæður eru margar og eru þær svipaðar milli ára utan einnar, „flutningur á hjúkrunarheimili“, sem var 20% 2019 en 11% 2020. Ekki eru frekari skýringar birtar. Í janúar eru 61 íbúð laus og þar af eru 41 í standsetningu. Segir í svari að stefnan sé að ekki meira en einn mánuður líði frá standsetningu og þar til íbúðin verði leigð út. Fulltrúi Flokks fólksins vill að það komi fram að þetta svar samræmist ekki því sem hefur verið tekið eftir sem er að íbúðir standa stundum lausar í ár. Eins eru Félagsbústaðir með íbúðir sem ekki er hægt að skrá lögheimili. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt um þetta en ekki fengið svar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að starfshópur um innleiðingu húsnæðissáttmála fái það verkefni að greina umfang gistingar ferðamanna í íbúðarhúsnæði í Reykjavík, með og án leyfa, eftir því sem næst verður komist. Verkefnið verði unnið í samvinnu við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu, innviðaráðuneytið og/eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Lagt er til að starfshópur um innleiðingu húsnæðissáttmála fái það verkefni að greina umfang gistingar ferðamanna í íbúðarhúsnæði í Reykjavík, með og án leyfa. Verkefnið verði unnið í samvinnu við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu, Innviðaráðuneytið og/eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta afar mikilvægt sér í lagi í ljósi erfiðs leigumarkaðar. Airbnb á sinn þátt í þeirri stöðu sem þar ríkir. AirBnb-væðing og autt húsnæði verður að ræða í tengslum við leigumarkaðinn. Skoða þarf upp á nýtt hversu langt á að ganga í takmörkun Airbnb þar sem staðan hefur farið versnandi síðasta ár.  Erlendis eru fordæmi fyrir því að hreinlega banna slíka starfsemi á svæðum þar sem er skortur á húsnæði fyrir almenna borgara. Nú liggur fyrir að í um 8000 íbúðir af 57 þúsund íbúðum í Reykjavík er enginn skráður íbúi. Þetta er auðvitað mjög skrýtið og þarfnast gaumgæfilegrar athugunar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt erindisbréf stýrihóps um mótun heildstæðrar stefnu og aðgerðaráætlunar um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára í Reykjavík. 

Jafnframt er samþykkt að skipa Magneu Gná Jóhannsdóttur, sem jafnframt verður formaður stýrihópsins, Árelíu Eydís Guðmundsdóttur, Sabine Leskopf, Dóru Björt Guðjónsdóttur, Helga Áss Grétarsson og Kolbrúnu Áslaugar Baldursdóttur í stýrihópinn.

Hér er lagt  til að borgarráð samþykki hjálagt erindisbréf stýrihóps um mótun heildstæðrar stefnu og aðgerðaráætlunar um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lýst áhuga sínum á að koma í þennan hóp enda málaflokkur sem Flokkur fólksins hefur beitt sér í bæði lengi og mikið. Helstu verkefni hans er gerð stefnu um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára byggt á fyrirliggjandi stefnumótun til þess að bæta þjónustu við börn á þessum aldri og foreldra / forsjáraðila þeirra. Horft verði m.a. til fyrirkomulags og samspils leikskólakerfisins sem fyrsta skólastigsins, dagforeldrakerfisins og fæðingarorlofs og hugsanlega lengingar þess. Þetta er yfirgripsmikið en þarna er færi á að skoða hvort ekki sé hægt að bæta þjónustu við börn í skólakerfinu sem þurfa sérstaka aðhlynning vegna sálfélagslegra vandamála og þar með stytta biðlistann.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagt er til að borgarráð samþykki endurskipum samstarfshóps um málefni miðborgar til ársloka 2025 sbr. hjálagt erindisbréf. Þá er árskýrsla samstarfshópsins fyrir árið 2022 lögð fram til kynningar.

Hlutverk samstarfshóps um málefni miðborgar er fjölþætt. Markverðast er að helstu verkefni er að að efla samráð og samtal milli ólíkra aðila sem koma að málefnum miðborgar bæði innan stjórnkerfis og utan með stefnu í málefnum miðborgar til hliðsjónar. Fleiri liðir lúta að samstarfi og samvinnu milli Reykjavíkurborgar og hagaðila um miðborgina. Þetta er auðvitað aðalatriðið. Enginn okkar vill upplifa aftur þá ólgu og reiði sem braust fram þegar valtað var yfir hagaðila vegna göngugötumálsins, Laugavegur/Skólavörðustígur. Í kjölfarið flúðu verslunareigendur í unnvörpum og verður Laugavegurinn kannski aldrei samur aftur.  Kannski má greina í þessu erindisbréfi breyttan vilja borgarmeirihlutans í þá átt að vilja hlusta betur á fólkið i borginni? Enn og aftur vekur það furðu að borgaryfirvöld þurfi einatt að ráða utanaðkomandi aðila til að ekki aðeins veita hina ýmsu ráðgjöf jafnvel þótt færustu sérfræðingar vinni hjá borginni heldur einnig til að annast talningu. Verkfræðistofa  fengin til að  telja bíla með negld dekk og rannsóknarsetur er ráðið til að telja verslanir, skemmtistaði, matsölustaði. Hér er greinilega ekki verið að horfa mikið í þann óheyrilega kostnað sem ráðgjöf af þessu tagi kostar sem ekki er einu sinni sérstaklega sérhæfð.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 22. maí 2023, um fyrirhugaða ferð borgarstjóra á aðalfund OECD og allsherjarþing Eurocities 12. – 16. júní:

Góða ferð.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, 10. maí 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. maí 2023 að breytingu að deiliskipulagi fyrir svæði 3 í Vogabyggð:

Allmargar athugasemdir komu frá fólki vegna deiliskipulags Vogabyggðar og flestar lutu að  bílastæðum sem verður nánast útrýmt á svæðinu. Kvartað er yfir samráðsleysi, að ekki sé hlustað og kynningar séu ófullnægjandi. Í einni athugasemdir er því mótmælt að verið sé að fjarlægja bílastæði sem tilheyra lóðarhöfum. Ýmist er verið að banna stæði eða fækka þeim verulega. Einnig er verið að breikka stétt svo bílar komast ekki með aðföng að húsum. Þetta mun takmarka margs konar  starfsemi. Þetta er jú atvinnusvæði hverfisins eins og segir í gögnum skv. deiliskipulags hugmyndunum. Fulltrúi Flokks fólksins telur þetta ekki ganga. Hér er um að ræða hverfi sem gæti hafa orðið skemmtilegt með blöndu af íbúðabyggð og atvinnustarfsemi ef ekki hefði verið þétt svona mikið. Öfgar í þéttingu byggðar og bann við bílum er með öllu óraunhæft. Viðskiptavinir munu ekki sækja þjónustu á svæðið ef þeim er meinaður aðgangur á bíl. Þetta er galli að mati Flokks fólksins og munu margir þeir sem glíma við einhverja hreyfiskerðingar ekki geta búið þarna. Hvernig á fólk að komast frá stæði og að útidyrum sínum? Mörg þessara nýju hverfa eru aðeins fyrir ákveðna hópa samfélagsins, þ.e. þá sem geta lifað bíllausum lífsstíl.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 24. apríl 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aukið framlag til LFA ehf. vegna opnunar leikskóla á Bakka, ásamt fylgiskjölum:

Flokkur fólksins styður allar tillögur sem lúta að því að fjölga leikskólaplássum og samhliða leysa biðlistavandamál leikskólanna. Erfitt er að átta sig á af hverju meirihlutinn sá eldri og sá nýi hélt áfram að lofa upp í ermina. 911 börn eru á biðlista samkvæmt talningu í vikunni en á sama tíma í fyrra biðu 800 börn. Núna er meðalaldur 23 mánuðir hjá þeim börnum sem bíða eftir plássi í borgarreknu skólana en var lengi 20 mánuðir. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur sem gætu verið liður í að stytta biðlista. Nefna má heimgreiðslur eða styrki til foreldra sem hafa tök á og vilja vera lengur heima eftir fæðingarorlof. Flokkur fólksins nefndi fyrir um þremur árum að borgarmeirihlutinn væri að ganga að dagforeldrakerfinu dauðu. Þá hélt meirihlutinn að dagar dagforeldrar væru liðnir og að Brúum bilið væri handan við hornið. Það var ekki. Dagforeldrum hefur fækkað úr 204 niður í 86 á tæpum áratug. Árið 2014 voru 700 börn hjá dagforeldrum en þau voru 371 í fyrra. Tillögur Flokks fólksins um að veita dagforeldrum frekari styrki t.d. til að bæta aðstöðu sína, að ósk þeirra, til að fleiri en einn gætu unnið  saman var hafnað.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. maí 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ferð borgarstjóra til Parísar og Strassborgar, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. mars 2023.

Ef litið er yfir ferðamál borgarstjóra erlendis og hans aðstoðarmanns er eins og ekkert hafi lærst af Covid. Nú er allt komið á fullt aftur og flogið erlendis eins og enginn sé morgundagurinn. Þessi þriggja daga ferð sem hér um ræðir kostaði yfir 600 þúsund. Mörgum þeim sem nú berjast í bökkum í hratt versnandi ástandi ef horft er til verðbólgu og hækkana þykja án efa 600 þúsund há fjárhæð sem hægt væri að gera mikið fyrir. Fulltrúi Flokks fólksins skorar á borgarstjóra að vera nískur þegar kemur að því að eyða peningum borgarsjóðs í svona skyndiupplifanir. Vissulega eru sumar ferðir mikilvægar til að viðhalda alþjóðasamskiptum en forgangsraða þarf af grimmd hér. Ekki þarf að minna á að flugsamgöngur losa mest af gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni af einstökum atvinnugreinum í íslenska hagkerfinu. Á sama tíma og ekki er séð að forgangsraðað sé mikið í þessum efnum er einnig minnt á vaxandi fátækt í Reykjavík og aukinn ójöfnuð. Vega og meta þarf hvar kröftum borgarstjóra og hans aðstoðarmanns er best komið þegar horft er til heilla og velferðar borgarbúa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. maí 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrua Flokks fólksins um ferðakostnað borgarstjóra og föruneytis frá því að COVID létti, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. mars 2023:

Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um heildarkostnað við ferðir borgarstjóra erlendis og hans föruneytis frá því að Covid létti. Óskað er sundurliðunar eftir fargjöldum og dagpeningum. Borist hefur svar þar sem fram kemur kostnaður við hvern þann borgarfulltrúa sem ferðast hefur á vegum borgarinnar. Það kemur ekki á óvart að hæsta upphæðin er vegna ferða borgarstjóra og  aðstoðarmanns hans. Fulltrúi Flokks fólksins hafði vonast til þess að eftir reynsluna af Covid myndi meirihlutinn hafa tileinkað sér fjarfundi sem við öll þurftum að gera og sem var okkur ómetanlegur lærdómur. En um leið og Covid létti virðist sem borgarmeirihlutinn hafi strax dottið í ferðalög í erindagjörðum fyrir borgina, sannarlega mismikilvæg. Hér væri e.t.v. ekki verið að amast út í þetta nema vegna þess að borgin stendur verulega illa fjárhagslega og auk þess ber  okkur skylda að reyna að draga úr losun koltvísýrings eins mikið og frekast er unnt. Ekki þarf að minna á að flugsamgöngur losa mest af gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni af einstökum atvinnugreinum í íslenska hagkerfinu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 15. maí 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. mars 2023:

Flokkur fólksins spurði um kostnað við kynjaða fjárhags- og starfsáætlunargerð frá upphafi en um er að ræða tæki sem notað er til þess að stuðla að jafnrétti. Lögð er fram umsögn fjármálaskrifstofu. Flokki fólksins er annt um jafnræði og jafnréttindi en krefst þess einnig að skynsemi og hagsýni ríki í meðhöndlun á opinberu fjármagni. Sýna þarf fram á að það sem kostar mikla peninga skili tilætluðum árangri. Ekki verður séð að sveitarfélög utan Reykjavíkur hafi tekið upp þessa aðferðafræði við gerð fjárhagsáætlanagerðar. Stundum finnst fulltrúa Flokks fólksins að þessari áherslu um kynjaða fjárhagsáætlanagerð sé flaggað þegar stjórnvald vill reyna að sýna fram á „víðsýni“ viðkomandi stjórnvalds. Í umsögn fjármálastjóra segir orðrétt:   „Ávinningur kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hefur ekki verið mældur í krónutölu og ekki hafa verið sett fram beinir og mælanlegir mælikvarðar varðandi innleiðinguna.“  Það hlýtur að vera grundvallaratriði, þegar er verið að innleiða eitthvað nýtt vinnulag, að upphafleg markmið séu skýr og sérstakir mælikvarðar séu skilgreindir  til að hægt sé að meta hvort markmiðið  hafi náðst. Hér er ljóst að engin  stöðugreining hafi farið fram í upphafi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 15. maí 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bókað um öryggismál í Úlfarsárdal og lagt fram tillögur í  þ.m.t. að bæta götulýsingu. Hægt hefur gengið að betrumbæta. Nú liggur á borðinu tillaga  íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals að gerð verði  gangskör í að bæta götulýsingu í Úlfarsárdal enda þolir málið enga bið. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagsyfirvöld að ganga í þessar framkvæmdir hið fyrsta.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 11. maí 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

Í umsögn íbúaráðs Kjalarness, dags. 2. maí 2023 um, kynningu verklýsingar / drög að tillögu á breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur – Skotæfingarsvæði á Álfsnesi er á það bent að tekið sé fram í drögunum að breytingin sé fyrirhuguð tímabundið þar til önnur lausn á málinu finnist. Engu að síður hefur svæðið verið opið til skotæfinga með hléum til margra ára eða frá árinu 2008. Íbúum hefur allan þennan tíma verið haldið í óvissu og vita ekki hvort svæðinu verði lokað varanlega. Þessi rússíbani hefur tekið sinn toll og kostað þá sem hafa verið í forystu fyrir að búa án mengunar af skotvopnum ómældan tíma og þrek. Þeir sem stunda skotíþrótt eiga greinilega marga góða hauka í horni því þeir eru ávallt teknir fram yfir þarfir fólks til þess að búa á heimilum sínum í friði. Sama gildir um útivistarhópa sem nota Esjuna og svæðið þar í kring til  íþróttaiðkunar sinnar svo sem hestamenn og göngufólk. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekkert á móti skotfimi og sér að það er  fyrir suma eflaust mikil ástríða. Fulltrúi Flokks fólksins hefur einfaldlega kennt í brjósti um íbúa Kjalarness vegna þessa máls og telur það liggja skýrt fyrir að á þeim hefur verið brotið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 8. maí 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

 

Tekið er undir umsögn íbúaráðs Laugardals dags.  8. maí 2023, um tillögu að breyttu deiliskipulagi Laugardals – Þjóðarhallar þar sem íbúaráðið ítrekar þær áhyggjur sem fram hafa komið vegna aðstöðuleysis til íþróttaiðkunar barna og ungmenna í dalnum bæði í skóla og íþróttafélögum hverfisins. Harmað er jafnframt samráðsleysi við íbúa hverfisins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bent á þetta í bókunum sínum þ.m.t.  áhyggjur skólanna og íþróttafélaga hverfisins um tryggt aðgengi barnanna í hverfinu að höllinni og Þjóðarhöllinni þegar fram líða stundir.  Afkastageta hallarinnar hefur ekki verið lögð fram og því ekki vitað hversu mikill tími verði fyrir íþróttafélögin eða skólana í húsnæðinu. Kallað verði eftir því að fulltrúar hverfisins fái aðkomu að þarfagreiningu og frekari vinnu og þróun. Segir jafnframt í ályktuninni að “Að hverfið fái að upplifa að í boði verði eðlileg þjónusta fyrir öll í Laugardalnum, í annað hvort þjóðarhöllinni eða Laugardalshöll. Fer ráðið fram á að íþróttaiðkun barna og kennsla skv. aðalnámskrá verði ekki víkjandi breyta í skipulagi og uppbyggingu innviða hverfisins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagðar fram fundargerðir stjórnar Sorpu bs. frá 14. mars og 11. apríl 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar frá 11. apríl:

Niðurstaða forathugunar á nýrri staðsetningu fyrir endurvinnslustöð. Stýrihópur á vegum Sorpu, sem Kópavogsbær átti fulltrúa í, skilaði á dögunum tillögum um hvar koma ætti nýrri endurvinnslustöð fyrirtækisins fyrir. Þar var lagt til að það yrði gert við Arnarnesveg á jaðri kirkjugarðsins. Flokkur fólksins tekur undir þá skoðun og upplifun  starfsmanna hjá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma  að þessi hugmynd sé ekki aðlaðandi.  Það er skrýtin  og óþægileg  tilfinning fyrir þá sem eiga ástvini í þessum kirkjugarði að hafa endurvinnslustöð í bakgarðinum. Það hlýtur að vera hægt að finna annan stað fyrir þessa  endurvinnslustöð. Það ætti að  vera forgangsmál að sýna virðingu bæði syrgjendum og þeim sem hafa kvatt þessa jarðvist.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: 50. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. og 24. maí 2023. 5. liður fundargerðarinnar frá 17. maí og 10. liður fundargerðarinnar frá 24. maí eru samþykktir. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

Hér er um erfitt mál pólitískt að ræða að mati fulltrúa Flokks fólksins. Rífa á gömul hús í stað þess að varðveita þau. Mál af þessu tagi eru ávallt umdeild enda tilfinningamál fyrir marga. Um er að ræða gróinn reit í Vesturbænum. Markmiðið er vissulega að fjölga íbúðum sem verða 15 talsins en hér finnst sumum að gengið sé of langt í þéttingaráformum. Fulltrúa Flokks fólksins þykir miður að ekki eigi að gera ráð fyrir bílastæðum sem mun án efa hafa áhrif á eftirspurn þessara íbúða. Niðurrif húsa er vissulega endanleg aðgerð. Sum gömul hús eru orðin það skemmd að ekkert annað vit er í en að rífa þau. Þetta er eitthvað sem meta þarf hverju sinni. Í þessu tilfelli má vísa í álit Borgarsögusafns á þessum reit en þar er nefnd Holtsgata 10 og segir að húsið sé metið hátt út frá menningarsögulegu gildi og varðveislugildi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 26 mál. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 24. lið yfirlitsins:

Bókun fulltrúa Flokks fólksins um umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 9. maí 2023, um frumvarp til laga um Mennta- og skólaþjónustustofu. Fulltrúi Flokks fólksins telur að flestir séu sammála um að MMS (Menntamálastofnun) hafði runnið sitt skeið og  með þessari breytingu megi laga ákveðna hnökra með því að færa ákveðin verkefni inn til ráðuneytisins. Greiningarverkefni, ytra mat og ýmis stjórnsýsluverkefni, sem hafa verið veigamikil verkefni stofnunarinnar, flytjast til mennta- og barnamálaráðuneytis. Það sem fulltrúa Flokks fólksins finnst hafi skort er að gerðar séu árangursmælingar á gagnreyndum aðferðum. Það á að sjálfsögðu einungis  að notast við slíkar aðferðir. Árangur verður að vera hluti af kjarna markmiðum. Ef ekki eru árangursmælingar þá er ekki vitað hvort fjármagn sé að nýtast til að ná því takmarki sem sett hefur verið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem þetta hefði mátt koma skýrar fram í umsögn Reykjavíkur um frumvarpið

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um matarsóun í mötuneytum Ráðhúss og Borgartúns:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um matarsóun í mötuneytum Ráðhússins og Borgartúni. Hvernig er skipulagi og skilvirkni háttað í innkaupum og hvernig tekst til að nýta afganga en á sama tíma að bjóða upp á hollan  og girnilegan mat.  Hversu miklu er hent t.d. birgðum sem hafa verið keyptar en ekki náðst að nýta? MSS23050147

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um upplýsingar um flutning barna milli skóla:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingar um flutning barna milli skóla. Hversu tíðir eru slíkir flutningar og hverjar eru ástæður þess að foreldrar ákveða að taka barn úr skóla og setja í annan skóla? Spurt er um tölur síðustu 5 ára.  Hér er verið að leita eftir svari sem varpar ljósi á ástæður þess að barn flyst á milli skóla, jafnvel ítrekað. Um gæti verið að ræða flutningar fjölskyldu vegna húsnæðisvanda, flutning barns í annan skóla vegna eineltismála svo eitthvað sé nefnt.  Fulltrúi Flokks fólksins spyr um þessi mál ekki síst í ljósi mikilla erfiðleika á húsnæðismarkaði um þessar mundir. Stór hópur barnafjölskyldna búa við húsnæðisóöryggi og þurfa því sífellt að vera að færa sig um set.  Foreldrar sem eru á leigumarkaði þvælast frá einu húsnæði í annað með börn sín. Dæmi eru um að börn frá efnaminni heimilum hafi gengið í allt að fimm grunnskóla áður en þau brautskrást. Vart þarf að fjölyrða um hin neikvæðu áhrif sem tíðir flutningar hafa á andlega og félagslega líðan barnanna sem um ræðir. Hér er spurt um hvað þetta eru mörg börn á ári og er óskað eftir að upplýsingum um síðustu 5 ár. MSS23050148

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn stöðu lóðaúthlutana

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um stöðu lóðaúthlutana hjá Reykjavíkurborg. Getur verið að óhagnaðardrifin leigufélög séu stopp í sínum áætlunum vegna þess að lóðir í Reykjavík eru ýmist ekki tilbúnar að hreinlega fást ekki? Jafnframt er óskað upplýsinga um hvort einstaklingar geti fengi lóð í Reykjavík, hvort sem það sé lóð fyrir eigið hús eða fjöleignarhús í samvinnu við aðra. Fulltrúi Flokks fólksins er eins og aðrir orðinn langþreyttur á hversu illa gengur að byggja nóg til að allir geti búið við húsnæðisöryggi. Í fyrra þurfti Bjarg íbúðafélag að skila inn stofnframlögum vegna þess að lóðir þar sem byggja átti eru ekki tilbúnar. Bjarg íbúðafélag er óhagnaðardrifið leigufélag að danskri fyrirmynd sem byggja íbúðir sem seldar eru á viðráðanlegu verði. Þá sagði formaður VR lóðaskort standa í vegi fyrir uppbyggingu nýrra íbúða og kallað var eftir aðgerðum í húsnæðismálum. Spurt er nú hvort þessi sama staða sé uppi nú? MSS23050149

 

 Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn viðbrögð borgarinnar vegna bréfs frá mennta- og barnamálaráðuneytis vegna kæru foreldra að þeim var ekki veittur systkinaafsláttur á skólamáltíð þar sem börnin áttu ekki sama lögheimili:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins barst afrit af bréfi mennta- og barnamálaráðuneytisins vegna kæru foreldra vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar um að veita þeim ekki systkinaafslátt á gjöldum vegna skólamáltíða á þeim grundvelli að börn þeirra eiga ekki sama lögheimili. Í bréfinu eru skóla og frístundayfirvöld tekin í bakaríið og þeim gert að senda inn afrit af öllum gögnum.  Í framhaldi óskar Flokkur fólksins eftir hvernig borgaryfirvöld hyggjast bregðast við þessum úrskurði? Alvarlegir meinbugir komu fram í ferli þessa máls sem lýtur að stjórnsýslu. Svör bárust seint og illa. Í stað þess að svara strax og bjóðast til að endurskoða málið og greiða mismun varð vart við hroka og skilningsleysi af hálfu borgarinnar. Hyggst Reykjavíkurborg skoða þá meinbugi sérstaklega og ef svo er stendur til að gera betrumbætur? MSS23050150

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort verðþak sé sett á utanaðkomandi ráðgjafarkaup sem starfshópar mega kaupa:

Flokkur fólksins spyr hvort verðþak sé sett á hvað starfshópar geta keypt sér mikla ráðgjöf frá ráðgjafarfyrirtækjum og sé svo, hver er sú upphæð? Í öllum erindisbréfum sem gefin eru út af borgarstjóra er kafli sem ber titilinn Til ráðgjafar og samstarfs og segir í honum að “Stýrihópurinn leiti ráðgjafar innan og utan borgarkerfisins hjá lykilaðilum sem hafa sérþekkingu á viðfangsefninu” Nú má ætla að í starfshóp sé gjarnan valið fólk sem er með þekkingu og jafnvel sérþekkingu á viðfangsefni því sem hópurinn á að fjalla um. Í gegnum árin hafa tugir milljóna ár hvert streymt til  ráðgjafafyrirtækja vegna ýmissa verkefna og skýrslna. Þar sem ekki eru til peningar um þessar mundir í borgarsjóði telur fulltrúi Flokks fólksins að setja þurfi bremsu á utanaðkomandi ráðgjafarkaup. Í borgarkerfinu er mikill mannauður og vanti starfshópi sérfræðiupplýsingar má án efa leita til starfsmanna borgarinnar sem eru einmitt ráðnir til starfa vegna sinnar þekkingar og sérþekkingar. Stafsmenn eru einmitt fólk sem gæti tekið að sér megnið af  þeim verkefnum sem ráðgjafarfyrirtæki hafa fengið inn á sín borð fram til þessa og rukkað fyrir háar upphæðir.  Hér þarf að gæta hófs og hleypa ekki ráðgjafarfyrirtækjum að taumlaust.