Fyrri umræða fjárhagsáætlunar 7. nóvember 2024, bókanir og breytingatillögur Flokks fólksins

Borgarstjórn 7. nóvember 2023
Fyrri umræða fjárhagsáætlunar 2024 og fimm ára áætlun.

Bókun Flokks fólksins undir Fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember þar sem fjárhagsáætlun 2024 var kynnt:

A hlutinn er að mestu fjármagnaður með skatttekjum íbúa borgarinnar. Yfirlit um A og B hluta gefur fyrst og fremst yfirlit um heildarumfang í rekstri og efnahag borgarinnar vegna þess hve einstakar rekstrareiningarnar eru ótengdar.
Rekstur A-hluta Reykjavíkurborgar hefur verið erfiður á undanförnum árum. Árlega hefur hluti rekstrarútgjalda borgarsjóðs verið fjármagnaður með lántökum. Fjárfestingar og afborganir lána hafa verið fjármagnaðar með lántökum. Fráleitt er að kenna kostnaði við verkefni sem tengjast málefnum fatlaðs fólks um slæma rekstrarstöðu borgarinnar að miklu leyti eins og gert hefur verið.
Útlit er fyrir að rekstur A-hluta borgarsjóðs  sé í hægum bata og því ber vissulega að fagna. Langt er þó í land með að fjárhagsstaða borgarinnar sé ásættanleg. Athygli vekur t.d. að Veltufjárhlutfall fer í fyrsta sinn um árabil undir 1.0 á komandi ári og fer svo enn lækkandi. Það bendir til að erfiðara verði að greiða reikninga á réttum tíma á komandi árum með hækkandi dráttarvöxtum.  Flokkur fólksins leggur mikla áherslu á að gripið verði til óhjákvæmilegra hagræðingaraðgerða sem skipta máli í rekstri borgarinnar. Hagræðingarkrafa um 1.0 % ætti að flokkast undir eðlilegt árlegt aðhald en ekki sértækar aðgerðir til að bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2024-2028, fyrri umræða, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember:

Ef horft er til fimm ára áætlunar Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir verulegum viðsnúningi í rekstri A-hluta borgarsjóðs til hins betra.
Gegnumgangandi er að reiknað er með að samningar náist við ríkið um fjármögnun málefna fatlaðs fólks eins og borgin hefur lagt upp með. Það er engan vegin öruggt og jaðrar við að vera draumsýn.
Það er mjög varhugavert  að ganga út frá því að ríkisvaldið muni samþykkja allar kröfur Reykjavíkurborgar þar að lútandi. Því væri skynsamlegt að setja upp tvær eða þrjár sviðsmyndir um niðurstöður þeirra samninga til að betur liggi fyrir hvernig fjármál borgarinnar muni þróast út frá mismunandi forsendum. Fjárhagsáætlunarvinnu ætti einmitt að nota til að sem fæst komi á óvart.
Athyglisvert er að veltufjárhlutfall A-hluta borgarsjóðs fer lækkandi á tímabilinu og er komið niður undir 0,8. Það er varhugaverð þróun sem nauðsynlegt er að bregðast við tímanlega. Mikil lækkun Veltufjárhlutfalls undir 1 eykur líkur á að dráttarvextir fari vaxandi. Á meðan þetta er með þessum hætti hringja viðvörunarbjöllur. Það mun taka lengstan tíma að koma mikilvægasta atriðinu í fjármálastefnu borgarinnar í ásættanlegt horf, veltufé frá rekstri. Nauðsynlegt er að bregðast við  og leita allra leiða til að styrkja þróun veltufjár frá rekstri í A-hluta borgarsjóðs.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Breytingartillögur með Fjárhagsáætlun 2024

Flokkur fólksins lagði fram 4 breytingartillögur. Sú fyrsta sneri að því að frysta  gjaldskrárhækkanir um eitt ár er varða vetrar- og sumarstarf frístundaheimila og sértækrar félagsmiðstöðvar barna og eldri borgara sem og annarra minnihlutahópa . Hafa skal í huga að ekki er hægt að nota Frístundakortið til að greiða sumarnámskeið auk þess sem efnaminni foreldrar yfir 1000 barna nota Kortið til að greiða frístundaheimili í stað þess að þeim séu boðnar heimildargreiðslur til að dekka kostnað við frístundaheimili.
Tillaga tvö er að gjald í Árbæjarsafns verði breytt m.a. þannig að hjón/pör sem heimsækja safnið með barn/börn greiði aðeins gjald fyrir annað foreldrið og að unglingar milli 17 og 18  fái frían aðgang sem og að nemar fái ókeypis aðgang. Tekjulækkun nemur 10 m.kr. verði fjármögnuð af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð. Þriðja tillagan er að hið árlega hundagjald og einnig handsömunargjald lækki um 50%. Hið fyrra er nú kr 15.700 og hið síðara kr 34.000.
Loks er lagt til að viðmiðunartekjur  til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2024 verði nokkru hærri en meirihlutinn leggur til. Kostnaðarauki 50 m. kr. verði fjármagnaður af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir á sameiginlegum kostnaði (ÖNN) verði hækkaðar á móti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerðir:

Fundargerð velferðarráðs 18. okt.
Liðu 2
Skilgreining á markhópi neyðarskýla. Flokkur fólksins tekur það ekki í mál að einstaklingi sem leitar skjóls í neyðarskýli sé nokkurn tíma vísað út á guð og gaddin. Engum skal úthýst nema búið sé að finna viðkomandi annað skjól eða tryggja að viðkomandi sé kominn undir þak.

Fundargerð velferðarráðs 1. nóv.
Liður 6
Að sveitarfélög standi að baki Vettvangs- og ráðgjafarteymis (VoR-teymis). Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar tillögunni. Hér er um afar viðkvæman hóp að ræða. VoR-teymið sinnir mikilvægu hlutverki og er brýnt að VoR -Teymið fái þann stuðning sem þarf til að viðhalda þeirra góða starfi. Mikilvægt er að öll þau sem eru án heimilis fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á.

Fundargerð umhverfis og skipulagsráð 25. okt.
Liður 30
Um viðhald á strætóbiðstöðvum. Á sjötta hundrað strætó biðstöðvar þarfnast endurbóta. Samkvæmt nýju leiðaneti á að leggja niður 126  biðstöðvar. Það kann að vera óskynsamlegt þar sem væntingar um að stutt sé í borgarlínu hafa dvínað. Um það bil 156 biðstöðvar  þurfa   aðgengisbætandi aðgerðir.  Samkvæmt áætlun eru um 15-20  biðstöðvar  endurgerðar á ári, sem er ekki mikið þegar heildarfjöldi er 546. Á þessum hraða tekur það um 35 ár að ljúka endurbótum á þeim öllum.

 

Breytingatillögur Flokks fólksins með greinargerðum fluttar við fyrri umræðu

F – 1 Frysting á gjöldum ákveðinna minnihlutahópa

Flokks fólksins leggur til að frysta allar gjaldskrárhækkanir er varða vetrarstarf frístundaheimila og sértækrar félagsmiðstöðvar barna og eldri borgara sem og annarra minnihlutahópa um eitt ár. Einnig er lagt til að frysta allar gjaldskrárhækkanir fyrir sumarstarf frístundaheimila og sumarstarf sértækra félagsmiðstöðva í alla vega eitt ár.
Áður hefur verið minnst á Frístundakortið sem ekki er hægt að nota til að greiða sumarnámskeið eða styttri námskeið.
Tekjulækkun vegna tillögunnar nema 37,3 m.kr. Tekjulækkunin verði fjármögnuð af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir skóla- og frístundasviðs hækkaðar á móti.

 

F-2 Breytingar á gjöldum í Árbæjarsafn

Tillaga um að gjaldskrá Árbæjarsafns verði breytt, að gjald fyrir aðgang verði lækkað. Lagt er til að unglingar milli 17 og 18 ára fái frían aðgang að Árbæjarsafni eins og börn frá 0 til 17 ára. Lagt er til að nemendur með gilt skólaskírteini fái ókeypis aðgang en nú greiða þeir 1.200 kr. Lagt er til að hjón/pör sem heimsækja safnið með barn/börn greiði aðeins gjald fyrir annað foreldrið.
Ef foreldrar koma með barn/börn er kostnaður 3.900 krónur og sé með þeim barn sem orðið er 18 ára greiðir fjölskyldan kr. 5.850. Þetta er há upphæð fyrir margar fjölskyldur sem geta þar af leiðandi ekki heimsótt  safnið. Þess utan eru allar veitingar seldar á uppsprengdu verði. Tekjulækkun vegna tillögunnar nemur 10 m.kr. Tekjulækkunin verði fjármögnuð af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir menningar- og íþróttasviðs hækkaðar á móti.

Greinargerð

Reykjavíkurborg skilgreinir sig sem menningarborg. Í raun má segja að Árbæjarsafn sé aðeins fyrir efnamikið fólk. Þessu þarf að breyta og leggur Flokkur fólksins því til að foreldrar sem koma með barn/börn sín greiði bara fyrir annað foreldrið og að frítt sé fyrir börn til 18 ára enda er einstaklingur skilgreindur sem barn til 18 ára. Það ætti að vera metnaður borgar meirihlutans og þeirra sem hafa umsjón með safninu að sem flestir komi þangað til að njóta húsakynna og umhverfis. Fegurð, saga staðarins og veitingar á viðráðanlegu verði, stuttir  viðburðir og fleira í þeim dúr er eitthvað sem laðar að og gefur staðnum líf. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgaryfirvöld að endurskoða gjaldskránna og samþykkja þessa tillögu sem kveður á um hóflegar breytingar, lækkun á aðgangskostnaði fyrir fjölskyldur  sem heimsækja safnið.

 

F-3 Breytingar á hundagjöldum – sent á MÍR

Tillaga Flokks fólksins um að árlegt hundagjald lækki um 50% en það er nú 15.700 krónur og verði 7.850 krónur. Einnig er lagt til að handsömunargjald lækki um helming en það er nú 34.000 krónur og verði þess í stað 17.000 krónur.
Athuga verður að það hafa ekki allir ráð á að greiða rúmar 30 þúsund krónur vegna þess að hundur þeirra hefur óvart sloppið og er handsamaður af Reykjavíkurborg.
Tekjulækkun vegna tillögunnar nemur  (19 m.kr.)  10 m.kr.
Tekjulækkunin verði fjármögnuð af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir menningar- og íþróttasviðs hækkaðar á móti.

 

F-4 Viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts

Breytingartillaga fulltrúa Flokks fólksins við tillögu um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2024.

Lagt er til að viðmiðunartekjur tillögunnar verði eftirfarandi:

  1. Réttur til 100% lækkunar

Einstaklingur með tekjur allt að 5.412.000 kr.

Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 7.555.000 kr.

  1. Réttur til 80% lækkunar

Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.412.001 til 6.196.000 kr.

Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 7.555.001 til 8.370.000 kr.

III. Réttur til 50% lækkunar

Einstaklingur með tekjur á bilinu 6.196.001 til 7.202.000 kr.

Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 8.370.001 til 10.000.000 kr.

Kostnaðarauki vegna tillögunnar nemur 50 m.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir á sameiginlegum kostnaði (ÖNN) verði hækkaðar á móti.

Greinargerð

Tillaga borgarstjóra vísar til hækkana á bótum almannatrygginga til samræmis við þróun réttinda almannatrygginga. Hins vegar er spurning hvort ekki sé tilefni til frekari hækkunar sérstaklega í ljósi þess að verðbólga yfirstandandi árs hefur ekki lækkað í samræmi við áætlanir þær sem lágu til grundvallar hækkun almannatrygginga síðustu áramót.

Bætur almannatrygginga hækkuðu síðustu áramót um 0,6% vegna vanmats á verðbólgu í fjárlögum ársins 2021, og 4,9% vegna áætlaðrar verðbólgu. Þá ákvað ríkisstjórnin að hækka bætur almannatrygginga vegna örorku sérstaklega um 0,5% til þess að tryggja kaupmáttaraukningu. Auk þess hækkuðu bæturnar heilt yfir um 2,5% um mitt árið.

Sé ekki litið til 0,6% hækkunarinnar hefur lífeyrir almannatrygginga aðeins hækkað um 8% vegna áætlana um þróun verðlags á yfirstandandi ári. Vísitala neysluverðs hefur þegar hækkað um 6% það sem af er ári og ekkert lát er á þeirri þróun. Að öllum líkindum verður vísitöluhækkun ársins nær 8,6%, sbr. nýjustu þjóðhagsspár Seðlabanka og Hagstofu.

Réttast væri að hækka viðmiðin um vanreiknaða verðbólgu síðasta árs. Því ætti fjárhagsaðstoð að hækka fyrst, um 0,6 vegna vanreiknaðrar verðbólgu árið 2022 og svo um 8,6% samkvæmt nýjustu þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands. Samanlagt er það hækkun um 9,25%.