Forsætisnefndarfundur 14. október 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Yfirlit yfir móttökur:

Lagt er fram yfirlit yfir móttökur sem spannar frá mars til september 2022. Gott hefði verið ef sundurliðun fylgdi hverjum lið fyrir sig og heildarkostnaður. Það vekur athygli að viðburðurinn Stjórnendadagur Reykjavíkurborgar kostaði kr. 1.117.233

Fjármál borgarinnar hafa sennilega aldrei verið eins slæm og nú og víða er hart í ári. Gæta þarf aðhalds í þessu eins og í öðru.  Það hafa ekki allir borgarbúar það gott. Allt of margir ná ekki endum saman. Sjálfsagt er að styrkja viðburði af fjölbreyttu tagi og niðurgreiða aðra, en þetta er þó alltaf spurning um hóf og skynsemi og að ávallt sé reynt að fara sem best með útsvarsfé borgarbúa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um betra aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunnskólum Reykjavíkur – afgreiðsla velferðarráðs – framlagning 

Fulltrúa Flokks fólksins finnst miður hvernig tillaga ungmennaráðs Árbæjar og Holta var afgreidd af meirihluta velferðarráðs. Tillagan gekk út á að „aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu í öllum grunnskólum yrði bætt“. Án samráðs við minnihluta velferðarráðs var lögð fram breytingartillaga um að „heilsugæslusálfræðingar fengju afnot af skólahúsnæði til að geta veitt nemendum meðferð“.
Þetta er auðvitað fráleitt enda hafa heilsugæslusálfræðingar aðsetur á heilsugæslu og eiga auk þess fullt í fangi með að halda í við biðlista á heilsugæslu.  Á þetta reyndi Flokkur fólksins að benda á en fékk bágt fyrir.

Sjálfsagt er að eiga reglulegt samtal við Heilsugæsluna en eins og fram kemur hjá fulltrúa Heilsugæslunnar þá er ekki neitt  „svigrúm til þess að sálfræðingar heilsugæslunnar vinni á vettvangi skólanna enda grundvallast þjónusta sálfræðinga heilsugæslunnar á öðrum lögum og reglugerðum en skólaþjónusta sveitarfélaga”.

Hér hefði mátt spara spor og leiðindi ef höfð hefði verið samvinna við minnihlutann í velferðarráði. Þá hefði verið hægt að afgreiða þessa ágætu tillögu ungmennaráðs Árbæjar og Holta af meiri skynsemi og með raunhæfari hætti. Eitt af því sem Flokkur fólksins hefur Ítrekað lagt til er að aðsetur skólasálfræðinga verði alfarið í skólum. Það myndi gera vinnu þeirra markvissari, sparaði fjármagn og skapaði faglega nálægt milli skólasálfræðinganna og nemendanna.