Flokkur fólksins leggur fram 19 tillögur á fundi borgarstjórnar 5. desember þegar seinni umræða fer fram um Fjárhagsáætlun 2024. Um er að ræða sparnaðartillögur og breytta forgangsröðun málefna í þágu borgarbúa, þá helst barna, öryrkja og þeirra sem ná ekki endum saman fjárhagslega. Áhersla Flokks fólksins er fyrst og fremst að laga stöðu þeirra verst settu. Í það þarf að setja fjármagn og það fjármagn ætti að taka úr kerfum sem farið hafa offari í þenslu og bruðli síðustu árin. Víða í borgarkerfinu er hægt að hagræða í rekstri, auka skilvirkni og draga úr yfirbyggingu.
Lengi hefur Flokkur fólksins talað fyrir að geyma fjárfrek verkefni þar til málefni fólksins sjálfs eru komin í betra horf. Geyma má framkvæmdir við Hlemm, Grófarhús og Lækjartorg þess vegna um ókomin tíma. Ekkert af þessu er gargandi nauðsyn. Meðal tillagna Flokks fólksins við seinni umræðu er hækkun grunnfjárhæða fjárhagsaðstoðar og skal uppfærslan miða við prósentuhækkun matarkörfunnar. Öryrkjar og einstæðir foreldrar eru sá hópur sem er einna verst settur í Reykjavík.
Börn vilja hitta fagaðila
Flokkur fólksins leggur fram ítrekaða tillögu um að borgarstjórn samþykki að auglýsa eftir fagfólki með sérmenntun í sálfræði- og félagslegri þjónustu við börn með það að markmiði að ganga á biðlista barna sem bíða eftir viðtölum. Sterkar vísbendingar eru að beint aðgengi barna að viðtölum við fagfólk hafi dregist saman en þess í stað hefur bein aðstoð við starfsfólk skóla aukist í gegnum svo kölluð lausnateymi. Því ber vissulega að fagna. Unglingarnir sjálfir, unglingaráðin, hafa ítrekað tjáð sig um þá ósk að sálfræðingar og aðrir fagaðilar verði staðsettir í skólunum. Vanlíðan barna hefur aukist. Það staðfesta ýmsar lærðar skýrslur.
Í ársskýrslu velferðarsviðs frá 2021 kemur fram að algengustu ástæður tilvísana barna til stoðþjónustu er tilfinningalegar. Mesta aukning milli ára er vegna tilfinningalegs vanda, eða um 63% og vegna málþroskavanda, eða 62%. Á farsældarþingi fyrr á árinu voru kynntar niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sem lögð var fyrir grunnskólanemendur í vor. Sjötta hver stúlka í 10. bekk grunnskóla hefur orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri áreitni af hálfu fullorðins. Einnig kom fram að 30-44% barna eru döpur og allt að 56% með kvíða. Við þessu þarf að bregðast með ýmsum hætti m.a. að auka aðgengi barna að samtali við fagfólk. Á þinginu kom það einnig skýrt fram að unglingarnir vilja hitta fagaðila, sálfræðinga eða annan sambærilegan þar sem þau fá tækifæri til að ræða sín mál beint við fagmanneskju. Í ljósi þess að á þriðja þúsund barna bíða nú á biðlistanum verður að bretta upp ermar og gera gangskör. Aukin vanlíðan barna í Reykjavík er ekki ný tíðindi og hafa verið margrædd í borgarstjórn af borgarfulltrúa Flokks fólksins. Flokkur fólksins getur ekki á heilum sér tekið fyrr en biðlistar heyra sögunni til. Við megum aldrei láta deigan síga. Borgarfulltrúar mega aldrei gleyma því að við erum í vinnu hjá borgarbúum. Við erum málpípa borgarbúa og vinna skal öll mál með hagsmunir þeirra að leiðarljósi.
Birt í Morgunblaðinu 5. desember 2023