Hveitibrauðsdagarnir liðnir í Reykjavík

Mikið hefur gengið á í borginni að undanförnu. Það sem hefur gerst á þeirri viku sem liðin er síðan fyrri umræða var í borgarstjórn um ársreikning til seinni umræðu sem var í gær 9. maí er að Reykjavíkurborg sendi frá sér fréttatilkynningu í vikunni þess efnis að villa hafi verið í ársreikningnum. Við endurskoðun reyndust verðbætur í sjóðstreymi oftaldar um 2.492 m.kr. og lántaka vantalin um sömu fjárhæð. Nú er komin upp spurning hvenær má treysta fjármálalegum upplýsingum frá borginni og hvenær ekki? Meirihlutinn og fjármálastjórn reyndu að gera lítið úr þessari skekkju. Skekkja sem þessi dregur engu að síður úr trúverðugleika auk þess sem margar spurningar vakna um áhrif leiðréttingar af þessu tagi á niðurstöðu veltufjár frá rekstri og fjármögnunarhreyfingar í sjóðstreymi eins og sagði í fréttatilkynningu frá borginni.

Það er alvarlegt mál að það sé lagður rangt uppsettur ársreikningur fyrir kjörna fulltrúa til umræðu í borgarstjórn. Umræður um fjárhagsstöðu borgarinnar frá fyrri umræðu, voru unnar út frá röngum forsendum. Í raun ætti að krefjast þess að fyrri umræða um ársreikninga borgarinnar verði tekin aftur og nú út frá réttum forsendum? Einnig kom fram í fréttatilkynningu, að það hafi einnig verið skekkja í ársreikningi borgarinnar á árinu 2021, að vísu um mun lægri fjárhæð. Það er grundvallaratriði að treysta megi  framlögðum ársreikningum. Ef það er ekki hægt er fokið í flest skjól. Leynast kannski fleiri skekkjur í ársreikningum liðinna ára?

Hvað segja oddvitar meirihlutans?

Oddviti Viðreisnar skrifaði grein í Mbl. um daginn og sagði að aðgerða væri þörf í fjármálunum borgarinnar. Hvar hefur hún verið síðustu árin? Ber hún ekki fulla á ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin? Af hverju skyldi eiga frekar að trúa henni núna en þegar hún lýsti því yfir fyrir kosningar að fjármál borgarinnar væru í stakasta lagi. Hún lýsti því yfir í upphafi hve mikil nauðsyn væri á að fá reynda fjármálamanneskju inn í borgarstjórn. Oddviti Pírata tekur hins vegar alltaf upp hanskann fyrir félaga sína í meirihlutanum og borgarstjóra. Hjá Pírötum er meðvirknin alger bæði gagnvart fjármálastöðunni og fjáraustri til þjónustu-  og nýsköpunarsviðs (ÞON). Pírötum virðist fyrirmunað að axla nokkra ábyrgð á stöðu mála.

Hvað Samfylkinguna varðar þá eru það bara strútseinkennin sem hrjá þann flokk. Þau stinga höfðinu í sandinn, flýja veruleikann, eru í fílabeinsturni, sjá má afneitun og raunveruleikaflótta.

Þau segjast vera að hagræða, spara en hagræðing upp á einn milljarð í 150 milljarða veltu er smáaðgerð sem ætti að vera árleg hagræðingarkrafa jafnvel þótt reksturinn sé í góðu jafnvægi.

Og svo er það bjargvætturinn sem svo átti að verða,  Framsóknarflokkurinn, sem kom sá og sigraði, en ekki lengi.

Hvað segja borgarfulltrúar Framsóknarflokksins?

Hvað segja borgarfulltrúar Framsóknaflokksins. Eru þau bara ánægð með stöðuna sem þau geta ekki firrt sig ábyrgð á?

Hvar eru loforðin um breytingar sem flokkurinn sigldi undir í síðustu kosningabaráttu?

Eru breytingarnar kannski þær að það er ekki hægt að treysta þeim gögnum sem lögð eru fyrir kjörna fulltrúa í fyrstu umræðu um ársreikning fyrir árið 2022? Eru breytingarnar kannski þær að afkoma og fjárhagsstaða borgarsjóðs hefur aldrei verið verri?

Eru breytingarnar kannski þær að samkvæmt þeim upplýsingum sem nú hafa komið fram um  útkomu A-hluta sveitarfélaga á síðasta ári þá er útkoma borgarinnar langverst?

Eru breytingarnar kannski þær að lánsþörf vegna hallareksturs A-hluta hefur aldrei verið meiri?

Eru breytingarnar kannski þær að afborganir langtímalána hafa aldrei hækkað meira milli ára hjá A-hluta borgarsjóðs?

Fjöldi  borgarbúa batt vonir við að það stæði eitthvað bak við loforð Framsóknarflokksins um breytingar hjá borginni og því gaf það flokknum atkvæði sitt. Hver eru skilaboðin sem þetta sama fólk fær nú?

Það er ekki nóg að segja að skuldahlutfall A-hluta borgarsjóðs sé gott þegar reksturinn gefur minna en ekki neitt í afgang til að greiða afborganir síhækkandi lána.

Í þessu sambandi er ekki hægt annað en að minnast á bókun meirihlutans frá í fyrra rétt fyrir kosningar:

„Ársreikningur Reykjavíkur skilar gríðarlega sterkri niðurstöðu við krefjandi aðstæður og að  ársreikningur staðfestir því ábyrga fjármálastjórn, öflug og rétt viðbrögð við erfiðum aðstæðum, góða frammistöðu starfsfólks og stjórnenda og sterka stöðu borgarsjóðs og samstæðunnar í heild. Það er gott veganesti inn í framtíðina.“

Núna er staðan mun verri. Liðið er ár frá kosningum og hveitibrauðsdagarnir löngu liðnir og eina breytingin sú að staðan er enn verri en lagt var upp með í byrjun kjörtímabilsins og á mögulega eftir að versna.

Þegar svona er komið og rekstraraðilar (meirihlutinn í borgarstjórn) sýna ekki meiri skilning á vandamálinu en raun ber vitni, er besta lausnin að kalla eftir aðkomu eftirlitsaðila með sérþekkingu á hallarekstri sveitarfélags af þessari stærðargráðu. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að þessi meirihluti mætti stíga til hliðar og sýna þannig ákveðna auðmýkt