Nú hefur Sorpa viðurkennt mistök við byggingu flokkunarstöðvar í Álfsnesi. Framkvæmdarstjóri segir að mistök hafi verið gerð þegar ákveðið var að kaupa flokkunarkerfi sem vitað var að myndi ekki skila af sér nothæfri moltu. Takið eftir! „vitað var að flokkunarkerfið myndi ekki skila af sér nothæfri moltu“. Hver kaupir rándýrt flokkunarkerfi sem vitað er að skilar ekki nothæfu hráefni til moltugerðar? Það gerði Sorpa. Milljarður er farinn í súginn hjá Sorpu. Reyndar hafði stjórn Sorpu mikla trú á þessu flokkunarkerfi í byrjun. Bundnar voru einnig væntingar til vindflokkara sem Sorpa fjárfesti í. Vindflokkarinn er sérstakur vélbúnaður sem fékk nafnið Kári og átti hann að blása léttu plasti frá þyngra lífrænu efni. Þetta gekk reyndar aldrei almennilega og ef rétt er munað bilaði Kári. Nú hefur Kári verið blásinn endanlega af og einnig móttöku- og flokkunarstöðin í Álfsnesi eins og hún leggur sig. Skella á í lás því aldrei mun koma nothæf molta út úr framkvæmdinni og eru mistök viðurkennd. Stjórn hlustaði ekki á varnarorð Við þessu var margsinnis varað m.a. af borgarfulltrúa Flokks fólksins sem fékk fátt annað en bágt fyrir frá meirihlutanum og fulltrúa borgarinnar í stjórn Sorpu. Hér má vísa í eina af mörgum bókunum Flokks fólksins frá 2021 þar sem varað er við að aldrei komi nothæf molta út úr þessu kerfi: „GAJU var lýst sem töfrabragði, átti að geta tekið blandað sorp og gert úr því hágæða moltu. Fyrir utan Kára átti að veiða málma úr sorpinu með segli, en aðeins járni er hægt að ná með segli. Stjórn Sorpu hlustaði ekki á varnarorð. Niðurstaðan varð plastmenguð molta með málmum og gleri, mengun langt yfir viðmiði. Sorpa hindraði aðgengi að gögnum. Sorpa neitaði að afhenda sýni. Gögn voru loks afhent sem sýndu að 1.7% af moltu var plast, 2 mm eða stærra. Viðmiðið á að vera 0.5%. Moltan var með öllu ónothæf. GAJU ævintýrið, þessi hluti alla vega var bara draumsýn sem kostað hefur borgarbúa og aðra eigendur Sorpu ómælt fé“ Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Birt í Fréttablaðinu 9. mars 2023
Kári blásinn af
- Post author:Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir
- Post published:9. mars, 2023
- Post category:Greinar