Málefni barna varða okkur öll

Börn eru mér og okkur í Flokki fólksins hugleikin alla daga. Ástæðan fyrir því að ég gekk til liðs við Flokk fólksins á sínum tíma var ekki síst sú að stefna flokksins setur börn og barnafjölskyldur í forgang. Fólkið fyrst og svo allt hitt er okkar kjörorð. Flokkur fólksins vill útrýma fátækt, enda ætti enginn að þurfa að vera fátækur á Íslandi. Hér er í raun gnótt fyrir alla ef stjórnvöld halda vel á spilunum.

Pólitíkin er ekki að standa sig þegar kemur að þjónustu við börn, öryrkja og eldra fólk sem ekki hefur nóg að bíta og brenna. Hjálparstofnanir hafa ekki undan. Þeir sem eiga einna mest bágt koma úr röðum einstæðra foreldra, öryrkja og eldra fólks sem eru á leigumarkaði. Fátæktin fer verst með börnin. Áhrifin eru neikvæðust á þau vegna þess að þau eru börn og þarf það varla frekari útskýringar við.

Þrátt fyrir ný farsældarlög þá eru biðlistar langir hjá stofnunum ríkisins eins og Þroska- og hegðunarstöð og Barna- og unglingageðdeild. Barn í djúpstæðri vanlíðan kann að þurfa að bíða mánuðum saman eftir greiningu og meðferð. Biðlistar barna eftir fagþjónustu skóla hafa lengst jafnt og þétt. Árið 2018 biðu 400 börn ýmist eftir sálfræðiþjónustu eða talmeinaþjónustu, árið 2021 biðu 1600 börn og nú bíða 2048 börn.

Niðurskurðarhnífurinn hjó til þeirra sem minnst mega sín

Seinni umræða fjárhagsáætlunar var lögð fram í borgarstjórn 6. desember sl. og lagði meirihlutinn þá fram 92 tillögur. Enginn þeirra hafði neitt að gera með að draga úr biðlistum barna eftir sálfræði- eða talmeinaþjónustu. Þvert á móti voru meðal tillagna, tillögur sem skerða þjónustu til barna og unglinga, fólks með geðröskun og þjónustu við eldra fólk. Flokkur fólksins sættir sig ekki við þetta og lögðum við til á síðasta borgarráðsfundi að meirihlutinn endurskoði að leggja niður starfsemi Vinjar. Það hlýtur að vera hægt að spara á öðrum sviðum en að taka vettvang frá fólki með geðraskanir þar sem þau njóta félagsskapar. Margir líta á Vin sem sitt annað heimili. Víst má þó telja að þessi tillaga Flokks fólksins um að endurskoða niðurskurðinn til Vinjar verður felld eða henni vísað frá.

Jólin koma

Margar fjölskyldur standa frammi fyrir kaldranalegum veruleika allt árið en um jólin er eins og hinn kaldi veruleiki verði enn meira áberandi. Flokkur fólksins heldur áfram að gera sitt besta á Alþingi og í borgarstjórn. Hinn almenni borgari hefur einnig mikilvægu hlutverki að gegna. Hvert svo sem hlutverk okkar er berum við ábyrgð sem samfélagsþegnar. Umfram allt er að vera meðvitaður um þessi mál og láta sig þau varða. Fyrir hvern þann sem líður illa af einhverjum ástæðum þá skipta tengsl við aðra manneskju sköpum. Ef vandinn er inn á heimilinu þá geta tengsl við manneskju utan heimilisins verið akkeri og haldreipi, styrkur og stuðningur á erfiðum tímum.

Málefni barna varða okkur öll. Ef við höfum áhyggjur af einhverju þessara barna eða teljum að það sé ekki allt með felldu þá þarf að spyrja: Hvað get ég gert í stöðunni sem gagnast þessu barni?“

Stundum þarf þor og kjark til að skipta sér af, spyrja áleitinna spurninga ef þess er þörf og stíga inn í aðstæður eða atburðarás ef óttast er að hagsmunum barns sé ábótavant eða aðstæður óboðlegar. Ekki láta röddina sem segir „þetta kemur mér ekki við“ stýra för. Við erum öll ábyrg sem samfélagsþegn þessa lands. Stundum er nauðsynlegt að tilkynna mál til Barnaverndar eða hringja á lögreglu í tilfellum þar sem grunur leikur á um að heimilisofbeldi og/eða stjórnlaus neysla sé í gangi. Ef við verðum þess áskynja að hagsmunum barns sé ógnað er aðeins eitt sem má ekki gera og það er að gera ekki neitt.

Erfitt hlutskipti að fá engu ráðið

Það er erfitt að vera í stjórnmálum og fá litlu eða í raun engu ráðið. Það tekur á að þurfa að horfa upp á það ár eftir ár að ekki er tekið á nauðsynlegum málum fólksins. En hér er lýðræðið í hnotskurn. Ekki er langt síðan Íslendingar völdu leiðtoga bæði til þings og borgar. Vissulega eru ekki allir óánægðir með hvernig kökunni eru skipt. Stór hópur á Íslandi hefur það gott. Ef húsnæðismarkaðurinn væri ekki eins brenglaður og raun ber vitni væri heilmikið betra. Húsnæðisvandinn er á ábyrgð ráðamanna. Nú eiga þeir bágast sem eru nauðbeygðir til að greiða okurleigu, leigu sem þeir eiga sjálfir ekki fyrir og þurfa að skrapa saman í hverjum mánuði með ýmsum leiðum. Áhyggjur eru að sliga þennan hóp og verst settir eru þeir sem eru eina fyrirvinna heimilis og öryrkjar sem ekki fá notið sinna fáu króna vegna skerðingarlaga ríkisstjórnarinnar.

Við kjörnir fulltrúar minnihlutans getum fátt annað en hrópað úr pontu, lagt fram tillögur í þeirri von að þær fái áheyrn og jákvæða afgreiðslu og vonast til að brátt sjái ráðamenn ljósið. Flokkur fólksins vill að tekið sé utan um þá verst settu með sértækum ráðum, enda eina leiðin til að auka jöfnuð í samfélagi þar sem ójöfnuður vex með hverri viku.

En áfram skal haldið. Við í Flokki fólksins erum þrautseig og stöndum okkar vakt.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn

Birt í Morgunblaðinu