Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga að breytingum á hámarkshraða, í tengslum við tímabundið skólahúsnæði í Ármúla og víðar:
Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir mikilvægi þess að lækka hraða í íbúðagötum og í götum sem skólar eru og börn á ferð. Þær götur sem engir skólar eða íbúðahús standa beint við er hins vegar engin nauðsyn að lækka hraðann niður í 30 eða 40 km/klst. Hraðabreytingar þurfa alltaf að hafa augljósan tilgang og ákvarðanir um slíkt, hvort heldur að auka eigi hraða eða minnka, þarf að vera tekinn í samráði við íbúa. Margt annað í aðstæðum hverju sinni þarf að taka inn í myndina. Þegar horft er til hraðalækkunar og hraðahindrana almennt séð togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma, annars vegar að því minni hraði því færri óhöpp en hins vegar að því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins og meiri umferðartafir og svifryksmyndun. Umferðaröryggi þar sem börn fara um er þó ávallt forgangsatriði hvert sem litið er.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Breytingar á gjaldsvæðum bílastæða í Reykjavíkurborg, tillaga:
Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir þessum hækkunum. Flokki fólksins finnst að gengið sé almennt of langt í að skapa erfiðleika fyrir þá sem koma akandi í bæinn. Þetta er gert með því að auka gjöld og álögur á ökumenn sem voga sér að aka í bæinn og raungerist þetta í hækkunum á bílastæðagjöldum. Sjálfsagt er að greiða hóflegt stöðugjald en það gjald sem hér er um að ræða er komið út í öfgar. Bílastæði eru hluti af því að lifa í borg. Fólk kemur á farartæki og þarf að geta geymt það einhversstaðar á meðan það er að sinna vinnu eða öðru. Bílastæði eru hluti af þjónustu við borgarbúa eins og að bjóða upp á almenningssamgöngur. Það er ekki hægt að taka allt af fólki, bílastæði og almenningssamgöngur. Einhvern veginn verður fólk að geta komist ferða sinna.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Göngugötur viðhorfskönnun, kynning:
Kynntar eru niðurstöður netkönnunar Maskínu um viðhorf til göngugatna. Engar upplýsingar um niðurstöður fylgdu með í útsendum gögnum. Úrtakið var 1078 svarendur í Reykjavík og er sagt að það endurspegli þjóðina vel. Neikvæðir eru færri en jákvæðir gagnvart göngugötum í miðbænum. Eftir því sem fólk er eldra þeim mun neikvæðara er það gagnvart göngugötum. Þeir sem búa fjær miðbænum eru neikvæðari gagnvart göngugötum en þeir sem búa nálægt þeim. Neikvæðum hefur þó fækkað frá síðustu könnun. Þessar niðurstöður koma ekki beinlínis á óvart ef horft er á heildina. Flokkur fólksins lítur á þetta með þeim hætti, allavega að hluta til, að þeir sem búa lengst frá miðbænum eiga stundum í basli með að komast í bæinn til að njóta göngugatna. Almenningsvagnar virkar ekki vel fyrir alla hópa og þeir sem vilja koma á bílnum sínum óttast að fá ekki bílastæði. Ákveðinn hópur treystir sér ekki í bílastæðahúsin og má þar nefna kannski helst eldra fólk og öryrkjar. Það er mat margra að miðbærinn með sínum ágætu göngugötum eru helst að þjóna, og gleðja íbúa við þessar götur og nágrenni og ferðamenn. Verslun, almenn og fjölbreytt verslun eins og hún var er ekki lengur í miðbænum sem skartar einna helst veitingastöðum, krám, börum og verslunum fyrir ferðamenn.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2022, útnefning:
Fulltrúi Flokks fólksins finnur sig knúinn til að bóka aftur sömu gagnrýnina þegar kemur að fegrunarviðurkenningum og fyrirkomulaginu í því sambandi. Fulltrúi Flokks fólksins telur að leggja eigi áherslu á að dreifa vali á viðurkenningum þannig að viðurkenningar fari í fleiri hverfi en miðbæinn. Það hefur verið lenska meirihlutans að einblína á ákveðinn miðsvæðis hring og hér er það enn og aftur gert. Reykjavík er stærri en einn miðsvæðisblettur. Aftur er spurt af hverju ekki megi horfa til annarra hverfa, t.d. Breiðholts, Árbæjar og Grafarvogs, ekki síst þegar kemur að vali fyrir falleg hús og lóðir. Áður hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt til og gerir hér aftur að fjölga þessum viðurkenningum þar sem enginn kostnaður felst í því, nema kannski að kaupa blómvönd. Að fá viðurkenningu af þessu tagi er hvatning fyrir fólk til að fegra umhverfi sitt. Hugmynd Flokks fólksins um að velja mætti eitt hús í hverju hverfi til að veita viðurkenningu hefur í tvígang verið lögð fram en hefur ekki náð eyrum skipulagsyfirvalda. Virkja mætti íbúðaráðin í þessu sambandi eða kalla eftir með skýrari hætti tilnefningum úr öllum hverfum.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Gufunes, áfangi 2, rammaskipulag:
Gufunes, áfangi 2, rammaskipulag, verk í vinnslu er yfirskrift kynningar um rammaskipulag Gufuness. Margt er flott í þessum tillögum. Sköpunarkraftur í bland við náttúrulegt umhverfi. Flétta á saman skapandi iðnaði, náttúru og búsetu. Strandlengjan er ramminn sem halda á í eins og hægt er. Flokkur fólksins fagnar því að láta á fjörurnar í friði.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, svar, um auglýsingaskilti:
Það skilti sem hér er til umræðu hefur valdið miklu fjaðrafoki. Tvennar sögu fara af hvort þeir húseigendur Lönguhlíðar sem málið varðar hafi verið gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri við tillöguna. Fram kemur að umrædd grenndarkynning sé talin uppfylla öll skilyrði sem þarf að senda inn varðandi byggingarleyfisumsókn og fylgdu þau með til útsendingar á grenndarkynningu. Tekið er undir það sem fram kemur í umsögn að skilti eru hluti af útliti borga og séu þau vel útfærð geta þau aukið á borgarbrag og læsileika borgarinnar. Flokkur fólksins hefur talað um reynslutíma en vandinn við það er að ef skilti er einu sinni komið upp þá er hætta á að það verði þar að eilífu þótt mikil óánægja sé með það. Í markmiðum Samþykktar um skilti í Reykjavík segir beinlínis að „skilti séu íbúum borgarinnar ekki til ama eða óþæginda og að þau skerði ekki hönnun mannvirkja, hafi neikvæð áhrif á umhverfi eða skerði ásýnd borgarinnar.“ Einnig segir að halda eigi fjölda skilta í lágmarki og að leggja eigi áherslu á að fjöldi skilta valdi ekki óreglu og ringulreið í sjónlínu gatna.“ Það er vont ef ekki næst sátt um mál af þessu tagi.
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, svar, um aðgengi að Hlemmi:
Í þessari umsögn má sjá að skipulagsyfirvöldum þykir meira en nóg gert til að tryggja samráð við íbúa og varla sé hægt að gera betur. Þetta er þó ekki upplifun íbúana. Þrátt fyrir breytt og uppfært fyrirkomulag um kynningar og samráð vegna framkvæmda á vegum borgarinnar er það ekki að skila nægjanlegum góðum árangri. Nú er mikið talað um aðgengi íbúa við Rauðarárstíg. En hvað með aðgengi íbúa við Laugaveg 105 þar sem verið er að byggja 40-50 íbúðir fyrir utan þær sem eru fyrir. Í svari er vísað í íbúafund með formanni og embættismönnum sem alls ekki allir heyrðu af þrátt fyrir að hafa verið auglýstur. Einnig segir „íbúum gafst kostur á að senda inn athugasemdir við tillögur sem snéru m.a. að útfærslu torghönnunar.” Skilaboð um fundi og fresti til að skila inn athugasemdum eru einfaldlega ekki að komast til allra. Á „svæðum þar sem er í gildi deiliskipulag er ekki vaninn að grenndarkynna framkvæmdaleyfi sem sýnir hönnun og útfærslu götu og bílastæða” Flokkur fólksins telur að kominn sé tími til að breyta þessu ásamt því, að í tilfelli sem þessu eigi að boða til sérstaks fundar með öllum kjörnum fulltrúum, íbúum og embættismönnum.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um aðstöðu strætisvagnafarþega í Mjódd:
Flokkur fólksins tekur undir ábendingar sem tengjast strætó í Mjódd en þær fjalla um aðgengi að strætósamgöngum almennt séð í Mjódd. Þörf er á umbótum. Bókað hefur verið í íbúaráði um aðgengi frá aðalbyggingu í strætó (í hjólastól). Taka þarf niður kant við húsið sjálft, eyjuna þar sem strætó stoppar beggja megin við og líka eyjurnar tvær sem tengjast göngustíg og gangbraut upp í Álfabakka. Margt er hægt að segja um aðstæður biðsalar strætó í Mjódd. Árið 2019 lagði Flokkur fólksins fram eftirfarandi tillögu um að biðsalurinn í Mjódd verði opinn lengur en til klukkan 18 á kvöldin eða eins lengi og vagnar Strætó ganga. Í salnum þarf að vera viðunandi aðstaða, næg sæti og aðgengileg salernisaðstaða. Nefnt hefur verið að þarna þyrfti að vera læst hjólageymsla. Það myndi nýtast t.d. farþegum sem koma lengra að, þ.m.t. frá nágrannasveitarfélögum. Umbætur á þessum stað eru liður í að gera almenningssamgöngur að fýsilegri kosti. Skoða má aukna gæslu sannarlega og hreinsa salerni. Varla kostar mikið að fjölga sætum og gera salinn hlýlegri.
Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um ókláraðar lóðir ætlaðar leikskólum (USK22090141)
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ókláraðar lóðir ætlaðar leikskólum, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. ágúst 2022.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.
Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um strætóstoppistöðina fyrir strætó númer 57 við Esjurætur í Kollafirði (USK22090119)
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um strætóstoppistöðina fyrir strætó númer 57 við Esjurætur í Kollafirði, sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 21. september 2022.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að borgarbúar fái sjálfir tækifæri til að forgangsraði verkefnum í borginni.
Nú stendur til að leggja enn eitt torgið, torg við Alþingishúsið. Á meðan lagning torga og þrengingar gatna eiga sér stað vantar mikið upp á að sómasamleg grunnþjónusta sé veitt í borginni. Það eru jú börnin sem bíða eftir þjónustu sálfræðinga og fleiri fagaðila. Flestir biðlistar lengjast með degi hverjum. En hvað vilja borgarbúar sjálfir? Hvernig vilja þeir forgangsraða fjármagni borgarinnar? Flokkur fólksins leggur til að umhverfis- og skipulagsráðs geri könnun á vilja borgarbúa, þetta eru jú þeirra útsvarsfé sem verið er að sýsla með. Fara á fram atkvæðagreiðsla meðal íbúa Reykjavíkur um hvort þeir vilji t.d. fleiri torg eða að skreyta torg, þrengja götur eða eitthvað allt annað t.d. að fjármagn verði sett frekar í að stórbæta beina þjónustu umhverfis- og skipulagssviðs við borgarbúanna.
Frestað.