Mannréttindaráð 8. desember 2022

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að fjármagn til NPA samninga sé ekki nægjanlegt. MSS22100261 – afgreiðsla:

Tillögunni er vísað frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.

Fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs 27. október 2022; Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um NPA samninga: Fjármagn til NPA samninga er ekki nægjanlegt. Vegna vanfjármögnunar í þennan málaflokk er verið að brjóta lög sem samþykkt voru á Alþingi Íslendinga. Spurning hvort ekki sé verið að brjóta mannréttindi á okkar allra viðkvæmustu þegnum. Flokkur fólksins leggur til að mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð beiti sér í þessu máli. Sendi frá sér ályktun til Ríkisstjórnar Íslands um að setja meira fjármagn í þennan málaflokk. Fulltrúi Flokks fólksins vill gjarnan að mannréttinda og ofbeldisvarnarráð vinni sameiginlega að þessari ályktun.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að kynningar í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði verði opnar borgarbúum. MSS22100262 – afgreiðsla:

Tillögunni er vísað frá með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.

Flokkur fólksins lagði til að kynningar sem fluttar eru í mannréttinda- og ofbeldisvarnaráði verði aðgengilegar borgarbúum. Flokki fólksins finnst miður að ekki fleiri en ráðsmenn mannréttindaráðs njóti allra þeirra flottu kynninga sem eru á fundum ráðsins. Það er synd að bjóða ekki borgarbúum sem áhuga hafa á efninu aðgang að því. Ekki síður er mikilvægt er að bjóða borgarbúum upp á þessa fræðslu. Þess vegna er lagt til að hún verði auglýst á vef borgarinnar til þess að borgarbúar geti notið notið góðs af. Flokkur fólksins minnir á að Píratar og Viðreisn hafa oft talað um gagnsæi og að gera upplýsingar aðgengilegar borgarbúum. Tillögunni er vísað frá á grundvelli þess að mannréttindaráð hefur ekki ákvörðunarvald til að opna fundi. Fulltrúi flokks fólksins vill því hvetja Pírata og aðra í borgarstjórn sem hafa áhuga á auknu gagnsæi og lýðræði til að standa með Flokki fólksins og bera þetta fram þar sem það á við

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um myndavélar á leikvöllum borgarinnar. MSS22100263 – afgreiðsla:

Tillögunni er vísað frá með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð beiti sér í samræmi við samþykktir Ráðsins fyrir því að settar verði upp myndavélar á alla leikvelli á vegum borgarinnar. Það hefur færst í vöxt að stofnanir grípi til þess að setja upp öryggismyndavélar og er það ekki af ástæðulausu. Vissulega kemur myndavél ekki í veg fyrir að glæpur sé framinn en myndavél hefur fælingarmátt og gerist eitthvað er hægt að skoða atburðarás í myndavél og hver var aðili/aðilar í málinu. Mörg dæmi eru um að öryggismyndavélar hafi komið að mjög góðu gagni við að upplýsa mál. Flokki fólksins finnst að mannréttindaráð ætti að beita sér með öllum ráðum og dáðum til að vernda okkar viðkvæmustu hópa og þar fara börnin fremst í flokki. Það er þekkt að þeir sem vilja skaða börn leita iðulega á staði og á svæði sem finna má börn. Börnin í borginni verða að geta verið örugg á leiksvæðum. Í Reykjavíkurborg eru hvergi myndavélar á leiksvæðum barna svo vitað sé. Þetta á jafnt við um leiksvæði sem eru eldri sem og nýuppgerð. Tillagan er felld og harmar Flokkur fólksins afgreiðslu málsins.