Meðferð eineltismála hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum

Grunnatriði viðbragðsáætlunar fyrir íþrótta-, æskulýðssamtök. Hér er hráefni sem hægt er að moða úr:

Æskilegt efni á heimasíðu viðkomandi staðar:

 • Samskiptareglur/samskiptastefna
 • Tilkynningareyðublað
 • Upplýsingar um til hvers (hverra) skuli beina kvörtun eða ábendingu um einelti/kynferðislega áreitni
 • Liður í forvörnum er að taka upp umræðu um þessi mál með reglulegu millibili og án tillits til hvort mál af þessu tagi eru í úrvinnsluferli eða ekki.

ATH! Sjá Aðgerðaráætlun Æskulýðsvettvangsins gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun
og fræðsluerindi um Birtingarmyndir eineltis og kynferðislegs áreitis


Tiltæk og aðgengileg viðbragðsáætlun er góð forvörn í sjálfu sér. Þegar fyrir liggur hvaða hegðun og framkoma er ekki liðin og hvaða hegðun megi flokka undir einelti má gera því skóna að börnin vandi sig meira í framkomu sinni við önnur börn. Foreldar eru þá einnig líka meðvitaðri og geta frekar hvatt börn sín í að sýna jákvæða hegðun og koma vel fram við aðra krakka (iðkendur).

Það er ekki síður nauðsynlegt að hafa tiltæka viðbragðsáætlun fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða. Viðbragðsáætlun sem lítur að fullorðnum felur í sér sömu grunnatriði í megindráttum og sú sem notuð er ef um börn eru að ræða. Meginmunurinn er þó sá að þáttur foreldra er, eðli málsins samkvæmt, undanskilinn (sjá samsvarandi áætlun ef upp koma mál milli fullorðna undir Vinnustaðir).

Ábyrgð stjórnenda/umsjónarmanna/þjálfara

Forvarnir byggjast á því að umræða um þessi mál sé lifandi, frjó og án togstreitu bæði meðal starfsfólksins (þjálfara og sjálfboðaliða) og barnanna. Ræða þarf um mikilvægi jákvæðs starfsanda og hvernig almenn starfsánægja sé í þágu allra á staðnum.

Vellíðan starfsfólks og sjálfboðaliða er hluti af góðum staðarbrag. Til að meta starfsanda hafa eftirfarandi leiðir reynst vel:

 • Starfsmannasamtöl
 • Starfs- og hlutverkalýsingar
 • Starfsánægjukannanir/líðankannanir
 • Tíðir starfsmannafundir

Allir, fullorðnir og börn bera ábyrgð á hegðun sinni og framkomu. Fullorðnir eru þó ávallt fyrirmyndir barnanna.

Birtingarmyndir eineltis og kynbundins ofbeldis

Birtingarmyndir eru fjölmargar. Hér eru nokkur dæmi um hvernig einelti getur birst í framkomu og hegðun barna:
Einelti er þegar einn aðili eða fleiri sem hann eða hún fær í lið með sér, veitist að eða níðist á öðru barni t.d. með því að segja ljót orð, hæða, niðurlægja, útiloka eða meiða á annan hátt, sálfræðilega eða líkamlega

 • Uppnefningar og baktal eða hvísl um einhvern annan
 • Neikvæðar sögur, frásagnir eða lygar um einhvern sem koma honum illa
 • Segja öðrum að útiloka einhvern ákveðinn einstakling, tala ekki við hann, hunsa hann
 • Þegar einhver er skilinn útundan, gefið í skyn að hann einn sé ekki velkominn
 • Þegar gert er grín að öðrum vegna útlits eða þyngdar
 • Þegar hæðst er að menningu, trú eða húðlit einhvers
 • Þegar hæðst er að fötlun eða heilsuleysi einhvers
 • Þegar einhver einn einstaklingur fær ekki að vera með í samverustundum, leikjum eða íþróttum
 • Þegar gert er grín að einhverju og síðan þóst að verið sé að „djóka“
 • Þegar neitað er að vinna með eða sitja hjá ákveðnum einstaklingi
 • Þegar eigur annarra eru eyðilagðar, þeim stolið eða þær faldar
 • Þegar einstaklingur er meiddur, í hann sparkað, hann sleginn, hrækt á hann eða honum hrint, klipinn, klóraður, eltur, honum haldið föstum gegn vilja hans

Rafrænt einelti

Þegar illkvittin skilaboð eru send eða komið til skila með einhverjum hætti t.d. þegar Netið eða gsm síminn er notaður til að gera eitthvað af því sem nefnt hefur verið hér að ofan. Þegar neikvæðum, skaðlegum skilaboðum um einhvern er komið áleiðis til annarra í gengum:

 • MSN
 • Tölvupóst
 • Facebook
 • Blogg
 • SMS
 • Tekin mynd með snjallsíma og sett á Netið til að hæðast að eða svívirða þann sem myndin er af
 • YouTube
 • Spjallrásir

Því fyrr sem starfsmenn/þjálfarar verða varir við eða fá vitneskju um einelti eða kynferðislegt áreiti í þeirra hópi því meiri líkur eru á að hægt sé að ljúka málinu, stöðva hegðunina og vinna úr neikvæðum áhrifum og afleiðingum hennar.

Æ algengara er að íþróttafélög sem dæmi velji lítinn hóp á staðnum til að ganga strax í mál sem upp kemur og kanna hvort hægt sé að leysa það. Þessir aðilar fá tilheyrandi fræðslu og þjálfun til að taka á eineltismálum. Með þessum hætti eru auknar líkur á að þjálfun og fræðsla við úrvinnslu mála af þessu tagi varðveitist milli ára.

Ef málið reynist viðameira væri æskilegt að hægt væri að vísa því til teymis á vegum yfirstjórnar, regnhlífar- eða heildarsamtaka allt eftir því hvað við á hverjum stað.

Þegar viðbragðsáætlun verður virk í kjölfar formlegrar kvörtunar:

 • Teymið kemur saman, metur kvörtunina/ábendinguna og skiptir með sér verkum
 • Kvörtun/ábending þarf að vera skrifleg (sett niður á blað) og innihalda lýsingu á atviki, aðdraganda og atburðarrás.
 • Ef annar en tilkynnandi skráir skal sá síðarnefndi lesa yfir kvörtunina og staðfesta að rétt sé haft eftir honum
  Frumupplýsingaöflun hefst
 • Samráð er haft við foreldra ef þolandi er undir 18 ára (ef foreldri er ekki sá sem tilkynnir) t.d. um vinnsluhraða málsins, upplýsingaöflun og við hverja er talað og hvenær
 • Allt ferlið er skráð af eineltisteymi sem heldur utan um upplýsingarnar
 • Skoðað er strax hvort aðgerða er þörf til að stöðva einelti/kynferðislega áreitni t.d. með tilfærslu aðila á staðnum þannig að meintur gerandi og þolandi þurfi ekki að hittast vera í návígi á meðan málið er í vinnslu
 • Teymið/umsjónarmaður málsins aflar frekari upplýsinga t.d. frá vitnum, starfsfólki eða öðrum
 • Teymið ræðir við aðila málsins eins oft og þurfa þykir þar til fyrir liggur umfang og eðli málsins og miðast úrvinnsla þess við það

Góður undirbúningur þarf að liggja til grundvallar hverju skrefi í úrvinnsluferlinu. Í undirbúningi fels að afla viðeigandi og nauðsynlegrar upplýsinga fyrir næsta skref sem tekið er í ferlinu.

Það er hlutverk teymisins eða umsjónarmanns málsins að fá sem heildstæðustu myndina af málinu. Stundum þarf að skoða hvort ekki þurfi að hnykkja á skýrleika kvörtunarinnar áður en rætt er við foreldra meints geranda og geranda sjálfan eða aðra sem ásakanir beinast að.

Teymið upplýsir foreldra þeirra barna sem nefnd eru í tilkynningunni um eðli og innihald hennar. Foreldrum er boðið að koma í viðtal og einnig er fengið leyfi þeirra til að ræða við barnið/börnin. Ávallt skulu a.m.k. tveir aðilar ræða við foreldra meints geranda og meintan geranda. Foreldrum er boðið að vera viðstöddum þegar rætt er við barn þeirra um málið, óski þeir þess.

Við úrvinnslu máls þar sem aðilar eru undir 18 ára aldri skal ávallt óska eftir samvinnu við foreldra og þeir beðnir að veita frekari upplýsingar um málið séu þær fyrir hendi. Foreldrum gefst einnig kostur á að koma með tillögur/hugmyndir um með hvaða hætti þeir geti aðstoðað börn sín eða lagt málinu lið á annan hátt. Gengið er út frá því að allir hafi það sameiginlega markmið að vilja leysa málið á eins farsælan hátt og hugsast getur.

Hafi tilkynningin/kvörtunin átt við rök að styðjast og gerandi (gerendur) axlar ábyrgð er ekki óalgengt að málinu ljúki á þessu stigi:

 • Gerandi sýnir iðrun enda hafi e.t.v. ekki verið um ásetning að ræða
 • Gerandi lofar að láta af eineltishegðuninni
 • Gerandi biður afsökunar

Hér skiptir máli:

 • Hvort náðst hafi að grípa inn í málið fljótt og markvisst
 • Að vinnslan hafi verið óhlutdræg og fagleg
 • Hvernig eftirfylgni er háttað

Sé málið flóknari en svo að ekki fæst lausn á því á þessu stigi með tilheyrandi eftirfylgd gæti þurft að:

 • Ræða áfram við aðila
 • Ræða frekar við vitni, fylgismenn, foreldra aðila séu þeir undir 18 ára, eða aðra
 • Auka eftirfylgd og vitundarvakningu á staðnum
 • Kanna líðan þolanda oftar
 • Ræða tíðar við geranda
 • Fá utanaðkomandi leiðbeiningar, ráðgjöf

Málalok ákvarðast þegar tilkynnandi staðfestir og fyrir liggur samhljómur um að gripið hafi verið til allra mögulegra leiða til að uppræta eineltið og leysa málið á eins viðunandi hátt og unnt er miðað við aðstæður.

Aðilar máls upplýstir um að málið verði tekið upp að nýju hefjist eineltið/áreitið aftur.

Eftirfylgdin er fólgin í að:

 • Kanna og fylgjast með líðan þolanda
 • Ræða við reglulega við geranda
 • Fylgjast með líðan annarra á staðnum
 • Veita hópnum stuðning
 • Bjóða upp á einstaklingsviðtöl
 • Ánægju/líðankannanir

Lögreglumál

Stundum verður kvörtun um kynferðislega áreitni að lögreglumáli. Þetta á við ef mál er kært til lögreglu. Þetta á undantekningarlaust við ef meintur þolandi er undir 18 ára aldri og meintur gerandi er fullorðinn einstaklingur. Séu aðilar báðir undir lögaldri skal rætt við foreldra og máli vísað til barnaverndaryfirvalda með það fyrir augum að rannsaka það frekar í Barnahúsi. Aðeins barnaverndaryfirvöld geta vísað máli til Barnahúss.

Viðbragðsáætlun við einelti þarf að endurskoða reglulega og endurbæta í samræmi við reynslu af vinnslu þeirra mála sem tilkynnt er um.

_____________________________________________________

Notkun upplýsinga er heimil, vinsamlegast getið heimilda