Ræða oddvita við seinni umræðu Ársreiknings 2023 flutt 14. maí 2024

Ræða oddvita Flokks fólksins við síðari umræðu Ársreiknngs 2023 flutt 14. maí 2024

Fram fer síðari umræða um ársreikning. Búið er að reifa málið ágætlega en þó með ólíkum hætti eftir hvort fulltrúar meirihlutans eða fulltrúar minnihlutans tala.  Stundum mætti halda að ekki sé verið að ræða sama ársreikninginn svo ólíkt er um hann fjallað. Staðreyndin er sú að afkoma hefur skánað en er enn afspyrnu slæm.  Aðrar staðreyndir eru:

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar var 13 milljörðum króna lakari en áætlun gerði ráð fyrir og rekstrarhalli borgarsjóðs nam fimm milljörðum króna.

Veltufjárhlutfall lækkar úr 1.1 á árinu 2022 niður í 0,94 á árinu 2023.

Og af hverju, jú af því að lausaskuldir hafa hækkað um 6,5 milljarða milli ára eða um 20%. 

Veltufé frá rekstri er 11,5 milljarðar eða 6,5% af heildartekjum. 

Þrátt fyrir hækkun frá árinu 2022 er það enn of lágt til að standa undir afborgunum lána og leiguskulda. Látlaust hafa verið tekin lán og munu afborganir langtímaskulda og leiguskulda verða tæpir 13 milljarðar á næsta ári.

Ný langtímalán á árinu voru tæpir 21 milljarður, sem leiðir til enn hærri afborgana Reksturinn skilar einungis 4,7 milljörðum eða rétt um 20% upp í heildarfjárfestingar ársins, en þær eru  rúmir 23 milljarðar. Það þýðir að 80% upphæðar þarf að taka að láni  .

Og nú stendur til að taka erlent lán sem nota á í viðhaldsframkvæmdir á skólahúsnæði borgarinnar sem  eru ónothæf vegna myglu og raka.

Eitthvað mikið þarf að breytast í rekstri A- hlutans  til hægt verði að ná ásættanlegu jafnvægi. 

Ef horft er til B- hlutans ræddi borgarfulltrúi Flokks fólksins umdeildar matsbreytingar Félagsbústaða í  fyrri umræðu. Það er  óskiljanlegt að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur skuli enn færa matsbreytingar fasteigna sem tekjur hjá Félagsbústöðum þegar það liggur í augum uppi að eignir félagsins verða aldrei seldar sem neinu nemur. Matsbreytingar fjárfestingareigna eru því loftkrónur en ekki raunkrónur.

Strætó bs

Eitt af byggðarsamlags B hluta fyrirtækjunum er síðan Strætó bs. hefur gengið mjög illa síðustu ár.  Það er ástæða til að hafa áhyggjur af rekstri og framtíð Strætó bs. Að óbreyttu mun þörf fyrir framlög eigenda (sveitarfélaganna) fara vaxandi á komandi árum. 


Eiginfjárhlutfall árið 2019 var yfir 46%, á árinu 2023 var það -11%. 

Eigið fé var neikvætt í árslok 2023, sem þýðir að eignir duga ekki fyrir skuldum.

Veltufjárhlutfall var 1,2 á árinu 2019. Á árinu 2023 var það komið niður í 0,6. Lausaskuldir hafa hækkað verulega umfram lausafé.

Veltufé frá rekstri var 2,2% árið 2023. Það var neikvætt í þrjú ár þar á undan. Reksturinn hefur ekki skilað neinu upp í fjárfestingar og afborganir skulda.

Framlegð var 0,4% á árinu 2023, neikvæð þrjú ár þar á undan.

Fargjöld skiluðu einungis 18% rekstrartekna. 

Hvernig er samanburður í þeim efnum við áþekk almenningssamgöngufyrirtæki í nágrannalöndum okkar?

Strætó var dæmt til að greiða nær 200 milljónir í skaðabætur + dráttarvextir vegna framkvæmda við útboð.

Vagnar hafa ekki verið endurnýjaðir þannig að viðhaldskostnaður hefur aukist. Það þýðir einungis hærri rekstrarkostnað og að dulinn kostnaður við óhjákvæmilegar fjárfestingar í nýjum vögnum  hleðst upp. 

Ráðdeild í rekstri

Þegar Ársreikningurinn er skoðaður er ekki annað hægt en að ræða um ráðdeild í rekstri ef einhvern tímann á að vera hægt að leggja skikkanlegan Ársreikning á borðið. 

Augljóst er að markmiðið er að hemja fjárútlát og það þarf að gerast án þess að það komi niður á lögbundinni þjónustu sem og annarri beinni þjónustu við fólki. Stoppa þarf  bruðl, sóun, þenslu og óráðsíu sem víða hefur mátt finna í borgarkerfinu undanfarin ár. Það er komið að þolmörkum og það fyrir löngu.

Fjárhagsviðbætur til sviða spanna breitt svið sem er eðlilegt þegar horft er til sviða eins og velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem hafa fengið í fangið stór og krefjandi verkefni. Á þessum sviðum er líka að finna bruðl og sóun og má í því sambandi nefna háan leigubílakostnað þótt það kunni að vera smákrónur í stóra samhenginu en margt smátt gerir jú eitt stórt.

Framtíðarsýn er sannarlega metnaðarfull, þ.e. að borgin verði sjálfbær og skuldlaus. Það er auðvitað langt frá þeim raunveruleika sem við búum við og sjáum í kortinu næstu árin. 

Meðal þess sem verður að stefna að er að ná aðhaldi í ráðningum, sameiningu starfa og virkri forgangsröðun.  Horfa þarf til sviða sem hafa farið bratt og ekki umgengist skattfé borgarinnar af virðingu. Þar ber hæst þjónustu- og nýsköpunarsvið með sitt stafræna ráð sem tveir flokkar í þessum sal hafa lagt til að verði aflagt enda gerir það fátt annað en að stimpla upp á fjárbeiðnir sviðsstjóra í hin ýmsu verkefni og sumar beiðnir endurteknar . Stimplað er  möglunarlaust og án nokkurrar spurninga eftir því sem best er séð. Þessu sviði hefur tekist  umfram önnur að eyða gríðarlegu fjármagni án þess að skila á móti  stafrænum lausnum í samræmi við fjárveitingu. Hér er ekki verið að segja að ekkert hafi þokast en Flokkur fólksins telur fullsýnt að hagkvæmni og ráðdeild hafi ekki ávallt verið höfð að leiðarljósi.  Ef litið er til síðustu ára þá er ekkert svið eins mikill hástökkvari í eyðslu fjármagns „út í loftið“ en þjónustu- og nýsköpunarsvið undir þeirri stjórn sem þar hefur ríkt.

Flokkur fólksins ítrekar tillögu sína sem lögð var fram  9. apríl sl. í borgarstjórn Reykjavíkur  um að fá óháða úttekt á fjármálasýsli þjónustu- og nýsköpunarsviðs og þarf sú úttekt að ná aftur til 2019. 

Það er mat Flokks fólksins að Innri endurskoðun sé ekki til þess verks fallin heldur þurfi nýja og ferska aðila að borðinu sem ekki hafa áður verið hluti af borgarkerfinu. Í úttektarteymi þurfa að sitja fagmenn – sérfræðingar sem þekkja hinn stafræna heim í þaula.

Sama má segja um úttekt á besínstöðvarlóðarmálinu. Þar dugar Innri endurskoðun alls ekki,  heldur verður að fá ferska og fullkomlega óháða nýja aðila að verkinu sem hafa klárlega engin tengsl eða tengingar við borgina og eru með það sem til þarf til að skoða slík mál með faglegum hætti.

 Það er löngu tímabært að borgarbúar fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort þeir miklu fjármunir sem þeir hafa verið að greiða í stafræna vegferð undanfarin ár, hafi með flestum hætti skilað sér í formi tilbúinna lausna sem nú þegar ættu að hafa litið dagsins ljós. Og að sama skapi verður að skoða þetta bensínstöðvarmál ofan í kjölinn. Sumir þessara samninga við olíufélögin voru afleikur. Samningarnir eru taldir vera lögmætir, en það er ekki það sama og að segja að þeir séu borginni hagstæðir, sem þeir eru sennilega ekki. Líklega munu olíufélögin hagnast verulega, fjármagn sem hefði verið vel þegið að fá í borgarsjóð og nota þá til að bæta þjónustu við borgarbúa. 

_________________

Það  liggur beint við að tengja þessa umræðu við  tillögu Flokks fólksins um að draga úr ráðgjafakaupum sem lögð var fyrir borgarráð 13 júlí 2023. Í greinargerð með þeirri tillögu er minnst á að Reykjavíkurborg hafi greitt 34 milljónir króna til félags í eigu fyrrverandi fjármálastjóra borgarinnar fyrir sérfræðiþjónustu frá árinu 2021 en um það mál var fjallað  m.a. umfjöllun í Viðskipablaði Morgunblaðsins 

Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis spurt um kostnað til verkfræði- og arkitektafyrirtækja . Tugir milljóna eru greiddar árlega í ráðgjöf hérlendis og erlendis. Dæmi eru um að ráðnir séu  hámenntaðir verkfræðingar- verktakar,  til þess eins að skrá fundargerðir fyrir sviðin og svo mætti lengi telja. Fulltrúi Flokks fólksins spurðist fyrir um ráðgjafarfyrirtækið KPMG  í kjölfar skýrslu fyrirtækisins um Borgarskjalasafn en í henni var lagt til að Safnið yrði lagt niður. Skýrslan kostaði ekki aðeins mikið, heldur var hún talin af fleirum en borgarfulltrúa Flokks fólksins vera full af dylgjum og rangfærslum í garð borgarskjalavarðar.

Á síðasta ári fékk fyrirtækið 41,5 milljón fyrir greiningarskýrslur/verkefni án þess að skýringar liggi fyrir um nauðsyn þeirra. Frá 2018 hefur KPMG fengið um 100 milljónir frá Reykjavíkurborg fyrir skýrslur. Hér er um eitt fyrirtæki að ræða af mun fleirum og má í því sambandi nefna Eflu. 

Þjónustu- og nýsköpunarsvið er nú sennilega hástökkvari í þessum efnum en sviðið hefur verið áskrifandi af innlendri og erlendri ráðgjöf í áraraðir. Fulltrúa Flokks fólksins er ofboðið og í þessu sambandi fyrst og fremst vegna bruðls. 

Flokkur fólksins hefur lagt til að hætt verði að skipta við KPMG og fleiri sambærileg fyrirtæki og látið verði reyna á útboð eða farið í verðkönnun, sé talið nauðsynlegt að kaupa vinnu af þessu tagi. Umfram allt er mikilvægt ekki síst vegna slakrar afkomu borgarinnar fjárhagslega að draga, með öllum ráðum, úr aðkeyptri rándýrri ráðgjöf .

Í borgarstjórn að beiðni Flokks fólksins 21. nóvember 2023 var einnig umræða um kostnað Reykjavíkurborgar við ráðgjafakaup en nýta þess í stað mannauð borgarinnar betur.

Bókhaldið

Bókhaldið þarf auk þess að sýna hlutina eins og þeir eru. Í borgarráði 23. nóvember 2023 lagði Flokkur fólksins til að gerðar verði breytingar á bókhaldslyklum og þeim fjölgað með það að markmiði að gera bókhald borgarinnar gegnsærra. Eins og staðan er núna virðist bókhaldið  hálfgert kraðak, þar ægir of mörgu saman og erfitt að draga nokkuð þar út með nákvæmni. Á einn og sama lykil er hægt að setja of margt og sumar tölur eru ekki sundurliðaðar þótt þær tilheyri ólíkum verkþáttum. Sem dæmi ef óskað er eftir upplýsingum um ráðgjafakaup  er það ekki hægt því að upphæðin sem ráðgjöf kostaði er samofin kaupum á annarri þjónustu af annarri gerð . Taka má sem dæmi lykilinn ,Verkfræðingar”   en undir hann ægir öllu saman sem mögulega hefur að gera með verkfræðinga. Eins og staðan er núna er því mjög auðvelt að fela kaup og ástæðurnar fyrir þeim.

Litið yfir farinn veg

Á þeim vetri sem nú hefur kvatt hefur Flokkur fólksins lagt ýmis mál fram í borgarstjórn með það að markmiði að hafa áhrif á forgangsröðun fjármagns og útdeilingu.

Hinn 13. okt. í fyrra var umræða um efndir meirihlutasáttmálans að beiðni Flokks fólksins. Framsóknarmenn lofuðu miklum breytingum og út á það loforð fékk flokkurinn góða kosningu.

Nú eru liðin tvö ár frá kosningum og fjölmargir að spyrja hvað varð um  allar breytingarnar sem Framsóknarflokkurinn lofaði. Dregnar voru upp í meirihlutasáttmálanum ægifagrar lýsingar á því hvað   meirihlutinn vill gera. Meirihlutinn ætlaði líka að lækka skatta, vísað er hér í meirihlutasáttmálann, með leyfi forseta: 

“við ætlum að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í lok kjörtímabils. Með fjárhagsstöðuna eins og hún er núna mun meirihlutinn efna það loforð sitt að lækka lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæðis eins og stendur að eigi að gera þegar nær dregur lok kjörtímabils? “

Hvernig á borg í kröggum að lækka skatta ?

Staðan er sú að engar stórvægilegar breytingar hafa orðið sem hafa haft afgerandi bætandi áhrif á borgina, borgarbúa og eða fjárhag hennar. Borgin er  enn rekin með miklu halla og botnlausar lántökur fram undan og hefur auk þess heldur ekki tekið á stærstu vandamálunum.  

Húsnæði og leikskólamálin

Fyrir utan húsnæðisvandann þá eru leikskólamálinn svartasti blettur þessa og síðasta meirihluta.

Svartasti bletturinn eru leikskólamálinn.

Frá árinu 2014 hefur leikskóla- og daggæsluplássum fækkað umtalsvert í  Reykjavík. Biðlisti barna eftir leikskólaplássi er á annað þúsund börn 12 mánaða og eldri börn og lengist með hverjum mánuði sem líður.
Álagið á fjölskyldur vegna þessa er gríðarleg. Vinnu- og tekjutap svo ekki sé minnst á andlegt álag.

Meirihlutinn viðurkennir vandann en getur ekki skýrt hann. Vanræksla á viðhaldi hefur leitt til gríðarlegra tafa við innritun yngri barna því  metfjöldi eldri leikskóla hefur þurft að loka plássum vegna viðhaldsframkvæmda. 

Þegar þetta er dregið saman þá er ástandi í leik- og daggæslumálum borgarinnar með öllu óásættanlegt. Foreldrar hafa liðið lengi fyrir óvissuna og fulltrúar leikskólastjóra hafa komið með alvarlegar athugasemdir um stöðuna. Bréf frá örvæntingarfullum foreldrum berast til borgarfulltrúa reglulega. Börn, jafnvel 20 mánaða gömul hafa fengið pláss á leikskólum sem á eftir að byggja. Mönnunarvandinn kemur sérlega illa niður á foreldrum sem eru ekki með stuðning fjölskyldu. Ástandið hefur þess utan skapað annað misrétti. 

Nú er vandinn líka mikill með frístundaheimilin sbr. nýlegt viðhald þann starfsmann sem fer fyrir þeim málaflokki.

Foreldrar sem ekki fá inni fyrir börn sín í borgarreknum leikskólum þurfa að leita til einkageirans þar sem niðurgreiðsla frá borginni er lægri en í borgarreknum leikskóla. 

Þetta þarf að jafna út. Flokkur fólksins hefur lagt til að borgarráð samþykki að hækka niðurgreiðslu Reykjavíkurborgar hjá einkareknum ungbarnaleikskólum þegar barn nær 18 mánaða aldri, í þeim tilvikum þegar barn er með virka umsókn en fær ekki pláss hjá dagforeldrum eða á borgareknum leikskóla.

Húsnæðismálin

Í húsnæðismálum átti heldur betur að taka til hendinni. Einn  stærsti vandinn  er skortur á húsnæði,  enn þar átti heldur betur að taka til hendinni. Lítið framboð er af lóðum sem aðeins fást í gegnum útboð og verktakar halda að sér höndum. Skortur er á hagkvæmu húsnæði og sérbýlum. 

Of mikill  áhersla hefur verið á að þétta byggðina og þá helst í kringum borgarlínuverkefnið. Að þétta byggð er dýrt  og íbúðir á þéttingarreitum eru rándýrar. 

Nokkur orð um leigumarkaðinn  

Hagkvæmt húsnæði af öllum gerðum, sárvantar í Reykjavík. Auka þarf framboð á lóðum. Byggja þarf í hverfum þar sem er rými og innviðir sem þola fjölgun íbúa. Sem dæmi er hægt að byggja af krafti í Úlfarsárdal og fleiri stöðum þar sem sem gott rými er og fólk vill byggja á. Sum staðar eru innviðir og skólar ekki fullsetnir. 

Á meðan ástandið er slæmt þarf að gera eitthvað fyrir þá sem eru á leigumarkaði. Leiguþak er hugmynd sem hefur verið nefnd og þar getur borgarmeirihlutinn vissulega haft skoðun og beitt sér af krafti í þágu þessarar hugmyndar.  Lágtekjufólk, öryrkjar og einstæðir foreldrar eru að kikna undan hárri leigu.


Af öðrum svörtum blettum þessa árs er niðurlagning Borgarskjalasafns og hvernig borgarskjalavörður var flæmdur úr starfi af því hún hafði sýnt fagmennsku í starfi og þorði að segja hlutina eins og þeir voru. Það reyndist meirihlutanum og stjórnendum ÞON sem fer fyrir söfnum í borginni um megn.

Eins er þetta besínstöðvarlóðamál heldur betur að grípa í skottið á borgaryfirvöldum og er óljóst hvernig þau mál enda, en mjög líklega verður það mál sem fyrrverandi borgarstjóra verður helst minnst  fyrir. Þessu hefði mátt afstýra alla vega að hluta ef unnið hefði verið með gegnsæjum hætti og t.d. unnið með minnihlutanum, þá hefði mögulega verið hægt að finna farsæla lendingu á þessu máli þannig að borgarsjóður hefði hagnast sem mest

Af öðrum málum má nefna að fátækt fer vaxandi, hjálparsamtök sprungin, biðlistar eru ennþá í sögulegu hámarki. Umferðaröngþveitið eykst, ljósastýringar eru í ólestri.  

Borgarsálin

Hvernig er borgarsálin? Þeir sem eru að bíða eftir mikilvægri þjónustu eða húsnæði eiga ekki góða daga.

Þjónusta á sál og líkama eru grunnþættir sam-neyslu-samfélagsins. Allt of stór hópur barna, öryrkja og eldra fólks líður ekki vel. Of margar fjölskyldur og einstaklingar geta ekki séð sér farborða og hafa áhyggjur af grunnþörfum sem eru fæði, klæði og húsnæði.

Fólk er á öllum aldri í Reykjavík og býr við mismunandi aðstæður eins og gengur og hefur þar að leiðandi mismunandi þarfir.  Sumir þurfa meiri þjónustu en aðrir. Þeir sem þurfa þjónustuna eiga ekki að þurfa bíða lon og don eftir henni. Hana á að veita hratt og með skilvirkum hætti. Biðlistar í borginni eru ótrúlega þrautseigt mein sem meirihlutinn til 20 ára hefur ekkert ráðið við að leysa.

Eins og þessi mál horfa við Flokki fólksins eru þetta ekki áherslur þessa og síðasta meirihluta heldur  er áherslan meira í átt að stórum og smáum framkvæmdum sem teknar eru fram fyrir nauðsynlegar þarfir almennings. Þrengingar gatna, þétting byggða úr hófi fram og þensla þegar gæta á frekar aðhalds. Fjárfrek verkefni, Grófarhús, Hlemmur og fleira er eitthvað sem getur beðið um tíma meðan verið er að laga grunnstoðirnar. 

Borgarmeirihlutinn var illa undirbúinn undir áföllin, Covid, stríð og mikla fólksflutninga til Íslands. Safna til mögru áranna gleymdist alveg, eða vera bara svo skynsamur að vita að allt getur gerst. Fjármálastjórnun hefur verið óábyrg að þessu leytinu ekki síst vegna mikillar skuldaaukningar. Sviðin standa sig misvel en flest eru að reyna að vinna af skynsemi. Sum eru aðþrengd á meðan annað svið eyðir peningum eins og enginn sé morgundagurinn. 

Flokkur fólksins mótmælir skerðingu á þjónustu og að klipið sé af fólki sem býr við bágust kjör. Aðal markmiðið er að draga ekki úr þjónustu en hafa ávallt dómgreindina í lagi og heilbrigða skynsemi þegar sýslað er með fé borgarinnar..

Að lokum skal það sagt að 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins skrifar undir Ársreikninga Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 með fyrirvara sökum þess að hann telur tekjufærslu matsbreytinga hjá Félagsbústöðum ekki standast reikningsskilareglur sveitarfélaga svo og sökum óánægju með fjármálastjórn Þróunar- og nýsköpunarsviðs.