Rangt að leggja Borgarskjalasafn niður

Tillaga borgarstjóra sem var lögð fram í borgarráði fyrir tveimur vikum um að leggja niður Borgarskjalasafn og skýrsla KPMG sem fylgdi tillögunni kom eins og reiðarslag fyrir flesta. Málinu var frestað í borgarráði og leynd hvíldi því áfram yfir gögnum. Engu að síður hafði skýrsla  um framtíðarfyrirkomulag Borgarskjalasafns borist fjölmiðlum og málið komst í hámæli. Nú hefur leynd verið létt af skýrslunni um Borgarskjalasafn svo hægt er að ræða efni hennar. Skýrsluhöfundar komast að þeirri niðurstöðu að: „Óbreytt ástand er ekki möguleiki“ sem þýðir að ekki sé hægt að hafa Borgarskjalasafn áfram í þeirri mynd sem það er. Flokkur fólksins í borgarstjórn hefur sínar hugmyndir um þetta mál og finnst það sérkennilegt að skýrsla af þessu tagi skuli birta svo afgerandi niðurstöðu án þess að skoða hvaða aðrar leiðir megi fara. Skýrslan er að mati okkar í Flokki fólksins gildishlaðin og jafnvel má segja að hún sé ekki nægjanlega vönduð. Við teljum að „niðurstaðan hafi verið eins og pöntuð“. Flokkur fólksins í borgarstjórn telur að borgarstjóri og hans fólk hafi fyrir einhverju síðan verið búið að ákveða að leggja niður Borgarskjalasafn.  Í ferli KPMG við gerð skýrslunnar voru einungis tekin tvö viðtöl við borgarskjalavörð og teymisstjóra eftirlits og rafrænna skila. Ekkert hefur verið fundað með öllum starfsmönnum Borgarskjalasafns, engir stefnumótunar- eða verkefnafundir haldnir með starfsmönnum og greinendur hafa ekki kynnt sér ítarlega verkefni eða störf safnsins. Ekki var haldinn fundur með forstöðumanni Borgarskjalasafns til að kynna drög að tillögum. Þetta eru allt upplýsingar frá starfsfólkinu. Hér er ekki um neina stefnumótunarvinnu að ræða heldur er aðeins keyrt áfram og yfir alla sem málið varðar. Skýrslan er almennt neikvæð og flest gert til að láta safnið líta illa út. Þá er auðveldara að réttlæta það að skella í lás. Ekki er minnst á styrkleika safnsins, eingöngu einblínt á vandamálin. Fela á verkefnið öðrum í stað þess að skoða leiðir til að efla safnið. Fjársvelt lengi Þrátt fyrir að hafa verið fjársvelt lengi heldur safnið úti öflugri starfsemi, tekur við eldri skjölum, varðveitir þau og svarar fyrirspurnum. Heildarsafnkostur Borgarskjalasafns er yfir tíu km. Birtar hafa verið á þriðja hundrað þúsunda síðna af skjölum á vefsíðu safnsins sem verið er að endurgera. Stafræn umbreyting er komin vel af stað og mun samfara aukinni móttöku gagnasafna til langtímavarðveislu minnka húsnæðisþörf safnsins og verða minni en kemur fram í skýrslu KPMG. Á Þjóðskjalasafni er hvorki pláss né mannafli til að sinna verkefnum Borgarskjalasafns. Gæði, þjónusta og eftirlit með skjalavörslu borgarstofnana myndi minnka. Safnið hefur undirbúið að fara í sameiginlegt húsnæði með Þjóðskjalasafni en söfnin yrðu áfram sjálfstæð  en með því yrðu mikil samlegðaráhrif. Þess vegna kemur það starfsfólki á óvart að leggja eigi safnið niður. Unnar hafa verið greiningar á húsnæði og mannaflaþörf safnanna fyrir næstu 30 árin til að dreifa kostnaði. KPMG stillir þessum tölum upp þannig að allt komi til framkvæmda næstu 3-4 ár með tilheyrandi kostnaði, sem er óraunhæft. Það sýnir metnaðarleysi meirihluta borgarstjórnar að treysta sér ekki til að halda úti vönduðu héraðsskjalasafni en allar höfuðborgir landa í Evrópu eru með borgarskjalasöfn. Hávær mótmæli eru um áformin og telur Flokkur fólksins að borgarstjóri eigi umsvifalaust að draga þessa tillögu til baka og biðja starfsfólk Borgarskjalasafns afsökunar. Illa hefur verið komið fram í þessu máli á allan hátt. Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík. Birt í Fréttablaðinu 2.3. 2023