Kveikum neistann í Reykjavík

Lestrarkennsla og lestrarfærni hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu og það ekki af ástæðulausu. Ef lestrarfærni er skoðuð má sjá að 34% drengja og 19% stúlkna 15 ára eiga í erfiðleikum með að skilja þann texta sem þau lesa. Þetta veldur áhyggjum. Það sem veldur ekki síður áhyggjum er að kannanir sýna fjölgun barna sem glíma við vanlíðan af ýmsu tagi s.s. kvíða og streitu. Við vitum að frammistaða og eigið mat á færni er nátengd líðan og upplifun um eigið ágæti. Sé vandamál með lestur og lesskilning má leiða sterkar líkur að það hafi áhrif á andlega líðan barna.

Kjarninn í Kveikjum neistann

Kveikjum neistann er verkefni sem ætlað er að efla skólastarf og bæta námsárangur. Verkefnið er 10 ára þróunar- og rannsóknarverkefni með heildstæða nálgun á skólastarfið. Kveikjum neistann tekur mið af vísindum og samstarfi við erlenda fræðimenn.  Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda. Áherslur tengjast jafnframt þróun á kennsluháttum, kennsluefni og starfsþróun og ráðgjöf til kennara og skólastjórnenda. Verkefnið hefur verið innleitt í Vestmannaeyjum með góðum árangri.

Kjarninn í verkefninu er að lagt er upp með í 1. bekk að leggja áherslu á bókstafi og hljóð. Kennt er eftir hljóðaaðferðinni. Inn á milli er staldrað við til að fullvissa um að helst allir nemendur séu búnir að ná öllum bókstöfum og hljóðum. Í upphafi vetrar er lögð fyrir bókstafa- og hljóðakönnun til að sjá hvaða bókstafi og hljóð nemendur kunna við upphaf skólagöngu. Aftur er gerð könnun í janúar og loks í maí á fyrsta skólaárinu. Árangur er teiknaður upp með myndrænum hætti þar sem litir eru notaðir til að merkja þá bókstafi og hljóð sem börnin þekkja. Mörg börn eru farin að lesa orð á þessum tíma og stuttar setningar.

Nota það sem virkar

Flokkur fólksins í borgarstjórn hefur fylgst með þessu verkefni. Í ljósi þess að það hefur sýnt einstaklega góðan árangur á stuttum tíma ætti að skoða að innleiða það í grunnskólum Reykjavíkur í samráði við skólasamfélagið.  Tillaga Flokks fólksins þess efnis hefur verið lögð fram í borgarráði. Miðja máls og læsis er að gera góða hluti en vel er hægt að gera betur. Einnig þarf að huga sérstaklega að þeim börnum sem ekki geta nýtt sér hefðbundnar kennsluaðferðir. Þau börn þurfa strax í byrjun að fá sérstaka aðstoð. Þau þurfa lengri tíma og meira næði en gengur og gerist í almennum bekk. Gera má ráð fyrir að það séu um það bil  2-4% barna sem glíma við lesvanda af lífeðlisfræðilegum orsökum sem t.d.  tengjast sjónskyni. Sum þurfa sem dæmi að fá stærra letur og læra bókstafi með hljóði og myndum.

Fyrstu rauðu flögginn við málþroska sjást í 18 mánaða skoðun. Þá er mikilvægt að bregðast strax við með t. d fræðslu til foreldra þessara barna. Leikskólinn er mikilvægur og málþroskinn áríðandi fyrir lesskilninginn. Vísbendingar um vanda má einnig oft sjá í niðurstöðum fjögurra ára skoðunar hjá heilsugæslunni. Þess vegna er mikilvægt að heilsugæslan og skólinn séu í góðu samstarfi. „Hljóm“ sem lagt er fyrir 5 ára nemendur hefur einnig forspárgildi fyrir lestrarnám.

Lestur og lesskilningur er fjárfesting til framtíðar. Barn sem á í vanda á þessu sviði tapar oft sjálfstrausti sínu og sjálfsöryggi. Þá aukast líkur þess að birtingarmyndir þess sýni sig í hegðun og atferli. Börnum sem útskrifast úr grunnskóla með slakan lesskilning hefur farið fjölgandi með hverju ári. Ef verkefni eins og Kveikjum neistann er að virka svo vel sem raun ber vitni er ábyrgðarhluti að líta fram hjá því. Við hljótum að vilja gera allt sem við getum,  láta einskis ófreistað til að börn nái sem bestum tökum á lestri og lesskilningi.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Birt í Fréttablaðinu 25. ágúst 2022