Sameiginlegur fundur velferðarráðs og skóla- og frístundaráðs 15. febrúar 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Kynning á stöðu starfshópa Ísaks:

Árið 2021 voru samþykktar sex tillögur sem stýrihópur  lagði til um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir. Myndaðir voru starfshópar Ísaks.

Tillaga 2 var að óska eftir 140 m.kr. til að mæta kostnaði vegna tímabundinna stöðugilda sálfræðinga.  Ekki tókst að nýta rúmar 80 m.kr. þótt vandinn hafi verið rakinn til skorts á fjármagni. Nú er óljóst hvort velferðarsvið hafi misst ónýtt fjármagn því ekki er víst hvort hægt sé að færa það á þetta ár. Það skortir ekki sálfræðinga, þeir fást einfaldlega ekki til starfa  fyrir borgina. Það skal ekki undra því  gengið var fram af hörku í síðustu samningaviðræðum við sálfræðinga og reynt að klípa af þeim launuð  réttindi sem þeir höfðu barist fyrir áratugum saman. Biðlistinn er nú 2292 og meira en helmingur bíður eftir sálfræðingum.  Innleiðing BBB er óþarflega flókið ferli. Stofnaðir voru stýri- og starfshópar með allt of mörgum aðilum með tilheyrandi fundarálagi. Skortur er á skilvirkni í ferlinu og árangur því ekki í samræmi við áætlun. Foreldrar hafa ekki verið spurðir álits. Foreldrar 120 barna voru sendir á HAM eins og það muni leysa tilfinningavanda barna þeirra. Áfram eru allir sérfræðingar staðsettir í miðstöðvum  Reykjavíkurborgar en ekki í skólum borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Kynning á stöðu innleiðingar verkefnisins Betri borg fyrir börn

Innleiðing á verkefninu Betri borg hefur tafist von úr viti. Það er ekki að undra ef horft er til þess flókna ferlis sem farið var í. Á meðan hefur biðlisti barna stöðugt lengst. Eitthvað hefur farið úrskeiðis. Segir í gögnum að “lausnarteymi” hafi leitt til þess að færri beiðnir berast til miðstövða en þar eru allir sálfræðingarnir staddir.  Segir “þar með minnkar t.d. Þörf á erindum til sálfræðings”. Lausnateymin vinna ekki með börnunum, aðeins starfsfólki og reynt er að valdefla það. Er það nokkur furða að biðlistar lengist?

Ferli Betri borgar fyrir börn:
Skipaðir voru fimm starfshópar til að koma verkefninu af stað
Skipaður var eigendahópur verkefnisins með sviðsstjórum, formanni verkefnastjórnar og fulltrúa miðstöðva
Settur var á laggirnar stýrihópur innleiðingar
Skipaðir voru verkefnisstjórnir BBB á hverri miðstöð sem samanstóðu af röð stjórnenda með hina ýmsu titla.
Og öll þessi hersing var svo í samvinnu við ÞON.

Hvar er skilvirknin í  þessu öllu? Starfsfólk er sagt ánægt. Því er sinnt af lausnateymum og deildir eru sagðar  ánægðar. Skilvirkni er lítil sem engin enda viðurkennt að þetta reyndist allt þyngra en reiknað var með og að fundarálag  mikið. Hvað með foreldra barna sem bíða eru þeir ánægðir?