Skipulags- og samgönguráð 10. nóvember 2021

Bókun Flokks fólksins við liðnum Reglur um notkun stöðureita í Reykjavík og gjaldtöku, tillaga:

Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að skipulags- og samgönguráð samþykki meðfylgjandi reglur um notkun stöðureita í Reykjavík og gjaldtöku. Gott er að áhersla er lögð á að stæðin verði vel merkt sem gjaldskyld svæði, en á því hefur stundum verið misbrestur, einkum þegar aðrar framkvæmdir standa yfir. Tækniþróun hefur vissulega orðið á gjaldtöku en samt sem áður á ekki að gera ráð fyrir að allir geti nýtt sér nýjustu tækni við greiðslu. Fyrir suma eru þessir mælar flóknir og ekki allir treysta sér til að nota síma app eins til að greiða fyrir bílastæði. Nú er þannig komið að eldra fólk, íslendingar sem búa utan miðbæjar koma hreinlega ekki lengur niður í bæ. Þetta hafa margar kannanir sýnt. Þetta er sorgleg þróun. Fyrir kynslóðina sem nú er komin yfir sextugt var miðbærinn vinsæll hér áður og þótti skemmtilegur heim að sækja.

Bókun Flokks fólksins við stöðubann á Frakkastíg milli Hverfisgötu og Laugavegar, tillaga:

Þetta er líklega nauðsynlegt þar sem Frakkastígur er orðinn mikilvæg samgönguæð þar sem því allri umferð af Laugavegi er beint norður Frakkastíg. Það er samt gagnrýnivert hversu erfitt er að leggja á þessu svæði og er þá horft til þeirra sem treysta sér í bílastæðahús. Það voru mistök að hafa ekki sett fleiri bílastæði á svæði norðan megin við Hverfisgötu, á milli Hverfisgötu og sjávar að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Borgarlína, deiliskipulag – Steinahlíð að Katrínartúni, skipulagslýsing:

Efast má um að lýsing á fyrirhugaðri borgarlínu sé nákvæm þegar sagt er ,, að byggt verði upp nýtt hágæðakerfi almenningssamgangna, Borgarlína, sem flytur fjölda fólks á milli helstu kjarna og valinna þróunarsvæða. Auk þess verði kerfi strætisvagna „aðlagað að og samþætt við leiðarkerfi Borgarlínunnar, þótt strætisvagnar og önnur farartæki sem þjóna almenningssamgöngum eiga að njóta forgangs”.

Að leggja sérakreinar, þar sem þeim verður við komið sem hafa forgang á ljósastýrðum gatnamótum segja ekki að þetta sé hágæðakerfi. Í raun er þetta gamaldags kerfi þar sem er gert ráð fyrir að akreinum fyrir aðra akandi umferð fækki.

Ekki er hugsað um nýjungar í ferðatækni svo sem léttlestir á teinum tengdum rafmagni, stundum fyrir ofan aðra umferð stundum fyrir neðan, og sem ekki skerða aðra umferðarmöguleika, nokkuð sem borgir í nágrannalöndum hafa innleitt eða eru að innleiða. Reykjavík er sem nátttröll í þessu samhengi. Svona áætlanir hafa engin áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda eða leggja grunninn að markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Bílar halda áfram að aka þessar götur og þeim mun jafnvel fara áfram fjölgandi þrátt fyrir komu borgarlínulestar.

Bókun Flokks fólksins Hverfisskipulag, Hlíðar, kynningaráætlun:

Hér er lögð fram kynningaráætlun fyrir vinnutillögur, hvar og hvenær kynna eigi íbúum og borgarbúum þessar tillögur að hverfisskipulagi fyrir borgarhlutann BH3, Hlíðar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að íbúar og aðrir sem vilja hefðu átt að koma að mótun þessara tillagna. Strax frá byrjun er rétt að hafa samráð við fólk og gefa því færi á að segja til um hvernig þeir sjá fyrir sér þróun þessa hverfis. Jafnvel þótt hér sé aðeins um vinnutillögur að ræða er nú þegar búið að leggja grunnlínur af þröngum hópi og sem tilkynna á nú borgarbúum. Það eru þessum grunnlínum sem yfirvöld ein og sér hafa lagt drög að sem síðan oft er vonlaust að fá breytt nema með látum og og ekki einu sinni með látum eða undirskriftalistum. Þetta sýnir reynslan.

Bókun Flokks fólksins Vogabyggð svæði 5, breyting á deiliskipulagi:

Skipulagsyfirvöld kynna breytingar sem felast m.a. í að stækka og dýpka smábátahöfn og ýmist fjarlægja, stækka eða lengja hafnargarða. Ef horft er til náttúru og náttúrulegs umhverfis þá er verið að skerða þetta strandsvæði og umhverfi árósa smátt og smátt. Þessi svæði eru einna mikilvægustu hlutar af náttúru við Reykjavík. Ferill skipulagsyfirvalda er að skerða lítið í einu, einingar sem ekki er tekið eftir en að lokum verður umhverfið allt annað en náttúrulegt. “Lítil” landfylling hér og þar, aðeins fleiri bryggjur o.s.frv. en að að lokum er allt umhverfið manngert og þá er vísast sagt að planta eigi í einhver beð og það stuðli að líffræðilegri fjölbreytni og náttúran megi vel við una. Fram kemur sem mótrök frá skipulagsyfirvöldum að þetta sé manngert fyrir og með þessu sé verið að auka og bæta aðgengi til útivistar.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu fyrirspurnar áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um úttekt á aðgengi gönguþverunum hjá Hörpu, umsögn:

Bókun við umsögn vegna fyrirspurnar fulltrúa Flokks fólksins um ljósastýringar við Hörpu. Í svari kemur fram að um var að ræða tímabundnar samtengingar á ljósastýringum sem virðast hafa bæði verið flóknar og ekki hafa virkað vel en hljóta þó að hafa miðast við að lágmarka slysahættu. Búið er að afnema þessa tímabundnu samtengingu svo ekki kemur lengur grænt ljós fyrir gangandi vegfarendur þegar ökutæki ekur út af vinnusvæðinu. Málið er sagt úr sögunni en það er einkennilegt að mati fulltrúa Flokks fólksins að nú er staðan þannig að ekki kemur lengur grænt ljós fyrir gangandi vegfarendur þegar ökutæki ekur út af vinnusvæðinu eins og sagt er í svarinu. Skapar það ekki slysahættu?

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu á fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um brú yfir Bústaðaveg/Kringlumýrarbraut, umsögn:

Það var vakin athygli fulltrúa Flokks fólksins á að þær breytingar sem verið er að gera á aksturs-, hjóla og gönguleiðum við Kringlumýrarbraut/ Bústaðaveg gætu leitt til mikillar þrengsla og skapað hættu. Verkið er m.a. á ábyrgð umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar.

Fram kemur í svari að allt sé samkvæmt reglum. Fulltrúi Flokks fólksins leggur nú til að Skrifstofan athugi þetta nánar jafnvel þótt ekki hafi verið gerðar athugasemdir við fyrirkomulagið á brúnni. Nú hafa hjólandi bæst við þarna svo spurning er hvernig þetta er ef bílandi, hjólandi og gangandi eru á ferð samhliða. Er þetta rými þá ekki of lítið?

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um hvenær könnun Maskínu var keypt, umsögn:

Svarið kemur ekki á óvart. Fulltrúi Flokks fólksins gat vissulega sagt sér að þessi könnun var keypt áður en niðurstöður lágu fyrir. Samgöngustjóri ákveður að kaupa niðurstöðurnar 16. júní 2021 en könnunin fór fram 3. -. 30. júní 2021. Niðurstöðurnar eru líklega keyptar í þeirri von að þær sýndu breyttar ferðavenjur sem renna myndi stoðum undir umdeildar aðgerðir borgarinnar sem snúa að ferðamáta borgarbúa. Það hljóta að hafa verið vonbrigði fyrir borgaryfirvöld að niðurstöður sýndu fram á aukna notkun einkabílsins en skipulagsyfirvöld hafa notað ýmsar leiðir til að gera fólki erfitt með að fara um á bíl í borginni. Fulltrúa Flokks fólksins finnst, þar sem borgin fjárfesti í þessari könnun, að skipulagsyfirvöld ættu þá líka að taka mark á niðurstöðum hennar og bregðast við samkvæmt því, t.d. með því að losa um umferðarteppur, með því að bæta ljósastýringar, hvetja til breytilegs vinnutíma og að hafa samræmi milli íbúafjölda og atvinnutækifæra í einstökum hverfum.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samráðsferli hverfisskipulags

Tillaga Flokks fólksins um sérstakt samráðsferli við börn og unglinga þegar verið er að skipuleggja hverfi hefur verið vísað frá með þeim rökum að það sé nú þegar gert. Fulltrúi Flokks fólksins hefur reyndar ekki orðið var við að þetta sé gert kerfisbundið og ítrekað.

Tillögu sem þessari á ekki að vísa frá heldur samþykkja og taka alvarlega. Það má alltaf gera betur þegar kemur að samtali við börn og unglinga. Bestu hugmyndirnar gætu einmitt komið frá börnum sem náð hafa þeim aldri að hugsa sjálfstætt, móta hugmyndir og ályktanir og koma þeim frá sér í orðum eða teikningum Börnin þekkja hverfið sitt vel og kannski best af öllum. Umhverfi á þess utan að vera barnvænt eins og framast er unnt. Börn gætu haft mikið að segja um samgöngur, umferðina og göngu- og hjólastíga sem þau sjálf fara hvað mest um. Þeirra skoðanir og álit um þessi mál skiptir miklu máli og ekki dugir að segja bara “þetta er nú þegar gert”. Að hafa börn með í ráðum við skipulag á umhverfi þeirra hefur jákvæð áhrif á hvernig þeim líður í hverfinu sínu, hvernig þau skynja og upplifa hverfið sitt og hefur einnig áhrif á hvort þau skynja hverfi sitt sem öruggt og gott hverfi.

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu.

Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Í samráðsferli vegna hverfisskipulags hefur verið notast við hugmyndafræði „Skapandi samráðs“ (e. Planning for Real). Hluti af því er vinna þar sem börn smíða módel af hverfinu sínu. Í Háaleiti og Bústöðum tóku meðal annars yfir 150 börn þátt á sínum tíma. Sama aðferðarfræði hefur verið notuð í öðrum hverfum og verður notuð í vinnunni framundan til dæmis í Laugardal. Samráð við börn er því þegar óaðskiljanlegu hluti af ferlinu og er tillögunni vísað frá.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um skotsvæðið í Álfsnesi

Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort sé verið að leita að nýrri staðsetningu með virkum hætti og þá hvar, innan eða utan dyra?

Skotsvæðinu í Álfsnesi var lokað án fyrirvara? Fram hefur komið að lokunin hafi komið meirihlutanum á óvart sem er sérkennilegt því málið hefur verið a.m.k. tvisvar rætt í borgarstjórn. Margir voru búnir að hafa uppi varnaðarorð og hneykslast á aðgerðarleysi heilbrigðisnefndar. Þegar loks er lokað er það ekki vegna mengunar heldur skipulagsmála. Halda mætti að „skipulagsmál“ séu notuð sem átylla fyrir að loka. Finna þarf aðra lausn fyrir þá 1.500 félagsmenn og aðra sem stunda skotæfingar. Erfitt getur reynst að finna svæði þar sem ekkert mannlíf er í nágrenninu og þar sem blýmengun veldur ekki skaða og/eða þar sem skotæfingar skaða ekki náttúru. Ef utandyra er þarf það svæði að vera einangrað eða afskekkt og sem ekki er metið mikils virði út frá náttúru. Fyrirspurn Flokks fólksins lýtur að hvort verið sé að leita að nýrri staðsetningu og þá hvar, innan eða utan dyra?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um aðstæður hjólandi vegfarenda í Úlfarsárdal:

Fulltrúi Flokks fólksins var fyrir nokkrum vikum með fyrirspurn um aðstæður hjólandi vegfarenda í Úlfarsárdal þar sem eru tröppur á göngustígum. Þarna fer fólk einnig um með barnakerrur. Í hverfinu eru tröppur víða og hafa börn sem hjóla í skólann þurft að bera hjól sín upp og niður tröppurnar eða leiða þau auk þess sem hjólastígar eru víða með krappar beygjur. Sendar voru myndir með fyrirspurninni til að sýna aðstæður.

Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir endurskoðun á þessu en fékk engin viðbrögð önnur en þau að þetta væri í lagi við Urðarbrunn. Með þessari fyrirspurn sem hér er lögð fram er aftur sýnd mynd sem sýnir hvernig börn reyna að redda sér þegar aðstæður bjóða ekki upp á að hjóla á stíg. Hér má sjá hvernig þau einfaldlega hjóla á grasbakka með fram göngustígnum til að þurfa ekki að bera eða leiða hjól sín.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld vilja ekki reyna að lagfæra þetta þannig að börn komist leiðar sinnar hjólandi án erfiðleika og einnig að fólk geti farið um með barnakerrur bæði þrí- og fjórhjóla? Það ástand sem þarna ríkir getur verið hættulegt. Stígarnir eiga að þjóna börnum á hjólum og hlaupahjólum sem og fólki með vagna og kerrur.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um borð og bekki fyrir hjólastólanotendur:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu um borð og bekki fyrir hjólastólanotendur heils hugar. Sjálfsagt er að setja borð og bekki sérhannaða fyrir hjólastólanotendur á völdum stöðum. Velja þarf þessa staði í fullu samráði við notendur. Þeir eiga að hafa r allt um það að segja hvar þessi borð og bekkir verða settir. Hafa þarf samráð við hagsmunafélög í þessu sambandi, ÖBÍ, Sjálfsbjörg. Þetta er einfalt að framkvæma og ekki ætti að felast í þessum aðgerðum mikill kostnaður.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, vegna ástands í Úlfarsárdal.
Öll höfum við, borgarfulltrúar og skipulagsyfirvöld fengið þær myndir sem fylgja með þessum fyrirspurnum Flokks fólksins, frá búanda í Úlfarsárdal. Myndir sýna óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal í september 2021 sem eru 40 sérbýlislóðir. Einnig má sjá rusl og drasl á víðavangi og órækt í hverfi sem ætti eftir 15 ár að vera fullklárað og sjálfbært. Fulltrúi Flokks fólksins hefur oft minnst á byggingarefni sem liggur á víð og dreif um hverfið. Umræðuna um lóðarskort þarf ekki að kynna.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvenær borgar- og skipulagsyfirvöld hyggjast bregðast við þessu ástandi í Úlfarsárdal og hvernig?

Einnig er spurt hvað eru borgar- og skipulagsyfirvöld að gera til að vinna að sjálfbærni þessa hverfis?

Á sama tíma og fólk er hvatt til að leggja bílnum er staðan þannig í Úlfarsárdal að aka verður í næsta hverfi til að kaupa matvöru. Það er vissulega ekki langt í næsta hverfi og þar eru myndarlegar verslanir. Engin þjónusta er í hverfinu og hvað þá sú sjálfbærni sem lofað var þeim sem þar byggðu. Í Úlfarsárdal þarf fólk að eiga bíl bæði til að sækja vistir og til að komast í vinnu því engin atvinnutækifæri eru í hverfinu. Með þessum fyrirspurnir fylgja myndir til að sýna hvernig ástandið er víða í Úlfarsárdal.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um matvöruverslun í Úlfarsárdal

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgar- og skipulagsyfirvöld beiti sér fyrir að matvöruverslun/verslanir komi í Úlfarsárdal og séu helst staðsettar þannig að þær séu í göngu- eða hjólafæri fyrir sem flesta. Einnig eru borgaryfirvöld hvött til að beita sér fyrir því að matvöruverslun komi nálægt Bauhaus en þar eru næg bílastæði fyrir hendi. Nú er þetta hverfi um 15 ára og var lofað að það yrði fljótt sjálfbært. Það loforð hefur ekki verið efnt. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld beiti sér í þessum efnum. Í hverfinu er ekki ein einasta matvöruverslun hvað þá veitingastaður.

Frestað.