Borgarráð 6. maí 2021

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 28. apríl 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir austurhluta Laugardals:

Vísað er til borgarráðs tillögu „Laugardalur – austurhluti“ vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi. Samþykkt hefur verið að auglýsa framlagða tillögu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ávallt stutt þetta úrræði enda þurfa allir að eiga þak yfir höfuð. Það er þó afar mikilvægt að vandað sé til þessa úrræðis með þeim hætti að eitt af húsunum á hverjum stað verði frátekið fyrir starfsmann sem verði alltaf á staðnum til að styðja við einstaklingana og vera til taks eftir þörfum. Um er að ræða einstaklinga með fjölþættan vanda, sumir að eignast heimili eftir að hafa verið heimilislausir árum saman og þurfa bæði mikla þjónustu og stuðning. Hér er mikilvægt að velferðarsvið bregðist ekki skyldum sínum ella er hætta á að þetta úrræði sem búið er að leggja mikið í mistakist.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 13. apríl 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja átaksverkefni í teikningaskönnun:

Óskað er eftir að fá heimild til að hefja átaksverkefni í teikningaskönnun. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að nauðsynlegt er að skanna inn gögn til að gera aðgengileg á rafrænu formi – sem hefði átt að vera byrjað á fyrir nokkrum árum síðan. Enn og aftur er borgin á eftir með tæknina. En auðvitað þarf að skanna allar gamlar teikningar inn í tölvu. Flestar stofnanir og fyrirtæki sem vilja vera í framlínu eru án efa löngu búin að skanna inn gögn. Að skanna inn er minnst 20 ára gömul tækni.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 3. maí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning vegna atvinnuhúsnæðis að Borgartúni 8-16:

Nú þarf þjónustu- og nýsköpunarsvið að leigja meira húsnæði fyrir „starfsemina“ eða til að mæta þenslu sviðsins. Leiga verður hátt í milljón á mánuði. Hvers konar starfsemi á að vera í þessu nýja húsnæði? Svo virðist að enginn hemill sé á útþenslu þessa sviðs og þar er farið með mikið fé. Það er vel líklegt að þegar verðskynjun og fjárútlát eru af þessari stærðargráðu að milljarður er orðinn eins og þúsundkall og því þykir ekkert tilkomumál að greiða milljarð í leigu fyrir viðbótarhúsnæði. Er þetta viðbótarhúsnæði bráðnauðsynlegt?

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 4. maí 2021, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um sveigjanleg starfslok eru send borgarráð til kynningar:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis bent á að losa þarf um hindranir sem standa í vegi fyrir þá sem vilja halda áfram að vinna eftir sjötugt. Lagðar hafa verið fram tillögur um sveigjanleg starfslok en hefur meirihlutinn ekki sýnt umræðunni áhuga. Á fundi borgarstjórnar þegar tillagan var lögð fram setti aðeins einn fulltrúi meirihlutans í fjarfundi sig á mælendaskrá að öðru leyti var aðeins skerandi þögnin. Það er löngu tímabært að borgin hætti að nota aldursviðmið og leyfi þeim sem það geta og vilja að halda áfram að sinna starfi sínu þótt sjötugsaldri sé náð. Borgin ætti líka að þrýsta á ríkið að draga úr skerðingum á lífeyri vegna atvinnutekna svo sem að frítekjumark vegna atvinnutekna yrði hækkað úr 100.000 kr. í 200.000 kr. eða afnumið alfarið. Í kjarasamningi segir að yfirmanni sé heimilt að „endurráða mann/konu, sem náð hefur 70 ára aldri í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris.“ Þetta er tyrfin leið. Nú stendur til að setja saman hóp til að skoða þessi mál. Óttast er að þetta eigi eftir að taka óratíma og verði gert flóknara en það þarf að vera.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á starfsemi Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins árið 2020 og nýlegri könnun á starfsánægju starfsmanna:

Sú  starfsánægjukönnun Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu sem kynnt er á fundinum lýsir óviðunandi ástandi í starfsmannamálum. Skýrslan spannar tímabilið frá maí 2019 til nóvember 2020.  Lengi vel hefur heyrst af mörgum líður illa á þessum vinnustað en engan óraði fyrir slíkri útkomu. Allir kvarðar á eldrauðu ef svo má að orði komast.  Hópar hafa verið settir á laggirnar sem reyndu að koma með úrbætur en vandinn innmúraður og inngróinn augsýnilega. Óánægja er með starfshætti og samskipti við yfirmenn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur kallað eftir nánari upplýsingum  m. a. um eineltistilvik.  Borgarstjóri er formaður stjórnar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Ekki þarf að efast um það að hann hafi vitað af þessum vanda sem gegnsýrt hefur starfið í langan tíma, kannski árum saman.

Fulltrúi Flokks fólksins vill fá að vita meira um starfsánægjukönnun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og hefur sent inn formlegar spurningar þess efnis. Sjá má á niðurstöðum sem birtar eru í píramídamyndum með litum að allt er logandi í orðsins fyllstu merkingu. Birtingarmyndir um niðurstöður þurfa að vera skýrari. Ástandið er grafalvarlegt. Taka þarf fram í samfelldum texta helstu atriði könnunarinnar, t.d. hvernig starfsfólki líður hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, hvernig er starfsandinn, hvernig ganga samskipti við yfirmenn, hvernig koma yfirmenn fram við undirmenn, hvernig upplifa starfsmenn virðingu, umhyggju og skilning af hálfu yfirmanna og eru tilfelli um einelti, áreitni, ef svo er hvað eru þau tilfelli mörg og hefur verið unnið með fullnægjandi hætti í þeim málum? Það skiptir sennilega hvergi eins miklu máli að starfsmenn upplifi yfirmenn sína umvefjandi, hlýja og sanngjarna eins og á vinnustaðnum sem þessum þar sem starfsmenn eru í mörgum útköllum í beinni lífshættu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að borgarráð samþykki að styrkja Nýsköpunarvikuna árið 2021 um 1 m.kr. og geri samning um að vera einn af burðarstólpum hátíðarinnar árin 2021-2023.

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að það sé ekki hlutverk hins opinbera að vera að eyða háum fjárhæðum af almannafé í þá tilraunastarfssemi sem „nýsköpunarvinna“ í rauninni er. Það eru fyrst og fremst einkafyrirtæki sem eiga að leiða þennan „nýsköpunarvagn“; það eru einkaaðilar sem eiga að taka þá fjárhagslegu áhættu sem fólgin er í kostnaðarsamri nýsköpun af hvers lags tagi. Það er ekki hægt að réttlæta það lengur að meirihlutinn í Reykjavík skuli vera að auka fjármagn enn frekar undir merkjum nýsköpunar á kostnað þjónustu við fólkið bæði grunnþjónustu að aðra sem borgarbúa þurfa. Nýsköpun er litla barn þessa meirihluta og er greinilega í forgangi. Orðið nýsköpun er farið hljóma eins einhverskonar mantra sem meirihlutinn fer með aftur og aftur til þess að réttlæta það mikla fjármagn sem búið er að setja í þessa hluti margsinnis án skilgreininga, skýrra markmiða og oft án sýnilegs árangurs eða afurða. Reykjavíkurborg á að fylgjast með því sem einkaaðilar hérlendis sem erlendis, eru að gera í þessum málum og nýta sér svo þær lausnir sem það nýsköpunarferli skilar af sér og sýnt hefur verið fram á að beri árángur. Þannig er best farið með fjármuni Reykjavíkinga.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að borgarráð samþykki hjálögð drög að samningi um byggingu hjúkrunarheimilis í Reykjavík sem reist verður á svæði við Mosaveg, 112 Reykjavík og viljayfirlýsing að byggt verði  hjúkrunarrými við Ártúnshöfða:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að byggja eigi hjúkrunarheimili við Mosaveg og að lögð sé fram viljayfirlýsing um byggingu hjúkrunarheimilis á Ártúnshöfða. Nú þegar eitt ár er eftir af kjörtímabilinu glittir í aðgerðir. Mikill skortur er á hjúkrunarheimilum í Reykjavík og hefur fólk þurft að vera á sjúkrahúsum án þess að þurfa þess vegna þess að ekki er til hjúkrunarheimilispláss. Dæmi hafa verið um að eldri borgari er neyddur á hjúkrunarheimili út á land því ekki er til pláss í Reykjavík. Árið 2019 biðu 273 einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu eftir varanlegri vistun, af þeim eru 158 með lögheimili í Reykjavík. Ekki var þá yfirsýn yfir hvar þeir voru sem biðu eftir innlögn á hjúkrunarheimili, þ.e. hversu margir voru á Landspítala og hversu margir heima. Landspítalinn er orðinn stærsta og dýrasta hjúkrunarheimili í borginni. Staðan er ekki betri í dag.

 

Bókun Flokks fólksins við Lagðar Bókun Flokks fólksins við fundargerðir íbúaráðs Laugardals frá 12. apríl undir 6. lið:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari afgreiðslu íbúaráðsins sem hefur ákveðið að óska eftir fundi með skrifstofu samgöngustjóra til að koma viðhorfum íbúa á framfæri um ljósastýrðar gönguþveranir yfir Lönguhlíð við Blönduhlíð. Þetta er einmitt hlutverk íbúaráða, að hlusta á fólkið í hverfinu og vera framhandleggur þess inn í valdakerfi borgarinnar þegar borgarbúum líst ekki á fyriráætlanir yfirvalda.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 13. og 28. apríl 2021, undir 4. lið:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að íbúaráðið hefur fjallað um þetta mál. Hlusta þarf á íbúa áíBrekkugerði og Stóragerði vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Hvassaleiti og nágrenni. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt það til og hvatt skipulagsyfirvöld til að að hlusta á íbúa enda hér um samstíga ákall íbúa sem benda á atriði er varðar öryggi barna þeirra. Skipulagsyfirvöld eiga að hlusta á sjónarmið fólksins og breyta samkvæmt þeim eins og mögulegt er. Enginn veit betur um hættur í hverfum en íbúarnir sjálfir. Í þessu tilfelli er mikil samstaða meðal íbúa í málinu og hafa fulltrúar þinglýstra eigenda allra íbúðarhúsa við Brekkugerði sett nafn sitt við bréf til skipulagsyfirvalda þar sem sem að sú fyrirætlan sem er á borðinu er ekki talin leysa málið.

 

Bókun Flokks fólksins við við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 5. maí 2021, undir 18. lið:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að skipulagsyfirvöld hugi sérstaklega að leiksvæðum barna þegar verið er að þétta byggð. Tillögunni hefur verið vísað frá með þeim rökum að hér sé um að ræða skoðun kjörins fulltrúa. Það er sérkennileg að mati fulltrúa Flokks fólksins að þegar lagt er til að leiksvæðum barna sé hlíft sé sagt að það sé skoðun kjörins fulltrúa. Öllu má nú nafn gefa. Það er miður að þéttingarstefna meirihlutans í borgarstjórn gangi svo langt að skorið sé af leiksvæðum barna. Þetta á einnig við um græn svæði sem ýmist er byggt á eða þau manngerð. Slíkur er ákafi þessa meirihluta að byggja á hverjum bletti. Það mætti vel fara einhvern milliveg, nóg er af landi og með tíð og tíma mun borgin verða að dreifast meira. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að Reykjavík er líka borg barnanna sem þar búa. Í allri þessari þéttingu má ætla að skólar þurfi ýmist að stækka eða byggja verði nýja. Varla verða eftir reitir fyrir slíkar framkvæmdir ef fram heldur sem horfir.

 

Bókun Flokks fólksins við  fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 9. apríl 2021, undir 2. lið:

Fundargerðin er rýr. Fram kemur að áætlað er að fara út í umfangsmikla skógrækt á Álfsnesi. Er það hlutverk SORPU? Ekki er séð hvernig SORPA á að nýta þessa skógrækt. SORPA fær nú þegar mikið af trjáafgöngum frá borgarbúum sem ekki er að sjá að eru nýttar, nema í moltu. Er þessi skógrækt annars ætluð til moltugerðar?

Bókun Flokks fólksins við bréfi skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 19 mál, undir 16. lið yfirlitsins:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir umsögn samráðshóps Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni (afglæpavæðingu neysluskammta) í henni segir „að með afglæpavæðingu neysluskammta má gera ráð fyrir að aðgengi að vímuefnum verði meira. Það er þekkt staðreynd að aukið aðgengi að vímuefnum eykur neyslu. Þessi breyting, verði hún að lögum, getur auðveldað unglingum að verða sér út um vímuefni og því aukið neyslu þeirra. Það er vissulega jákvætt að draga úr neikvæðu viðhorfi til hópa sem neyta vímuefna en það er áhyggjuefni að það hafi einnig jákvæð áhrif til vímuefnanna sjálfra í samfélaginu og þá sérstaklega meðal unglinga. Áhyggjur eru einnig af því að miðað er við 20 ára aldurstakmark í 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998, því skýtur skökku við að í frumvarpinu sé miðað við 18 ára aldur en ekki 20 ára eins og í áfengislögunum.” Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að löggjöfin þarf ávallt að hugsa fyrst og fremst um hagsmuni barna og í öllum lagasetningu sem snerta mögulega börn og ungt fólk þarf að gera áhættumat með tilliti til barna og unglinga, sbr. 3. gr. barnasáttmálans.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um viðbótarhúsnæði sem ÞON tekur á leigu:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga hvernig á að nota 314 fermetra húsnæði sem þjónustu- og nýsköpunarsvið tekur á leigu í 2 og hálft ár, leiga per mánuð er tæp milljón og mun verða 30 milljónir á tímabilinu. Hverjir verða í þessu húsnæði og hvaða hlutverkum munu þeir gegna? Í hvaða starfsemi á að nota þetta húsnæði? R21050001

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um kostnað vegna ferða erlendis sundurliðað eftir starfsfólki/sviðstjóar:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill fá nánari útfærslu á eftirfarandi kostnaði: Hver er kostnaður sviðstjóra og æðstu stjórnenda þjónustu- og nýsköpunarsviðs vegna ferða erlendis, námskeiða og ráðstefna og einnig risnu síðastliðin 4 ár. Óskað er sundurliðunar eftir starfsheitum. Einnig hver var kostnaður skrifstofustjóra og æðstu stjórnenda forvera þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem var skrifstofa þjónustu og reksturs á því tímabili sem nefnt er?

Frestað

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir um starfsánægjukönnun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins:

Í starfsánægjukönnun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, dags. í nóvember 2020, eru niðurstöður birtar í píramítamyndum með litum og eru illa aðgengilegar. Rautt þykir slæmt og er mikið rautt í píramítunum. Hafa niðurstöður starfsánægjukönnunarinnar verið ræddar meðal starfsmanna og liggja fyrir viðbrögð við henni. Hverjar eru niðurstöður þeirrar vinnu í stuttu máli? Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá samantekt úr þessari könnun um hvernig starfsfólki hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins líður, hvernig er starfsandinn? Hvernig ganga samskipti við yfirmenn? Upplifa starfsmenn virðingu, umhyggju og skilning af hálfu yfirmanna? Spurt er um hvort það séu tilfelli um einelti, áreitni, ef svo er hvað eru þau tilfelli mörg? Hvernig hefur verið unnið með þessi tilfelli? Finnst starfsmönnum (þolendum) það hafa verið gert með fullnægjandi hætti? Óskað er eftir upplýsingum um það hvort niðurstöður hafi komið á óvart og ef svo er, hvað kom á óvart og hverjum finnst þær koma á óvart? Eru það yfirmenn? Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá niðurstöður þessarar könnunar birtar í samfelldum texta. R21030227