Skipulags- og samgönguráð 2. mars 2022

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða, um bætt hjólastólaaðgengi í grunnskólum og félagsmiðstöðvum:

Fulltrúi Flokks fólksins styður tillögu ungmenna ráðsins um að bæta aðgengi fatlaðra í grunnskólum og félagsmiðstöðvum. Fyrsta skrefið er að yfirfara aðgengi fyrir hjólastóla og skoða hvernig það er háttað í dag. Hefja þarf verkið sem fyrst og reyna að ljúka því eigi síðar en í árslok 2022 að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við lið 33 við fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 25. febrúar 2022:

Samþykkt er að framlengja athugasemdafrest vegna Arnarnesvegar til 11. mars 2022 þar sem streymisfundur til kynningar á verkefninu verður haldinn 3. mars nk. Fulltrúi Flokks fólksins telur að fresturinn eigi að vera mun lengri enda hefur Covid sett verulega strik í reikninginn. Fulltrúi Flokks fólksins spyr einnig í þessu sambandi af hverju er ekki hægt að hafa venjulega fund með íbúum nú þegar fjöldatakmörkunum hefur verið aflétt. Margt þarf að ræða í þessu máli svo sem hönnun á veginum. Áformað er að koma vistlokum yfir hluta vegarins. Þetta þarf að skoðast vel því vegurinn eins og hann er nú teiknaður verður snjókista alls staðar þar sem vistlokin eru ekki og verða gjörsamlega ófær í vetrarfærð eins og hefur verið. Vísað er til Vina Kópavogsbæjar sem einnig kalla eftir opnum fundi þar sem Covid er ekki lengur fyrirstaða. Málið hefur verið afar umdeilt. Svæðið sem vegurinn fer um er vinsælt útivistarsvæði verður skorið í sundur með 60 metra breiðu vegstæði í grennd við fjölmenn íbúahverfi og í útjaðri áformaðs Vetrargarðs. Það er mjög gagnrýnisvert að ekki hafi verið gert nýtt mat á umhverfisáhrifum þar sem svo margt hefur breyst frá því að umhverfisáhrif voru metin.

 

Bókun Flokks fólksins við Kringlan deiliskipulag, deiliskipulag 1. áfanga, kynning:

Kynnt er staða við gerð fyrsta áfanga deiliskipulags á Kringlusvæðinu og er ljóst að þarna má gjarnan þétta byggð og gera umhverfið meira aðlaðandi. Um er að ræða mjög stóra og flókna framkvæmd sem á eftir að gjörbreyta umhverfinu. Þétting verður mikil eða um 350 íbúðir. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvernig aðkoman að Kringlunni á eftir að verða og hvernig umferðarmál verði leyst þegar komið er út frá svokallaðri samgönguhæð, bílahæð sem nú er neðri hæð Kringlunnar

Á myndum má sjá að þök eru að mestu flöt. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort það sé ekki ávísun á vandamál og fær þau svör að þetta sé flókið verkefni. Öll þök verði ekki flöt og fundnar verði leiðir til að safna ofanvatni.

 

Bókun Flokks fólksins við erindi íbúaráðs Kjalarness um lóðamál í Grundarhverfi:

Um er að ræða tvær lóðir á Kjalarnesi sem grunur var um að leyndust fornleifar. Nú hefur svæðið, verið tekið út og skv. því falla þessar 2 lóðir ekki undir friðhelgi fornleifa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sjálfsagt að drífa í að selja þessar lóðir enda er vöntun á húsnæði á Kjalarnesi líkt og annars staðar í borginni. Það munar um allt nú þegar húsnæðisskortur er í hæstu hæðum í Reykjavík.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um matvöruverslun í Úlfarsárdal:

Tillögu Flokks fólksins um að borgar- og skipulagsyfirvöld beiti sér fyrir að matvöruverslun/verslanir komi í Úlfarsárdal hefur verið vísað frá. Úlfarsárdalur, hverfið er 15 ára og enn bólar ekki á matvöruverslun né kaffihúsum og skyndibitastöðum. En í svari segir að margar lóðir séu skipulagðar til að sinna þessu og ,, öll húsin á lóðinni eru í uppbyggingu núna”. Eru 15 ár ekki nægjanlega langur tími til að taka ákvörðum um matvöruverslun og getur verið að eitthvað annað hamli uppbyggingu, svo sem að langur tími fer í ganga frá göngustígum? Hverjar svo sem ástæður eru fyrir að hverfið er ekki orðið sjálfbært er kominn tími til að spýta í lófana þarna. Það er ekki eins og vanti möguleikana eða tækifærin.

Tillögunni er vísað frá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

 

Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Bygging matvöruverslunar við Skyggnisbraut er þegar komin af stað. Við Jarpstjörn er jafnframt gert ráð fyrir húsnæði fyrir stórmarkað eins og kemur fram í umsögn sviðsins og við Urðartorg býður jarðhæð upp á fjölbreytta starfsemi svo sem veitingastað, kaffihús eða bakarí.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um bætta þverun yfir Geirsgötu

Mál nr. US220042

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að þverun verði bætt frá Edition hótel og yfir Geirsgötuna vegna mikillar umferðar. Næsta göngubraut er a.m.k. um 70 metra í átt að Kolaportinu. Hér þarf að bæta úr áður en umferðarslys verður.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um fyrirkomulag meðan á framkvæmdum stendur. Mál nr. US220037

Samkvæmt skipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið stendur til að setja Sæbraut og Miklubraut í stokk á tímabilinu 2023 – 2026. Á Sæbraut verður á framkvæmdatíma gert ráð fyrir því að umferð um Sæbraut verði breytt í 1 plús 1 í stað 2 plús 2.

Óljóst er hvort það sama gildi um Miklubraut en þó er ljóst að umferð mun þrengjast mjög á þessum tíma og a.m.k. á einhverjum tímapunkti í 1 plús 1.

Í þeim hugmyndum sem kynntar hafa verið er gert ráð fyrir því að Suðurlandsbraut verði með tilkomu Borgarlínu breytt í 1 plús 1 í stað 2 plús 2. Líklega munu þær breytingar skarast í tíma við framkvæmdir við Sæbraut og Miklubraut.

Í ljósi þessa: Hefur verið kannað hvaða áhrif þetta hefur á umferð og hafa verið skipulagðar einhverjar mótvægisaðgerðir til að greiða fyrir umferð á framkvæmdatíma?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um sektir vegna stöðubrota í miðbænum.  Mál nr. US220040

Fulltrúa Flokks fólksins hefur borist ábendingar og kvartanir vegna innheimtu Bílastæðasjóðs. Kvartað er yfir óvægnum aðferðum þar sem fólk upplifir jafnvel að verið sé að leiða sig í gildru með því að hafa merkingar ábótavant.

Margt er að breytast í miðbænum og ekki allir átta sig á þessum breytingum enda breytingar örar. Sums staðar eru merkingar ekki nógu góðar eða hreinlega ábótavant t.d. þar sem er algert stöðubann. Einnig eru víða framkvæmdasvæði sem byrgja sýn.

 

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að sjá sundurliðað yfirlit yfir þá staði sem mest er sektað vegna stöðubrots.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, bílastæðasjóðs.