Umhverfis- og skipulagsráð 22. júní 2022

Bókun Flokks fólksins við kynningu Aðalskipulags Reykjavíkur 2040:

Áform síðasta meirihluta um að koma húsaskjóli yfir alla þá sem vilja búa í Reykjavík tókst ekki. Ástæða er að ekki var byggt nóg. Ljóst er að ekki dugar bara að þétta. Byggja þarf víðar, sjálfbær hverfi þar sem fólk vill byggja og búa.Miður er að byggingar við strandlengju varpa skugga á heilu hverfin.
Hægt gengur að sjá hvernig styrkja á innviði í grónum hverfum samhliðaþéttingu. í Laugarnesi og víðar eru framtíðarskólamál í óvissu en nemendum fjölgar. Úlfarsárdalur sem er 15 ára hverfi er ekki enn sjálfbært. Þess er vænst að byggt verði þar af kappi enda nægt rými.Gengið hefur verið á náttúru og lífríki til að þétta byggð t.d. meðlandfyllingaráformum m.a. við Elliðaárósa. Tillögur um mótvægisaðgerðir eru aumar. Að fylla fjörur er greinilega freistandi aðgerð til þéttingar en „þétt“ þýðir ekki endilega mannvænt og „þétt“ þýðir ekki endilega gæði eða hagkvæmni.
Eyðilegging á náttúru og skemmd á lífríki verður þegar sprengt verður fyrir Arnarnesvegi og Vatnsendahvarfið klofið, framkvæmd sem gagnast Kópavogi fyrst og fremst en sem mun leiða til mikillar aukningar á umferð á Breiðholtsbraut. Þrengt er að þróun fyrirhugaðs Vetrargarðar. En bíður að sjá hvernig atvinnumálum í hverfum verður háttað eins og talað var um.

 

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag, Laugardalur 4.1 Laugarnes:

Skipulagsyfirvöld hafa tilkynnt að gera ætti betur í samráðsferli og að byrja meðautt blað. Einnig var tekið fram að forsendurnar frá aðalskipulaginu væru komnar á blað og með því er gefið í skyn að þeim verði ekki breytt. Svo varla er því alveg um autt blað að ræða. Ef hávær mótmæli koma gegn „forsendum“ þá hlýtur að verða að hlusta á það. Það þarf að vera hægt að breyta fyrstu tillögum og þá jafnvel í grundvallaratriðum. Í stuttu máli er staðan þannig að samráðeins og skipulagsyfirvöld lýsa því er ekki alveg í samræmi við eins og íbúar hverfa eru að upplifa það. Þetta vita skipulagsyfirvöld. Háværar raddir hafaverið víða um borg á síðasta kjörtímabili þar sem fram hefur komið megnóánægja með ýmsa hluti i hverfisskipulagi borgarinnar. Mest er kvartað yfir of miklu byggingarmagni, offorsi í þéttingu byggðar, fjarlægingu á bílastæðum og að þrengt er að fólki úr öllum áttum. Fólk hefur áhyggjur af umferð og aðgengi.Umferðarteppur eru stórvandamál því samgöngur fylgja ekki skipulagsbreytingum í hverfum. Annar vandi er að innviðir í grónum hverfum eru sprungnir eins og skólar og ekki liggur fyrir hvernig leysa á úr þeim málum.

 

Bókun Flokks fólksins við KR svæðið – Frostaskjól 2-6, nýtt deiliskipulag:

Flokkur fólksins tekur undir margar af þeim athugasemdum sem hafa borist og hefur áður bókað um sumar þeirra. Spurning er hvort taka eigi tillit til þeirra? Ítrekað er talað um áhyggjur af byggingarmagni því sem auglýst er á svæðinu og hæð húsa sbr. Íbúðahúsið sem auglýst er við Kaplaskjólsveg/Flyðrugranda er sagt verða 3ja-4ra hæða en miðað við teikningar mætti skilja það svo að það verði á hæð við fjölbýlishúsin sem þegar standa við Kaplaskjólsveg og eru það 5 hæða hús. Áhyggjur eru af skuggavarpi á einstaka byggingar. Ennfremur er talað um þrengsl og skort á bílastæðum við nýju mannvirkin þegar keppnisleikir fara fram en næg eru þrengslin fyrir. Horfast verður í augu við raunveruleikann. Bílastæðavandi er einnig í nærliggjandi götum. Skoða þarf að draga úr byggingarmagni og fjölga bílastæðum. Markmið er að bæta félagsaðstöðu sem hlýtur að vera aðalatriðið. í ljósi áætlunar um mikla þéttingu allt um kring má ætla að umræða þurfi að vera um þessar tillögur og nú reynir á hæfileika meirihlutans að „hlusta“. Hér hefði kannski verið betra að byrja með auðara blað? Sennilega eru flestir hlynntir einhverri þéttingu en gengið hefur verið víða of langt í ákafanum að þétta þannig að mörgum, þykir nóg um.

 

Bókun Flokks fólksins við Borgarlína – Steinahlíð að Katrínartúni, skipulagslýsing:

Mótmæli, athugasemdir eru mjög keimlíkar. Áhyggjur eru að aðgengi að fyrirtækjum vegna fækkunar á akreinum og fækkun bílastæða. Lesa má út úr þessum bréfum sem fylgja málinu og fólk er áhyggjufullt, fyrirtæki eru áhyggjufull yfir að þjónustuþegar komist ekki að fyrirtækjunum, sérstaklega þeir sem koma á einkabílum sínum. Ekki er minnst á hreyfihamlaða og leiðir til að tryggja þeim næg bílastæði í nálægð við þjónustufyrirtæki og verslanir. Eins og réttilega kemur fram er ekki hægt að skipa fólki að taka borgarlínu. Sá ferðamáti kann ekki að henta og síðan þykir súrt að með tilkomu eins samgöngumáta er verið að skerða annan ferðamáta. Flokkur fólksins vill að hlustað sé meira á fólkið og taka á tillit til með hvaða hætti það vill haga sínum samgöngustíl. Hér vantar lýðræðishugsun. Sjálfsagt er að auka fjölbreytileika ferðamáta en ekki þó þannig að fyrirtæki finni sig knúin til að flýja burt af svæðinu. Ef Borgarlínan á að virka þarf að vanda til hennar og gefa aðlögunartíma. Borgarlína á ekki að koma á kostnað annarra ferðamáta.

 

Bókun Flokks fólksins við Laugavegur milli Rauðarárstígs og Snorrabrautar, tillaga:

Banna á akstur vélknúinna ökutækja á Laugavegi milli Rauðarárstígs og Snorrabrautar. Undanþeginn banninu er annars vegar akstur Strætó og hins vegar akstur vegna vöruafgreiðslu klukkan 7-11 virka daga og 8-11 á laugardögum. Flokkur fólksins spyr, en hvað með fólkið sem býr á þessu svæði. Flokkur fólksins hefur áður bókað um að ekki er tekið tillit til þeirra sem þarna búa. Þetta fólk eins og annað fólk þarf að koma vistun heim til sín og þarf því að geta komið að dyrum sínum með bíl sinn til að afferma. Það eru ekki allir sem geta sett hluti, stóra og þunga undir höndina og gengið með þá mislangar vegalengdir. Það er mikilvægt að íbúum á þessu svæði verði gefið formlegt leyfi til að aka bíl sínum upp að dyrum til að afferma vörur/vistir eða ef flytja þarf þunga hluti inn á heimilið. Það eru leiðir og leyfi fyrir fyrirtæki að losa vörur en ekki fyrir íbúa svæðisins.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssvið dags. 15. júní 2022 þar sem óskað er að umhverfis‐ og skipulagsráð afgreiði tillögu að samþykkt fyrir göngugötur í Reykjavík:

Eitt og annað er eftirtektarvert í tillögu um samþykkt um göngugötur. Viðburður án tónlistar með allt að þremur listamönnum er leyfður alla daga frá kl. 10.00 – 20.00 að því gefnu að listamaður færi sig að minnsta kosti um 50 metra frá fyrri staðsetningu á klukkustundarfresti. En hvað með skemmtistaði, næturklúbba við göngugötur og opnunartíma þeirra?
Það búa fjölskyldur/barnafjölskyldur við göngugötur eins og aðrar götur. Fylgja þarf reglugerð um hávaðamengun og virkja heilbrigðisyfirvöld/umhverfisnefnd við að takmarka hávaða. Komið er inn á skreytingar, setja á blómaker í fyrrum bílastæði. Margir sakna bílastæða á þessu svæðum enda treysta sér ekki allir í bílastæðahús. Bílar með stæðiskort geta ekið göngugötur og eiga að geta lagt í þeim í sérmerkt stæði en þau eru ekki að finna í öllum göngugötum. Talað er um vörulosun og reglur í því sambandi. Íbúar við göngugötur þurfa eins og annað fólk að koma vistun heim til sín og þarf því að geta komið að dyrum sínum með bíl sinn til að afferma ef ekki er hægt að handbera vörur. Fyrir þá íbúa sem eiga bíla er ekki vitað hvort þeir megi aka með þungar og miklar vörur/vistir upp að dyrum sínum.

 

Ný mál

Arnarnesvegar

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gert verði nýtt umhverfismat fyrir 3. áfanga Arnarnesvegar þar sem fyrra umhverfismat er frá 2003 og forsendur hafa breyst verulega á síðustu tveimur áratugum. Vatnsendahvarf er dýrmætt náttúru- og útivistarsvæði sem liggur á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs. Áætlað er að sprengja 60 metra breiða geil, 1.5 km langa, inn í þetta fallega græna svæði, sem er varpsvæði ýmissa farfuglategunda, og notast við 19 ára gamalt umhverfismat.

Fjölmargar athugasemdir hafa borist frá áhyggjufullum íbúm varðandi þessa vegalagningu á öllum skipulagsstigum og ríkir mikil óeining um þessa framkvæmd. Vegna glufu í lögum um umhverfismat þá hefur Skipulagsstofnun úrskurðað að ekki „þurfi“ að gera nýtt umhverfismat fyrir framkvæmdina og hefur Reykjavíkurborg hingað til tekið undir það. Jafnvel þó að vegurinn eins og hann er skipulagður í dag, með ljósastýrðum gatnamótum, muni eflaust stífla umferð á Breiðholtsbraut enn frekar. Einnig á Vetrargarðurinn, leiksvæði barna, að liggja þétt upp við tvær stofnbrautir með samtals 10 akreinum.
Það samræmist varla grænum áherslum borgarinnar og almennu siðferði að kalla ekki eftir nýju umhverfismati fyrir þessa framkvæmd. Það hafa orðið miklar breytingar á áherslum í umhverfis- og samgöngumálum á síðustu tveimur áratugum og því verður að endurskoða þessa vegalagningu með umhverfi, íbúa og komandi kynslóðir í huga.

Greinargerð

Nýlega voru kynnt drög að nýju deiliskipulagi Arnarnesvegar, sem liggja á um Vatnsendahvarfið frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut. Þessi vegarlagning mun þýða að það verður sprengd 60 metra breið geil, 1,5 kílómetrar að lengd, inn í eitt af dýrmætustu útivistarsvæðum höfuðborgarsvæðisins. Umhverfismat fyrir þessa framkvæmd er frá 2003, en vegna glufu í lögum um umhverfismat hefur Skipulagsstofnun úrskurðað að það þurfi ekki að gera nýtt mat því byrjað hafi verið á veginum árið 2004 þegar jarðvegsefni var mokað úr sunnanverðu Vatnsendahvarfi, þar sem skólagarðar Kópavogs eru í dag. Þessi glufa í lögunum þýðir að það geta liðið hundrað ár frá því umhverfismat var gert, án þess að gera þurfi nýtt mat, svo lengi sem framkvæmdarleyfishafi hefur tekið hjólböru af jarðvegi af tilætluðum framkvæmdarstað. Þetta gerir sorglega lítið úr lögum um umhverfismat og skortir almennt siðferði.

Það er óskiljanlegt að yfirvöld hafi ekki áhuga á að kanna áhrif á umhverfi af svona stórri framkvæmd, þegar 19 ár eru liðin frá fyrra mati. Sérstaklega í ljósi þess hversu mikið hefur breyst á þessu svæði á síðastliðnum áratugum og áherslubreytingum í samgöngu- og umhverfismálum. Umhverfismat er ekki hugsað til að verja framkvæmdina, heldur til að verja umhverfi og íbúa.

Miklu meiri áhersla er lögð á umhverfismál nú en í kringum aldamót og græn svæði eru álitin mun dýrmætari en áður fyrr. Vatnsendahvarfið, sem vegurinn á að liggja yfir, var ekki nærri því eins gróið fyrir tuttugu árum eins og það er í dag. Óáreitt yrði þetta svæði líkara Öskjuhlíðinni á næstu áratugum, en eitt sinn átti líka að leggja veg í gegnum þá fallegu hæð. Ný hverfi hafa verið byggð í kringum Vatnsendahvarfið, sem ekki var gert ráð fyrir í umhverfismatinu frá 2003, og umferðarspá er sprungin langt umfram spá í umhverfismatinu. Einnig eru háleit markmið um Vetrargarð sem á að liggja þétt upp við þennan veg, en garðurinn er í raun skipulagður á horni samtals 10 akreina stofnbrauta. Þarna gæti því myndast hættulegt ástand vegna svifryks á gráum dögum og vegurinn auðveldlega orðið ógn við lýðheilsu íbúa.

Mikill ágreiningur hefur verið um útfærslu vegarins bæði innan Skipulagsráðs Kópavogs og Vegagerðarinnar, þó svo báðir aðilar hafi á endanum samþykkt útfærsluna með semingi til að flýta framkvæmdinni. Það virðist þó flestum ljóst að útfærslan sem var kynnt með deiliskipulaginu er ekki að fara að leysa nein vandamál, heldur einungis að skapa ný. Önnur ljósastýrð gatnamót við Breiðholtsbraut, sem er þegar sprungin umferðaræð, munu stífla veginn enn frekar og valda frekari töfum á umferð. Það er með ólíkindum að Vegagerðin skuli fara gegn betri vitund og samþykkja útfærsluna í deiliskipulaginu, í stað þess að fara aftur að teikniborðinu og finna betri leið.

Yfirvöld í Kópavogi hafa borið því við að aðalástæðan fyrir því að leggja Arnarnesveg frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut sé umferðarflæðið á Vatnsendavegi, sem er slæmt á háannatíma, og að erfitt sé fyrir neyðarbíla að komast leiðar sinnar. En umferðarflæðið hefði til dæmis getað verið stórbætt fyrir mörgum árum ef hringtorg hefðu verið sett við Breiðholtsbraut og Ögurhvarf. Einnig hefði verið mögulegt að opna einfalda leið fyrir neyðarbíla milli bæjarfélaganna. En þessar og aðrar lausnir til að leysa þessi vandamál voru ekki skoðaðar af alvöru, því Arnarnesvegur var á leiðinni og hann átti að leysa allar þessar flækjur. Sem hann mun ekki gera í núverandi mynd.

Það vekur einnig athygli að Kópavogur vill nú leggja Reykjanesbraut að hluta í stokk, og einnig er fyrirhugað að leggja Vorbraut í stokk, til að vernda íbúa og umhverfi.

Arnarnesvegar á að liggja í gegnum dýrmæta græna hæð og yrði hæsti vegur höfuborgarsvæðisins. Hvað ætli valdi því að sveitarfélögin og Vegagerðin hafi aldrei tekið til greina að leggja veginn í stokk eða göng til að vernda umhverfi og íbúa?“

Getur það verið að aðrir hagsmunir bæjarstjórnar Kópavogs, eins og að byggja 4.000 manna byggð á toppi Vatnsendahvarfs, séu í raun að stýra þessum illa ígrunduðu framkvæmdum? Og koma í veg fyrir betri lausn verði fundin og nýtt umhverfismat gert? Því án Arnarnesvegar væru forsendur fyrir þessari byggð brostnar og það virðist alls ekkert mega tefja þær áætlanir.

Frestað

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að endurskipuleggja íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3:

Lagt er til að farið verði í að endurskipuleggja íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3 með það að markmiði að gera almenningsrými fyrir íbúana.

Nýlega flutti fatlað fólk inn í nýjan íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3. Flestir íbúanna eru að fara að heiman í fyrsta sinn. Íbúarnir þurfa mikla aðstoð við flesta hluti og verkefnin sem hvíla á starfsfólki eru mörg og margvísleg. Komið hefur í ljós að það er stórgalli á húsinu en þar er ekkert sameiginlegt rými þar sem íbúar geti komið saman, borðað saman, horft á saman á viðburði í sjónvarpi. Ljóst er að láðst hefur að hafa foreldra með í ráðum við hönnun og skipulagningu íbúðakjarnans. Foreldrar óttast að börn þeirra einangrist inni í íbúðum sínum, ekki síst ef þau hafa ekki færni til að kalla eftir aðstoð eða félagsskap. Lagt er til að til þess að leysa þetta vandamál verði skoðað hvort á öðrum stöðum í íbúakjarnanum sé óþarfa mikið eða stórt rými, eða rými sem ekki verður nýtt nema að litlu leyti eða sjaldan sem þá er hægt að nýta undir sameiginlegt rými fyrir íbúana. Þetta er spurningum um að endurskipuleggja íbúakjarnann með útsjónarsemi og hagræðingu að leiðarljósi. Það hlýtur að vera hagur allra, bæði íbúa og starfsmanna að íbúarnir geti átt stundir saman í sameiginlegu rými.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um skilti í borgarlandinu:

Svo virðist sem skiltamál í borginni séu í ólestri. Borgarfulltrúar hafa fengið ábendingar um áform að setja eigi upp auglýsingaskilti við austurenda Klambratúns, gegnt Bólstaðarhlíð, sjá hér: https://2021.reykjavik.is/skipulag-i-kynningu/auglysingaskilti-vid-longuhlid.

Fram hefur komið hjá íbúum að ekki hafi verið haft samráð við nema örfáa og áform um skilti uppsetningu stríði gegn samþykktum. Í markmiðum Samþykktar um skilti í Reykjavík segir beinlínis að „skilti séu íbúum borgarinnar ekki til ama eða óþæginda og að þau skerði ekki hönnun mannvirkja, hafi neikvæð áhrif á umhverfi eða skerði ásýnd borgarinnar.“ Einnig segir að halda eigi fjölda skilta í lágmarki og að leggja eigi áherslu á að fjöldi skilta valdi ekki óreglu og ringulreið í sjónlínu gatna.“ Flokkur fólksins spyr hvort umræða og ákvörðun um auglýsingavæðingu ætti ekki að fara fram í tengslum við vinnu við hverfisskipulag hverfisins? Hvernig hefur samráði verið háttað þegar setja á upp skilti? Er öllum gefinn kostur á að kynna sér málið? Það hlýtur að eiga að horfa á þessi mál í heild sinni og um þennan málaflokk þarf eins og aðra þarf að ríkja skipulag. Ljósaskilti og auglýsingaskilti almennt hafa mikil áhrif á útlit hverfa.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal

Talan á óbyggðum sérbýlis lóðum í Úlfarsárdal er um 30. Þetta eru allt lóðir sem Reykjavíkurborg bauð út árið 2006 og seldi hæstbjóðendum og fékk greitt fyrir þær fyrir 15 – 16 árum. Á þessum lóðum má víða sjá rusl og drasl og oft byggingarefni sem legið hefur á víð og dreif um þessar lóðir og fokið um hverfið. Umræðuna um lóðarskort þarf ekki að kynna. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvenær borgar- og skipulagsyfirvöld hyggjast bregðast við þessu ástandi í Úlfarsárdal og hvernig? Eiga þessar lóðir að vera óbyggðar áfram? Þegar skipulagsyfirvöld veita byggingarleyfi eiga að fylgja því tímamörk sem umsækjandi hefur til að fullklára bygginguna. Útgefið leyfi þarf að leiða til þess að bygging rísi á viðkomandi lóð innan ákveðins tíma. Um tímann má semja enda ýmislegt sem kemur til. Fram til þessa eru sum útgefin leyfi aðeins pappír um eitthvað sem kannski verður gert. Í einhverjum tilfellum eru engar sérstakar ástæður fyrir töfum nema kannski að það standi illa á hjá lóðarhafa, hann vilji jafnvel bíða og sjá hvert íbúðaverð sé að þróast. Það sárvantar húsnæði sem hefur leitt til þess að fasteignamarkaðurinn er ekki í jafnvægi.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, hljóðvist á KR svæðinu

Fram kemur í kynningu um hljóðvist í kringum KR svæðið að áhyggjur eru af hávaða og hávaðamengun og að tryggja eigi að reglugerð um hávaðamengun sé fylgt. Flokkur fólksins spyr hvernig á að gera það? Hvernig á eftirliti að vera háttað og hver eru viðurlögin ef reglur um hávaðamengun eru brotnar? Öll þekkjum við hávaðavandann í miðbænum þar sem reglur um hávaðamengun hefur ekki verið fylgt og engar afleiðingar hlotist af því að brjóta lög og reglur í þessu sambandi. Það er ekki nóg að vísa í reglugerðir og halda að þar með sé málið leyst. Vissulega er hægt að skipuleggja húsnæði þannig að svefnherbergi og önnur dvalarsvæði íbúða snúi frá umferðargötum/hávaðavöldum. Erfiðara er að eiga við hitt, þ.e. að tryggja að rekstraraðilar íþróttasvæðis bæði hvað varðar notkunartíma, umgang og annað sem tengist íþróttavöllum raski ekki næði íbúa í íbúðum.