Skóla- og frístundaráð 24. maí 2022

Bókun Flokks fólksins við tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Sú tillaga sem hér liggur fyrir gengur út á að ræða með formlegum hætti um samstarf milli skóla- og frístundasviðs og Heilsugæslunnar um að efla skólaheilsugæslu í grunnskólum borgarinnar. Samtal er ávallt af hinu góða. Í greinargerðinni kemur fram að margir skóla uppfylli ekki viðmið um að 650 nemendur séu að baki hverju fullu stöðugildi skólahjúkrunarfræðings. Dæmi eru sögð um að rúmlega þúsund nemendur séu að baki hverju stöðugildi. Ef horft er til skólaþjónustunnar í grunnskólum borgarinnar er sami vandinn.

Sá fjöldi stöðugilda sem þar er dugar engan veginn til að anna þörfum barna eftir fagaðstoð. Fjölga þarf stöðugildum og færa aðsetur sálfræðinga til skólanna svo hægt sé að mæta lögbundinni skyldu skóla gagnvart börnum sem þurfa aðstoð. Flokkur fólksins telur það gott að byrja á að taka til í eigin garði áður en farið er að gagnrýna órækt í garð annarra. Borgin ber ábyrgð á þeim 1800 börnum sem bíða eftir að hitta fagfólk skólaþjónustunnar. Samstarf borgarinnar við heilsugæsluna er vissulega mikilvægt og þá ekki síst að upplýsingaflæði sé markviss. Til dæmis að skólinn fá upplýsingar um niðurstöður þroskamatslista barna úr fjögurra ára skoðun svo hægt sé að undirbúa skólagöngu barna sem þurfa á sértækum stuðningi að halda.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. maí 2022, við fyrirspurn skóla og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um langtímaveikindi starfsfólks á skóla- og frístundasviði:

Fram kemur í svari um langtímaveikindi starfsfólks á skóla og frístundasviði að 745 starfsmenn voru skráði í langtímaveikindi einhvern tíma á árinu. Veikindahlutfall var 6.8%. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort rekja megi hluta af þessum veikindum til mikils álags í vinnu, bágrar vinnuaðstæðna eða óánægju og vansæld af einhverjum ástæðum. Er ekki rétt að kanna þetta með kerfisbundnum hætti? Hér er um umtalsverðan kostnað að ræða sem hleypur á milljónum. Mest um vert er auðvitað að kanna hvort skóla- og frístundasvið geti gert einhverjar úrbætur hvort heldur er að létta á álagi eða laga vinnuaðstæður. Launamálin eru síðan annar kapítuli.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. maí 2022, við fyrirspurn skóla og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samstarf tónlistarskóla og leik- og grunnskóla:

Spurt var um samstarf tónlistarskóla og leik- og grunnskóla, hvaða skóla og hverjir eru í samstarfi við tónlistarskóla. Í svari segir að a.m.k. 20 leikskólar eru í samstarfi við tónlistarskóla. A.m.k. 15 grunnskólar eru í formlegu samstarfi við tónlistarskóla sem eru með aðstöðu í grunnskólanum. 21 grunnskóli er ekki í samstarfi við tónlistarskóla. Í a.m.k. 16 grunnskólum eru nemendur í tónlistarnámi á skólatíma. Í 6 grunnskólum er enginn nemandi í tónlistarnámi á skólatíma. 16 skólastjórar vissu ekki af samstarfi eða treystu sér ekki til að nefna fjölda nemenda sem væru í tónlistarnámi á skólatíma á vegum tónlistarskóla.

Flokkur fólksins veltir því upp hverjar séu skýringar á þessu og hvers er það að ákveða um slíkt samstarf? Skólans eða skóla- og frístundasviðs? Hér er alveg ljóst að börnum er mismunað, þau sitja ekki við sama borð eftir því í hvaða leikskóla/skóla þau sækja. Þetta er áhyggjuefni. Það er allt of mikið um að svona hipsumhaps fyrirkomulag þegar kemur að tækifærum fyrir börn í Reykjavíkurborg. Í öllu tilliti þarf skóla- og frístundasvið að gæta þess að börn fái sömu tækifæri tómstunda án tillits til hvar þau búa.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. mars 2022, við fyrirspurn skóla og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins um stöðu íslenskukunnáttu barna með annað móðurmál en íslensku:

Flokkur fólksins vill ítreka að á meðan niðurstaða er ekki fengin í mál borgarinnar gegn Jöfnunarsjóði Sveitarfélaga þarf Reykjavíkurborg engu að síður að sinna með fullnægjandi hætti nemendum af erlendum uppruna sem standa illa að vígi í íslensku. Börn mega aldrei líða fyrir deilumál af neins konar tagi. Það er sannarlega með öllu óþolandi að Reykjavík nýtur ekki framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hvorki til jöfnunar kostnaðar á rekstri grunnskóla né framlags vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál vegna stærðar sinnar. Þetta er ekki síður óréttlátt þar sem langflestir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku búa í Reykjavík. Flokkur fólksins lagði fram þingsályktunartillögu um að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða löggjöf og regluverk með það að markmiði að öll börn njóti réttlætis óháð búsetu. Það er ekki hægt að una við að eitt sveitarfélag sé fyrirfram útilokað frá úthlutunum jöfnunarframlaga vegna reksturs grunnskóla einungis vegna stærðar.

Jöfnunarframlög á að greiða eftir þörfum, samkvæmt hlutlægum reiknireglum sem byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Á meðan þarf að fylgjast grannt með þróun mála og hækka framlagið eftir því sem nauðsyn kallar svo börnin fái þá kennslu sem til þarf til að bæta árangur þeirra.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. maí 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um niðurgreiðslur vegna daggæslu:

Flokkur fólksins spurði um málefni dagforeldra m.a. vegna Covid aðstæðna. Starfsöryggi dagforeldra hefur allt þetta kjörtímabil og kannski mörg ár þar áður verið í mikilli óvissu, líkt og starfað sé í rússíbana. Einhverjir náðu að fylla pláss sín í haust en aðrir hafa átt erfitt með það og það vegna þess að leikskólar eru að taka inn á öllum tímum Covid gerði illt vera en ekki má setja allt sem miður fer í borginni á reikning faraldursins. Óskað var upplýsinga um niðurgreiðslur vegna daggæslu. Í svari má sjá að Reykjavík er langt á eftir öðrum bæjarfélögum sem hafa hækkað niðurgreiðslur verulega. Dæmi sem tekið var nýlega í aðsendri grein sýndi dæmi um hjón sem greiða í Reykjavík 82 þúsund á meðan hjón greiða í Mosfellsbæ um 30 þúsund. Þarna munar um minna ekki síst fyrir foreldra sem hafa lítið milli handanna og berjast í bökkum.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. maí 2022, við fyrirspurn skóla og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins um mötuneytismál í grunnskólum Reykjavíkur:

Spurt var um rekstrarform/fyrirkomulag mötuneyta og í hversu mörgum skólum börn skammta sér sjálf. Einnig var spurt um fjölbreytni matar og í hversu mörgum skólum börn vigti leifar sínar? Loks var spurt um hversu miklum mat er hent í skólum?Í svari segir að flestir skólar séu með eigið eldhús eða 84%. Flokkur fólksins hefur þó hvergi almennilega séð að sá valkostur sé hagkvæmari en að kaupa mat frá fyrirtækjum að undangengnu útboði. Nemendur skammta sér sjálfir í um helming skólanna. Flokkur fólksins telur að ganga þurfi lengra og að allir nemendur án tillits til skóla eigi að fá tækifæri til að skammta sér sjálfir mat á diskinn og sýna rannsóknir að með því er dregið úr matarsóun. Fjölbreytni í mat virðist vera í lagi og er því fagnað að lagst er gegn sykruðum súpum og unnum kjötvörum. Fram kemur að ekki eru til nákvæmar tölur um matarsóun þar sem tölur innihalda einnig annan úrgang.

Varðandi vigtun kemur á óvart hversu fáir skólar vigta leifar eða aðeins 11% grunnskóla vigta alltaf en um helmingur skóla vigta STUNDUM leifar frá mötuneyti. Hér þyrfti að vera meiri nákvæmni og stöðugleiki svo hægt sé að gera alvöru samanburð. Engar magntölur liggja fyrir eftir því sem segir í svari.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. maí 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands í borgarráði um ráðningar talmeinafræðinga og annarra ráðgjafa í skólastarfi:

Ráða þarf mun fleiri talmeinafræðinga og setja þessi mál í forgang. Börn sem glíma við talmeinavanda þurfa þjónustu sérfræðinga ekki bara „ráðgjöf“. Ef horft er til þeirra barna sem glíma við málþroskavanda þá hafa rannsóknir sýnt að börn með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í félagslegum aðstæðum og eru þau einnig berskjaldaðri fyrir tilfinningalegum erfiðleikum. Á þetta reynir sérstaklega þegar komið er inn á unglingsárin ef barn hefur ekki fengið nauðsynlega aðstoð með málþroskavandann í leik- og grunnskóla.

Unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í tengslamyndun við félaga sína þar sem á þeim árum eiga miklar breytingar sér stað, bæði líffræðilegra-, vitsmuna, félags- og tilfinningalega. Flokkur fólksins hefur barist fyrir því í fjögur ár að ráðnir verðir fleiri fagaðilar, sálfræðingar og talmeinafræðingar til skólaþjónustunnar og að fagaðilar hafi aðsetur út í skólunum. Hér þarf að taka á og hætta að setja börn ávallt á bið. Ábyrgð borgarinnar er mikil og byggir m.a. á samkomulagi ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skiptingu ábyrgðar vegna talmeinaþjónustu við börn frá árinu 2014. Reykjavíkurborg á samkvæmt samkomulaginu að veita börnum með væg frávik þjónustu innan leik- og grunnskóla sveitarfélaga enda telst það hluti af þeirra menntun.

 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að skóla- og frístundasvið horfi af alvöru á verkefnið Kveikjum neistann með það að markmiði að innleiða það.

Þetta verkefni er að sýna góðan árangur þó ungt sé. Kjarninn er sá í Kveikjum neistann að lagt er upp með í 1. bekk að leggja áherslu á bókstafi og hljóð. Kennt er eftir hljóðaaðferðinni. Inn á milli að staldrað við til að fullvissa um að helst allir nemendur eru búnir að ná öllum bókstöfum og hljóðum. Í upphafi vetrar er lögð fyrir bókstafa- og hljóðakönnun til að sjá hvaða bókstafi og hljóð nemendur kunna við upphaf skólagöngu. Aftur er gerð könnun í janúar og loks í maí á fyrsta skólaárinu. Árangur er teiknaður upp með myndrænum hætti þar sem litir eru notaðir til að merkja þá bókstafi og hljóð sem börnin þekkja. Mörg börn eru farin að lesa orð á þessum tíma og stuttar setningar.

Það eru mörg stolt börnin sem fara út í sumarið eftir að hafa stundað nám með árangri sem þessum. Miðja máls og læsis er að gera frábæra hluti en þarna er verkefni sem vert er að horfa til því það er alltaf hægt að gera betur.

Greinargerð

Huga þarf sérstaklega að þeim börnum sem ekki geta nýtt sér hefðbundnar kennsluaðferðir. Þau börn þurfa strax í byrjun að fá sérstaka aðstoð hjá sérkennara og þau þurfa lengri tíma og meira næði en gengur og gerist í almennum bekk. Gera má ráð fyrir að það séu um það bil  2-4% barna sem glíma við lesvanda af lífeðlisfræðilegum orsökum sem t.d.  tengjast sjónskyni.

Sum rugla sem bókstöfum og þurfa sem dæmi að fá stærra letur og læra bókstafi með hljóði. Hljóð getur brotið lestrarkóðann.

Krakkar sem eru í lestrarvanda hafa lengri sögu, þau sýna vandann t.d. í Hljóm sem lagt er fyrir 5 ára nemendur sem hefur forspárgildi fyrir lestrarnám. Þannig að þegar þessir krakkar koma í skólann á haustin þá er oft vitað hvað er undirliggjandi sérstaklega ef heilsugæsla og skólinn hafa einnig verið í góðu samstarfi og skólinn fengið niðurstöður úr fjögurra ára skoðun barnanna.