Skóla- og frístundarráð 19. september 2018

Tillaga Flokks fólksins um að breyta inntökuskilyrðum í Klettaskóla

Lagt er til að inntökuskilyrði í Klettaskóla verði endurskoðuð og í stað greina 1 og 2 þar sem segir: „Innritun í Klettaskóla. 1. Klettaskóli er einn af grunnskólum Reykjavíkur og er sérskóli fyrir nemendur með þroskahömlun. Skólinn er fyrir nemendur með: miðlungs, alvarlega og djúpa þroskahömlun með eða án viðbótarfatlana væga þroskahömlun og skilgreinda viðbótarfötlun/fatlanir s.s. einhverfu, blindu, heyrnarleysi og alvarlega hreyfihömlun“ skal koma einungis: „Klettaskóli er sérskóli sem ætlaður er börnum með sérþarfir vegna þroskahömlunar. Umsóknir eru metnar í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann.“

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Þetta eru ósanngjörn inntökuskilyrði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og sett til að fæla þá foreldra barna frá sem eru með þroskahömlun á miðlungs eða vægara stigi. Sömu inntökuviðmið hafa gilt um skólavist í þátttökubekknum og í Klettaskóla sjálfum. Foreldrar barna sem ná ekki þessum viðmiðum eða naumlega (jafnvel þótt ekki muni nema einu stigi í greindarvísitölu) reyna ekki að sækja um því þau vita að það þýðir ekki. Á meðan eru kannski mörg börn með þroskahömlun á einhverju stigi að berjast í bökkum inn í almennum bekk, líður illa, finnast þau vera ómöguleg, eru einangruð, er strítt og eru á engan hátt meðal jafningja. Í ljósi vaxandi vanlíðunar barna, aukins sjálfsskaða og hækkaðri tíðni sjálfsvígshugsana samkvæmt skýrslu Embættis landlæknis er hér um alvarlegan hlut að ræða í skólakerfinu í Reykjavík. Eins og fyrirkomulagið er núna fá sum börn ekki tækifæri til að stunda nám meðal jafningja og þess í stað er þeim gert að stunda nám í „skóla án aðgreiningar“ sem er vissulega falleg hugmynd en ekki alltaf raunhæf enda hefur ekki fylgt þessu fyrirkomulagi nægt fjármagn árum saman. Skóli án aðgreiningar eins og hann er í dag er ekki að mæta þörfum allra barna.

Tillaga Flokks fólksins um að gerð verði könnun á þörf fyrir fleiri sérskólaúrræði.

Lagt er til að foreldrar/aðstandendur grunnskólabarna verði spurðir hvort þeir telji þörf á fleiri sérskólaúrræðum, frekari úrræðum innan núverandi skóla eða blöndu af hvoru tveggja. Spurningin gæti verið með fimm svarmöguleikum með miðju og jafnmörgum neikvæðum og jákvæðum svörum: 1. Átt þú barn sem þarf á sérstökum stuðningi að halda í skóla (vegna vísbendinga/greiningar um lesblindu, sértæka námserfiðleika eða frávika í vitsmunaþroska; raskana t.d. ADHD, asperger eða einhverfuróf og/eða annarra tilfinninga-, hegðunar- og félagslegra vandamála) 2. Ég tel að fjölga þurfi sérskólaúrræðum (t.a.m. fyrir börn með þroskahamlanir sbr. úrræði eins og Klettaskóla og sérdeildir með sérhæft hlutverk vegna barna með miklar sérþarfir í námi, meðal annars vegna geðraskana og annarra alvarlegra hegðunarvandamála) mjög ósammála; frekar ósammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. 3. Ég tel að fjölga þurfi úrræðum innan núverandi skóla til að styrkja stefnuna um skóla án aðgreiningar. Mjög ósammála; frekar ósammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. Mikilvægt er að skoðanir barnanna sjálfra nái fram í umræðuna. Þar væru viðtöl og vettvangsheimsóknir gagnleg leið til að safna upplýsingum.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

 Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fram kemur að kannað hafi verið meðal foreldra (eða kannað sé reglulega) hvernig barni vegni í skólanum sínum og þá spurt um líðan barns, stuðning frá kennara og framfarir í námi. Það kemur ekki fram hverjar niðurstöður hafi verið úr þessum könnunum. Hverju svara foreldrar? Hverju svara foreldrar fatlaðra barna? Það vekur eftirtekt hve lítið er gert úr því þegar foreldrar gera sérstakar athugasemdir í könnunum, enda séu þær ekki vísbendingar um vilja foreldra almennt. Það eru höfð mörg orð um að ekki sé til fjármagn né mannafli til að kanna vilja/skoðun foreldra. En er til fjármagn til að gera þær kannanir sem sagt er að hafi verið gerðar? Til þess að draga úr kostnaði og þörf fyrir mannafla væri hægt að einfalda könnunina. Það er hópur fatlaðra barna í skólum borgarinnar, (börn með misalvarlegar fatlanir) sem líður illa vegna einangrunar og einmanaleika og finna sig ekki í aðstæðum þar sem þau geta ekki það sama og önnur börn, finnst þau vera öðruvísi og eignast ekki vini á jafningjagrunni. Foreldrar þessara barna bera kvíðboga fyrir fötluðum börnum sínum og svíður að hafa ekkert val um úrræði sem hentar þeim betur.

Flokkur fólksins leggur til að fleiri sérskólaúrræði verði sett á laggirnar í Reykjavík enda er Klettaskóli sprunginn.

Klettaskóli er eini sérskólinn í Reykjavík af sinni gerð en í honum stunda börn með sérþarfir vegna þroskahömlunar nám. Flokkur fólksins telur að fleiri slík úrræði þurfi enda mörg börn nú á biðlista sem Klettaskóli getur ekki tekið inn. Í sérskólaúrræði eins og Klettaskóla og öðrum sambærilegum skólaúrræðum er mikilvægt að inntökuskilyrðin séu með þeim hætti að hver umsókn sé metin í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann. Í þessum efnum eiga foreldrar ávallt að hafa val enda þekkja foreldrar börn sín best og vita þess vegna hvað hentar barni þeirra námslega og félagslega. Ekki má bíða lengur með að horfa til þessara mála og fjölga úrræðum. Það er réttur hvers barns að fá skólaúrræði við hæfi þar sem því líður vel, þar sem námsefni er við hæfi og þar sem félagslegum þörfum þess er mætt, þar sem það er meðal jafningja.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins harmar afgreiðslu þessarar tillögu og hinna tveggja sem Flokkur fólksins hefur lagt fram og sem fjalla einnig um skóla- og félagslegar þarfir fatlaðra barna í skólum í Reykjavík. Í svari við tillögunni er bent á að ekki séu biðlistar en staðreyndin er sú að Klettaskóli er mjög eftirsóttur og foreldrum barna sem óska inngöngu er vísað frá áður en til umsóknar kemur. Foreldrum sem óska eftir skólavist í Klettaskóla fyrir börn sín er tjáð strax í upphafi að barnið muni ekki fá inngöngu sé það ekki „nógu“ fatlað til að mæta skilyrðunum. Auk þess er Klettaskóli löngu sprunginn og tekur ekki við fleiri börnum sem segir kannski allt sem segja þarf í þessum efnum. Nauðsynlegt er að hafa skólaúrræði sem mætir ólíkum þörfum barna. Ein tegund úrræðis ætti ekki að útiloka annað. Málið snýst um að hafa val. Börn með þroskahömlun eru nefnilega ekki öll eins og þeim hentar ekki öllum það sama. Það þrífast ekki öll börn í þeim úrræðum sem eru í boði. Það vantar annan skóla eins og Klettaskóla og það vantar einnig úrræði fyrir börn með væga og miðlungs þroskahömlun, börnum sem líður illa í almennum bekk, námslega eða félagslega. Barn sem líður illa lærir lítið. Það væri óskandi að borgin/borgarmeirihlutinn myndi vilja horfast í augu við þessa staðreynd ekki síst í ljósi vaxandi vanlíðan barna eins og skýrsla Embættis landlæknis hefur fjallað um.

Tillaga Flokks fólksins um að breyta inntökureglum í þátttökubekki Klettaskóla.

Flokkur fólksins vill leggja til að inntökureglur í svokallaðan þátttökubekk verði rýmkaðar til muna. Til stóð að bekkirnir yrðu 4 í borginni. Fjölgi umsóknum í „þátttökubekk“ er lagt til að þeim verði fjölgað eftir þörfum. Eins og staðan er í dag eru inntökuskilyrði í þátttökubekkina þau sömu og í Klettaskóla. Þetta eru of ströng og stíf skilyrði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og fælir mögulega foreldra frá að sækja um fyrir börn sín sem gætu notið góðs af því að stunda nám í þátttökubekk. Fram hefur komið að nú fyrst er sá eini þátttökubekkur sem er rekinn fullur en lengi vel var aðsókn ekki mikil. Ástæðan gæti verið sú að inntökuskilyrðin eru of ströng og að foreldrar barna sem ekki ná þessum viðmiðunum sækja þar að leiðandi ekki um. Vitað er að hópur barna (ekki vitað hve mörg) eru að berjast í bökkum í almennum bekk með eða án stuðnings eða sérkennslu. Það er skylda okkar að gera allt sem við getum til að sjá til þess að hverju einasta barni líði vel í skólanum og finni sig meðal jafningja. Að rýmka inntökuskilyrðin í þátttökubekk og fjölga þeim eftir þörfum gæti verið byrjun á að mæta enn frekar ólíkum náms- og félagslegum þörfum barna.