Borgarráð 20. september 2018

Flokkur fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Dómsmál – E-3132/2017 gegn Reykjavíkurborg:

Á fundi borgarráðs 13. september lét borgarfulltrúi Flokks fólksins bóka undir liðnum: Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um dómsmál E-3132-2017 gegn Reykjavíkurborg að sér fyndist „stjórnsýsla borgarinnar vera komin á hálan ís að ætla að ákveða að einhver sé aðili í máli án þess að hann hafi tilkynnt um einelti og það að fara ítrekað fram á þátttöku hans í „rannsókn“ mætti jafnvel  túlka sem áreitni“. Í bókuninni segir enn fremur að áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins „finnist vísbending vera um meðvirkni af hálfu stjórnsýslunnar með hinum meinta geranda þar sem allt kapp virtist lagt á að verða við kröfu hennar um einhvers konar vinnslu þrátt fyrir að meintur þolandi hafi margsinnis hafnað því að vilja koma nálægt nokkru slíku enda lauk málinu, að hans mati, með fullnægjandi hætti í dómsalnum með umræddum dómi.“ Daginn eftir bárust oddvitum minnihlutans upplýsingar frá kjarafélaginu um að fjármálastjóra Ráðhúss hafi borist svar þar sem því er lýst yfir af settum mannauðsstjóra, að „eineltisrannsókn sú sem skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritara óskaði eftir í apríl sl. og borgarritari varð við, henni sé nú lokið enda séu ekki til staðar forsendur til að fram fari rannsókn á meintu einelti”. Þessari niðurstöðu stjórnsýslunnar vill áheyrnarfulltrúinn fagna.

Svar við fyrirspurn Flokks fólksins um Nauthólsveg 100

Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 19. september 2018, við fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna bragga að Nauthólsvegi 100 og fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um yfirlit yfir framkvæmdir við braggann í Nauthólsvík, sbr. 5. og 36 lið fundargerðar borgarráðs frá 6. september 2018.

Borgarfulltrúar Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Braggaverkefnið óx stjórnlaust, frá 155 milljónum sem var áætlun í 404 milljónir. Þetta er óásættanlegt. Hér hafa verð gerð stór mistök og eins og þetta lítur út núna mun þetta koma verulega við pyngju borgarbúa á meðan enn er húsnæðisvandi og biðlistar í flesta þjónustu s.s. heimaþjónustu aldraðra og sálfræðiþjónustu barna. Rétt er að nefna að um 200 manns með heilabilun hafa ekki hjúkrunarrými. Áheyrnarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins hafa fundið það á fjölmörgum að mikil óánægja er með þessa framkvæmd, mörgum finnst þetta ekki vera  í neinu samhengi við dapran raunveruleika sem margir búa við hér í Reykjavík. Fjölmargt í þessu ferli ber keim af fljótræði og vanhugsun auk þess sem borgin tók ákvörðun um að opna krana án þess að blikna. Bara rétt til að almenningur átti sig á því bruðli sem hér átti sér stað kostaði náðhúsið eitt kr. 46 milljónir.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna umræðu um OR

Á heimasíðu OR eru engar upplýsingar um forvarnaráætlun hjá fyrirtækinu né er að finna viðbragðsáætlun eða upplýsingar um úrvinnsluferli eineltis- og ofbeldismála eða hvernig skuli fara með kvörtun um kynferðisáreitni. Allir vinnustaðir ættu að hafa viðbragðsáætlun og slík áætlun ætti að vera aðgengileg á heimasíðu fyrirtækis sem og tilkynningareyðublað. Þau fyrirtæki sem hafa þessi mál í góðu lagi eru einnig með á heimasíðum skilgreiningar á hegðun og framkomu og þar með hvaða hegðun er ekki liðin í fyrirtækinu. Ábyrgð stjórnenda er mikil. Starfsmenn eiga allt undir yfirmanni bæði þegar kemur að forvörnum og réttum viðbrögðum. Áheyrnarfulltrúinn fagnar röskleg inngripi stjórnar inn í þetta mál og að nú sé að hefjast óháð úttekt innri endurskoðanda á vinnustaðarmenningu sem og að forstjóri hafi vikið tímabundið. Vanda þarf vel við val á öðrum fagaðilum sem kunna að vera fengnir til verksins og að það sé tryggt að þeir aðilar fylgi persónuverndarlögum og að meintur brotaþoli (-þolar) hafi aðgang að ferli máls síns og er upplýstur um hvert skref vinnslunnar. Áheyrnarfulltrúi Flokk fólksins hefði viljað sjá að gengið hefði verið jafn rösklega fram í viðbrögðum við því ástandi sem ríkt hefur í Ráðhúsinu undanfarin misseri og lesa má um í dómi E-3132/2017.

Fyrirspurn Flokks fólksins um kostnað vegna dagpeninga í utanlandsferðum

Borgarfulltrúi vill  spyrja um kostnað við ferðir erlendis og er hér ekki verið að vísa í hótel- og flugkostnað heldur annan kostað sem veittir eru dagpeningar í og ætlaðir fyrir fæði og annan kostnað sem lítur að uppihaldi á ferðum erlendis. Í mörgum ferðum er boðið upp á fæði að hluta til og jafnvel öllu leyti en engu að síður er fólk að fá fulla dagpeninga. Dagpeningakerfið er dýrt kerfi og barn síns tíma að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins. Mörg fyrirtæki eru komin með svokölluð viðskiptakort sem á er ákveðið eðlilegt hámark. Í þessu er mikil hagræðing,  gagnsæi og á sama tíma er tryggt að sá sem ferðast þarf ekki að leggja út kostnað fyrir nauðsynjahlutum á ferðalaginu hvort heldur sem það er matur eða ferðir innan borgar/staðar t.d. til og frá ráðstefnu/námskeiði. Spurt er hver var dagpeningakostnaður (ekki hótel- eða flugkostnaður) árið 2016 og 2017 hjá borgarfulltrúum og starfsmönnum skrifstofu borgarstjóra og borgarstjórnar? Einnig er óskað upplýsinga um dagpeninga á ferðum innanlands fyrir sama hóp að frátöldum hótel- og flugkostnaði.

Tillaga Flokks fólksins um auknar fjárheimildir skrifstofu borgarstjórnar til að halda úti skrá yfir fyrirspurnir og tillögur

Lagt er til að borgarráð samþykki auknar fjárheimildir til skrifstofu borgarstjórnar  eða fundnar séu aðrar hagræðingarleiðir til þess að skrifstofa borgarstjórnar geti haldið opinbera skrá yfir tillögur, fyrirspurnir og bókanir flokkanna og birt skrána á heimasíðu borgarfulltrúa á vef Reykjavíkurborgar. Samkvæmt minnisblaði skrifstofustjóra borgarstjórnar sem lagt var fyrir á fundi forsætisnefndar var gerð lausleg þarfgreining á þessu auka verkefni sem borgarfulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að sinnti. Segir í minnisblaði skrifstofustjóra sem lagt var fyrir á fundi forsætisnefndar eftirfarandi: „Við upphaflega þarfagreiningu voru teknar saman allar fyrirspurnir og tillögur eins flokks á kjörtímabilinu, ásamt greinargerðum og afgreiðslum og settar upp með samræmdu sniði í eitt skjal. Það skjal reyndist vera 21.190 orð á 54 blaðsíðum.“ Vísað er að öðru leyti í umrætt minnisblað. Yrði sambærileg vinna gerð fyrir hina flokkana er ljóst að frekara fjármagn þarf eða finna þarf aðrar leiðir til að gera skrifstofunni kleift að sinna þessu verkefni sem er mikilvægt fyrir margar sakir m.a. að auka gagnsæi og gera borgarbúum auðveldara að fylgjast með málum sem lögð eru fram í borginni.

Frestað.