Sniðganga skóla eða skólaforðun er skilgreind sem meðvituð eða ómeðvituð hegðun sem barn eða unglingur sýnir þegar mæta á í skólann. Hegðunin birtist í erfiðleikum með að sækja skóla hvort sem um er að ræða heilan skóladag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma.
Rannsóknir sýna að skólaforðun hefur farið vaxandi og hefst mun fyrr en á unglingastigi og á sér oft rætur í leikskóla. Miklar fjarvistir frá skóla geta verið kvíðavaldandi fyrir börn og unglinga og valdið því að sniðgangan ágerist enn frekar þegar þau missa ítrekað úr námi. Skólaforðun kemur til vegna þess að barninu líður illa í skólanum. Með því að forðast skólann er barnið oftast að senda skilaboð þess efnis að eitthvað „í skólanum“ valdi svo mikilli vanlíðan og streitu að það geti ekki hugsað sér að sækja skólann.
Ástæður sem má nefna eru t.d. erfiðleikar í námi, raskanir (greindar eða ógreindar) og/eða félagslegir þættir, að barni sé strítt eða það lagt í einelti. Stundum er um að ræða samspil margra þátta. Sum börn glíma við kvíða og félagskvíða sem veldur því að þau vilja ekki fara út eða blanda geði við aðra krakka. Dæmi um ástæður skólaforðunar geta einnig verið að barnið vill frekar vera heima við tölvu, eigi það þess kost, fremur en að fara í skólann. Öll mál af þessu tagi þarf að vinna á einstaklingsgrunni.
Í kjölfar faraldursins
Skólasókn er komin í eðlilegt horf eftir tveggja ára skeið sem litast hefur af farsóttinni með tilheyrandi fylgifiskum. Leiða má líkur að því að skólaforðun hafi aukist með faraldrinum og fleiri börn hafi bæst í þann hóp sem forðast skólann. Þeim börnum sem leið ekki vel í skólanum fyrir faraldurinn, líður kannski ekki betur nú. Um þessar mundir bíða rúmlega 1800 börn eftir fagaðstoð, m.a. sálfræðinga, og biðlistinn lengist með hverri viku. Settar hafa verið 140 m.kr. í að fjölga fagfólki hjá skólaþjónustunni sem er því miður aðeins dropi í hafið. Hækka þarf fjárheimildir umtalsvert til þessa málaflokks ef takast á að hjálpa þessum börnum sem mörg hafa beðið mánuðum saman eftir aðstoð.
Samræmd viðmið til að greina skólaforðun
Samræmdar skólasóknarreglur eða miðlægt viðmiðunarkerfi hefur nú verið við lýði í fjögur ár í skólum borgarinnar og er hugsað til að greina á milli ástæðu fjarvista. Í kerfinu er ekki gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, s.s. vegna veikinda annars vegar og óleyfilegra fjarvista hins vegar. Vel kann að vera að stjórnendum einhverra skóla finnist erfitt að ekki skuli gerður slíkur greinarmunur. Mikilvægt er að skoða með markvissum hætti hvort og þá hvernig hinar samræmdu viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst þeim grunnskólum sem stuðst hafa við þær og hefur Flokkur fólksins lagt fram tillögu um að slík úttekt verði gerð.
Umfram allt þarf að komast að raun um með barni, foreldrum og kennara hvað það er sem barnið forðast í skólanum. Finna þarf hina undirliggjandi ástæðu og leysa úr henni með öllum tiltækum ráðum. Því langvinnari sem vandinn er því erfiðari er hann viðureignar. Kvíðinn vex og úrvinnsla verður flóknari og erfiðari þegar fram líða stundir. Börn sem eru hætt að mæta í skólann ná sér ekki öll aftur á strik.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Birt í Fréttablaðinu 6.4. 2022