Strætó og SORPA – útvistun?

Flokkur fólksins vill stíga varlega til jarðar þegar kemur að útvistun opinberra verkefna til einkaaðila, sérstaklega þegar kemur að beinni þjónustu við viðkvæma hópa. Þegar talað er um beina þjónustu við fólkið er átt við „maður á mann þjónustu“.  Útvistun slíkrar þjónustu getur leitt til þess að þjónustan færist fjær fólkinu sem hana nýtir og að persónulegar þarfir fólks verði virtar að vettugi. Útvistun er ekki ávísun á sparnað og reynist oft dýr kostur. Hafa skal í huga að varla er nokkurt fyrirtæki að óska eftir verkefni nema komið sé út í hagnaði. Vissulega getur Reykjavíkurborg sett ýmis skilyrði í útboðssamning til að tryggja að þjónustan verði ávallt fullnægjandi og samkvæmt bestu gæðum. Ef litið er í baksýnisspegilinn má hins vegar sjá að eitt og annað hefur farið úrskeiðis þegar kemur að útvistun á viðkvæmri þjónustu og sporin hræða.

Í ljósi þess telur Flokkur fólksins að útvistun þjónustuverkefna Strætó bs. sé ekki ráðlegt. Vel mætti hins vegar skoða að bjóða út viðhaldsþætti. Flokkur fólksins hefur lagt fram fyrirspurn í borgarráði hvort Reykjavík hafi í hyggju að styðja einkavæðingu á Strætó. Sjá má ef litið er til sögunnar að útvistanir reksturs af þessum toga til einkaaðila hafa gengið misvel auk þess sem útvistanir geta leitt til verra starfsumhverfis og verri þjónustu. Einnig má gera því skóna að verði reksturinn boðinn út takmarkast möguleikar á að hafa t.d. frítt í strætó. Vísað er til slæmrar reynslu af útvistun almenningssamgangna í Bretlandi og Svíþjóð.

Fulltrúar Flokks fólksins hvetja sveitarfélögin sem eiga Strætó bs.; Reykjavíkurborg, Garðabæ, Hafnarfjarðarbæ, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ að veita nægilegu fé til rekstursins  og standa í lappirnar gagnvart ríkinu, sem ekki stóð við loforð um að veita fé til rekstrarins í COVID-19 faraldrinum. Einnig þarf að hefja rekstur næturstrætó hið fyrsta sökum fráflæðisvanda úr miðbænum, einna helst um helgar.

Er hægt að spara í sorphirðu?

Flokkur fólksins telur á hinn bóginn að sjálfsagt sé að skoða hvort það sé hagkvæmt að bjóða út sorphirðu a.m.k. að hluta til.  Í því sambandi lagði Flokkurinn fram tillögu í  umhverfis- og skipulagsráði þess efnis að SORPA kanni ávinning þess að bjóða út sorphirðu í einu póstnúmeri Reykjavíkur til að byrja með. Með því að bjóða út sorphirðu í einu póstnúmeri og meta árangurinn er hægt að sjá kosti og galla þess verklags. Hafa má í huga í þessu sambandi að flest sveitarfélög önnur en Reykjavík bjóða út sorphirðu. Ef horft er til þeirra hefur enn ekkert komið fram sem bendir til þess að útvistun sé verri kostur, hvorki í þjónustu eða kostnaði. Í skýrslu norrænu samkeppniseftirlitsstofnana kemur fram ábending um að með slíku megi ná fram allt að 10-47% sparnaði auk þess sem samkeppni geti skapað nýjar lausnir, hagræðingu og skilvirkni. Það væri ábyrgðarleysi ef Reykjavíkurborg ætlar að hunsa þessar ábendingar. Reykjavíkurborg er ekkert öðruvísi en þau sveitarfélög sem skoðuð voru  í umræddri skýrslu. Ábendingar samkeppniseftirlitsins koma ekki til af ástæðulausu og skulu því skoðaðar með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi.

Til að ná fram markmiðum Flokks fólksins um að bæta lögbundna þjónustu og aðra mikilvæga þjónustu, t.d. að vinna niður biðlista, er nauðsynlegt að velta við hverri krónu. Spyrja þarf hvar er hægt að ná meiri hagkvæmni og nýta fjármagn betur til að nota í þá grunnþætti sem þarf að efla og bæta?

 

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins

Helga Þórðardóttir, varaborgarfulltrúi Flokks fólksins

Birt í Fréttablaðinu 24. nóvember 2022