Svör Flokks fóksins við spurningum frá Kvenréttindafélaginu vegna Alþingiskosninga

Spurning þriðjudagur 14. september  um ofbeldismál

Hvaða aðgerðir ætlar flokkur ykkar að standa fyrir til að uppræta kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni og til að uppræta ofbeldi í nánum samböndum?

Svar frá Flokki fólksins

Flokkur fólksins hefur skýra afstöðu á sinni stefnuskrá að uppræta skuli með öllum ráðum allt ofbeldi og áreitni. Flokkurinn hvorki umber né líður ofbeldi af neinu tagi. Flokkur fólksins er stofnaður m.a. til að berjast fyrir bættum hag barna, eldri borgara og öryrkja og til að útrýma fátækt. Börn sem alast upp við heimilisofbeldi sem fær að viðgangast óáreitt bíða þess aldrei bætur. Flokkur fólksins vill að umfjöllun um ofbeldi gegn öldruðum fari inn á svið stjórnmála enda er hagur eldri borgara í svo mörgum efnum mótaður af ákvörðunum stjórnvalda.
Flokkur fólksins mun styðja heilshugar aukna fræðslu til ólíkra hópa, barna og fullorðinna og annað sem er til þess fallið að sporna við ofbeldishegðun af hverju tagi, kynbundnu, kynferðislegu, einelti eða öðru. Einn frambjóðenda Flokks fólksins er sálfræðingur og sérfræðingur í eineltismálum og hefur unnið í fjölda slíkra mála um áratuga skeið, skrifað ótal greinar og bók um aðgerðir gegn einelti.

Spurning þriðjudaginn 16. september  um fjölþætta mismunun og jafnrétti í víðum skilningi.

Hvaða aðgerðir ætlar flokkur ykkar að standa fyrir til að uppræta fjölþætta mismunun og tryggja jafna stöðu fólks óháð kyni, fötlun, uppruna, litarhætti, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu, aldri, búsetu og lífsskoðun?

Svar frá Flokki fólksins

Flokkur fólksins fordæmir alla mismunun hvort heldur hún á rætur að rekja til stöðu, kynja, fötlunar, aldurs, búsetu eða lífsskoðana. Flokkur fólksins er stofnaður til að útrýma hvers lags mismunun og óréttlæti og hefur sett áhersluna á viðkvæma hópa og þá sem hafa verið beittir óréttlæti eða ofbeldi af hvers lags tagi. Flokkurinn hefur lagt fram fjölda mála sem lúta að bættum kjörum,  almennu réttlæti og mannréttindum svo sem að hækka bætur til þolenda, afnema skerðingar á atvinnutekjum hjá öldruðum og öryrkjum og að útrýma mismunun vegna sárafátæktar. Við í Flokki fólksins munum á öllum tímum styðja við aðgerðir sem stuðla að jafnri stöðu fólks og komist Flokkur fólksins til áhrifa á Alþingi mun hann halda áfram að leggja fram þingmál og frumvörp til að uppræta fjölþætta mismunun og styðja allar aðgerðir sem tryggja jafna stöðu fólks óháð kyni, fötlun, uppruna, litarhætti, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu, aldri, búsetu og lífsskoðun. Við viljum réttlæti, jafnrétti og velferð fyrir alla.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur, borgarfulltrúi og skipar 2. sæti Flokks fólksins í Reykjavík Norður.

Svör frá Flokki fólksins við spurningum sem eftir sátu frá fundi 14. sept.

1.
Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að megi gæta öryggis (mannréttinda) brotaþola heimilisofbeldis kvenna (oft) og barna í barnaverndar og réttarkerfi, í forsjár og umgengnismálum?  Þar sem brot hafa ekki leitt til ákæru eða dóms yfir geranda.

Svar:

Það þarf að efla úrræði fyrir brotaþola í slíkum tilvikum. Stjórnvöld eiga að styrkja kvennaathvörf meira en nú er gert. Það þarf að fara af stað með fræðslu til almennings um þau úrræði sem geta aðstoðað fólk sem verður fyrir heimilisofbeldi. Það er ávallt erfitt að draga mörkin um hvaða þvingunaraðgerðum er hægt að beita gegn gerendum ef brot eru ekki kærð en það eru hreinar línur að stjórnvöld þurfa að ganga miklu lengra. Þá þarf einnig að gera meira til að vernda brotaþola í slíkum tilvikum. Þeir eiga að njóta vafans, vera trúað.

Það þarf að bæta verkferla hins opinbera og tryggja að lögregla mæti alltaf á staðin þegar hringt er á neyðarlínuna eða grunur vaknar um heimilisofbeldi. Lögregla á ekki að yfirgefa staðinn nema að tryggt sé að aðstæður séu öruggar. Þá þarf að tryggja að sérfræðingur, hvort sem það er félagsráðgjafi eða sálfræðingur, mæti einnig á staðinn og upplýsi fólk um hvaða úrræði séu til staðar og veiti því áfallahjálp ef þess er óskað.

Þá þarf að efla viðbrögð lögreglu þegar tilkynnt er um brot gegn nálgunarbanni. Lögreglan á að svara slíkum tilkynningum strax og tryggja öryggi þeirra sem þess óska og hafa uppi á hinum grunaða. Þá þurfa að vera til staðar ferlar sem tryggja virkt eftirlit með grunuðum eftir að tilkynning berst. Brot gegn nálgunarbanni eiga að sæta refsingum án undantekninga og rjúfa skilorð. Ef brot eru ítrekuð þá þurfa að vera til staðar harðari úrræði en lög heimila í dag. Hvort sem það er rafrænt eftirlit eða fangelsisrefsing.

2.
Takk fyrir fundinn og takk fyrir ykkar erindi. Það er mikil áhersla hjá flestum að tala um hvernig þið ætlið að takast á við brot sem þegar hafa átt sér stað. En hvernig er ykkar stefna til að vinna gegn því að brot eigi sér stað? Sjái þið eitthvað annað fyrir ykkur en fræðslu og meiri fræðslu?

Svar:

Það þarf að fjölga eftirlitsmyndavélum á almannafæri. Eftirlitsmyndavélar draga úr líkunum á ofbeldisglæpum og geta útvegað mikilvæg sönnunargögn við rannsókn sakamála. Þá þarf að vera til staðar heimild í lögum til að hafa virkt eftirlit með síbrotafólki og fjármagn til að sinna slíku eftirliti ef hætta er á að viðkomandi fremji glæp á ný.

Það þarf að auðvelda fólki að tilkynna hættuástand á fljótan og öruggan hátt. Lögreglan útvegar fólki sem er í hættu neyðarhnappa til að tilkynna ef hætta steðjar að. Það þarf að auka notkun á slíkri tækni.

Þá þarf að fjölga lögreglumönnum. Það eru allt of fáir lögreglumenn á Íslandi miðað við höfðatölu. Ef lögreglumönnum er fjölgað með viðunandi hætti er hægt að sinna bæði rannsóknum og eftirliti betur. Það má ekki gerast að lögregla mæti of seint í útkall vegna manneklu eða að rannsóknir tefjist eða falli niður vegna þess að of fáir þurfa að sinna of mörgum rannsóknum.

3.
Hver er stefna ykkar flokka um klám?

Svar:

Það þarf að vernda börn fyrir efni sem getur haft skaðleg áhrif. Fullorðnir einstaklingar geta tekið ákvarðanir um hvaða efni þeir horfi á en börnin þarf að vernda. Við viljum einnig herða refsingar fyrir framleiðslu, dreifingu eða vörslu á barnaklámi.

 4.
Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að bæta dómskerfið sem hefur ítrekað sýnt að trúi ekki þolendum og rannsóknir sýna að dómarar séu með kvenfordóma. Hvernig geta stjórnvöld dregið dómara, saksóknara og lögreglu sem sýna af sér þessa hegðun til að bera ábyrgð í sínu starfi?

Svar:

Það þarf að byrja á byrjuninni. Það þarf að kenna það strax í skólum hvaða áhrif kynjamisrétti hefur á samfélagið. Það þarf að leggja sérstaka áherslu á kynjafræðslu í laganámi, lögreglunámi og öðru námi sem tengist framkvæmd opinbers valds.

Þá þarf að taka af dómurum geðþóttavaldið sem felst í að hafa refsirammann fyrir kynferðisbrot eins víðan og raun ber vitni. Það þarf að hækka lágmarksrefsingar og fækka refsiminnkunarástæðum. Það á ekki að leiða til refsiminnkunar þó rannsókn máls hafi tafist eða þótt langt sé liðið frá því að brot var framið. Brot er brot.

Þá þarf að endurskoða hæfisskilyrði dómara, saksóknara og lögreglu og athuga hvort þörf sé að bæta við t.d. skilyrði um að þeir sem hafi tjáð sig á afgerandi hátt um tiltekin málefni komi ekki að ákvarðanatöku í slíkum málum. Ef útrásarvíkingar mega víkja frá dómurum sem tjáðu sig um hrunið þá mega þolendur víkja frá dómurum sem stunda „druslukömmun“ ef svo má orða það eða aðra óviðeignandi háttsemi.

5.
Er það ásættanlegt að sýslumannsembættið geti neitt börn til umgengni við ofbeldisfullan föður og fara fram á það að móðir sé skikkuð til þess að senda barni í umgengni við ofbeldisfulla barnsfeður?

Svar:

Það er óásættanlegt. Það þarf að endurskoða meðferð umgengnismála alveg frá grunni. Kerfið hefur ekki tekið breytingum í takt við tíman. Það er fráleitt að foreldrar geti átt yfir höfði sér langa fangelsisrefsingu fyrir það eitt að reyna að forða börnum sínum frá ofbeldi eða hvers lags aðstæðum þar sem foreldri telur að sé skaðlegt barni á einhvern hátt.

6.
Nú hafa bæði hæstarréttadómari og vararíkissaksóknari birt lögregluskýrslu á samfélagsmiðlum þar sem reynt er að rægja þolanda, hvernig á að bregðast við þessu og ef þeir verða kærðir og málið fer fyrir hæstarrétt, hvernig er hægt að búast við að félagar hæstarréttadómara dæmi í hans máli á sanngjarnan máta.

Svar:
Það á ekki að birta trúnaðargögn, birta nafn einhvers sem ekki hefur gefið samþykki sitt fyrir því og/eða nafn ekki afmáð. Þeir sem gera slíkt eiga að sæta refsingum. Við getum ekki tekið afstöðu um hvernig túlka eigi gildandi lög í þeim tilvikum sem hafa verið í umræðunni undanfarið, en við teljum að lög eigi að refsa fyrir það ef lögregluskýrslur sem innihalda trúnaðargögn um þolendur eru birtar án samþykkis þolenda.