Svör Flokks fólksins við spurningum frá nemendum í talmeinafræði

Stefna Flokks fólksins er að börn sem þurfa á sérfræðiaðstoð s.s. þjónustu talmeinafræðings eða sálfræðings skuli fá hana umbúðar- og tafalaust. Flokkur fólksins hefur barist bæði á Alþingi og í borgarstjórn fyrir að biðlistum barna verði útrýmt og það verður aðeins gert með því að auka fjármagn til málaflokksins til  að ráða fleira fagfólk. Fólkið, börnin þá ekki síst hafa setið á hakanum hjá þessari ríkisstjórn og þeirri fyrri.

Börn eiga ekki að bíða eftir svo mikilvægri þjónustu og séu þau tilneydd getur það leitt til skaða bæði til skemmri og lengri tíma. Biðin er slæm fyrir öll börn og sérstaklega geta verið alvarlegar afleiðingar ef börn með málþroskaröskun fá ekki nauðsynlega sérfræðiþjónustu talmeinafræðings. Nú  bíða 500 börn eftir þjónustu talmeinafræðings í stærsta sveitarfélagi landsins, Reykjavík. Rannsóknir hafa sýnt að börn og unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í félagslegum aðstæðum og eru þau einnig berskjaldaðri fyrir tilfinningalegum erfiðleikum. Á unglingsárunum eykst þörf einstaklinga fyrir nánum félagslegum samskiptum við jafningja. Slök máltjáning og slakur orðaforði er ein aðalástæða þess að unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í tengslamyndun við félaga sína og jafnvel sniðgöngu. Tímabil unglingsára er talið eitt það mest krefjandi tímabil í lífi fólks þar sem á þeim árum eiga miklar breytingar sér stað, bæði líffræði-, vitsmuna-, félags- og tilfinningalegar.

Hvað varðar samninga á milli talmeinafræðinga og SÍ varðandi tveggja ára ákvæðið áður en skjólstæðingar þeirra geta sótt um niðurgreiðslu gjalda hjá SÍ þykir Flokki fólksins það vera  með öllu ólíðandi! Það nám sem útskrifaðir talmeinafræðingar hafa að baki, 75 eininga undirbúningsnám og tveggja ára meistaranám auk 6 mánaða handleiðslu er lagt til grundvallar starfsleyfi frá landlæknisembættinu. Þetta er afar góður undirbúningur fyrir starf á vettvangi og ættu skjólstæðingar að fá niðurgreiðslu á tímum strax!

Tekið er undir ályktun talmeinafræðinga að hér er einungis verið að spara peninga fyrir SÍ sem bitnar á um eitt þúsund börnum sem eru á biðlista eftir þjónustu. Hvers eiga þessi börn að gjalda? Komist Flokkur fólksins til áhrifa á Alþingi munum við standa þétt við hlið talmeinafræðinga gegn óréttlæti af þessu tagi sem kemur niður á okkar viðkvæmasta hópi. Hafa skal í huga að stækkandi hópur foreldra nær ekki endum saman og er undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytis. Þeir foreldrar og geta því ekki greitt hátt gjald fyrir þjónustu sem þessa barni sínu til handa. Á því verður að ríkja skilningur hins opinbera og þeim skilning verða að fylgja aðgerðir til lausnar.

Baráttukveðjur frá Flokki fólksins

Fólkið fyrst – og svo allt hitt!

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og frambjóðandi í 2. sæti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður