Tímabært að Fréttablaðið birti minningargreinar

Það er mat margra sem komnir eru fram á og yfir miðjan aldur að sá hluti Morgunblaðsins sem hvað erfiðast sé að láta framhjá sér fara sé minningargreinarnar. Takist ekki að fylgjast með andlátstilkynningum eða skanna minningargreinar reglulega sé ávallt sú hætta fyrir hendi að andlát gamalla vina, kunningja eða fólks sem tengist vinum og vandamönnum fari einfaldlega framhjá manni.Pínlegar aðstæður geta skapast þegar spurt er t.d. „hvernig hefur mamma þín það?“ og viðkomandi svarar: „hún er látin.“ Til að fyrirbyggja þetta vilja margir, og þá sérstaklega þeir sem komnir eru á þann aldur að þeir eru farnir að sjá á eftir jafnöldrum yfir móðuna miklu, fletta minningargreinahluta Morgunblaðsins helst daglega.

En hvað er nú til ráða ef þetta sama fólk er kannski mjög ósátt við ráðningu Davíðs Oddssonar í ritstjórastól Moggans og langar jafnvel hvað mest til að segja upp áskriftinni? Þessir einstaklingar þurfa að velja á milli þess að:

1. Sætta sig við ráðningu fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins í ritstjórastól „Blaðs allra landsmanna“ og fá áfram sendan Moggann með minningargreinum og öðru því sem ritstjórnin kýs að birta.

2. Að segja upp áskriftinni og auka þannig líkurnar á að finna sig í ofangreindum aðstæðum þar sem andlát einhvers kunnugs hefur farið framhjá þeim.

Ein lausn á þessu er sú að Fréttablaðið taki það upp hjá sér að birta minningargreinar. Þá skapast þeir valmöguleikar að fólk getur ákveðið hvort það vilji birta eftirmæli ástvina sinna í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu eða í báðum þessum blöðum. Telja má víst að Fréttablaðið muni auka vinsældir sínar til muna birti blaðið minningargreinar og mörgum kann þá að finnast að með því uppfylli það þessa sammannlegu þörf að fylgjast með fréttum af mönnum og málefnum.

Höfundur er sálfræðingur.

Birt á visi.is 1. október 2009