Nýi Skerjafjörðurinn – flugvöllurinn og fjölþættar áhyggjur Flokks fólksin

Flokkur fólksins í borgarstjórn lætur öll málefni sem snúa að aðstæðum og líðan fólks sig varða. Nú skal fjallað um nýja Skerjafjörðinn. Þar hefur meirihlutinn farið af stað með að hanna 1400 íbúða hverfi sem leggst upp að Reykjavíkurflugvelli. Flokkur fólksins hefur lagt fram ótal bókanir og tillögur í málinu. Umræðan um hvort flugvöllurinn eigi að fara eða vera er orðin áratuga gömul en hefur nú ekki síst kjarnast um þá staðreynd að ekki hefur fundist jafn góður eða betri staður fyrir hann en Vatnsmýrin í Reykjavík. Hönnun og skipulag á nýju hverfi í Skerjafirðinum hefur verið í gangi síðustu ár án þess að vita hvort og þá hvaða áhrif þessi nýja byggð hefur á t.d. flugöryggi vallarins. Skyndilega vöknuðu ráðamenn upp við vondan draum um að með því að byggja svo þétt upp að flugvellinum væri öryggi farþega og íbúa þar mögulega ógnað.

Hverfi í kyrkingaról – flugvöllur í byggðaramma

Fengið var mat sérfræðingahóps til að meta áhrif byggðar á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Niðurstaðan var að byggðin muni að óbreyttu þrengja að og skerða nothæfi Reykjavíkurflugvallar m.a. vegna breytinga á vindafari. Listaðar hafa verið margar mótvægisaðgerðir sem miðast að því að auka rými fyrir flugvöllinn og draga úr áhrifum af þéttri byggð á flugöryggi. Sníða þarf hverfið með sérstökum hætti í kringum flugvöllinn. Til að velja myndlíkingu verður hverfið með eins konar kyrkingaról svo það ógni ekki flugöryggi.

Öll vitum við að byggja þarf mikið til að húsnæðismarkaðurinn nái bata og þá ekki síst leigumarkaðurinn. Ástæðan er framboðsskortur á húsnæði af öllum tegundum. En það verður einnig að vera skynsemi í byggingaráætlunum. Nóg er til af byggingarlandi ef meirihlutinn væri ekki svona upptekinn af þéttingaráformum. Vatnsmýrin er dýrt byggingarsvæði. Verði byggðin í Vatnsmýrinni of þétt og aðgengi bílaumferðar slakt með tilheyrandi umferðarvandamálum mun það hafa fælingarmátt. Ferðamenn munu að sjálfsögðu ávallt fylla göturnar. Hvað með borgarlínu, myndi einhver spyrja hér. Já kannski kemur hún og leysir öll umferðarvandamál?

Mengaður jarðvegur og eyðilegging fjöru

Á því landi sem er fyrirhugað að reisa nýja byggð i Skerjafirði er mengaður jarðvegur. Ekki er vitað hvaða áhrif umtalsvert jarðrask á þessum slóðum kynni að hafa heilsufarslega á íbúa nærliggjandi byggðar og lífríki. Lagt hefur verið til af minnihlutanum að gera umhverfismat sem meirihlutinn hefur hafnað. Það væri sannarlega skynsamlegt að gera nú frekar en að fá síðar bakreikning vegna mengunar.

Sárt er að horfa upp á hvernig hefur verið farið með þær fáu borgarfjörur sem enn eru til. Ein af meginathugasemdum vegna nýja Skerjafjarðar er einmitt að ekki verði gengið á fjöruna? Flokkur fólksins hefur spurt hversu stór hluti af fjörum í borgarlandinu hafa verið huldar framandi jarðvegi, steypubrotum og öðrum úrgangi, og sem kallast landfylling? Hversu stór hluti af þeim eru í Skerjafirði? Í nýlegri frétt segir að Ísland sé langt undir meðaltali OECD ríkjanna þegar kemur að skipulögðum grænum svæðum í þéttbýli. Einungis 3,5% svæða í þéttbýli eru skipulögð sem græn svæði hérlendis samanborið við 17% meðaltal OECD ríkjanna. Strandlengja Reykjavíkur er dýrmæt eign okkar allra. Bætt aðgengi að henni hefur í för með sér meiri möguleika til haftengdrar upplifunar og útivistar.

Ótímabær aðgerð

Umræðan um flugvöllinn og nýjan Skerjafjörð sem og brúna sem á eftir að reisa frá Skerjafirði yfir í Kópavog mun halda áfram á komandi árum. Inn í þessa viðkvæmu umræðu blandast Landspítalinn og allt sem að honum snýr. Á meðan staðan er svona snúin hefði átt að hinkra með þessa vegferð að nýjum Skerjafirði. Bæði flugvöllurinn og hverfið líða fyrir þessa þröngu stöðu. Nú er verið að finna einhverjar málamiðlanaleiðir, hvernig má tjasla þessu tvennu saman til að flugvöllur og þétt byggð geti lifað saman í sátt og samlyndi. Þeir sem hafa völdin munu auðvitað fá sínu fram. Telja má víst að þegar þetta er orðið að veruleika verður notkun flugvallar minni vegna öryggisþátta og dansa þarf eftir veðri og vindum.

Ef beðið hefði verið með að skipuleggja byggð þar til fyrirsjáanlegt er hvað verður um flugvöllinn hefði skipulagið litið allt öðruvísi út. Fjörunni yrði ekki eytt. Búið er að setja mikið fjármagn í hönnun og skipulag á nýju hverfi í Skerjafirði sem nú þarf að gera breytingar á. Það á eftir að koma í ljós hversu mikið fjármagn hefur tapast í alls konar teikniverkefni og tæknilegri vinnu sem unnin hefur verið og er byggð á eldri uppbyggingaráformum sem ekki er hægt að notast við vegna breytinga sem gera þarf vegna mótvægisaðgerðanna. Flokkur fólksins telur að þarna hafi meirihlutinn farið of geyst. Farið hefur verið gegn vilja fólksins, ekki hlustað á rök íbúa sem hafa mótmælt og ekki hlustað á áhyggjuraddir sem hafa verið margar.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins

Verður birt í Morgunblaðinu