Umhverfis- og skipulagsráð 1. mars

 Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Samgöngustjóri leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna endurhönnunar á Lækjartorgi:

Skipulagsyfirvöld óska heimilda til að hefja undirbúning og verkhönnun á Lækjartorgi og gerð útboðsgagna vegna endurhönnunar, en ekki á að hefja framkvæmdir á þessu ári. Nú er verðbólga hærri en áætlað var og vænta má fleiri aðgerða Seðlabankans í formi hækkana stýrivaxta. Þess vegna telur Flokkur fólksins að bíða eigi með að hefja undirbúning og verkhönnun Lækjartorgs í nokkur ár. Áætlaður kostnaður fyrir þennan hluta er um 355 milljónir og er þá ekki talinn með kostnaður við snjóbræðslu. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem má bíða betri tíma. Vissulega er Lækjartorg lykilrými í miðborginni og á sinn sess í hugum fjölmargra. Vinningstillagan er vissulega glæsileg. Um það er ekki deilt.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Samgöngustjóri leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna endurhönnunar á Mjölnisholti á grundvelli meðfylgjandi forhönnunar:

Fulltrúi Flokks fólksins vill taka fram að þessar tillögur líta mjög vel út og vandað hefur verið til verksins. Það má þó taka fram að vitað er að borgarlína tefst og ekki alveg vitað hvenær fyrsti leggur hennar muni líta dagsins ljós. Þrátt fyrir allt er hér um kostnaðarsamt verkefni að ræða sem áætlað er að kosta muni allavega 180 milljónir. Flokkur fólksins vill benda á að ekki hefur enn náðst að hemja verðbólgu og má þess vegna reikna með enn frekari hækkun stýrivaxta á árinu, sem þýðir að afborganir að lánum eiga eftir að hækka umtalsvert. Reykjavíkurborg sem nú “lifir” einungis á lánum, hefur einfaldlega ekki efni á þessu. Umhverfis- og skipulagsráð og verkefni þess hljóta að fara flest á ís nema þau allra nauðsynlegustu. Fátækt og ójöfnuður fer vaxandi vegna hækkunar matarverðs og annara nauðsynja. Þess vegna telur fulltrúi Flokks fólksins að þetta verkefni eigi að bíða eins og mörg önnur verkefni meirihlutans sem ekki eru að leysa brýna þörf gagnvart borgarbúum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf stjórnar húsfélagsins Skipholti 11-13, dags. 14. febrúar 2023, þar sem mótmælt er væntanlegum framkvæmdum um breytingu á fyrirkomulagi gangstétta og bílastæða við Brautarholt 16-20 og óskað eftir því að borgaryfirvöld endurskoði umrædda hugmynd:

Fulltrúi Flokks fólksins skilur áhyggjur stjórnar húsfélagsins í Skipholti 11-13, varðandi framtíðarhögun bílastæðamála í framhaldi af ákvörðun um byggingu 65 íbúða í Brautarholti. Áætlað er að væntanlegir íbúar þessarar nýju íbúða flytji inn í sumar. Nú þegar eru öll bílastæði fyrir framan húsin og þar í kring, full af bílum. Hafa íbúar í Skipholti upp á síðkastið tekið eftir því að sumir í umræddum húsum við Brautarholt, eru farnir að leggja bílum sínum við Skipholt 11-13 og við Eyja Hótel þar fyrir norðan. Framkvæmdinni er mótmælt og talin óraunhæf í ljósi þess að með þeim 65 íbúðum í Brautarholti 16-20 muni fylgja nokkrir tugir bílar til viðbótar við þá sem fyrir eru, sem íbúar munu reyna að leggja við heimili sín. Þess vegna telur fulltrúinn að endurskoða eigi þessa hugmynd og leita lausna í samráði við íbúa á því svæði sem um ræðir, í stað þess að neita að horfast í augu við það augljósa óhagræði fyrir alla íbúa, sem af þessu verður óbreyttu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um uppsetningu skautasvella í hverfum Reykjavíkur sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 25. janúar 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar allar þær framkvæmdir sem hafa með aukið aðgengi ungs fólks að tómstundaiðkun að gera. Það er alveg frábært ef hægt er að auka aðgengi borgarbúa að þeirri hreyfingu og skemmtum sem gott skautasvell býður upp á. Þess vegna telur fulltrúinn þessa tillögu vera góða og vert að vísa henni áfram til nánari umfjöllunar og útfærslu.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ósvaraðar fyrirspurnir og tillögur, sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. febrúar 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða. USK23020098

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um húsnæði Draumasetursins. Fyrirspurnin var lögð fram á fundi Borgarráðs, þann 12. janúar 2023, sbr. 31. liður og vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs með tölvupósti, dags. 18. janúar 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, byggingarfulltrúa. MSS23010137